11. september 2018

Frændi dáinn. Það hélt ég að minnsta kosti. En svo fékk ég símtal, eins og út úr kosmósinu, eins og mér er sagt að sé sagt, þess efnis að hann, frændi, hefði líklega bara farið út í búð – út í Nexus, eitthvað svoleiðis – og væri enn meðal vor. Kannski var hann eitthvað hræddur, og hljóp í felur – út í Nexus? – vegna þess að ellefti september var að nálgast. Ég hefði tekið hann með mér í réttirnar á laugardaginn var, hefði ég vitað þetta; en svo get ég vel ímyndað mér að þar hefði hann ekki síður orðinn hræddur. Hljóðin í lömbunum í Fljótstungurétt voru nefnilega mennsk. Ég hafði aldrei áður komið í réttir – og veit ekki af hverju ég fór núna (þó ég viti það svo sem alveg) – en hafði heldur ekki dottið í hug að me-ið í litlu lömbunum hljómaði eins og upp úr barka miðaldra manns sem er hræddur, eða veit ekki hvar hann hefur sjálfan sig. Það er ógleymanleg sjón að sjá lömbin beinlínis stökkva inn í réttirnar, eins og þau langi ekkert frekar en að vera slátrað. Og ég hugsaði: Á ég að byrja að borða kjöt aftur? Eftir þessa reynslu í Hvítársíðunni mun ég framvegis alltaf heyra í höfði mínu hið mennska jarm þegar ég horfi á manneskjuna stinga upp í sig unninni eða óunninni kjötvöru – þegar hún pakkar hinu blandaða kjötmeti inn í brauðhylkið, ásamt steikta lauknum og remúlaðinu, og stingur upp í sig á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis. Þá mun heyrast me í höfði mínu, og ég verð að passa mig á því að herma ekki eftir því hljóði með munninum. Svo þegar ég keyrði Kaldadal daginn eftir réttirnar sá ég kindur á stangli, eins og villuráfandi og týndar, og mér varð hugsað til titilsins á ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Langnætti á Kaldadal … Sitjum nú sundraðir, drekkum / í sólinni, eigum vísa / þögn, þurrð veiga / og þrúgandi nótt. … Kannski voru þessar ær sem ég sá ofurölvi – mér fannst eins og þær væru reikular í spori. En líklega var það hristingurinn í bílnum sem orsakaði þá hugsun. Það var síðan ógleymanlegt, rétt eins og reykurinn úr réttunum er ógleymanlegur, að sjá Þingvallavatn birtast í framrúðunni, eftir að hafa ekið Kaldadalinn og Uxahryggina … Nú er ég orðinn svo sentímental að hið hálfa væri líklega alveg nóg. Það var ekkert varið í að sjá Þingvallavatn í framrúðunni. Það hefði ekki einu sinni verið neitt varið í að sjá það í baksýnisspeglinum. Það er einfaldlega ekkert varið í Þingvallavatn. Er þetta ekki bara einhver pollur sem gæti gufað upp hvenær sem er? Ég hef stundum reynt að veiða fisk úr vatninu, en ég virðist vera alveg hættur því. Annars var ég eitthvað að hugsa um að setja hérna í lok færslunnar lagið sem ég hef verið að lofa (eins og upp í ermina á mér – ermina á mér?); en finnst núna einhvern veginn meira við hæfi að pikka inn ljóð Þorsteins úr Langnætti á Kaldadal, Til þín þegar hvessir: Yfir beinin í mosanum flögra ég fremur en geng / til þín þegar hvessir / ég kann að eiga brýnna erindi en margur / til þín þegar hvessir // Því fleiri en ég eru á ferð um auðnina / til þín þegar hvessir / og kannski fer enginn erindisleysu nema ég / til þín þegar hvessir