23. mars 2017

Dagar ljóðsins halda áfram, og þar með Ljóð dagsins (í þetta sinn prósaljóð):

I

„Ég skil það að við höfum áhyggjur af eignarhaldi og ég vil fá upplýsingar. En við verðum samt að passa okkur að fara ekki í óyfirvegaða umræðu því að hún getur verið skaðleg fyrir okkur öll. Hér er um að ræða fjármálafyrirtæki sem þarf á trúverðugleika að halda. Við erum með kerfi, eftirlitsstofnun, FME, sem hefur eftirlit með þessu, sér um framkvæmd laganna og þð er mikilvægt að við förum ekki fram úr okkur í þessari umræðu.“

II

„Þá erum við að skaða okkur sjálf og skaða íslensk fjármálafyrirtæki og við þurfum þess vegna að fara farlega. Ég legg því til að umræðan um þetta verði yfirveguð og við förum mjög varlega í allar yfirlýsingar. Vegna þess að það sem við segjum getur haft mikil áhrif á hvernig aðrir hegða sér.“

(Brynjar Níelsson, 22. mars 2017)

 

22. mars 2017

Dagur ljóðsins varð allt í einu að Dögum ljóðsins. Eða öllu heldur Ljóði dagsins:

 

STEFNUMÓT Í FRANKFURT

 

Arabinn á götuhorninu

er augljóslega að bíða eftir einhverjum.

Skyldi þessi einhver vera Evrópumaður?

Nei, hann reynist vera Arabi.

 

(Fjórar línur og titill, bls. 13)

21. mars 2017 (aukafærsla)

Það var að detta inn í póstkassann minn nýtt tölublað TMM. Í tímaritinu er fullt af fínu efni, t.d. alveg stórfínn texti eftir Magnús Sigurðsson, Styttingar, þar sem hann gerir grín að (á mjög svo beittan hátt) því fyrirbæri í stjórnsýslu landsins sem oft er nefnt hagræðingarstefna. Magnús, sem er eitt af okkar albestu ljóðskáldum, „fer þarna langt yfir strikið“, svo ég snúi út úr – og noti í öfugri merkingu en þeirri upprunalegu – orðum Steins Steinarr um Kristmann Guðmundsson, um að Kristmann hefði með skáldsögu sinni Félagi kona „farið yfir um“. Í tölublaðinu er einnig umsögn Arngríms Vídalín um bók Soffíu Auðar Birgisdóttur um Þórberg Þórðarson, sem kom út í hittifyrra, og þar rakst ég á tilvitnun í mig, sem ég mundi ekki eftir hvaðan var – ég mundi ekki einu sinni eftir að hafa skrifað það sem vitnað er í. Ég man það reyndar núna, þegar ég hef flett því upp á netinu: þetta er texti sem birtur er á vef Þórbergssetursins. Úr því það er enn Dagur ljóðsins (ef ég er að skilja það rétt), þá finnst mér alveg við hæfi að birta þennan texta sem ég skrifaði; og líka vegna þess að mér fannst gaman að rifja upp þessa „uppgötvun“ mína, sem kemur mér eiginlega jafn mikið á óvart núna og þegar ég skrifaði þetta:

Tilvitnunin sem ég vel er síðasta erindi kvæðisins Fútúrískar kveldstemningar úr Eddu Þórbergs:

 

Láttu geisa ljóð úr bási,

spæjari! Varstu sprok að segja?

Sprungu lýs á rauðri tungu?

Glyserin er guðleg læna.

Gling-gling-gló og hver á hróið?

Nybbari sæll og Nói skrubbur!

Nonsens, kaos, bhratar! monsieur!

 

Skýringar Þórbergs:

– Glyserin var töluvert drukkið á þessum árum.

– Gling-gling-gló var þá mikið notað af lyriskum jörmurum.

– bhratar, sanskrítarorð og þýðir bróðir og er sama orðið.

 

Frá því að ég las þetta undirfurðulega kvæði fyrst, einhvern tíma í menntaskóla, hefur titill þess alltaf verið mjög ofarlega í huga mínum. Þegar ég til dæmis upplifi kvöldstemningu sem er á einhvern hátt sérstök, eða þegar eitthvað mjög einkennilegt kemur fyrir mig eftir klukkan sex á daginn, dettur mér iðulega í hug að ég sé að upplifa kvöldið á hinn fútúríska hátt. Eða öllu heldur: á hinn þórbergska hátt. Og það er góð tilfinning. Betri en til dæmis að upplifa kristmannska kveldstemningu eða jafnvel laxneska, þó ég hafi svo sem ekki reynslu af því, ekki ennþá. En þetta kvæði Þórbergs, sem er heilmörg erindi, er bara ein af óteljandi uppbyggilegum og einkennilegum stemningum í hinni góðu Eddu. Og það er svolítið skemmtilegt að hafa það í huga að þessar fútúrísku kveldstemningar eru ortar árið 1917, fimm árum áður en T.S. Eliot birti The Waste Land. Síðasta línan í fyrsta hluta þess mikla kvæðis er nefnilega svona: “You! hypocrite lecteur!-mon semblable,-mon frère!” og er Eliot þar að vitna í inngang Charles Baudelaire að ljóðasafninu Les Fleurs du Mal. Mon frère þýðir auðvitað bróðir minn á frönsku, en í hinum íslensku kveldstemningum, sem ég endurtek að eru ortar fimm árum áður en Eliot ávarpar sinn hræsnisfulla lesanda og bróður, má segja að Þórbergur sé mun smartari í sínu ávarpi til lesandans og bróðurins, því hann splæsir á hann hvorki meira né minna en sanskrít, og bætir svo við, svona til að hafa frönskuna með líka: monsieur. Og til að ávarpið sé ekki bara eitthvert innantómt ávarp lætur hann fylgja með að tilvera okkar mannfólksins sé ein ekkisens bölvuð vitleysa og ringulreið. Sem hún auðvitað er.

http://thorbergur.is/index.php/is/skaldidhthorbergur/tilvitnanir/34-bragi-olafsson-segir

21. mars 2017

Er Dagur ljóðsins í dag? Eða kannski bara Valentínusardagurinn? Dagur rafrettunnar? Dagur dagsins í dag? Ég sá það einhvers staðar að í dag væri Dagur ljóðsins, og þegar ég athugaði annars staðar (á netinu), til að sannreyna þetta, þá virtist það sama vera uppi á teningnum þar, að í dag væri Dagur ljóðsins. Auðvitað liggur þá beint við að pikka inn ljóð eftir Dag Sigurðarson, eða kannski bara eftir mig sjálfan, en ég ætla að leita annað; ég ætla að fara í ljóðabók sem kom út á síðasta ári, því í þeirri bók er ljóð sem kallast Ferðahugur, og ég er einmitt sjálfur „í ferðahug“ þessa stundina (er að hugsa um að hjóla í hádeginu í Þjóðarbókhlöðuna; ég þarf að ná í ákveðna bók þar). Ljóðabókin sem ég minntist á er Síðasta vegabréfið eftir Gyrði Elíasson, og ljóðið sem ég ætla að birta úr henni kallast, eins og áður sagði,

 

FERÐAHUGUR

hugsað til Múhameðs

 

Ég hef aldrei komið á Dalatanga,

en ef ég kæmi á Dalatanga,

mundi ég líklega setjast að á Dalatanga,

því það er löngu vitað að á Dalatanga

er febrúar mildastur mánaða,

og það er einmitt það sem við þurfum,

bæði á Dalatanga og annarstaðar,

að febrúar sé mildastur á Dalatanga.

Ég er alltaf á leiðinni á Dalatanga,

því ég veit að Dalatangi

er einstaklega heimakær, og

kemur ekki til mín

20. mars 2017

Setning dagsins: „Ekki virðast allir vera á eitt sáttir við það að Gunnar Smári Egilsson og Mikael Torfason hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í íslensku samfélagi …“ (DV, 20. mars 2017) Ég þori ekki að bæta neinu við þetta. Ég hef heldur ekki tíma, ég þarf að vinna fyrir kaupinu mínu. Nú er samt spurning hvort ég láti einhverja músík fylgja – það virðist vera komin hefð fyrir því á þessari „heimasíðu“, að músík fylgi færslum – og þá er ég helst að hugsa um Sibelius, því það er Sibelius sem rúllar (rúlar?) á heimilinu þessa stundina, eða allt frá því að ég hlustaði á 2. sinfóníu Sibeliusar í Hörpu á föstudaginn var, og reyndar dagana á undan líka, því maður þarf alltaf að gíra sig upp fyrir svona tónleika. En hvaða Sibelius ætti það að vera, ef ég læt eftir mér að setja tóndæmi? Soldið djarft að setja heila sinfóníu eða Tapiolu eða eitthvað svona stórt og mikið; mér dettur í hug þetta:

Nú er ég kominn ansi langt frá því sem ég nefndi hér fyrst í færslunni, Mikael og Gunnari Smára og öllu því, og að ekki sé almenn ánægja með að þeir tveir hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í ísl. samfélagi. Ég vil nefnilega ekki fjarlægjast það umræðuefni um of. Ég ætla að því að leyfa því að vera endapunkturinn hér í dag: „Ekki virðast allir vera á eitt sáttir,“ osfrv. (sjá „heimasíðu“ DV í dag)

17. mars 2017

Auðvitað ætti ég að senda þá músík sem ég er um það bil að fara að setja hér í Næsta kafla á Ráðlagðan jazzskammt, sérstaklega vegna þess að umsjónarmaður Ráðlagðs jazzskammts (erfitt orð í þágufalli) átti afmæli í gær. Mér finnst bara að ég þurfi að vanda mig betur þegar kemur að því að senda tóndæmi á Ráðlagðan jazzskammt. Ekki „vanda“ í merkingunni vanda valið, heldur vanda orðin sem fylgja valinu. Auk þess var ég búinn að lofa Ráðlögðum jazzskammti að búa til einhvers konar lista yfir sjö eða átta „bestu plöturnar“ – kannski áttu þær að vera fimm eða sex – og ég hefi því ákveðið að næsta sending mín á Ráðlagðan jazzskammt verði af þeirri tegund: „bestu plöturnar“. Vonandi gef ég mér tíma í það verkefni sem fyrst. En þá er komið að tónlist þessa föstudags, og hún er ekki af verri endanum, eins og sagt er. (Eða segir maður svoleiðis: af verri endanum? Allt í einu finnst mér eins og þar sé á ferðinni Bibba á Brávallagötunni.) Lagið er eftir básúnuleikarann Grachan Moncur III, og hljómsveitin sem leikur það er heldur ekki af verri kantinum (er það ekki einmitt frekar af verri kantinum en verri endanum?): Lee Morgan, trompett, Jackie McLean, alt saxófónn, Bobby Hutcherson, víbrafónn, Bob Crenshaw, bassi, og hinn óviðjafnanlegi Tony Williams á trommur. Plús auðvitað Grachan Moncur þriðji. Eins og ég nefndi, þá ætla ég ekki að vanda mig of mikið við að segja eitthvað í kringum þetta, enda ætti ég þá frekar að senda þetta á Ráðlagðan jazzskammt en Næsta kafla, en allavega, þá kemur lagið hér: Air Raid (hljóðritað 21. nóvember 1963 í New Jersey):

 

15. mars 2017

Af hverju tengir maður jafn vel og maður gerir við tónlist eins og „mublumúsík“ Eriks Satie?

Vegna þess að hún miðlar engri sérstakri tilfinningu. Hún er bara þarna, eins og stóllinn í stofunni okkar (sem nú á að fara að endurbólstra), eða konsúlsborðið sem undanfarið hefur verið á stöðugri hreyfingu um íbúðina, vegna þess að enginn hefur pláss fyrir það – ekki einu sinni íbúðin hefur pláss fyrir það. Endurtekningin í „mublumúsíkinni“ er líka jafn átakalítil og hvítu fletirnir á skrifstofuveggnum, sem saman mynda einn samfelldan flöt. Og það er svo fínt – það hentar manni svo vel. En af hverju hefur maður líka gaman (og gagn) af lögum eins og Where are we now? eftir David Bowie, eða Where´s the Girl? með Scott Walker?

Vegna þess að þau gera það gagnstæða við tónlist Saties. Herra E. (sem ekki ber að rugla við Mister E) kíkti í heimsókn í gær. Hann var ekki á leiðinni í bankann, eins og hann er stundum þegar hann lítur inn (því við erum auðvitað að tala um fjármálahverfið) – kannski sagðist hann bara ekki hafa verið á leiðinni í bankann, því hver vill láta vita af því að hann fari í bankann sama dag og gjaldeyrishöftum er aflétt? Það verður að gera ráð fyrir að fólk hafi sjálfsvirðingu. En af hverju er ég að rifja upp heimsóknir gærdagsins? Nú man ég það: herra E. hefur einmitt talað um að hann sé ekki mikið fyrir söngvarana tvo sem ég nefndi hérna áðan, því þeir gefi upp allt of miklar tilfinningar í söng sínum. Ég er honum alveg sammála í því – það eru ekki margir sem komast upp með þann glæp að gefa of mikið uppi, eða almennt gefa eitthvað uppi – en þessir tveir eru saklausir af glæpnum, þrátt fyrir að hafa framið hann, bara alveg eins og Erik Satie hreyfir við manni með því að hreyfa ekki við neinu. (Ef einhver skildi þetta, þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita hvað ég meinti.) Að vísu var herra E. ekkert að tala um þetta í gær – í gær töluðum við um annað, meðal annars alla kringumHrunsmennina sem sækja mjög stíft í að búa í húsinu við hliðina á húsinu hans. Í miðju Hruni, eða líklega rétt fyrir Hrun, sátu þessir menn í heitum potti í garðinum og hrópuðu hver framan í annan (svo það heyrðist yfir í næstu garða): „Cash is King!“ (Og endurtóku það, geri ég ráð fyrir.) Svo ræddum við ýmislegt fleira, meðal annars um bíómyndir (mér fannst ég verða að segja honum að ég er búinn að sjá Toni Erdmann tvisvar í bíóinu, á meðan hann hefur bara séð hana einu sinni), og ætli við höfum ekki endað spjallið á því að rifja upp hvaða bækur við keyptum á bókamarkaðnum. Hann náði sér í Forystufé; ég keypti bók um Borgarfjörðinn, og aðra eftir Sigmund Freud.

