15. desember 2015

Það gerist að jólastemmningin kemur of fljótt. Áður fyrr nægði mér oft að bíta í rautt epli snemma í nóvember til að ganga of fljótt á þessa stemmningu sem með réttu ætti að ná hámarki í lok desember, en náði stundum – þá er ég hafði bitið í eplið of snemma – að klárast um miðjan desember. Núna á seinni árum, þegar ég hef ferðast meira um landið en áður fyrr, hafa heimsóknir í Jólagarðinn í nágrenni Akureyrar, í júní eða júlí, gegnt sama hlutverki og ótímabæra eplið. En það þarf samt ekki að vera eitthvað neikvætt. Það er vel þess virði að fara í Jólagarðinn á miðju sumri, því í raun eru þau innlit einhver skrítnasta, jafnvel kynlegasta, reynsla sem maður verður fyrir. Eitthvað virkilega unheimlich. Í jákvæðum skilningi, og uppbyggilegum. Það er reyndar mjög vel við hæfi að grípa til þýsks orðs í þessu sambandi, því flestar jólavörurnar í Jólagarðinum virðast koma frá Þýskalandi. Og talandi um eitthvað þýskt – og gott. Fyrir hver jól verður mér hugsað til hinnar stórkostlegu smásögu Heinrichs Böll um ömmuna á eftirstríðsárunum í Þýskalandi; þá sem hélt allri fjölskyldunni í heljargreipum jólahalds allan ársins hring; sem í lok hátíðarinnar tók að æpa í mótmælaskyni þegar taka átti tréð í stofunni niður, og skreytingarnar, og fékk því framgengt næstu árin að jólahaldið héldi áfram, að aldrei yrði dauður punktur í gleðinni. Það er auðvitað við hæfi að rifja upp þessa mögnuðu sögu núna, þegar ekki eru nema níu dagar til jóla. En nú að jólatónlistinni. Og ekki-jólatónlistinni. Það er nefnilega kominn tími til að hafa einhverja tónlist hérna. Og ég held það hljóti að vera gott ráð (ef ekki beinlínis í anda þeirra ráða sem Óskar Árni Óskarsson hefur verið að gefa okkur í bókum sínum) að taka inn sem mest af annarri tónlist en jólatónlist áður en tími hennar, jólatónlistarinnar, brestur á af fullum þunga. Og þá er Anton Webern nákvæmlega það sem hentar: a good choice, eins og sagt er á ensku. Það er engu líkara en Glenn Gould sé staddur á himnum þegar hann spilar þetta; að hann hafi tekið með sér píanóið.

5. desember 2015

Ég var um daginn spurður af manneskju sem ég hitti í ónefndri verslun: „Hver er þessi Svanur sem nefndur er í nýrri skáldsögu þinni, Sögumanni; ljóðskáldið sem varð manni að bana inni á veitingastaðnum Caruso? Mér fannst eins og ég hefði einhvern tíma áður heyrt eða lesið um þann mann.“ Jú, það getur verið, svaraði ég, og langaði til að bæta við þau orð að hann (sá sem spurði) væri góður (í merkingunni glöggur) að muna eftir Svani – Svani Bergmundssyni – en ég lét það ógert; ég svaraði einungis: „Jú, það getur verið.“ Og átti við að vel væri hugsanlegt að hann, þessi lesandi Sögumanns, hefði einhvern tíma heyrt eða lesið um umræddan mann. Og ég sagði honum frá því sem ég sjálfur mundi um ljóðskáldið Svan, og því sem gerðist fyrir þann mann, ekki bara inni á Caruso (þegar Caruso var enn í Bankastræti, ekki fluttur í Austurstræti), heldur einnig frá aðdraganda óhappsins og eftirmála. Nú nenni ég varla að fara að rifja þetta allt upp hér, enn eina ferðina; ég læt nægja að benda á frásögnina af Svani og ljósmyndaranum (þeim sem Svanur drap); hana er að finna í bókinni Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, í kafla 31. En kannski er ástæða til að taka fram að uppnámið í titli bókarinnar vísar ekki til þess sem gerðist inni á Caruso.

3. desember 2015

Jafnvel þótt Guð væri til, þá væri nauðsynlegt að eyða honum. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna, en þessi orð rússneska stjórnleysingjans Bakúníns (hvort sem þau eru rétt höfð eftir eða ekki, og svo sönn sem þau eru) fá mig í augnablikinu til að hugsa um þá staðreynd að í Fuglum Hitchcocks er engin tónlist.

