19. desember 2017

Það er ekki alveg laust við að ég hafi sjálfur misskilið nokkur orð sem kaflastjórnandi lét falla um nýútkomnar bækur á Íslandi í færslu gærdagsins, þegar hann var beðinn um að láta í té einhverjar hugmyndir að jólagjöf (handa þeim sem bað um hugmyndirnar). Að kstj. skyldi ekki detta nein ný íslensk bók í hug (fyrir utan bók hans sjálfs) átti auðvitað ekki að merkja að honum fyndist engin slík bók eiga erindi undir jólatréð – þetta var einungis sett fram, eins og það var gert, í þeim tilgangi að hafa ástæðu til að láta kstj. verða ringlaðan í höfðinu; honum fannst svo smart að draga upp þá mynd af sjálfum sér að hann sundlaði og riðaði til falls – það er einmitt þannig sem hann sér sjálfan sig, frá því hann vaknar á morgnana, og þangað til hann lognast út af á kvöldin. Og meira þessu tengt: hann (kstj.) var einmitt spurður að því í gær – reyndar kom spurningin frá honum sjálfum – hvort hann ætlaði ekki að segja frá einhverjum nýjum íslenskum bókum sem hann hefði lesið nýlega, bókum sem hefðu komið út í jólabókaflóðinu. Og þær eru nokkrar, sem hann hefur lesið. Og margar ansi fínar, maður lifandi. En nú er bara svo komið að kstj. er orðinn svo ringlaður yfir öllum þessum spurningum um nýjar íslenskar bækur, og hvort þessi eða hinn ætli ekki að gera hitt eða þetta, að sviminn í höfðinu er raunverulega langt að því kominn að knýja hann til jarðar – hann veit ekki hvort hann ræður við meira í bili. Líklega fer honum ekki vel að vera að tjá sig um bækur „samkeppnisaðila“ (eins og einn höfundurinn orðaði það svo hnyttilega í einu jólabókaflóði liðinnar tíðar) – svo er hann líka hræddur um að einhver fari að vitna í hann, ef ekki í auglýsingu, þá til dæmis á götuhorni í Reykjavík, eða einhvers staðar á jaðri einhvers samfélagsmiðilsins. Það sem stóð til að hafa hérna á síðunni í dag var enn eitt „strikið á himni“ – því var um daginn lofað að þessi strik yrðu að einhvers konar seríu, jafnvel jólaseríu – en svo hefur „eitthvað ekki gerst“ í þeim málum, nema að kstj. náði mynd af nokkrum strikum annarrar tegundar þegar hann var á gangi framhjá Hörpu um daginn; og núna dettur honum í hug að nota þessi annarrar tegundar strik sem eins konar auglýsingu fyrir jólabókina sem hann var að gefa út. Hann ætlar að birta nokkrar línur úr einu ljóði bókarinnar, ljóði sem kallast Þykk teppi, og láta myndina sem fylgir vera myndskreytingu á orðunum:

 

„Að einhverjar pípulagnir

eigi eftir að liðast um allt þetta rými

sem núna er bara sólbakað loft

 

og vindþurrkað.“

„En vætt af regninu – stundum,“

gríp ég fram í fyrir honum,

„– kannski falið af myrkrinu?“