28. nóvember 2017

Nú er svo komið fyrir mér að ég hef verið boðaður í spjall í Ríkisútvarpinu í dag. En hvað á ég að segja þar? Það fyrsta sem mér datt í hug var að tala um Rilke og ljóðið hans Lébarðann (eins og Helgi Hálfdanarson vill hafa það) – það var einmitt verið að tala um Rilke í sama útvarpsþætti um daginn, um samband hans og Rodin; einstaklega skemmtilegt spjall – og það er alveg ástæða til að tala um Rilke í tengslum við bókina sem var að koma út, því án Rilke væri til dæmis ekkert fyrsta ljóð í bókinni – bókin myndi einfaldlega byrja á ljóði nr. 2, og svoleiðis bækur getur verið snúið að lesa, sbr. það þegar maður drekkur úr glasi, þá verður maður alltaf að byrja á fyrsta sopanum. („Aldrei taka fyrsta sopann,“ er einhver einkennilegasta ráðlegging sem ég hef heyrt.) Ég gæti haldið áfram með þessa líkingu: án fyrsta reyksins verður sígarettan ekki reykt, og svo framvegis. Mig minnir reyndar að ég hafi nefnt þetta með Rilke áður hér á síðunni; en ég hef tilhneigingu til að endurtaka það sem ég hef gert áður. Ég hef meira að segja byrjað aðra ljóðabók á ljóði sem „gerist“ á Rauðarárvíkinni, eins og Öfugsnáði gerir. Og núna er ég að hugsa um að halda því áfram. Næsta ljóðabók, sem með réttu ætti að koma út eftir fimm ár, mun rísa upp úr hafsvæðinu milli Sæbrautar og Kjalarness (milli Sólfarsins og Esjunnar). En af hverju Lébarðinn? Ég veit ekki betur en að í upphafsljóði bókarinnar minnar komi fyrir simpansi. Og trillusjómaður í blárri peysu, eins og sjómaður. Ef tími gefst til mun ég ræða þetta í útvarpinu í dag. Ég þurfti annars að fara í nýlenduvöruverslun núna snemma í morgun (mig vantaði kaffi); þetta var svona búð sem er opin allan sólarhringinn; og hvað ætli hafi blasað við manni þegar „maður“ kom þangað? Langborð þakið bókum í plasti. Eins og ósjálfrátt (það var ósjálfrátt – óþarfi að nefna eins og í þessu tilviki) leitaði ég að minni eigin bók; ég átti ekki sérstaklega von á að sjá hana, því mig grunaði að ljóðabækur væru hafðar út undan í svona búð; en hvað fann ég? Ég fann bókina. Að vísu lá hún á hvolfi – á grúfu – ólíkt öllum öðrum bókum á borðinu; en hún var þarna samt. Og ég sneri bunkanum við; ég lét framhlið bókarinnar snúa upp. Eftir á að hyggja sá ég ekki fleiri ljóðabækur á borðinu í búðinni, en kannski gaf ég mér ekki tíma til að skima eftir þeim – mér lá á að ná í kaffið. En er þetta ekki alveg týpískt? Ljóðabókinni (hugsanlega þeirri einu í búðinni) er snúið við til að viðskiptavinir taki síður eftir henni. Stríðinu gegn ljóðinu er hvergi lokið. Það fer fram í nýlenduvöruversluninni – 24 stundir dagsins.

