7. september 2018

Það er dásamlegt að fylgjast með fréttum af skrípóinu í Hvíta húsinu í Washington vegna hins nafnlausa „landráðabréfs“ sem New York Times birti. Og ekki síður gaman til þess að hugsa með hvaða hætti ritstjórar Morgunblaðsins muni koma Bandaríkjaforseta til varnar að þessu sinni. Veit Bandaríkjaforseti af því að hann á sér öflugt málgagn á Íslandi? Það lítur ekki út fyrir að hann viti margt, að minnsta kosti ekki mikið af gagnlegum upplýsingum, en ég gæti þó vel trúað því að hann vissi þetta; þetta er ábyggilega ein af þeim fáu staðreyndum sem hann vill vita – og veit að er rétt. Ég var að lesa í ævisögu John Kennedy Toole í morgun (í staðinn fyrir að lesa Morgunblaðið – á hverjum morgni les maður eitthvað í staðinn fyrir Morgunblaðið), og þar sem fjallað er í bókinni um áhuga Tooles á miðaldaheimspeki, og andúð hans á amerískri samtímamenningu, stendur þetta: But in America, a fool could become a millionaire, while the genius lay destitute, all under the guise of economic freedom. Söguhetja Tooles, Ignatius Reilly – það yndislega erkifífl – varð aldrei milljóneri, en það varð Donald Trump. Og hann er fífl. Það vita allir. Meira að segja ritstjóri Morgunblaðsins, sá nafnlausi (eins og höfundur „landráðabréfsins“ er nafnlaus), veit það, um leið og hann gerir allt sem hann getur til þess að reyna að líkjast Bandaríkjaforseta sem mest. Og það tekst. (Þetta rímaði, þannig lagað.) En af því ég notaði orðið dásamlegt hér að ofan, þá kemur það aftur í hugann þegar ég leiði hann að bókinni sem ég las í gær. Hún er óútkomin – bara komin úr prentsmiðjunni – eftir einn alfyndnasta rithöfund landsins. Ég held ég megi samt ekki segja frá henni (nafngreindri), því hún er ekki komin út. En nóg um það í bili. Það er hádegi. Ég hef notað þetta hádegi fyrsta föstudags í september (hluta af því, að minnsta kosti) til að skrifa þessa færslu – ég ætlaði að skrifa um allt annað, t.d. lagið sem ég hef lofað að spila í nokkra daga, en hinn sprenghlægilegi Bandaríkjaforseti, og stuðningsmaður hans á Morgunblaðinu, og líka þessi óútkomna bók sem ég las í gær, er efst í huga mér núna. Svo hef ég líka notað hádegið til að hlusta á hljómplötu Pink Floyd, Relics, sem er eins konar best of-plata með lögum af fyrstu plötum Pink Floyd. Arnold Layne, See Emily Play … Þetta eru háklassísk popplög. Syd Barrett. The Madcap. En nú er hádegishléið búið. Og ég er að hugsa um að breyta yfirskrift bloggsins í Einn frændi á viku. Það er allt of mikið að vera að skrifa eina færslu á dag. Ein á viku hlýtur að nægja.