11. mars 2017

Einn helsti kosturinn við bíla, að mínu mati – fyrir utan að þeir menga hlutfallslega minna en öll kjötframleiðsla í heiminum – er að yfirleitt hljómar öll tónlist betur úr litlu hátölurunum í hurðunum (þar sem þeir eru oftast staðsettir) en í stofugræjunum heima. En það er ekki nóg að hafa góðan hljóm í bílgræjunum, það þarf að vera einhver tónlist til að spila í þeim. Það er ekki sjálfgefið að hún sé til staðar – það er að segja tónlist sem mann langar til að heyra í bílnum. Það veldur mér oft miklum heilabrotum hvað ég á að taka með mér út í bíl til að hlusta á. Það veldur því jafnvel stundum að ég mæti ekki á réttum tíma þar sem ég hef lofað mér að mæta – og það er eitthvað sem mér er mjög illa við: að vera óstundvís. En núna (það gerðist í gær, á sama tíma og ég ákvað að mæta ekki á prógrammið í Háskólanum, bara í Stúdentakjallarann þegar prógrammið var búið – ég fékk bara að heyra að þetta hefði verið glimrandi gaman og áhugavert) – núna í gær, upp úr hádeginu, fann ég út hvaða tónlist er alltaf hægt að taka með sér út í bíl, og girða þannig fyrir að sú ákvarðanataka valdi seinkun í lífi manns. Maður tekur með sér plötuna Grotesque með The Fall. Og einmitt vegna þess að í gær var föstudagur, fannst mér best að hlusta á þetta:

 

10. mars 2017

Ég fékk um daginn hugmynd að stuttmynd. En vegna þess að ég hef ekki í hyggju að leggja fyrir mig stuttmyndagerð, þá datt mér í hug að nota hugmyndina sem Næsta kafla. Mér fannst hún ekki beinlínis virka sem saga (og heldur ekki ljóð), en með því að segja frá henni er ég auðvitað að gera mér vonir um að stuttmyndaframleiðendur og -leikstjórar landsins (og annarra landa) muni lesa þetta og hugsa með sjálfum sér: Þetta er kjörið efni í stuttmynd. Búa til mynd úr þessu. Hugmyndin er svona: Eldri kona (má vera á óræðum aldri, jafnvel ung) ræður til sín smið til að lagfæra eitthvað hjá sér, eða festa eitthvað upp – að minnsta kosti krefst verkefnið þess að notaður sé rafmagnsbor. Þegar smiðurinn byrjar að bora fer konan inn í svefnherbergið sitt, og lokar að sér. Að nokkrum mínútum liðnum berst inn til hennar hljóð (ofan á borhljóðið) sem bendir til þess að eitthvað hafi dottið í gólfið, en hávaðinn úr bornum heldur áfram; og þegar alllangur tími hefur liðið, án þess að nokkurt lát verði á hinu leiðinlega hljóði úr bornum, ákveður konan að fara fram og athuga með stöðu mála. Þegar hún kemur inn í stofuna sér hún að smiðurinn er í einkennilegri stellingu; hann líkt og krýpur, með höfuðið upp við vegginn; og það sem hún skilur síst í er að maðurinn borar án afláts í gólfið (þar sem alls ekki stóð til að bora). Hún gengur að manninum, og spyr hverju sæti – hún þarf að tala nokkuð hátt til að yfirgnæfa borinn – en hún fær ekkert svar. Þá bankar hún létt í öxl hans, og lítur framan í hann; og hún gerir sér strax grein fyrir að ekki er allt með felldu. Það tekur hana ekki langan tíma að komast að því að smiðurinn er látinn, og að hönd hans hefur stirðnað utan um gikkinn á bornum. Henni bregður svo illilega við þessa uppgötvun að ósjálfrátt hleypur hún í burtu, og hægir ekki á sér fyrr en hún er komin út úr íbúðinni, og út á gangstétt. Þegar þangað er komið er hávaðinn frá bornum eðlilega nokkuð lægri í eyrum hennar en hann var inni í íbúðinni, en hljóðið er enn mjög óþægilegt – af svip hennar að dæma er það mun óþægilegra úti á stétt en það var inni í stofunni. Konan horfir á stofugluggann, og þegar nágranni hennar, sem á leið hjá, kemur upp að henni, bendir hún með vísifingri í átt að húsinu, en kemur ekki upp orði þegar nágranninn spyr hvað sé að gerast. Vegna þess að þetta myndi vera stuttmynd, er ekki ástæða til að hafa þetta lengra. Þessu lýkur því með því að konan stendur úti á stétt og bendir á stofugluggann hjá sér, eins og frosin. Mér dettur líka í hug, út frá því að myndin verði framleitt af útlendingum, að hún gæti kallast Dead Man Drilling. Eða Bráðkvaddur maður borar – bara til að halda stuðlasetningunni.