 

26. nóvember 2017

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

 

 

 

 

 

Ljóðskáldið á daginn … Ég held ég fari alveg örugglega rétt með að þetta sé titill á bók eftir Jóhamar. Þetta hlýtur að vera einhver besti titill frá upphafi titla. Og mér verður stöðugt hugsað til hans – oftast að degi til.“

„Áttu við að kvöldið og nóttin sé tími ljóðskáldsins, en ekki dagurinn?“

„Ábyggilega. Ljóðskáldið hefur ekkert leyfi til að leggja allan sólarhringinn undir sig. Ekki er rafvirkinn að störfum um niðdimma nótt. Eða hvað …?“

Eða hvað mundi ég líka hugsa í því sambandi. Ég býst við að múrarinn sé sofandi yfir hánóttina, en það er annað mál með rafvirkjann.“

„En talandi um titla, þá hafði ég verið að hugsa um að skrifa hér stuttan þátt undir titlinum Morðið í stálvöruversluninni (sú hugmynd varð til þegar ég var staddur í Brynju á Laugaveginum um daginn), en tvennt varð til þess að ég endurskoðaði þá ákvörðun. Í fyrsta lagi var ég ekki viss hvort orðið stálvöruverslun væri notað yfir verslanir á borð við Brynju, Húsasmiðjuna eða Byko; og í öðru lagi lenti ég í svolitlu atviki í einni af þessum verslunum í gær (sem var þó ekki Brynja við Laugaveginn); atviki sem mér fannst allt í einu meira virði að segja frá en einhverju morði í „stálvöruverslun“ – það er alltaf verið að fremja þau, hvort sem er.“

„Og hvað gerðist?“

„Nú, ég þurfti að kaupa tappa í vegg, fyrir skrúfu, til að hengja upp málverk, svona múrtappa, þannig að ég gekk upp að bláklæddum starfsmanni í „stálvöruversluninni“ og bað hann að aðstoða mig. Ég spurði hvort þeir væru með múrtappa. Og hvað heldurðu að starfsmaðurinn hafi sagt?“

Túrtappa?“

„Já. Hvernig er hægt að heyra M sem T?“

„Og hvað sagðir þú?“

„Þegar hann þóttist hafa heyrt túrtappa?“

„Já.“

„Ég leiðrétti hann. Ég sagði: Nei, ég átti við múrtappa. Og þá sagði hann: Það hlaut að vera – við seljum ekki túrtappa. Þú færð þá í Krónunni, sem er hérna rétt hjá.“

„Og hvað svo?“

„Þegar hann sýndi mér múrtappana, þá sagði ég: Þeir eru ekki gefins.“

„Sem þeir voru væntanlega ekki, er það?“

„Nei, þeir kostuðu 7 krónur stykkið.“

„Sem sagt ekki gefins.“

„Svo sannarlega ekki. 7 krónur vildu þeir fá fyrir stykkið.“

„Og þú hefur væntanlega keypt fleiri en einn?“

„Ég keypti fjóra. Þannig að heildarkostnaðurinn var 28 krónur. Svo kom reyndar í ljós að ég hefði þurft að kaupa fleiri. Ég er að fara í það núna. En aftur að ljóðskáldinu „á daginn“. Ég hitti Þórdísi Gísladóttur um daginn – það var að degi til, upp úr klukkan fimm í jólaboði Bjarts (spurning hvort dagurinn hafi verið liðinn) – og við töluðum um Rauðarárstíginn. Rauðarárstígurinn er ábyggilega ein áhugaverðasta gata Reykjavíkur, hvort sem það er fyrir ljóðskáld, rafvirkja, múrara eða rakara. Ég tala nú ekki um fyrir skáldsagna- og leikritahöfunda – Rauðarárstígurinn er uppspretta skáldskapar og hárvaxtar.“

Uppspretta hárvaxtar er fáránleg samsetning orða.“

„Ég veit.“

24. nóvember 2017

Mér er skapi næst að kalla á hjálp. Getur einhver lesið allar þessar bækur fyrir mig? Hver nýr titill sem mér berst inn á heimilið (úr jólabókaflóðinu) ýtir þeim sem kom á undan til hliðar. Þetta eru allt of margar bækur. Það eina í stöðunni er að setja Glenn Gould á fóninn (sem hentar reyndar ágætlega, því ég þarf að fara í svolitla handavinnu – hvaða vinna er annars ekki handavinna? Ég veit ekki betur en að ég skrifi með höndunum.) Glenn Gould dagsins í dag spilar Sibelius. Ég ákvað að fletta þessari músík upp á amazon – ég var forvitinn að vita hvað aðrir segðu um Glenn Gould að spila Sibelius. Og ég fann svolítið. Kannski er illa gert að vera að birta þetta – fólk gæti haldið að ég sé að gera grín, og það er alveg rétt: ég er að því – en mér finnst ólíklegt að Tetsuo Ishiaion viti hver ég er, og enn ólíklegra að lesendur þekki til Tetsuos Ishiaion. Kannski er þessi Tetsuo ekki til. Ég hef sjálfur birt umsögn um tónlist á amazon, og ég gerði það undir dulnefni. (Ég hef meira að segja gefið út bók sem nefndist Dulnefnin – gott að geta komið því að hér). En hér er hinn títtnefndi Tetsuo Ishiaion að tjá sig um Glenn Gould að spila Sibelius og Scriabin:

4.0 out of 5 stars

I’m loving this musics.

By Tetsuo Ishiaion 23 July 2013 – Published on Amazon.com

Verified Purchase

This is my first CD of non-Back/Beethoven/Mozart musics.
Glenn Gould’s this work was very impressive for me.
I’m listening every night, every day.

23. nóvember 2017

Hversu gott getur popp orðið? Ég veit að þetta vekur upp draug Alan Vega (og Martin Rev, sem er reyndar enn á lífi, bara 69 ára gamall); en reimleikar þurfa ekki að vera slæmir.

Oh baby Oh baby You’re having a bad dream Here in my arms Oh sugar You came to me Could all be a bad thing Doing harm Oh oh oh Oh lover You run from me We move like a bad scene Shot in the dark Oh but please Please wake me For my love lies patiently Please baby please And my love life waits for me Oh love You came to me Are you having a bad time There in your home

22. nóvember 2017

Það er ekki fyrr en ég fletti upp á ljóðinu eftir Baudelaire

að ég átta mig á hvar hann er. (Og það veit Guð

að þetta átti ekki að ríma.)

21. nóvember 2017

Á facebook er verið að fjalla um feril Bjartsbókarinnar Öfugsnáða. Ég fékk þetta sent. Ég ætla að athuga hvort ég get fært þessar upplýsingar hingað yfir á Næsta kafla. (Það virðist ætla að ganga. Að vísu fylgdi mynd með, en hún dettur út við flutninginn milli svæða á netinu.)

 

Rangri bók bjargað? Öfugsnúin þróun?

BJARTUR BÓKAFORLAG·21. NÓVEMBER 2017

Nú hafa orðið mikil tíðindi í stóra bókahvarfsmálinu. Óvænt hetja kemur til sögunnar – en bjargaði maðurinn rangri bók? Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta allt saman? En allir þræðir liggja í Austurbæ Kópavogs.

Svo sem kunnugt er hefur verið gerð dauðaleit að bókinni Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson og Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. Talið var að þær væru á leið til Íslands með skipi, án þess að það hafi fengist staðfest með óyggjandi hætti. Kemur þá ekki í ljós að enn sannast hið fornkveðna: Það er gott að búa í Kópavogi. En áður en lengra er haldið þarf að koma örlítill útúrdúr.

Guðmundar þáttur Benediktssonar Árið 1981 stofnaði Ólafur Ragnarsson, faðir Ragnars Helga, bókaforlagið Vöku (síðar Vaka-Helgafell). Þá var ein aðalprentsmiðja landsins Prentstofa G.Ben í Kópavogi sem var í eigu Guðmundar Benediktssonar. Sá ágæti maður bjargaði oft og iðulega Ólafi Ragnarssyni í orrahríð jólavertíðarinnar. Prentaði bækur á ógnarhraða og skilaði ævinlega óaðfinnanlegu verki. Svo fór Guðmundur nokkuð að reskjast og við keflinu tók tengdasonur hans, Sverrir D. Hauksson. Síðar réðst Sverrir, valinkunnur sómamaður, til starfa hjá Svansprenti sem einnig er í Austurbæ Kópavogs. Komum við þá aftur að aðalefni þessarar stórfréttar.

Öfugsnáði snýr á hefðina Með glósunni er mynd af téðum Sverri D. Haukssyni með bókina Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. En hefði ekki Sverrir átt að sjá sóma sinn í því að bjarga syni Ólafs Ragnarssonar og viðhalda þannig áratuga hefð, töfra fram Handbók um minni og gleymsku, frekar en að tromma allt í einu upp með Öfugsnáða eftir mann sem er með öllu óskyldur Ólafi heitnum Ragnarssyni?

Við fögnum því hins vegar mjög að geta sent Öfugsnáða í sinni fegurstu mynd í bókaverslanir á allra næstu klukkstundum. Gátan um horfnu bækurnar er þannig að hálfu leyst. Vonir standa til að hinn helmingurinn leysist fljótlega, jafnvel á næsta sólarhring!

20. nóvember 2017 (aukafærsla)

Drekkið vatn blátt

Tristan Tzara

 

Af gefnu tilefni – ég var nefnilega spurður út í þetta: Bókartitillinn Öfugsnáði er fyrst og fremst staðarheiti. En heitið á sér líka stað í orðabókinni:

 

ÖFUGSNÁÐI KK, öfugsnoði KK 1 lamb með öfugt hárafar við fæðingu og sem skiptir um ull á fyrsta vori • kind sem fer úr ull að hausti 2 vanþrifaskepna 3 ógerðarlegur, öfugsnúinn maður

 

20. nóvember 2017

Þegar eitthvað óvænt gerist, þá fylgir því stundum – og ekki bara stundum, heldur alltaf – eitthvað annað óvænt, eða óheppilegt (eins og mistök í stjórnmálum og fjármálalífi eru jafnan nefnd). Þessum orðum var í gær ætlað að vera formáli að færslu um pappírskápuna utan um ljóðabókina Öfugsnáði, en nú finnst mér ekki við hæfi – það væri í raun frekar óheppilegt – að vera að tjá sig um hið óvænta í sögu áðurnefndrar pappírskápu, því á Bókamessunni í Hörpu í gær gerðist það nefnilega að eintak seldist af bókinni. En nú að öðru – ekki meira um þetta í bili. Þegar Benjamin Britten fór til Feneyja veturinn 1975 sá hann þetta:

