2. september 2018

Spáin fyrir leik gærdagsins stóðst: 4 -7. Nema að úrslitin urðu – þegar flautað var til leiksloka – 0 – 2. Og hvernig var leikurinn? Því er ekki auðsvarað. Ef til vill var ég svolítið sleginn út af laginu þegar ég fylgdist með leikmanni nr. 2 í íslenska liðinu undirbúa sig fyrir að taka innkast á vallarhelmingi þýska liðsins, í beinni sjónlínu við okkur áttmenningana, þar sem við sátum í efstu röð (Ö-röðinni), í nyrðri hluta gömlu stúkunnar, því ég sá ekki betur en að hún, leikmaðurinn, væri ófrísk, eiginlega kasólétt, eins og sagt er. En þá kom í ljós að hún var með boltann undir treyjunni sinni, og virtist vera að þurrka hann, svo hann rynni síður úr höndum hennar þegar hún kastaði honum inn á völlinn. Ég er ekki að segja að ég hafi látið þetta trufla mig það sem eftir lifði leiks, en einhvern veginn sat þetta í mér, að minnsta kosti þangað til þýska landsliðið skoraði fyrsta markið, sem gerðist stuttu fyrir leikhlé. Þetta er merkilegur leikur, fótboltinn. En hvers vegna? Því er heldur ekki auðsvarað (ekki í svona stuttri bloggfærslu eins og hér). Og hvað hét hún, leikmaður nr. 2, sú sem ég hélt að væri ófrísk? Mér láðist að lesa nafn hennar á bakhlið treyjunnar – ef til vill var ég of upptekinn við að fylgjast með leik þýska liðsins, því svo sannarlega var ekki mikið um „leik með boltann“ af hálfu íslenska liðsins; en þetta er kannski það sem gerir fótboltann svo merkilegan: að á meðan annað liðið á vellinum spilar með boltann sín á milli (á milli leikmanna), kemst hitt liðið upp með að sparka boltanum bara eitthvað, fram og til baka, stundum út af vellinum, og upp í loftið, eins og án markmiðs eða tilgangs, en nær samt að tapa með ekki meira en tveggja marka mun. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki sá „kvalífíkeraðasti“ til að analísera svona fótboltaleik (jafnvel þótt ég hafi einu sinni verið fenginn í beina útsendingu í sjónvarpssal til að tjá mig um orðnotkun í lýsingum fótboltalýsenda; ætli það hafi ekki verið fyrir tæpum tuttugu árum), en það var ýmislegt sem fór á milli okkar, þeirra sem sátu í Ö-röðinni í nyrðri hluta stúkunnar í gær, ýmislegt um leikinn, þá aðallega um samspil leikmanna, ýmislegt sem mér fannst á því augnabliki sem við létum þau orð falla, að gæti alveg átt heima í sjónvarpsþætti; mér fannst við hljóma eins og álitsgjafar í íþróttaheiminum, og svo framvegis. Ég segi „og svo framvegis“, því einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að ég sé búinn að blóðmjólka þetta umtalsefni, að ég ætti í raun að setja punkt við það hér. Ég sá ekki sjónvarpsfréttir í gærkvöldi, en þar hefur ábyggilega verið farið yfir leikinn, og úrslitin útskýrð, eða sett í samhengi við önnur úrslit í fótboltasögunni. En allavega: úrslit leiksins í gær eru staðreynd: „stelpurnar okkar“ töpuðu 0 – 2 fyrir „stelpunum þeirra“, Þjóðverjanna – nú er það bara leikurinn við „stelpur tékknesku þjóðarinnar“ sem gæti ráðið úrslitum um hvort „stelpurnar okkar“ eigi möguleika á að komast í umspil um það hvort þær komist á HM í Frakklandi á næsta ári, til að geta spilað við „stelpur heimsins“ á því móti. Þetta er spennandi. En dularfullt. Það er einhver mystík yfir vötnunum. Ég veit að ég ætlaði að tala um hljómplöturnar sem ég fékk um daginn (búinn að vera að lofa því í nokkra daga), en nú er einhvern veginn öll orkan farin í spjallið um fótboltann, þannig að ég ætla að láta mér nægja að bauna út enn einum „teasernum“. Myndbandið með Julio Iglesias gærdagsins var allsvakalegt, ég játa það; en ég bið lesendur að hafa aðrar væntingar fyrir næsta myndband – það er allt annars eðlis: