6. desember 2017

Trausti Jónsson, veðurfræðingur og áhugamaður um veður, birti í gær á bloggsíðu sinni færslu um ákveðið veðurfræðilegt fyrirbæri sem hann nefndi „öfugsniða“. Ég er ekki vanur að fletta upp á bloggi Trausta – vissi reyndar ekki af því – en mér var sent þetta í gær, stuttu áður en ég fór í Gröndalshús til að lesa upp úr ljóðabókinni Öfugsnáða. Í orðabókinni er gefin upp önnur mynd af orðinu öfugsnáða, sem er öfugsnoði; og á göngu minni út í Gröndalshús, í tungllýstri stillu meðfram Rauðarárvíkinni, með flöktandi norðurljósin yfir mér (sem var reyndar á bakaleiðinni; ég mátti ekkert vera að því að fylgjast með umhverfinu á leiðinni út í Gröndalshús, ég var með hugann fyrir lesturinn framundan), bjó ég til nýtt „öfugs-orð“ – það orð gæti hentað vel yfir börn sem stinga snuðinu vitlaust upp í sig: öfugsnuði. Nú man ég ekki hvort ég hafi einhvern tíma staðið mín eigin börn að því að setja snuðið öfugt upp í sig; en einhver börn, í sögu snuðsins, hljóta að hafa gert það. Þau börn eru öfugsnuðar. En hér er niðurlag Trausta í útskýringu sinni á hinum veðurfræðilega skánafna Öfugsnáða (eins og sendandi slóðarinnar orðaði það):

… austan- og norðaustanátt ríkjandi, hvöss undan Suðurlandi. Ofar er vindur mjög hægur (grænn litur) en þar ofan við vex vindur af suðvestri þar til komið er í kjarna heimskautarastarinnar í um 9 km hæð (300 hPa). 

Þessi breyting vindhraða og stefnu með hæð heitir „reverse shear“ á erlendum málum – sem ritstjórinn kýs að kalla „öfugsniða“ á íslensku. 

Hér má svo sjá færsluna í heild sinni:

https://trj.blog.is/blog/trj/entry/2207559/

Upplesturinn í Gröndalshúsi gekk mjög vel fyrir sig. Gesti mátti telja á fingrum beggja handa, og ef upplesarar sjálfir voru taldir með (þeir voru sjö) komust ekki mikið fleiri fyrir í salnum. Þannig að hálfpartinn lásum við höfundarnir fyrir fullum sal. Nú, svo er ekki meira með það. Ég gekk aftur heim í myrkrinu, og núna horfði ég á hverfandi ofurmánann yfir Rauðarárvíkinni, og á norðurljósin (með augum útlendinganna sem stóðu við Sólfarið), og ég blístraði nokkrar hendingar úr Speglunum Miltons Babbitt, tónskáldi desembermánaðar, og lofaði sjálfum mér því að þegar ég kæmi heim myndi ég setja Joan Cabanilles á fóninn (til að hann lægi ekki alveg óbættur hjá garði – úti í vegkantinum, eins og E orðar það) – ég myndi síðan hugsa um allt sem ég hafði gert yfir daginn, og líka það sem ég hafði gert áður (og ekki gert – aðallega það), síðustu þrjá til fjóra áratugina – jafnvel það sem ég hefði í hyggju að gera síðar. „Að gera síðar“? Það eru heldur betur verkefni framundan: upplestur á drengjakvöldi Bjarts í Stúdentakjallaranum á fimmtudagskvöld, og Gljúfrasteinsupplestur á sunnudag klukkan fjögur. Þar með eru upplestrar fyrir jól upptaldir, nema að mér verði boðið að lesa upp í Valhöll við Háaleitisbraut, eða í Jólagarðinum í Eyjafirði – á þessum tveimur stöðum hef ég aldrei lesið upp. Aldrei. Aldrei nokkurntíma.