23. ágúst 2018

Með því að þrýsta eyranu að hurðinni rifjast upp fyrir mér þegar Lárus frændi, Lalli, föðurbróðir mömmu, strunsaði út af æskuheimili mínu einn daginn fyrir fjörutíu árum, sótvondur og bölvandi; hann hafði komið færandi hendi fyrr um daginn, með tvo innkaupapoka fulla af morgunkornspökkum sem hann hafði fengið frítt frá einhverjum kunningja sínum, sendibílstjóra; hann vildi gefa okkur systkinunum pakkana. Og hann gaf okkur þá, þrátt fyrir að mamma vildi helst ekki að við tækjum við þeim, vegna þess að morgunkornið væri orðið of gamalt. Pabbi hafði ekki haft neina skoðun á því, ekki frekar en á öðru sem viðkom þessum frænda okkar. En morgunkornið var ekki ástæðan fyrir því að Lalli fór út af heimilinu illa stemmdur. Það gerðist vegna þess að hann var orðinn of drukkinn þegar leið á daginn, að mati mömmu. Hann var búinn með áfengið sem hann hafði meðferðis; hann var farinn að biðja mömmu og pabba um að gefa sér af sínu. Og við systkinin biðum inni í herberginu okkar, með eyrun á hurðinni; við biðum eftir því að Lalli myndi hrópa aftur á mömmu að hún væri aumingi og nirfill; hann hefði langað til að gleðja krakkana hennar en fengi ekkert nema skít í staðinn; það yrði bið á því að hann kæmi í heimsókn aftur.

„Þú ert ekkert nema helvítis nirfill!“ hrópaði hann, áður en mamma skellti á hann hurðinni.

(úr fyrri hluta smásögunnar Forstofan, Dyrabjöllunni hringt – Dulnefnin 2016)