27. október 2017

„Starfandi forsætisráðherra talar um að það sé raunveruleg hætta á vinstristjórn. Veistu hvað hann á við með því?“

„Hann á við að á Íslandi geti myndast óeðlilegt ástand.“

„Og það viljum við ekki.“

„Ekki hann heldur. Þess vegna er hann að vara við þessu.“

„En má hann það? Svona rétt fyrir kosningar?“

„Ég veit það ekki. Ég er reyndar búinn að kjósa sjálfur, og mig grunar að mitt atkvæði hafi ekki verið mjög heppilegt.“

„Sem sagt óheppilegt?“

„Líklega óeðlilegt. Ég varð bara svo hræddur um daginn – ég býst við að það hafi eitthvað ruglað mig í kollinum.“

„Hvað meinarðu? Hræddur? Léstu einhverja hræðslu ráða því hvað þú kaust í kjörklefanum? Greip um sig einhver ótti vegna þess að þú varst staddur í Smáralind?“

„Smáralind hefur hugsanlega haft einhver áhrif, en það sat ennþá í mér hræðslan frá því um daginn þegar ég horfði á bíómyndina Butch Cassidy and the Sundance Kid í Ríkissjónvarpinu. Um þessa tvo myndarlegu menn sem rændu hverja lestina á fætur annarri, og banka líka, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eins og það væri alveg fullkomlega eðlilegt. Og það var ekki bara þeim sem fannst það eðlilegt; þeim sem voru rændir fannst það eðlilegt líka. Meira að segja vinkonu þeirra (sem var kærasta annars þeirra, en eiginlega kærasta þeirra beggja) fannst það líka eðlilegt.“

„Ansi klókt hjá Ríkissjónvarpinu að sýna svona mynd rétt fyrir kosningar! En þeir voru samt drepnir í lokin, var það ekki, ræningjarnir?“

„Jú. Það var samt aldrei sýnt þegar þeir voru drepnir, þannig að kannski eru þeir bara ennþá á lífi.“

„En af hverju varðstu hræddur?“

„Ég veit það ekki. Mér leið bara eins og hjónunum í leikriti Arthurs Miller, A Delicate Balance, sem urðu allt í einu svo óskaplega hrædd, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna.“

„Þetta lagast. Það verður komið eðlilegt ástand – aftur – eftir helgina. Þjóðin ætlar ekki að fara að leyfa einhverjum að hækka skatta á fólkið í landinu. Á þjóðina sjálfa. Hún mun ekki leyfa það.“

„Þjóðin?“

„Hún vill stöðugleika. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér – í algeru leyfisleysi – að birta hérna ljóð úr nýútkominni bók með þýðingum Gyrðis Elíassonar á ljóðum Ko Un, Sorginni í fyrstu persónu. Og taka það út fyrir svigann.“

„Þú átt við: út fyrir gæsalappirnar?“

„Alveg rétt.“

 

FUGLAHRÆÐAN

Á haustakrinum lítur fuglahræðan út einsog gestur.

Á vetrarakrinum lítur fuglahræðan út einsog betlari.

En ekkert er fjær sanni.

Þegar þú telur þorpsbúana, einn, tveir …

verðurðu líka að telja fuglahræðuna með.

26. október 2017 (aukafærsla)

„Þegar ég nefndi orðið krossmark fannst mér það hljóma eins og titill á skáldsögu.“

„Það er titill á skáldsögu.“

„Það á bara eftir að skrifa hana.“

„Ég fletti upp krossmarki á Vísindavefnum. Ég man ekki eftir að hafa gert krossmark yfir mínum húsdýrum áður en ég hef sleppt þeim á beit, en svona lítur þetta út.“

Af hverju signir maður sig?

Krossmarkið er eitt helgasta tákn kristninnar. Menn báru og bera enn kross í keðju um hálsinn, hafa krossa uppi á vegg eða yfir dyrum og svo framvegis. Áður fyrr gerðu menn krossmark yfir öllu sem þeir vildu biðja fyrir eða blessa. Til dæmis gerði fólk krossmark yfir húsdýrum sínum áður en þeim var sleppt á beit. Þá gerðu menn krossmark yfir börnum sínum og sjálfum sér. Var það bæði hugsað til að bægja frá öllu illu og til að helga sig Guði. Margir signa sig áður en þeir fara í hrein föt eftir að hafa verið í baði. Það er meðal annars gert til að minna á skírnina sem er nokkurs konar bað.

26. október 2017

„Leiðin liggur í Smáralind í dag.“

„Vegna þess að á morgun liggur hún út á land.“

„Allan gærdaginn stórsá ég eftir að hafa ekki haft músík í gær – mér finnst ég verða að nefna það.“

„Og þess vegna hlýt ég að bæta mér það upp í dag.“

„Ég ætla samt ekki að leita langt yfir skammt. Ég ætla að fletta upp í vinnugögnum.“

„Cría cuervos hlýtur að vera með betri bíómyndum.“

„Og ekki hægt að ímynda sér hana með annarri tónlist en þar hljómar.“

„Fyrst Mompou.“

„Og síðan Jeanette.“

„Hvenær ferðu í Smáralind?“

„Þegar ég hef ákveðið hvar ég set krossinn.“

„Krossmarkið?“

„Nákvæmlega.“

„Einmitt.“

„Nú finnst mér eins og ég sé að vitna í Guðmund Haraldsson þegar ég segi einmitt.“