 

 

7. mars 2017

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Það var franski dómarinn, fiðluleikarinn, tungumálakennarinn, mataráhugamaðurinn og heimspekingurinn Jean-Anthelme Brillat-Savarin (1755 – 1826) sem á að hafa sagt – og sagði víst alveg örugglega – hin frægu orð: „Segðu mér hvað þú borðar, og þá skal ég segja þér hvað þú ert.“ Eða „hver þú ert.“ Ég borða sjálfur aldrei neitt nema afganga frá deginum áður. Alla daga. Bara afganga.

4. mars 2017

Næsta kafla hefur borist fyrirspurn frá lesanda. Reyndar tvær. Fyrri spurningin var sú hvort ég, umsjónarmaður bloggsins, hefði í raun og veru verið í Litháen, eins og mjög sterklega var ýjað að í færslum frá 25. og 26. febrúar. Og sú seinni: hvort ég hafi sjálfur setið við tveggja manna borðið sem ég birti myndina af 28. febrúar. Svarið við fyrri spurningunni er já, en þeirri seinni nei. Myndin er tekin inni á niðurgröfnum veitingastað við Stykliu-götu í gamla bænum í Vilníus. Staðurinn er reyndar svo mikið niðurgrafinn að tröppurnar niður minntu mig helst á katakomburnar í París. Ég fór ekki til að borða þarna, heldur var mér einungis sýndur staðurinn, af manni sem fór með mig og þýðandann minn og útgefanda í mjög svo fróðlega göngu um borgina. Við þurftum sérstakt leyfi til að skoða staðinn; þetta var upp úr hádegi, og ekki opnað fyrr en um kvöldið. Á sovéttímanum var þessi veitingastaður helst sóttur af fólki (þá aðallega mönnum, býst ég við) úr efri lögum jafnaðarstefnunnar, og þá helst mönnum sem stunduðu veiðar á villtum dýrum – þetta var víst þeirra staður. Þeir hafa komið þarna til að fá sér steik. Jafnvel af dýrum sem þeir drápu sjálfir. Þangað til fyrir nokkrum árum stóð uppstoppaður björn frá Síberíu á miðju gólfinu, en hann var fjarlægður vegna þrýstings frá dýraverndunarsamtökum. Honum var hent. (Sem mér fannst reyndar óþarfi.) Eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, þá hangir enn uppi á einum veggnum haus af birni; ég ákvað að taka mynd af honum, en auðvitað hefði ég helst viljað taka mynd af birninum sem var hent. Svo tók ég mynd af tveggja manna borðinu, sem hefur þá sérstöðu að þeir, eða þau, eða þær, sem sitja við það, horfa báðir / bæði / báðar á vegginn á móti: þeir / þau / þær sitja hlið við hlið, og ekkert nema múrveggur á móti. Mér fannst að þetta borð hlyti að eiga heima í einhvers konar skáldverki eða bíómynd – kannski helst draumi – frekar en á raunverulegum veitingastað. Og þess vegna tók ég mynd af því. En talandi um drauma, þá dreymdi mig svolítið fyrir nokkrum dögum, ætli það hafi ekki verið nóttina eftir að ég kom heim frá Litháen. Hefði ég skrifað drauminn niður um leið og ég vaknaði (eða áður en ég vaknaði), þá hefði ég munað hið samhengislausa samhengi hans, en núna, nokkrum dögum síðar (og nokkrum draumum), man ég bara að ég hitti Björk Guðmundsdóttur í draumnum; hún var einhvers staðar úti á götu, ég man ekki hvar, og var um það bil að fara að stíga inn í nýjan bíl sem hún hafði keypt: glænýjan Trabant, sem minnti helst á einhvers konar geimfar. Mjög í anda Bjarkar, fannst mér. Annars staðar í draumnum var rithöfundurinn Huldar Breiðfjörð farinn að stunda eiturlyfjaviðskipti; mér var bent á það af öðrum rithöfundi, Hallgrími Helgasyni, sem sjálfur var eitthvað hálf undrandi á mér að hafa ekki komið auga á að Huldar væri á kafi í þessum ólöglegu viðskiptum. Hallgrímur kom reyndar meira við sögu í draumnum, því við tveir vorum saman í einhvers konar hljómsveit sem var á leiðinni að fara að spila fyrir norðan, á Akureyri. Vandamálið var bara það að Þór Eldon, sem átti að teljast vera meðlimur í hljómsveitinni, nennti ekki að koma með, og við Hallgrímur vissum í raun ekkert hvað við áttum að gera, því við höfðum ekki æft eitt einasta lag, við vissum í raun ekkert hvað við ættum að spila á Akureyri. Svo var draumurinn ekki lengri. Held ég að minnsta kosti ekki. En það er sem sagt svona sem ég eyði nóttunum hér í Reykjavík 105: mig dreymir tónlistarfólk. Og talandi um tónlistarfólk (og bjarndýr), þá hef ég lengi ætlað mér að skrifa einhvers konar endurminningarit um ákveðna kafla í lífi mínu, og hef alltaf séð fyrir mér að fyrsti kafli þeirrar bókar muni gerast í Bearsville, í New York-fylki í Bandaríkjunum, þar sem Sykurmolarnir voru að semja, æfa og taka upp síðustu plötuna sína. Þetta var uppi í sveit, rétt hjá Woodstock (Woodstock hátíðarinnar frægu; það eru til fleiri Woodstock en það), og við, hljómsveitin (og Sjón, sem var þarna með okkur) bjuggum í tvílyftu húsi rétt hjá hlöðunni þar sem við æfðum. Sjálft stúdíóið var síðan rétt hjá. Skammt frá húsinu sem við bjuggum í var þéttur skógur. Og einn daginn var haldin grillveisla. Það var held ég plötufyrirtækið sem bauð. Þór Eldon vill meina að einhverju ógurlega fínu kjöti hefði verið flogið alla leið frá New York-borg, til að setja á grillið, en ég man ekki eftir neinni flugvél. Og ekki neinu sérstöku kjöti. Enda skiptir það ekki máli. Daginn eftir grillveisluna, þegar við gengum út úr húsinu, ábyggilega frekar ryðguð eftir gleðskapinn kvöldið áður, sáum við björn við jaðar skógarins; hann stóð við öskutunnu sem þar var, og var að gramsa í matarleifum gærdagsins. Við tókum vídeómynd af birninum. Þetta var svartbjörn. Norður-amerískur skógarbjörn. En nú man ég ekki hvort við vorum eitthvað hrædd. Kaflinn sem segir frá þessu atviki í bókinni minni á að heita Björninn leitar að æti. Ég er jafnvel að hugsa um að láta bókina hafa þann titil. Ef ég skrifa hana. Og talandi um bækur, þá var mér sagt frá því í gær að um næstu helgi eigi að vera spjall um nokkrar af bókunum mínum á Hugvísindaþingi í Háskólanum. Mér finnst það auðvitað mjög spennandi, en um leið svolítið erfitt eða snúið, því ég get ekki ákveðið hvort ég á að mæta sjálfur. Mig langar til að fara og hlusta, ekki síst vegna þess að mér finnst ég græða á því þegar annað fólk segir mér um hvað bækurnar mínar eru; en svo finnst mér líka eins og ég verði „fyrir“, ef ég mæti – eða trufli. En hvort sem ég fer eða ekki, þá ætla ég að hjálpa við að auglýsa spjallið:

