21. nóvember 2017

Á facebook er verið að fjalla um feril Bjartsbókarinnar Öfugsnáða. Ég fékk þetta sent. Ég ætla að athuga hvort ég get fært þessar upplýsingar hingað yfir á Næsta kafla. (Það virðist ætla að ganga. Að vísu fylgdi mynd með, en hún dettur út við flutninginn milli svæða á netinu.)

 

Rangri bók bjargað? Öfugsnúin þróun?

BJARTUR BÓKAFORLAG·21. NÓVEMBER 2017

Nú hafa orðið mikil tíðindi í stóra bókahvarfsmálinu. Óvænt hetja kemur til sögunnar – en bjargaði maðurinn rangri bók? Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta allt saman? En allir þræðir liggja í Austurbæ Kópavogs.

Svo sem kunnugt er hefur verið gerð dauðaleit að bókinni Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson og Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. Talið var að þær væru á leið til Íslands með skipi, án þess að það hafi fengist staðfest með óyggjandi hætti. Kemur þá ekki í ljós að enn sannast hið fornkveðna: Það er gott að búa í Kópavogi. En áður en lengra er haldið þarf að koma örlítill útúrdúr.

Guðmundar þáttur Benediktssonar Árið 1981 stofnaði Ólafur Ragnarsson, faðir Ragnars Helga, bókaforlagið Vöku (síðar Vaka-Helgafell). Þá var ein aðalprentsmiðja landsins Prentstofa G.Ben í Kópavogi sem var í eigu Guðmundar Benediktssonar. Sá ágæti maður bjargaði oft og iðulega Ólafi Ragnarssyni í orrahríð jólavertíðarinnar. Prentaði bækur á ógnarhraða og skilaði ævinlega óaðfinnanlegu verki. Svo fór Guðmundur nokkuð að reskjast og við keflinu tók tengdasonur hans, Sverrir D. Hauksson. Síðar réðst Sverrir, valinkunnur sómamaður, til starfa hjá Svansprenti sem einnig er í Austurbæ Kópavogs. Komum við þá aftur að aðalefni þessarar stórfréttar.

Öfugsnáði snýr á hefðina Með glósunni er mynd af téðum Sverri D. Haukssyni með bókina Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. En hefði ekki Sverrir átt að sjá sóma sinn í því að bjarga syni Ólafs Ragnarssonar og viðhalda þannig áratuga hefð, töfra fram Handbók um minni og gleymsku, frekar en að tromma allt í einu upp með Öfugsnáða eftir mann sem er með öllu óskyldur Ólafi heitnum Ragnarssyni?

Við fögnum því hins vegar mjög að geta sent Öfugsnáða í sinni fegurstu mynd í bókaverslanir á allra næstu klukkstundum. Gátan um horfnu bækurnar er þannig að hálfu leyst. Vonir standa til að hinn helmingurinn leysist fljótlega, jafnvel á næsta sólarhring!