29. ágúst 2018

Það er virkilega gaman að heyra Guðmund Andra tala um Bítlana, og dálæti sitt á þeim. Ég vildi að ég hefði jafn gaman af Bítlunum og hann. (Rétt eins og Guðmund sjálfan – ef eitthvað er að marka bókatitlana hans – langar til að kunna að dansa – sem ég aftur á móti kann.) Mér finnst til dæmis agalegt þegar jazztónlistarfólk er að spila lög Bítlanna, nema reyndar þegar Brad Mehldau spilar And I love her. Það er smart. Ég man eftir því að einhver sagði – kannski var það bara Guðmundur Andri? – að sá sem ekki hefði gaman af Bítlunum hlyti að vera vond manneskja. Ég er hún. Vonda manneskjan. Sú sem lýgur. Því ég hef nefnilega gaman af sumum lögum eftir Bítlana. Back in the USSR er gott lag (jafnvel þótt Beach Boys séu í enn minna uppáhaldi hjá mér en Bítlarnir). Og Get back er líka flott lag. Þar nýtur sín vel Ringo Starr. Ef það er þá hann sem spilar í laginu. En þá er það ekki meira í bili. Ég var að hugsa um að láta tóndæmi fylgja færslunni, en það yrði einhvern veginn of fyrirsjáanlegt. Kannski frekar á morgun, því á morgun hef ég hugsað mér að segja frá vínilplötunum sem ég fékk í gærkvöldi.