2. desember 2015

Nýjasta bók Michels Houellebecq er alveg milljón, finnst mér. Ég veit þó ekki hvort það tákni að hún sé góð, ég þori ekki að kveða upp úr um það; það eru í henni nokkrar senur sem eru beinlínis vondar. Það sem helst kætti mig við lesturinn, fyrir utan hina „lágstemmdu“ kenningu, eða spádóm, um valdatöku Múslímska bræðralagsins í Frakklandi, var hinn undirliggjandi þráður um rithöfundinn Joris-Karl Huysmans sem Houellebecq spinnur í undirlag sögunnar. François, sögumaður Houellebecqs, er sérfræðingur í verkum hins belgíska Frakka, sem undir lok nítjándu aldar skrifaði bók sem kölluð hefur verið „tíðabók dekadentismans“, og aðra um satanisma, en snerist síðan til kaþólsku, ekki síst fyrir áhrif frá þessum dimmu hugðarefnum sínum, til að fjarlægja sig frá þeim. Sögumanni Houellebecqs, François, verður stöðugt hugsað til hins löngu liðna rithöfundar og þess sem sá maður stóð fyrir (eða stendur fyrir í nútímanum); Huysmans líkt og andar í gegnum hann, ekki síst þegar François veltir fyrir sér spurningum varðandi konur, kynlíf og trúmál. Sumar af þeim vangaveltum eru ískrandi fyndnar og beittar. Ullabjakkur, eins og ég veit að Houellebecq er kallaður á virðulegum bókmenntaheimilum,  hefur í gegnum tíðina verið fremur örlátur á sína eigin mynd gagnvart ljósmyndurum, og það er ekki leiðinlegt að hafa þá mynd í huga þegar maður les þessa bók; hingað til hefur ásjóna Houellebecqs alltaf minnt mig á Baudelaire, þótt ef til vill séu þeir ekki beinlínis líkir – það er frekar að maður tengi þá saman andlega – en ég er ekki frá því að í Houellebecq sé líka svolítill Huysmans; ekki í útlínum, en í karakternum: hið fágaða mannhatur og fallega lífsþreyta sem einkennir þessa þrjá menn lætur þá einhvern veginn renna saman í eina mynd. Bókmenntafræðingurinn François er nokkuð örugglega að hluta til byggður á höfundi sínum, maður finnur mjög sterkt fyrir því hversu Houellebecq nýtur þess að gera grín að sjálfum sér; og með það í huga nýtast ljósmyndirnar af honum ekki síður vel sem myndskreyting við texta þessarar bókar. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af síðustu bók Houellebecqs, þótt hugmyndin á bakvið hana væri flott; en hérna, í þessari nýju, finnst mér hann alveg vera að gera sig.  Ég las bókina á ensku, og held ég muni alveg örugglega lesa hana aftur þegar hún kemur í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar snemma á næsta ári. Ef það er þá rétt að hún geri það. Mér var að minnsta kosti sagt það; það var vinurinn sem leit í heimsókn til mín um daginn sem bjó yfir þeim upplýsingum. Hann, vinurinn, ætlaði sjálfur að bíða með að lesa bókina þangað til hún kæmi á íslensku. Ég varð hins vegar svo spenntur, sérstaklega vegna þess að ég hafði lesið um að Huysmans kæmi fyrir í sögunni, að ég fór strax á Gegni, fann út að bókin væri til í Bókhlöðunni á ensku, og hljóp út. Eintakið var meira að segja ólesið. En núna, þegar ég hef minnst á þennan vin minn (sem ég er alveg viss um að er að lesa þetta), heldur hann ábyggilega að ég ætli að fara að tala eitthvað meira um hann; ég var svona hálfpartinn búinn að lofa því í síðasta kafla. En það ætla ég ekki að gera. Ég ætla aftur á móti að grófþýða nokkrar setningar úr bók Houellebecqs (úr ensku þýðingunni); setningar sem kallast svolítið á við senu sem ég dró sjálfur upp fyrir nokkrum dögum á þessum síðum hér: ég var þá staddur við flugvöllinn í Skerjafirði og hafði hitt vin minn E. Í hinum snöruðu setningum er Huysmans-fræðingurinn François að kveðja fyrrum samstarfsmann sinn, eftir að hafa verið í heimsókn hjá honum; sá maður, Rediger, er innfæddur Frakki, var áður kaþólskur en hefur snúist til íslamstrúar og er giftur að minnsta kosti tveimur konum, einni um fertugt, hinni á táningsaldri: Ég þakkaði honum fyrir hrífandi síðdegisstund, sem hafði síðan orðið að hrífandi kvöldstund. Hann sagðist sjálfur hafa virkilega notið stundarinnar – í stuttu máli sagt vorum við í hálfgerðu kurteisiskasti fyrir utan dyrnar hjá honum; en báðir meintum við hvert orð af því sem við sögðum.

1. desember 2015

Snjór yfir öllu. Og það er logn. Á sunnudegi, sem var í fyrradag, geng ég um gamla kirkjugarðinn, og mæti fáum, aðallega köttum, sem þó er bara einn; ég mæti bara einum ketti. Og konu með barn. Þegar konan heilsar mér kemur í ljós að þau eru útlendingar, að minnsta kosti hún, konan. Ég er að hugsa um bókina sem ég les í augnablikinu; það er bók sem einn vinur minn minntist á þegar hann kom í heimsókn síðasta föstudag, og ég var svo heppinn að ná í á bókasafninu – ég á örugglega eftir að minnast á þessa bók aftur, og þá jafnvel í samhengi við vininn sem sagði mér frá henni. En þegar ég geng eftir einum af breiðari stígunum í garðinum, í norðurátt, áttina að Hólatorgi, verður mér litið á háan legstein sem á stendur (og nú breyti ég um nafn, en læt ártölin halda sér): Halldór Sveinsson F. 1863 D. 1947 og kona hans Ég held áfram að horfa á steininn í svolitla stund, en það sem ég les breytist ekkert við að lesa það aftur. Svo horfi ég í kringum mig, og aftur á legsteininn. Snjórinn er ekki bara fallegur, hugsa ég; hann er líka fyndinn.

30. nóvember 2015

Ég hitti E. á stígnum við sjóinn. Við höfðum ekki hist í svolítinn tíma. Ég hélt hann væri farinn að vinna á nýjum veitingastað – E. er kokkur (meðal annars) – en hann sagðist hafa farið aftur á staðinn þar sem hann vann áður, eftir að hafa prófað nýja staðinn í einn eða tvo daga. Það var mjög kalt í veðri, þar sem við stóðum á stígnum, ábyggilega nokkurra stiga frost. Yfir Skerjafirðinum var mikill drungi, himinninn svargrár, og hávaðinn í Fokkernum sem undirbjó flugtak, einhverja þrjátíu metra frá okkur E., gerði ekkert til að verma umhverfið. Ég var sjálfur með tvær húfur á höfðinu, loðhúfu og aðra þynnri undir henni, en E. var húfulaus. Og ég fékk á tilfinninguna að allt sem ég segði við hann hlyti að hljóma mjög kalt í helbláum eyrum hans (sem í raun voru rauð en ekki blá). En þegar við kvöddumst sagði hann mér að honum hefði fundist gaman að hitta mig. Ég þekki E. nógu vel til að vita að hann var ekki að ljúga. Ég var ekki heldur að ljúga þegar ég svaraði honum í sömu mynt, að mér hefði líka fundist gaman, og svo framvegis. Þegar ég hjólaði til baka heim, horfði ég af hjólinu í áttina að Aragötu, og hugsaði enn eina ferðina um hversu gaman væri að búa við þá götu. Og ég hugsaði líka: Viljum við allir, við öll – að minnsta kosti við E. – eitthvað allt annað í lífinu en það sem við höfum nú þegar? Samt heykjumst við á því þegar á hólminn er komið. E. fer að vinna á nýjum stað, en hættir nánast samstundis í því starfi, til að fara á gamla staðinn aftur; ég hjóla framhjá Aragötu, hugsandi um hversu gaman væri að búa þar, en held samt áfram á hjólinu, í burtu frá götunni, eitthvað allt annað – heim til mín.

28. nóvember 2015

Mér datt í hug að athuga hvort orðið stássdrengur hefði verið notað á prenti áður en það birtist í skáldsögunni Sögumaður. Þegar ég fletti því upp á netinu kom í ljós að það hafði verið notað einu sinni áður. Það var í þýðingu á sögu eftir Daphne du Maurier, í Morgunblaðinu 28. ágúst 1966. Þar er minnst á „einhvern stássdreng, klæddan til einhverrar skrúðgöngu“.

27. nóvember 2015

Í nýrri bók Hermanns Stefánssonar, Leiðin út í heim, stendur þetta (skáletrun mín): Palli hrekkur í kút við þá tilhugsun að það kunni að orka harla einmanalegt að standa þarna og mæna á skó. Félagslegt eftirlit segir honum að það sé handan marka hins eðlilega – og þó er ekkert félagslegt eftirlit þarna á ganginum. Ég hrökk ekki síður í kút við að lesa þetta. Ekki vegna þess að mér fyndist ég sjálfur hafa skrifað þessi orð, heldur þvert á móti vegna þess að mér fannst þau vera skrifuð um mig. Þetta ætti reyndar ekki að þurfa að koma mér á óvart, því Hermann er alltaf að skrifa um mig. Leiðin út í heim er óbeint, en líka beint, byggð á bók Jens Sigsgaard, Palli var einn í heiminum. Bókarkápan gefur það sterklega til kynna. (Nú hljóma ég óneitanlega eins og ég sé um það bil að fara að skrifa ritdóm, en það er ég alls ekki að gera; ég er bara að minnast á þessa bók Hermanns af því hún kveikti á mér. Og í mér.) En þarf maður, eða ætti maður, að lesa bók Sigsgaards áður en maður les bók Hermanns? Maður þarf það ekki, en maður ætti kannski að gera það. Rétt eins og maður fer í nærbuxur áður en maður fer í utanyfirbuxurnar. Rétt eins og maður lærir að lesa áður en maður tekur sér bók í hönd. Hm? Ég lét eftir mér að taka fram eintak mitt af Palla á meðan ég las Hermann. Og á meðan ég virti fyrir mér bókarkápurnar tvær hvarflaði að mér að leggjast í einhvers konar samanburð. Ég held að flestir geti fallist á að Palli var einn í heiminum sé einhvers konar hrollvekja. Að vísu með happy ending. Leiðin út í heim er það líka, þótt annarrar tegundar sé. En auðvitað virka hrollvekjur best ef maður er plataður til að hlæja nokkrum sinnum áður en skelfingin ríður yfir. Ég hló sirka tuttugu sinnum á meðan ég las Leiðina út í heim. Af þeim skiptum voru sirka tíu upphátt. En ég ætla ekki að segja of mikið; þessi bók Hermanns segir það allt fyrir mann. Ég ætla bara að fá að vitna smá í viðbót í textann: Hann horfir á handþurrkuhólk á útikamri í almenningsgarðinum. Á honum stendur afskiptasamt boðorð hjálpseminnar: „Dragið hreint fyrir næsta mann.“ Einhver hefur krotað með tússi hið augljósa mótsvar þess andfélagslega til sletturekunnar: „Hann getur gert það sjálfur.“ Hvorugt skiptir máli núna, næsti maður er alltaf Palli sjálfur svo hvort tveggja núllast út. Og bara eitt enn, áður en ég hætti (þetta er orðið allt of langt): Vegasalt: Mannsins merkilegasti leikur. Eins og þeir vita sem hafa lesið Palli var einn í heiminum kemur vegasalt fyrir í sögunni. Sem er auðvitað sorglegt, því Palli hefur engan til að vega salt við. Sjálfur var ég að hugsa um að nota þetta orð, vegasalt, sem titil á bókina sem ég gaf út um daginn – það var einn af nokkrum titlum sem ég mátaði við söguna, í einhverri örvæntingu sem greip mig þegar mér datt í hug að upprunalegi titillinn væri ekki nógu góður – en sem betur fer gerði ég það ekki, því orðið vegasalt á miklu betur heima í Leiðinni út í heim, og hefði misst allan sinn þunga í samanburði við Palla Hermanns, sem eins og Palli Sigsgaards situr öðru megin á vegasaltinu, og engin Stína eða Pési er hinum megin, en spurning hvort Palla sé ekki bara nákvæmlega sama.

26. nóvember 2015

Ekki fyrir alls löngu var eitthvað verið að ræða um það í fjölmiðlum hver væru fallegustu orðin í íslenskri tungu. Ef ég man rétt hlaut orðið ljósmóðir flest atkvæði. Það er alls ekki slæmt orð, en þegar ég leiði hugann að þessu núna finnst mér að orðið popppoki hefði átt að ná inn í umræðuna. Það er þó ekki svo að mér detti í hug þetta orð vegna þess að ég var að hugsa um keppnina um fallegasta orðið, heldur varð orðið sjálft, orðið popppoki, til þess að ég fór að rifja upp keppnina. Fjögur p í átta stafa orði. Og tvö o. Hvernig orðið skoppar á vörunum þegar maður lætur það út úr sér minnir á hljóðið sem fylgir því þegar maís springur í pottinum. Svo er hugsanlegt að í því sé einhver finnskur hljómur líka. Sem aftur leiðir hugann að orðinu ljósmóðir. Í finnsku hefst orðið móðir ekki á stafnum m, eins og í flestum þeim tungumálum sem við þekkjum (mother, madre, mamma, mutter, matka, mom, mère, maman osfrv.), heldur á stafnum ä. Móðir er á finnsku äiti. Nú er ekki víst að orðið ljósmóðir á finnsku sé búið til á sambærilegan hátt og í íslensku, en það væri fróðlegt að vita hvernig það lítur út. Ég ætla að fletta því upp. Ljósmóðir á finnsku er kätilö.

25. nóvember 2015

Fyrir rúmum mánuði kom út skáldsagan Sögumaður hjá Forlaginu. Í henni er sagt frá fótboltaleik milli Englands og Costa Rica í Heimsmeistarakeppninni í Brasilíu í fyrra, og það er alveg rétt það sem sagt var í sjónvarpinu í tengslum við bókina að leikurinn milli Englands og Costa Rica endaði með jafntefli, 0 – 0. Á þeirri markatölu hefjast líka allir leikir. Þegar minnst er á þennan fótboltaleik í sögunni er sagan um það bil hálfnuð.

Umsagnir um Fjarveruna

Úlfhildur Dagsdóttir skrifaði um daginn lofsamlegan dóm um Fjarveruna á bókmenntavef Borgarbókasafnsins, þar sem hún tengir á mjög skemmtilegan hátt þessa nýju skáldsögu Braga öðrum sögum hans, Gæludýrunum, Sendiherranum og Handritinu. Einnig virtist Fjarveran kveikja á ýmsu í huga Kolbrúnar Bergþórsdóttur (K.B.) og Friðriku Benónýs (F.B.) í Kiljunni 19. des. Hér eru nokkur dæmi úr umsögnum þeirra Úlfhildar, Kolbrúnar og Friðriku, auk einnar athugasemdar frá Agli Helgasyni (E.H.):

Úlfhildur Dagsóttir á bokmenntir.is

  • Fjarveran virðist snúast í eilífa hringi um eigið skott (Gæludýrasagan kemur fyrir, aftur og aftur, Est(h)terarnar tvær, endurtekna ónæðið í húsinu) án þess nokkurntíma að setjast niður. Sem slík stendur hún allmikið á skjön við þær tvær bókmenntagreinar sem eru hvað mest áberandi þessi árin, sögulegu skáldsöguna og glæpasöguna.
  • Allt þetta og miklu meira er að finna í hinni umfangsmiklu en látlausu Fjarveru. Að auki er bókin uppfull af undirfurðulegum húmor og kunnuglegum grátbroslegum vandræðagangi eins og þekkja má úr bestu bókum Braga, og Fjarveran kemur sér prýðilega fyrir í þeim áratuga langa gleðskap. (Ú.D.)

Kiljan 19. desember

  • Bragi er sá höfundur sem margir átta sig ekki á. (E.H.)
  • Hann veit hvað hann er að gera, hann kemur manni alltaf á óvart. (K.B.)
  • Óstjórnlega fyndinn höfundur. (K.B.)
  • Mjög vel heppnuð og skemmtileg bók. (K.B.)
  • Þetta er sjálfhverfa kynslóðin í aksjón. Hann vitnar eiginlega eingöngu í eigin verk. (F.B.)
  • Rosalega vel gert. (F.B.)
  • Skemmtilegasta bókin sem ég hef lesið á þessari vertíð. (F.B.)
  • Ég hló bara eins og vitleysingur. (F. B.)
  • Með skemmtilegri bókum. (K.B.)

Hægt er að skoða upptöku af þættinum á ruv.is en umfjöllun um bók Braga hefst á 39:45 mínútu.

Alvöruþrungin ærslasaga

Fjarveran bókakápa

Út er komin hjá Forlaginu skáldsagan Fjarveran. Hún er sjötta skáldsaga Braga Ólafssonar. Aðalpersóna sögunnar er íslenskufræðingurinn og prófarkalesarinn Ármann Valur Ármannsson, en hugsanlegt er að lesendur skáldsagna Braga muni eftir þeim manni úr tveimur öðrum sögum hans, Sendiherranum og Gæludýrunum.

Ármann Valur Ármannsson er íslenskufræðingur og prófarkalesari. Lengst af hefur hann fengist við að lesa yfir texta eftir aðra, en núna, þegar hann er kominn á sjötugsaldur, hefur hvarflað að honum að ef til vill ætti hann að einbeita sér meira að eigin skrifum. Það eina sem hefur birst eftir hann opinberlega hingað til er 218 orða texti sem vinur hans, tónskáldið Markús Geirharður, setti við músík sem hann samdi fyrir rödd, strengi og útvarpshljóðbylgjur. Verkið var gefið út á hljómplötu en náði ekki mikilli útbreiðslu, enda mjög framsækið verk og sérstakt. Textinn hefur einnig þá sérstöðu að hugsanlega – reyndar mjög líklega – felast í honum mikilvægar upplýsingar sem varða óupplýst mannshvarf, sem vill svo til að er frægasta mál íslenskrar sakamálasögu, Geirfinnsmálið. Textann samdi Ármann eftir að hann hleraði samtal tveggja manna á veitingastaðnum Klúbbnum í nóvember 1974, tveimur dögum áður en Geirfinnur hvarf. Fyrir utan þá Ármann og Markús veit hins vegar enginn neitt um raunverulega merkingu textans, ekki einu sinni söngvarinn sem flutti hann á plötunni. En mikilvægar upplýsingar eru ekki lengur spennandi þegar þær eru komnar upp á yfirborðið. Og hver þekkir mikilvægi spennunnar betur en prófarkalesarinn?

Kaupa bókina á vef Forlagsins

The Absence: A new novel

Fjarveran bókakápa
The Absence (Fjarveran)

Ármann Valur Ármannsson is an Icelandic scholar and proof-reader. Most of his life he has read texts by other people but now, when he’s into his sixties, he has started to wonder if he should maybe focus on his own writing. The only published work by him is a 218 word text that his friend, the composer Markús Geirharður, set to music he wrote for a voice, strings, and radio waves. The work was published on a record but was not widely know, as it was a very progressive and unusual work of art. The text is also remarkable for the fact that possibly – in fact it is very likely – there is important information regarding an unsolved mystery with a disappearance, which happens to be the most famous case in Icelandic criminal history, the Case of Geirfinnur. Ármann wrote the text after eaves-dropping in on a conversation between two men in the restaurant/discotheque Klúbburinn in November 1974, two days before Geirfinnur disappeared. No-one aside from Ármann and Markús knows anything about the real meaning of the text, not even the singer who performed it on the recording. But important information is no longer exciting when it is out in the open. And who better to judge the importance of suspense than the proof-reader?

Ný ljóðabók

Rómantískt andrúmsloft er ný ljóðabók eftir Braga Ólafsson. Í henni eru 31 ljóð, flest ort á síðustu tveimur árum. Fríða Björk Ingvarsdóttir fjallaði um bókina í Víðsjá á Rás 1 og var mjög hrifin. Úlfhildur Dagsdóttir birti einnig dóm um bókina á bokmenntir.is.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Baldur A. Kristinsson, gaf bókinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Þar segir m.a.: „Sem fyrr segir eru feilsporin fá í Rómantísku andrúmslofti, og sum ljóðanna eru hrein snilld. Hér má finna sömu lágstemmdu kímni og sömu óvenjulegu sjónarhorn og lesendur þekkja úr fyrri ljóðabókum Braga. Þó er ekki laust við að heildartónninn sé ögn alvarlegri og djúphugulli en áður.”

Hér er fyrsta ljóð bókarinnar, Kínverska sendinefndin:

Kínverska sendinefndin

Við tjörnina í Reykjavík
vex fífill. Og við hlið þessa fífils
vex annar – þetta er rétt hjá styttunni
af ljóðskáldinu á bekknum.

Stutta stund
er eins og myndin af fíflunum
og styttunni og bekknum
sé mannlaus, ef frá er talið skáldið

sem einu sinni var styttan,
og stöku bíll á tjarnarbrúnni
með manneskju innanborðs.
En þá taka að heyrast úr fjarskanum

skóhljóð á stétt, og það er ekki
eins og einhver ein manneskja
sé þar á ferð heldur fleiri:
þær eru tvær; þær eru þrjár,

þær eru fjórar, ef ekki fimm:
mitt óþroskaða ímyndunarafl
ræður ekki við þann fjölda
sem þau fela í sér, skóhljóðin.

Bókina má kaupa á vef Forlagsins.

Ritdómar

Frétt uppfærð 17. júní 2012