22. ágúst 2018

Hér átti að vera tóndæmi með hljómsveitinni Art Ensemble of Chicago, en ég finn það dæmi ekki á tiltæku formi á netinu, svo ég verð bara að finna eitthvað annað. Það gerðist um daginn að ég eignaðist plötuspilara. Ég fékk hann í afmælisgjöf. Ég hafði séð auglýsingu frá raftækjaverslun í bænum, og þegar ég kynnti mér vöruúrval búðarinnar sá ég að þeir (í búðinni) voru með plötuspilara til sölu, ansi ódýra, og ég hugsaði sem svo að ef til vill ætti ég að nota tækifærið og óska mér plötuspilara í afmælisgjöf; ég gæti tengt hann við græjurnar í herberginu mínu, og dregið fram allar gömlu vínilplöturnar mínar. Og nú hefur allt þetta gerst: ég fékk plötuspilarann í afmælisgjöf; og gömlu vínilplöturnar (þó ekki allar) hafa verið fluttar úr geymslunni upp í íbúð. Og það sem meira er: ég hef eignast sex nýjar hljómplötur. Tvær þeirra fékk ég í afmælisgjöf; hinar fjórar keypti ég fyrir peninga sem móðir mín gaf mér í tilefni dagsins. Ein þessara platna, sem ég fékk í stóru plötubúðinni við Hlemm, er tónleikaplatan Urban Bushmen með Art Ensemble of Chicago. Ég hafði aldrei heyrt þá plötu áður, bara Nice Guys (sem ég keypti líka í stóru plötubúðinni; ég var búinn að glata mínu gamla vínileintaki – þvílíkt fín sem sú plata er) og Full Force (sem ég á á geisladiski). Urban Bushmen er einhver fínasta jazzplata sem ég hef heyrt. Og ekkert endilega fínasta jazzplata, heldur bara fínasta plata. Reyndar tvær plötur: þetta er tveggja platna albúm. Og það er á henni, eða þeim, sem lag Roscoes Mitchell, Uncle, er að finna – lagið sem ég finn ekki á youtube. Fyrri hluti þess er aftast á C-hliðinni, og sá seinni opnar D-hliðina. Samanlegt tekur Uncle á átjándu mínútu að flytja. Agalegt að geta ekki deilt laginu hér. En líka góð tilfinning að það sé bara að finna á vínilplötunni. Því ég er nefnilega ekki viss um að hljómplatan Urban Bushmen sé fáanleg á geisladiski. Ég verð að athuga það. Jú, reyndar. Hún var endurútgefin á geisladiski 2008. Auðvitað. Uncle. Frændi. Eitthvert fyndnasta orð í íslensku, eða hvaða tungumáli sem er. Tío. Oncle. Onkel. Kummisetä. Frændinn sem kemur í heimsókn og gefur börnum bróður síns bláan Ópalpakka. Eða börnum systur sinnar rauðan. Og dónalegi frændinn, Lester Bowie, sem kom í heimsókn, ásamt Don Moye, í Bergstaðastræti 9a fyrir um það bil 20 árum, ábyggilega fullur, annars hefði hann ekki verið jafn dónalegur og hann var. Svo var hann dáinn þremur árum síðar, ekki nema 58 ára gamall. En eitthvað verð ég að spila, fyrst Uncle er ekki í boði á netinu. Hér eru Lester og Don, og Roscoe og Malachi – þetta er ekki verra en Uncle: