9. desember 2017

Samkvæmt yfirskrift bloggsins (þessa bloggs hér) breyttist gærdagurinn óvænt í hvíldardag. Sem hann var ekki. Ég hafði því ætlað mér að hafa þennan laugardag sem „virkan“ dag, en dagurinn í dag fór óvænt í ferðalag (einnar klukkustundar og fjörutíu mínútna) – hann hafði líka í för með sér tilraun óþekkts bílstjóra til manndráps af gáleysi; sá sem hefði dáið, hefði tilraunin tekist, var ég – og vegna þess að á áfangastað er mun kaldara en í þéttbýlinu, þá neyðast fingurnir til að viðhafa annars konar fingraleikfimi en lyklaborðsáslátt (til að ná í sig hita) – ég veit að þetta hljómar eitthvað mjög tvírætt, jafnvel óviðeigandi, en það er ekkert svoleiðis – auk þess sem mig grunar að áfallastreita spili inn í, að það sé hún sem dregur mann að lyklaborðinu, jafnvel þótt fingurnir ráði ekki við ásláttinn vegna kuldans sem umlykur þá. En maður á aldrei að gera ráð fyrir að komast heilu og höldnu á áfangastað (og Basil gerir það ekki heldur; hann var með mér í bílnum). En þegar það tekst – þegar maður nær á áfangastað – þá er líka ástæða til að gleðjast. Svo er annað: Þegar á mann er ráðist á maður auðvitað að taka þátt í árásinni – mér tókst það samt ekki í dag, vegna þess að árásin var svo óvænt. Hefði ég vitað af henni með hálfrar mínútu fyrirvara hefði ég hiklaust reynt að aka í veg fyrir sjálfan mig, eins og hinn óþekkti bílstjóri í Reykholtssveitinni. En þarna var bara enginn fyrirvari. Og nú er orðið svo dimmt að það hlýtur að vera kominn tími á smá Milton Babbitt. Því hann er ennþá tónskáld mánaðarins. Það sem hér hljómar held ég að hljóti að vera tónskreyting á þeim augnablikum sem líða eftir að reynt er að drepa mann af gáleysi (þótt auðvitað sé spurning hvort sögninni „að reyna“ sé ofaukið):