29. nóvember 2018

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segir að Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sé ekki apaköttur. Þetta kemur fram á vefmiðli DV í dag; það er haft úr útvarpsviðtali sem Sigmar Guðmundsson átti við Gunnar Braga í „Morgunútvarpinu“. Eins og kemur fram í úrdrætti DV úr viðtali Sigmars við Gunnar Braga (sjá hér fyrir neðan) hafði Gunnar Bragi sagt við félaga sína að Oddný Harðardóttir væri apaköttur; en eins og einnig kemur fram í spjalli þeirra Sigmars og Gunnars Braga telur Gunnar Bragi svo ekki vera; hann segir að Oddný sé „að sjálfsögðu ekki“ apaköttur, heldur „klár manneskja“ Einnig kemur fram í spjallinu í „Morgunútvarpinu“ að Gunnar Bragi líti kynin sömu augum og sögupersóna írska rithöfundarins Flann O´Brien í skáldsögunni The Third Policeman, de Selby; að hann sjá engan mun á kynjunum (það er að segja hinum hefðbundnu kynjum, konum og körlum):

Gunnar Bragi: „Menn gera allskonar vitleysu þegar þeir eru drukknir, en það réttlætir það samt ekki að setja hlutina svona fram. Ég sagði þarna hluti sem ég – mér bara dauðbrá þegar ég heyrði þetta en man ekki allt sem fór þarna fram – en til dæmis ummæli mín um Oddnýju Harðardóttur eru bara hræðileg.“

Sigmar: „Kallar hana apakött?“

Gunnar Bragi: „Sem hún er að sjálfsögðu ekki. Bara klár manneskja og ég bið Oddnýju mikillar afsökunar að hafa sagt þetta. Eins með Loga Einarsson. Ég geri engan greinarmun á konum og körlum og ég hef aldrei gert.“