19. september 2018

Enn einn dagurinn, að þessu sinni 19. september árið 2018:

„Benedikt Jóhannsson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, segir að sá sem hafi ákveðið að endurbirta blogg Halldórs Jónssonar í Staksteinum sé jafn ógeðslegur gamall karl og Halldór. Má leiða að því líkum að þar eigi hann við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins.

Sjá einnig: Morgunblaðið birtir orð Halldórs sem varði Downey: „Rétttrúnaður að mega ekki troða sér í sleik við konur“

Halldór, sem þykir gífurlega umdeildur, beindi sjónum sínum að kynferðislegri áreitni og þá sérstaklega í samhengi við mál Orkuveitu Reykjavíkur. Hann bar svo saman dansæfingar í MR við nauðgunarmál í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Halldór Auðar hvetur fólk til að segja upp áskrift að Morgunblaðinu samstundis

Benedikt segir á Facebook að sér hafi einfaldlega orðið óglatt við að lesa skrifin sem birtust í Morgunblaðinu í dag. „Enn einn dagur þar sem ég sé eftir að vera búinn að segja upp Mogganum. Þá get ég ekki gert það í dag. Mér varð bókstaflega óglatt að lesa um þetta. Tveir ógeðslegir gamlir karlar sleikja botninn á mykjuhaugnum, annar með því að halda að það sé sniðugt að skrifa svona, hinn með því að halda að það sé sniðugt að birta svona skrif.“ (eyjan.dv.is, 19.09.2018)

Ég tel mig þekkja það manna best (kannski ekki best af öllum, en nokkuð vel samt) að það getur verið erfitt að neita sér um hluti; en að neita sér um áskrift að Morgunblaðinu – ég tala nú ekki um að standast þá freistingu að birta eitthvað í Morgunblaðinu (eins og mér skilst að Benedikt Jóhannsson geri reglulega) – það getur varla verið mjög erfitt. Ég stenst þó sjálfur ekki þá freistingu að setja á fóninn hinn franska Charles Aznavour. Hér er hann að syngja eigið lag (lag sem margir þekkja úr hinni dásamlegu rómantísku gamanmynd Notting Hill) – og mér sýnist að ég sé áhorfandi (og hlustandi) númer 3.760.139 á youtube:

Úps. Ég mislas orðin frá Benedikt. Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég endurlas þau á meðan ég hlustaði á Charles syngja lagið sitt. (Svona getur tónlist skerpt huga manns.) Benedikt segist einmitt vera búinn að segja upp áskrift að Morgunblaðinu – ég hlýt að hafa hraðlesið þegar ég las þetta fyrst, og ég er ekki góður í hraðlestri. Þannig að Benedikt er maður sem getur neitað sér um þá hluti sem honum eru ekki að skapi. En hann getur samt ekki neitað sér um að skrifa í „hlutinn“ sem honum mislíkar. Það hlýtur að vera næsta skref hans, að gera það – og varla er það mjög þungt skref að taka. (Benedikt er reyndar Jóhannesson, ekki Jóhannsson, eins og segir í fréttinni á Eyjunni. Það er sem sagt ekki bara ég sem misskrifa og misles.)