http://hugvisindathing.hi.is/malstofur/madur-ad-okkar-skapi/

26. febrúar 2017

Trúvillingurinn ég tók daginn snemma í Vilníus; hann fór í messu í stóru hvítu dómkirkjunni við torgið í botni Gediminas Prospektas. Það var falleg snjókoma fyrir utan, og sömuleiðis tónlistin innandyra. Þegar ég hafði fengið nægju mína af Orðinu og Tónlistinni, gekk ég út, hægum skrefum, og þegar ég leit síðasta sinni (að þessu sinni) inn eftir kirkjuskipinu sá ég haltrandi mann ganga í átt að altarinu, og hugsaði með mér að líklega yrði þessi maður ekki lengur haltrandi þegar hann gengi til baka. En ég hafði ekki tíma til að fylgjast með því; ég þurfti að fara aftur upp á hótel til að græja mig fyrir leiðsagnartúrinn sem ég fer í kl. tólf. Á hinni risavöxnu bókamessu í gær áritaði ég svo mörg eintök af Ambasadorius að ég hefði getað ælt. En ég ældi ekki. Að lokinni messunni (bókamessunni, það er að segja) fór ég með því góða fólki sem sér um mig hérna í húsnæði bókaútgáfunnar Kitos Knygos (Aðrar bækur); við vorum þrjú sem mættum þangað til að byrja með; en tíu mínútum síðar birtist enn ein manneskjan utan af götunni, og öðrum tíu mínútum síðar aðrar þrjár manneskjur. Svo var allt í einu komið rauðvín á borðið, og heil flaska af búrbón; og það leit út fyrir að það yrði drukkið svo mikið að ég hefði getað ælt. En ég staldraði ekki lengi við – ældi ekki heldur – því ég fann á mér að ég myndi óvart lenda í messu morguninn eftir, og ekki vildi ég lykta illa innan um allt sunnudagsfólkið. Á litháísku segir maður atsjú ef maður vill segja takk.