19. nóvember 2017

Þegar rússneska ljóðskáldið Osip Mandelstam sneri aftur til heimaborgar sinnar, Pétursborgar, eftir að hafa ferðast um Krímskagann, Armeníu og Georgíu, sagðist hann hafa snúið aftur til borgar sinna „æskuveikinda og tára / borgarinnar sem hann þekkti eins og æðarnar á handarbaki sínu.“ Aldrei hafði mér dottið í hug að maður kynni að þekkja æðarnar á handabökum sínum; þetta gaf mér alveg nýja mynd af líkama mínum, þótt ekki geti ég sagt að ég hafi farið að skoða mínar eigin æðar eitthvað nánar – viðkvæmni mín gagnvart blóði, og almennt öllu því sem ég veit að á sér stað inni í líkamanum, myndi frekar senda mig í ferðalag til Armeníu eða Pétursborgar, en að ég færi að kynna mér betur mitt eigið æðakerfi. Ég var reyndar hálfpartinn staddur í Moskvu í gærkvöldi. Ég horfði nefnilega á bíómyndina Elenu eftir Andrey Zviagintsev, í þriðja skiptið – hin skiptin tvö voru fyrir þremur eða fjórum árum, og þá tvö kvöld í röð. Ég var búinn að lofa mér að nota ekki mjög sterk orð, eða hástemmd, yfir þessa mynd – færi svo að ég myndi gera hana að umtalsefni hér – en ég verð að fá að sleppa mér í þetta skiptið (án þess þó að sleppa taki á sjálfum orðunum; ég held að þau segi sig alveg sjálf). Allar hinar myndir Andreys Zviagintsvev, The Return, The Banishment, og Leviathan, eru eftirminnilegar á svipaðan hátt og Elena; en í mínum huga er Elena sú fyrirferðarmesta (í fínstillingu sinni og látleysi) – það er ótrúlegt næmi sem þessi leikstjóri hefur fyrir myndrömmum, samtölum og hljóðum – ég er sjálfur enginn sérstakur aðdáandi Philips Glass, en í þessari mynd hentar tónlist hans sérlega vel taktinum í sögunni, og það er mjög fallegt hvað krunk í kráku í miðri Moskvuborg getur verið áhrifamikið. Eins og mörg skáldverk sem maður hrífst af, þá fjallar þessi mynd einfaldlega um færslu fólks milli staða, og milli laga í tilveru sinni; og með því að leyfa skoðun sinni á hreyfingum persónanna að liggja fyrir utan rammann, nær höfundurinn að hreyfa við öllum stöðvum í huga manns – og hugsanlega breyta flæðinu í æðakerfinu. Nýjasta mynd Andreys Zviagintsev, Loveless, vann verðlaun (Jury prize) á Cannes núna nýlega. En hér er kynning á Elenu:

18. nóvember 2017 (aukafærsla, allt að því næturpóstur)

Fyrir sirka átta árum var Davíð Oddsson ráðinn sem ritstjóri Morgunblaðsins. Mjög margt fólk ákvað á þeim tímapunkti að eiga ekki samskipti við blaðið vegna þessa – en kannski finnst mér það bara hafa verið „margt fólk“ vegna þess að ég þekkti nokkra „aðila“ innan þess hóps. Sá „hópur“ er reyndar ekki til lengur. En Davíð Oddsson er ennþá ritstjóri blaðsins. (Auðvitað er mjög freistandi að láta sig detta í söng, og einhvers konar „hallgrímsku“, og kveða eitthvað á þá leið að það hafi verið „fyrir átta árum / að ég kvaddi þig í sárum“, en svoleiðis lætur maður ekki eftir sér – maður verður að passa sig.)

18. nóvember 2017

Hið óvænta hefur gerst. Upplag ljóðabókarinnar Öfugsnáði kom til landsins frá Eistlandi í gær. (Reyndar gerðist svolítið með kápu bókarinnar, svolítið ófyrirséð, en allt um það verður að bíða annarrar færslu.) Í bókinni eru um það bil 30 ljóð (ég hef ekki talið þau nákvæmlega), og eitt þeirra ljóða birtist, án titilsins, utan á kápunni – það er stysta ljóð bókarinnar:

EINS KONAR MILLIFYRIRSÖGN

Áður en orðin röðuðust saman

voru öll þessi ljóð til í huganum.

Nú á bara eftir að losa þau við titlana

og taka þau í sundur.

17. nóvember 2017 (aukafærsla nr. 2)

 

 

 

 

 

 

 

