5. nóvember 2017

Stormur á leiðinni. A storm´s coming in, eins og sagði í The Straight Story. Ég hefi áhyggjur af borðinu („pallborðinu“) sem var skilið eftir í hendi vindsins í Reykholtssveitinni; það er engin leið að spá fyrir um hvert, og í hvaða átt, hann, vindurinn (sem á að vera hvað öflugastur í Reykholtssveitinni í dag og í kvöld) mun henda borðinu. En þetta eru smávægilegar áhyggjur miðað við allar hinar. Kafli á dag ákvað að heimsækja aðra bloggsíðu á alheimsnetinu. Útgerðarmaður þeirrar síðu (svo ég notist við orðalag Össurs Skarphéðinssonar eða Jóns Baldvins Hannibalssonar, til dæmis) gerir að umtalsefni næturpósta sem hann fékk frá ónafngreindum lesanda síðunnar. Og ekki bara „einhverja næturpósta“, heldur 11 stykki sömu nóttina. Að vísu hafði viðtakandi póstanna haft vit á því að lækka niður í hljóðinu í tölvunni sem hefði að öðrum kosti gefið honum til kynna (í hvert skipti) að hann væri að fá sendan póst, þannig að næturpóstarnir ellefu héldu ekki fyrir honum vöku. (Að vakna ellefu sinnum sömu nóttina er ekki alveg það sem maður óskar sér, að minnsta kosti ekki áður en maður fer að sofa.) Fyrirbærið næturpóstar er mér hugleikið. Því þetta er nefnilega ákveðið „fyrirbæri“. Ég hefi sjálfur ekki „orðið fyrir þeim“, póstunum (þessari tegund pósta), en ég hef heyrt þeim mun meira um þá, og reynt að gera mér grein fyrir hvaða áhrif þeir hafa á viðtakendur (fyrir nú utan það hvernig sendendum þeirra líður daginn eftir að þeir sendu þá). Og ég hef ort um þá ljóð. Meira að segja tvö ljóð. Það seinna (ljóð nr. 2) verður með í bókinni sem samkvæmt farmskýrslunni á að koma til landsins á morgun. Það ljóð er að vísu ekki nema skugginn af því fyrra, en samt betra að ég held – fyrra ljóðið verður væntanlega ekki gefið út nema í einhvers konar posthumous útgáfu, eða kannski bara sent sem næturpóstur á adressu einhvers vel valins viðtakanda? En allavega, þá er í „aðra röndina“ gaman að lesa um svona „ónæði“ sem „útgerðarmaður“ bloggsíðunnar sem ég heimsótti, lýsti í sinni færslu – það mætti alveg vera meira af því (í bókmennta- og bloggheiminum, eða hinum bókmenntalega bloggheimi) að „aðilar“ sendi hver öðrum næturpósta, jafnvel þótt þeir séu sendir að degi til. Ég er að minnsta kosti óskaplega spenntur að vita hver það var sem vakti nógu lengi til að senda fleiri en tíu pósta á sama „aðila“ – sömu nóttina! Og hvað „aðilinn“ hafði gert til að verðskulda svona mikla athygli. Eða er ég bara að gera þetta að umtalsefni (á sunnudegi, þannig séð hvíldardegi) til að koma því til skila að ég sé alveg örugglega ekki höfundur næturpóstanna ellefu (með því að taka fram að ég hafi bara skrifað tvo svoleiðis, sem þar að auki eru bara ljóð)?