25. febrúar 2017

Veður leyfði. En bara rétt svo. Stuttu eftir að ungverska flugfélagið tók á loft í hádeginu í gær, eftir klukkutíma seinkun, var allt flug stöðvað. Eða svo er mér sagt. Ég var með þeim síðustu sem komust frá landinu, að minnsta kosti fyrri part gærdagsins. Ég komst líka á hótelið í Vilníus, og labbaði síðan yfir í Ráðhúsið, þar sem borgarstjórinn bauð upp á léttar veitingar. Þegar ég beið eftir að gamli maðurinn í fatahengi Ráðhússins tæki af mér yfirhöfnina, sneri sér að mér maður á aldur við mig og spurði hvaða tungumál ég talaði. „Ensku,“ sagði ég. (Ég var nefnilega að tala ensku þegar maðurinn heyrði til mín.) Þá vitnaði hann í Paul McCartney, og lofaði mér því að við (þá væntanlega við hinir enskumælandi) myndum eiga í vandræðum með Brexit. Ég náði ekki almennilega að svara honum, því gamli maðurinn í fatahenginu tók við yfirhöfninni minni og lét mig hafa númer, ef ég vildi fá yfirhöfnina aftur. Og á meðan þau viðskipti fóru fram lét Paul McCartney sig hverfa. Ég held ég muni muna þetta númer það sem eftir er ævinnar, því hefði ég ekki fengið það, þá hefði ég glatað yfirhöfninni minni. Og ég er ekki kominn hingað til Vilníus til að lenda í því. Númerið var 75.

23. febrúar 2017

Ambassador_web

STARFSMAÐUR Í HLJÓMTÆKJAVERSLUN: Ég æpi ef þessi maður ætlar að koma hérna inn.

Stutt þögn.

Maður fyrir utan opnar dyr verslunarinnar og kemur inn.

SAMSTARFSMAÐUR (hvíslar): Ætlarðu ekki að æpa?

Stutt þögn.

Maður sem kom inn gengur í átt að afgreiðsluborðinu.

STARFSMAÐUR (æpir): ………..!!!!

Manni sem kom inn bregður illilega. Hann breytir um stefnu, og gengur í átt að hillum þar sem hljómtæki eru til sýnis.

STARFSMAÐUR: Ég sagði þér það.

SAMSTARFSMAÐUR: Hvað?

STARFSMAÐUR: Að ég myndi æpa.

Þögn.

 

Ef veður leyfir verð ég í hádeginu á morgun í ungverskri flugvél (sem ég efast þó um að sé framleidd í Ungverjalandi) á leiðinni til Litháen. Ég á að tala um skáldsöguna mína Sendiherrann á bókamessu í Vilníus á laugardag. Sagan, sem kom út fyrir rúmum tíu árum á Íslandi, gerist að miklu leyti í Litháen, og var, bara rétt í þessu, að koma út í litháískri þýðingu í Vilníus. En einhvern veginn finnst mér eins og ég sé ekki rétti maðurinn til að tala um þessa bók, sérstaklega ekki í Litháen. Ég verð rangur maður á réttum stað. Rétt eins og maðurinn hér að ofan, sá sem kom inn í hljómtækjaverslunina; hann var réttur maður á röngum stað – þannig sé ég það, að minnsta kosti. Starfsmaður hjá útgáfunni sem gefur út Sendiherrann í Litháen ráðlagði mér í pósti rétt áðan að koma með regnfrakka með mér – aftur, eins og hún orðaði það – því það væri „blautt veður“ í Vilníus þessa dagana. Ég kíkti á veðurspána á vef BBC, og þar vilja þeir meina að næstu daga verði í kringum frostmark í Vilníus, og rétt yfir, og ofankoma: slydda eða snjór. Ég hefi því ákveðið að fara ekki í regn- eða rykfrakka, heldur sailorjakkanum mínum, sem er hlýrri en regn- eða rykfrakkinn. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að koma með regn- eða rykfrakka til Vilníus – ekki aftur. Samt var það ekki ég sem lenti í því að frakkanum mínum var stolið á veitingastaðnum í Vilníus – það var annar. Og þar með var sá frakki ekki minn frakki. En þar sem ég er líka annar – eins og reyndar Frakki nokkur, mun þekktara ljóðskáld en ég – þori ég ekki að taka sénsinn.

15. febrúar 2017 (aukafærsla nr. 2)

Mér varð á að detta inn á netið núna rétt áðan, og rak augun í grein á Starafugli eftir Sverri Norland um rithöfundinn Guðberg Bergsson. Nú verð ég að játa að um síðustu helgi punktaði ég hjá mér stutta færslu um viðtal Eiríks Guðmundssonar við Guðberg Bergsson, eða eintal Guðbergs Bergssonar öllu heldur, en hætti við að birta þau orð, vegna þess að umfjöllunarefnið fannst mér svo niðurdrepandi (sem bendir þó líklega fremur til þess að mér sjálfum tókst ekki að hugsa eitthvað upplífgandi út frá því). Grein Sverris um þvaðrið og nátttröllsháttinn í Guðbergi er aftur á móti svo vel orðuð að mér finnst ég absólút þurfa að dreifa henni (þótt þessi miðill hér sé ekki öflugasta dreifingarmiðstöð sem fyrirfinnst):

 

http://starafugl.is/2017/net-og-natttrollin-hans-gudbergs-bergssonar/

15. febrúar 2017 (aukafærsla)

Yfirskrift færslunnar hér fyrir neðan varð óvart 15. nóvember 2017, í stað 15. febrúar 2017. Hugsanlega er ég nú þegar undir áhrifum frá tónlistarkennaranum Winifred, sem breytti sér í viðskiptamanninn og þjálfarann Toni Erdmann. Ég biðst velvirðingar á þessu, og til að sýna fram á að mér sé full alvara með þeirri beiðni, þá ætla ég að birta myndina af fyrrverandi forseta Íslands og Ratzinger páfa (það er orðið allt of langt um liðið frá síðustu birtingu). En nú verð ég aðeins að staldra við. „Nei, bíddu nú aðeins,“ segi ég við sjálfan mig. Stenst það, að þessi færsla hér sé aukafærsla, merkt febrúar, þegar færslan á undan var merkt nóvember, og er þar af leiðandi færsla „langt inn í framtíðina“? Ég veit það ekki. En eins og ég sagði í „nóvemberfærslunni“, þá hef ég ekki tíma til að vera að velta þessu fyrir mér. „Njóttu dagsins,“ eins og afgreiðslufólkið segir.

15. nóvember 2017

Auðvitað hefur maður engan tíma til að vera að skrifa svona færslur, upptekinn sem maður er (nú heyri ég fyrir mér Guðberg Bergsson tala um líf og starf rithöfundarins: „Rithöfundurinn hefur ekki tíma til að fara í bíó. Rithöfundurinn situr heima og vinnur,“ osfrv.), en ég lét það eftir mér að fara í bíó í gærkvöldi, einn míns liðs – aðrir á heimilinu uppteknir að sinna sínum erindum, sem voru önnur en þau að fara í bíó á þriðjudagskvöldi – og ég fór í Bíó Paradís (hvaða annað bíó, liggur manni við að segja?). Ég sá Toni Erdmann, eftir Maren Ade, sem bæði skrifar og leikstýrir myndinni. Eftir að hafa lesið ýmislegt um þessa mynd, meðal annars það að einhverjir ameríkanar hafi í hyggju að gera ameríska útgáfu af henni (með Jack Nicholson), sem hljómar auðvitað eins kjánalegt og nokkuð getur hljómað, þá hafði ég svolitlar væntingar; en myndin fór – ég held mér sé alveg óhætt að segja það – langt fram úr þeim væntingum. Þetta er virkilega fín mynd. Og eins og með flest það sem maður hrífst af, þá er ekki alveg hlaupið að því að lýsa myndinni Tony Erdmann. Þess vegna ætla ég ekkert að vera að því. Mig langar bara til að sjá þessa mynd aftur, sem fyrst. Það hefur ekki gerst síðan ég sá Winter Sleep, eftir Nuri Bilge Ceylan (í Bíó Paradís), og The Great Beauty, eftir Paolo Sorrentino (af DVD-spólu!). Þeim myndum er heldur ekki svo einfalt að lýsa í fáum orðum. En af hverju nota ég þá ekki bara mörg orð (sérstaklega vegna þess að upp á síðkastið hef ég almennt farið að nota „fleiri og fleiri orð“)? Ég hef ekki tíma. Nú langar mig aftur til að „vitna“ í Guðberg Bergsson, en ég hef ekki heldur tíma til þess. Tíminn rétt nægir mér til að vitna í Blaise Cendrars (í þýðingu Jóns Óskars): Ég má engan tíma missa / Ég yrki. Nú verður maður heldur betur að passa sig á því að verða ekki fyrir áhrifum frá Toni Erdmann …

12. febrúar 2017

Virkilega gott spjall um virkilega góða bók. Jórunn Sigurðardóttir, Lára Magnúsardóttir og Gunnþórunn Guðmundsdóttir tala saman um skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, Kompu:

 

http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/bok-vikunnar/20170212

 

Nú vildi ég að væri á facebook til að geta látið „alla“ vita. En það vill svo til að höfundur bókarinnar, sem rétt í þessu var verið að ræða um í Ríkisútvarpinu, vill ekki að ég sé á facebook. Og ég er alveg sammála honum. Ég skráði mig einu sinni, í leyfisleysi, á facebook – það var síðla kvölds; dómgreindin alveg að sofna – og á næsta augnabliki komu svo margar „vinabeiðnir“ (sjálfvirkt), og frá svo mörgum „vinum“, að ég beinlínis hljóp í burtu frá tölvuskjánum, rétt eins og tollvörðurinn Henri Rousseau hljóp í burtu frá striganum þegar hann hafði málað á hann hið illúðlega ljón. Það þurfti talsvert átak af minni hálfu til að nálgast skjáinn að nýju til að afturkalla skráninguna. En viljinn varð óttanum yfirsterkari. Nóg um það að sinni. Ég vil bara ítreka ábendinguna til „vina“ Næsta kafla um að hlusta á spjallið í Bók vikunnar, hafi þeir ekki þegar gert það.