Í gær, 16. nóvember, birtist viðtal við tvo af höfundum Bjarts þetta árið, okkur Ragnar Helga Ólafsson (við erum ekki bræður, vel að merkja), þar sem til umfjöllunar var seinkun á afhendingu bóka okkar frá Eystrasaltinu, og vöntun á þeim sömu bókum í hillum jólabókaflóðsins á Íslandi nú fyrir jólin. Þetta viðtal, sem birtist á vef Bjartsútgáfunnar (sem reyndar lá niðri í gær vegna bilunar í heimi internetsins) vakti mikla athygli (þrátt fyrir bilunina); og höfðu sumir þá skoðun (ekki bara út af fyrir sig, heldur „beint í andlit“ okkar höfundanna) að við ættum bara að láta prenta okkar bækur innanlands, en ekki í einhverjum Eystrasaltslöndum. Vegna bilunarinnar í vefheimi Bjarts gat ég sjálfur ekki lesið viðtalið, en allt sem ég hef sagt hér að ofan, t.d. þetta um viðbrögð „sumra“ við áhyggjum okkar Ragnars, er byggt á því sem ég hef heyrt frá notendum facebook-síðunnar; því þar gafst fólki kostur á að lesa viðtalið við okkur Ragnar (það var ekki þannig að viðtalið hefði birst á himni, eitthvað svoleiðis – einhvers staðar hlaut það að hafa birst (annars staðar en á himni eða yfirborði sjávar), fyrst ég nefndi að „sumir“ hefðu lesið það, vitandi að það birtist ekki á vef Bjarts, sem eins og áður sagði lá niðri í allan gærdag, og gerir hugsanlega enn. Ég vildi bara koma þessu að. Bækurnar Handbók um minni og gleymsku og Öfugsnáði verða bara að koma út einhvern tíma seinna. Það er hugsanlegt að þær muni koma út fyrst í Eistlandi eða Finnlandi – að „aðilarnir“ í prentsmiðjunni hafi misskilið minnismiðann sem fylgdi skjölunum með handritum bókanna, og sent þær til dreifingaraðila í þessum löndum – hvað vitum við? Við vitum ekki neitt. Það á að vera svokölluð Bókamessa í Hörpu núna um helgina, og við Ragnar höfum engin gögn til að leggja fram í messuhaldið. En þetta með prent á Íslandi eða ekki – svarið við þeirri spurningu verður líklega að koma að handan, eins og Halldór Laxness svaraði einu sinni dularfullri spurningu sem hann fékk fyrir framan sjónvarpstökuvélarnar …

17. nóvember 2017

 

„Ný íslensk fyndni?“

„Mig grunar að þetta muni raðast í þann flokk, já.“

„En byggt á þeirri gömlu?“

„Á þeirri gömlu, já – það orðalag á vel við.“

„Og hvað var svona fyndið?“

„Ég fór í fiskbúðina í gær. Viðskiptavinurinn á undan mér (nr. 0566 – ég var nr. 0567) var maður sem ég þekki. Við ræddum um blokkarlifnað – það að búa í blokk.“

„Er eitthvað að því?“

„Brandarinn er ekki búinn – bíddu aðeins. Þegar hann, maðurinn sem ég þekki, hafði fengið sinn fisk afgreiddan, sagðist hann þurfa að flýta sér út í bíl, því 97 ára gömul móðir hans biði í bílnum. Mér datt strax í hug að biðja hann að flýta sér enn meira en hann virtist vera að gera – móðir hans, jafngömul og hann sagði að hún væri, gæti þegar verið dáin í bílnum. En ég hélt aftur af mér. Ég reyni að vera kurteis maður og háttvís (þótt mér takist það ekki alltaf). En jæja, svo kveðjumst við, og maðurinn fer út í bíl til móður sinnar – ég, aftur móti, hóf mín viðskipti við fisksölumanninn. Þegar ég er um það bil að ganga frá þeim viðskiptum kemur kunningi minn aftur inn í búðina, ekki alveg eins afslappaður og hann var þegar við töluðum saman rétt áður; og hann sagði mér (og reyndar öllum hinum í búðinni) að móðir sín væri dáin úti í bíl. Hún varð sem sagt 97 ára gömul, sem er ansi hár aldur.“

16. nóvember 2017 (aukafærsla nr. 2)

„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“ (Drífa Snædal, 16. nóv. 2017)

Nákvæmlega. Það er til mynd af þessu í bíómynd Pasolinis frá árinu 1975:

https://www.youtube.com/watch?v=3GVV7L66xh4

 

16. nóvember 2017 (aukafærsla)

Nei, ég var ekki búinn að gleyma að í dag er Dagur íslenskrar tungu. Enda Dagurinn ekki liðinn, varla byrjaður. Mig langar þess vegna – nei, líklega er það ekki góð hugmynd, í raun alls ekki … Ég hafði verið að hugsa um að auglýsa umfjöllun Jóhanns Helga Heiðdal um Sögur frá Rússlandi, og ætla hér með að gera það (enda ærin ástæða til) – þetta er að finna á Starafugli:

Dýrmæt gjöf til íslenskra bókmenntaunnenda

En vegna þess að við hliðina á umfjöllun Jóhanns Helga er póstur sem nefnist Bláa Hawaii, þá rifjaðist upp fyrir mér rúmlega þrjátíu ára gamalt ljóð, og ég fór að hugsa um bókina mína nýju, sem enn er á leiðinni frá Eistlandi, eftir tveggja mánaða vist handritsins, eða skjalsins, þar í landi; og ég fór að sakna þeirrar óútkomnu bókar, þó ekki væri nema vegna kápunnar utan um hana (sem Ragnar Helgi bjó til); og ég hugsaði líka um Dag ísl. tungu, að hann myndi líða án þess að skipið kæmi með Öfugsnáða að landi; og ég hugsaði ýmislegt annað, sem ég fattaði síðan að var allt að finna í ljóðinu Blue Hawaii (nema kannski þetta í síðustu línunni, um ferskjurnar sem „velta út af hillum ávaxtasala / hraðar en nokkur fær keypt“, því auðvitað kaupir fólk ekki það sem liggur lokað í gámi á hafsbotni í Eystrasaltinu eða Rauðarárvík); en vegna þess einmitt að það er Dagur ísl. tungu í dag, þá ákvað ég að láta ljóðið Blue Hawaii fylgja með hér í enskri þýðingu Bernards heitins Scudder, sem birtist í ljóðasafninu Brushstrokes of Blue (sem útgefandi minn Páll Valsson ritstýrði árið 1994) – mér fannst einhvern veginn „of mikið“ að vera að birta ljóð á íslensku, nú þegar Dagur ísl. tungu er ekki að kveldi kominn – það myndi jaðra við væmni eða tilfinningasemi að vera að gera of mikið úr íslenskri tungu á þessum degi, osfrv. Auk þess sem ljóðið ber enskan titil (mig grunar reyndar að uppsetning ljóðsins muni brenglast eitthvað þegar það flyst yfir á „bloggið“):

BLUE HAWAII

 It´s on the corner of Bayswater Road and Lækjargata

that two bearded men

have trouble finding words

in tune with the times,

but “Dear Susan,

now Charlie Mingus

has broken a string in my heart,”

says a sensitive sergeant

in the fourth battalion of the magnanimous.

“Now I can never again

embrace you with any

circular conviction.”

 

The sweat of lovers in a Zurich suburb

breaks forth from a craftswoman in Laos,

a brass player in a seedy North Norwegian basement

dies a bitter death into his pipe,

and from the palm leaves, from the eyes of wailing women,

dirty tears run into

tins marked cat liver.

But it´s on the corner of Bayswater Rd. and Lækjargata,

behind every sprig that they peep out;

the shy lost maidens,

as fresh as the peaches that

roll of the fruitseller´s shelves

 

faster than you can buy them.

14. nóvember 2017

 

 

 

 

TVÖ STUTT SAMTÖL UM ÍSLENSK STJÓRNMÁL

1

„Til hvers fer vinstrafólk á kjörstað?“

„You tell me. Til að kjósa?“

„Já, en til hvers?“

2

„Ég þekki fólk sem kaus Vinstri græna.“

„En enga sem kusu Sjálfstæðisflokkinn?“

„Jú, en það fólk vissi hvað það var að kjósa.“