20. september 2018

Alveg á sama hátt og maður heyrir línu í popplagi, og hún festist í hausnum, hnýtur maður um einhver töluð orð í útvarpi, kannski bara eina setningu, og án þess að ná öllu samhenginu situr línan eftir í hausnum – og að tíu mínútum liðnum er maður búinn að gera hana að sinni eigin. Eftirfarandi setningu heyrði ég í útvarpinu í fyrradag (í Víðsjá); ég veit svo sem ekki hvort ég hef hana alveg rétt eftir: „Það er full vinna, og þess vegna ekki á færi þeirra sem vinna fulla vinnu.“ Ég hef ekki hugmynd um hvað var sagt á undan þessu, og heldur ekki á eftir; en það skiptir ekki máli: ég held að þetta hljóti að segja allt. Engu við þetta að bæta. Nema kannski að minnast á það að ég var að lesa svo góða bók um daginn, bók nr. 2 í jólabókaflóði, þannig séð (allavega nr. 2 sem ég les – og jólabókaflóðið varla byrjað): Katrínarsögu eftir Halldóru Thoroddsen. Ferlega fín bók um íslenska hippakynslóð – og hugsanlega örlög þeirrar kynslóðar. Ég veit ekki alveg hvaða orð maður ætti að nota yfir þessa sögu. Ævintýraraunsæi? Halldóra býr til svakalega flottar setningar, og tekst – held ég örugglega öðrum fremur, að minnsta kosti mjög mörgum fremur – að flétta „stórar“ hugmyndir inn í mjög svo látlausa frásögn og samtöl, þannig að hugmyndirnar, og jafnvel það sem hún vill segja manni, lýsist mun sterkar upp en ella. Og það er alltaf í því mjög fínn húmor. En talandi um línur sem festast í kollinum á manni, þá „(leggur fólk) allt of mikla áherslu á þetta líf eftir að guð dó.“ Þessi var ein af mörgun línum í bókinni, og ég fann hana strax aftur; hún er á blaðsíðu 34. Í sögunni segir Katrín síðan frá því að henni sé afar illa við hina svokölluðu skyldulesningu, og hafi þess vegna aldrei lesið Tolkien „þegar allir áttu að vera að lesa Hringadróttinssögu. Af hverju þessi mótþrói? Æ, eitthvað truflar hana við allan þennan samhug.“ Ég gat ekki annað en verið 100% sammála þessu. Af hverju að lesa Tolkien þegar allir hinir höfundarnir eru í boði, þeir sem enginn veit að maður á að lesa? Og nú verður maður bara að vona að Katrínarsaga verði ekki gerð að skyldulesningu í einhverjum skólanum. En það er víst kominn tími á músík – hádegið búið. Engin skylda að hlusta: