18. september 2018

Ég ímynda mér að lesandi „frænda“, og jafnvel sjálfur frændinn, hugsi sem svo að ekki hafi hljómað nein tónlist á heimili „skyldmennisins“ í nokkra daga, því hér á yfirráðasvæði „þess“ hafa engin tóndæmi verið nefnd svo dögum skiptir, og hreinlega ekkert verið nefnt sem tengist hinu formúleraða hljóði, jafnvel ekki sjálf þögnin sem stundum heyrist þegar nálin stöðvast á plötunni eða geisladiskurinn hættir að snúast í slíðrinu. Það hefur ekki einu sinni verið rætt um Bítlana (The Beatles). Ekki orð sagt um Uriah Heep (svo ég nefni bara eitthvað). En í gær, þegar „hin tímabundna fólksfjölgun frá útlöndum“ var að spóka sig við Sólfarið við Rauðarárvíkina, og „hinn innlendi hjólamaður“ rann eftir stígnum fyrir ofan göngustíginn, þann sem er merktur hjólreiðamanninum og andarungunum, fengu skyndilega allir viðstaddir, bæði útlendingurinn og sá innlendi á hjólinu, á tilfinninguna að verið væri að spila lagið með Maríu Dolores Pradera – lagið sem hér hefur lengi staðið til að leika fyrir gesti; það, lagið (Que nadie sepa mi sufrir), hljómaði í öllum sínum mikilleik yfir víkinni, með Esjuna í bakgrunni (eins og hún væri allt í einu orðin að músíkvídeói); og hinn blanki ferðamaður og fjáði Íslendingurinn sameinuðust um stund í hlustuninni (sem var ókeypis): þeir horfðu í andakt yfir að snjólausu fjallinu, og sneru eyrum sínum í sömu átt – tóku jafnvel niður höfuðföt sín og hlífðarhjálma til að geta notið tónlistarinnar sem ómengaðrastrar. (Svona kom þetta orð út, þegar ég reyndi að skrifa það: ómengaðrastrar. Læt það standa.) En verð ég ekki að láta lagið með ungfrú Pradera fylgja með í þessari færslu? Læt það gossa, fyrst maður er að nefna þetta.

Þetta er sem sagt tónlistin sem ég fékk í afmælisgjöf um daginn frá Madrid. H og A höfðu keypt þessa fínu plötu með Maríu Dolores Pradera, án þess að hafa haft hugmynd um að ég átti hana einu sinni á kassettu (og á kannski ennþá, niðri í geymslu); og þau gáfu mér líka aðra plötu (meira í gríni en alvöru – héldu þau): Momentos með Julio Iglesias (spænsku útgáfuna, ekki ensku). Svona getur lífið verið. „Er ekki lífið svona?“ eins og Helga Kress spurði víst nemendur sína í bókmenntafræðinni, þegar hún vildi gera lítið úr bókum sem henni fannst miðla einmitt þessu: „Er ekki lífið svona?“ En það er svona. Maður fær plötu í afmælisgjöf frá Madrid, og hún reynist vera með söngkonunni Maríu Dolores Pradera. Hin platan kemur síðan úr allt annarri átt – „Iglesias-áttinni“. Annars hafði ég ætlað mér að gera þá félaga Petrov og Borishov að umtalsefni að þessu sinni – og var ábyggilega búinn að lofa því líka um daginn. (Petrov og Borishov eru reyndar ekki þeirra réttu nöfn, las ég – sem auðvitað gerir umtalsefnið enn meira spennandi.). Ég hafði meira að segja ætlað mér að biðla til íslenskra rithöfunda og kvikmyndagerðarmanna, jafnvel myndlistarmanna, að halda aftur af sér að gera bók eða (bíó)mynd um Petrov og Borishov, nefnilega vegna þess að ég mig langar svo mikið sjálfur til að nota efniviðinn í bók (frekar en bíó eða mynd). En kannski er það alls ekki góð hugmynd, því þetta efni hefur einhvern veginn afgreitt sig alveg sjálft; það er bara þarna á youtube og í fréttamiðlum, og líklega fullkominn óþarfi að vera að búa til einhver tilbrigði við það. En skáldsagan sem þetta er, eða yrði – hún er rússnesk. Sem er heppilegt, þar sem „Petrov“ og „Borishov“ eru sjálfir rússneskir. Eða segjast vera það. Já, einmitt: þeir segjast vera rússneskir. Mér finnst samt að bíómyndin um skrípalmálið hljóti að vera eftir Béla Tarr, það er að segja ungversk. En Béla Tarr segist vera hættur að búa til bíómyndir. Alger mistök. Hjá honum, það er að segja. En þvílíkur efniviður: