6. desember 2018

Meira að segja frændi hefur gaman af The Cramps. Eða þykist hafa. Sem þýðir í raun að hann hafi ekkert á móti hljómsveitinni, eða því hvernig hún hljómar. Ég spilaði fyrir hann A date with Elvis í gær, stuttu áður en Lilja Alfreðsdóttir kom á sjónvarpsskjáinn og talaði um fyrrverandi samstarfsmenn sína sem ofbeldismenn; og mér sýndist hann – frændi – glotta út í annað; og kannski var það ímyndun, jafnvel óskhyggja, en ég gat ekki betur séð en að hann hreyfði aðra löppina upp og niður, að minnsta kosti í smástund, í takt við fyrsta lagið á plötunni, How far can too far go? Enda eiginlega ekki annað hægt í stöðunni, þegar maður hlustar á lagið:

En nú – frá og með Kastljóssþættinum í gærkvöldi – hefur verið gefið leyfi fyrir því að nota orðið ofbeldismenn yfir fólk í stjórnmálum. Ég verð að segja það (og nú brosir maður ósjálfrátt út í annað, þegar samflokksmaður Lilju, Steingrímur Hermannsson heitinn, rifjast upp fyrir manni, með orðin „ég verð að segja það“ á vörunum) að mér fannst orðnotkun Lilju alveg við hæfi þarna í Kastljósi, því auðvitað er þetta einhvers konar tegund ofbeldis, það sem sexmenningarnir héldu að væri prívat samtal í horninu á hverfisbar alþingis. Mér fannst að vísu óþarfi hjá menntamálaráðherra að nota tækifærið í spjallinu í gær til að tala um einhver góð verk þeirrar ríkisstjórnar sem hún er hluti af – það held ég að hljóti að vera afar hæpið að fullyrða um – og það var beinlínis rangt af henni að segja að hin stóra „leiðréttingar“-blekking Sigmundar Davíðs og þeirra í Framsóknarflokknum hefði verið góður hlutur. En nú þegar orðið ofbeldisfólk er komið inn í pólitíska umræðu – og stór hluti þjóðarinnar kinkar kolli við því – þá kemur óhjákvæmilega upp í hugann að fleira ofbeldisfólk kunni að leynast í þingsalnum, og jafnvel í ríkisstjórninni. Pólitískt ofbeldisfólk. Því hvað er hinn ítrekaði og róttæki óheiðarleiki fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra annað en pólitískt ofbeldi? Ekki neitt. Ekki neitt annað. (Óskaplega er ég eitthvað farinn að hljóma dramatískur. Þetta eru áhrif frá Crampslaginu. Ég sem ætlaði bara að rifja upp Grænu krána eftir Rimbaud, hér á þessum desemberfimmtudegi, í dásamlegri þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Svo hafði ég eitthvað hugsað um að minnast á nokkrar „jólabækur“ sem ég hef lesið nýlega, allar mjög fínar, hver á sinn hátt, eða eiginlega allar; en það verður að bíða betri tíma – því það koma alltaf betri tímar en þeir sem líða í augnablikinu; maður er jafnvel farinn að horfa til þeirrar stundar þegar Sigmundur Davíð játar sig endanlega sigraðan sem stjórnmálamann – þegar hann springur sem slíkur, ekki „springur út“ (hann er búinn að gera það), heldur einfaldlega „springur“, eins og Halldór Bragason myndlýsti svo vel í Fréttablaðinu í vikunni, með því að sýna John Cleese bjóða Sigmundi hina ofurþunnu myntuvöfflu í boði Klausturs – að vísu sýnir myndin hann ekki springa, heldur á augnablikinu áður en það gerist. Eins og í bíómyndinni The Meaning of Life. En nú ætla ég að gerast dramatískur aftur, og lýsa því yfir að í ljóði Rimbauds, um ferðalanginn á grænu kránni, sé að finna hina endanlegu, og absólút, merkingu lífsins. Ég held reyndar að þá merkingu sé helst að finna í kommusetningu Helga hálfa.)

 

Í GRÆNU KRÁNNI

klukkan fimm að kvöldi

(Arthur Rimbaud)

 

Í viku hafði ég hruflað mína skó

á hrjúfu grjóti vegarins, er mig bar

að Grænu kránni. Þar bað ég um brauð, og nóg

af bezta smjöri, og flesk. Ég hvíldi mig þar

 

í góðu skapi, með skankana teygða við borð,

og skoðaði mynd, sem hékk þar litrík og gljáð

á vegg, – þegar stúlkan, ó! nú skortir mig orð!

með ofsa-brjóst og fjörmikið augnaráð,

 

– sú hláturmilda, sem ekki er alltof feimin

við einn koss! – var þar komin, með brauð og smér,

og rósóttan disk með fleski, og færði mér,

 

já, flesk, rósrautt og hvítt, með ljúffengan eiminn

af lauk! – og hellti unz feikna krús var full

af freyðandi bjór sem skein í kvöldsól sem gull.