„Algerlega.“

25. október 2017

„Eitthvað rámar mig í að í einum „kaflanna“ hafi verið kosningaspá fyrir 28. október næstkomandi? Og nú er sá dagur í minni fjarlægð en himinninn frá jörðu í skáldsögum íslenskra raunsæishöfunda. Og engin ný spá, nema þær sem birtast reglulega í einhverjum fölsuðum (íslenskum) fjölmiðlum.“

„Það er rétt. Það er kominn tími á nýja spá. Hvað eru flokkarnir margir?“

„Sem munu komast inn á þing?“

„Já, eða …“

„Sjö.“

„Ókei. Þá skiptast atkvæðin sem hér segir: Flokkur fólksins 6%, Framsóknarflokkur (100 ára) 9%, Miðflokkur 8%. Hvað eru þetta mörg prósent?“

„23%. Og komnir þrír flokkar.“

„Allright. Samfylking 16%, Vinstri græn 19%, Viðreisn 6%, Sjálfstæðisflokkur (Brynjars Níelssonar og Vilhjálms Bjarnasonar) 26%. Píratar 9%.“

Þögn.

„Þá er 1 prósent eftir.“

„Það skiptist á milli Alþýðufylkingar og Bjartrar framtíðar. BF fær 0,9 og Alþ.f. 0,1.“

„En þetta eru 9 flokkar.“

„Sjö þeirra komast inn á þing. En gerðu það … getum við ekki haft hvíldardag í dag? Bara ein spurning. Heldurðu ekki að það sé pláss fyrir Þjóðkirkjuna í húsnæði Valhalla við Háaleitisbraut?“

„Hvað áttu við? Er þetta nú ekki svolítið brött spurning?“

„Jú. En mér er sagt að í húsinu við Háaleitisbraut 1 séu svo margar tannlæknastofur að í landinu (á Íslandi) séu ekki nógu margir tannlæknar til að fylla þær stofur. Væri ekki hugmynd að koma Þjóðkirkjunni fyrir í öllu þessu húsnæði – með því að senda tannlæknana eitthvað annað?“

„Geir Waage líka?“

„Geir Waage er ekki tannlæknir.“

„Ég átti við hvort ekki væri hægt að koma allri Þjóðkirkjunni fyrir í Valhalla-húsnæðinu.“

„Geir Waage líka?“

„Bara allri kirkjunni. Jónas Kristjánsson er búinn að segja sig úr henni – tvisvar.“

„En þú?“

„Bara einu sinni.“

Aftur þögn.

„Við keyrðum í Mosfellsdal í gærkvöldi, við …“

„Kom Ó með?“

„Já. Við fórum að heimsækja J og R. Þau eru í heimsókn frá Danmörku, og búa í sumarbústað þaðan sem útsýni er til Mosfellskirkju. Það var varla að það væri nógu mikið bensín á bílnum. Við þurftum að taka „neyðarbensín“ á Enn einum. Það voru þung „skref“.“

„En hvað? Af hverju ertu að rifja þetta upp?“

„Vegna þess að þegar við stóðum við leiði Halldórs Laxness – við fórum að skoða það; ég hafði aldrei komið áður – þá var himinninn svo nálægur að það brakaði í kirkjuspírunni. Svo sást til borgarinnar – hún logaði í frumaftansólinni.“

Frumaftan …? En ætlaðir þú ekki að segja frá einhverjum bókum?“

„Jú. En þegar við stóðum þarna í Mosfellskirkjugarði í gær, þá fór Ó að tala um Innansveitarkróniku, og sú (ólesna) bók greip hug minn allan, og ég fór að hugsa um hana ólesna. Samt hafði ég bætt við bókabunkann sem ég ætlaði mér að tala um. Ég var meira að segja búinn að finna línurnar í Henderson the Rain King sem kveiktu á „báðum hliðum“ Joni Mitchell í flugvélinni – ég hafði ætlað að segja frá þeim. Það er skemmtileg saga. En þetta verður allt að bíða. Ég fékk meira að segja Kalak eftir Kim Leine í gær; hann J gaf mér hana.“

Þögn.

„Engin músík?“

„Nei.“

24. október 2017 (aukafærsla)

„Halló?“

„Sæll.“

„Eru þeir farnir?“

„Hverjir?“

„Þessir sem voru hérna áðan.“

„Áttu við draugana hérna áðan?“

„Draugana?“

„Þetta voru andar liðinna tíma – hafðu ekki áhyggjur. Hugsaðu bara um Scrooge. Og hættu síðan að hugsa um hann. Ef þeir koma aftur, þá er bara að skvetta á þá óvígðu vatni.“

„Óvígðu?“

„Vígt vatn hefur enga virkni á svona aðila.“

„Þannig að við notum bara blátt vatn?“

„Absolutely. Blátt vatn er það eina sem dugar.“

„Á svona aðila?“

„Já. Á svona aðila, eins og þú kallar þá réttilega. Þetta voru heldur betur aðilar. Ég hef ekki heyrt í svona miklum aðilum áður. Ég held þeir hljóti að vera félagar í einhverjum aðilasamtökum.“

„En verður ekki að hreinsa loftið?“

„Jú. Smá músík?“

„En ætluðum við ekki tala um einhverjar bækur?“

„Það verður að bíða. Setjum smá Antonín á fóninn.“

„Dorsjak?“

„Ef eitthvað hljómar rétt á svona fallegum þriðjudegi, fjórum dögum fyrir kosningar, þá er það Terzetto fyrir tvær fiðlur og lágfiðlu.“

„Láttu það koma. Láttu það koma. (Ég finn strax hvernig loftið einhvern veginn hreinsast af hinum staðna og fúla anda fortíðarinnar …)“

„Já, já. Ekki meira um það. Let´s rock.“

24. október 2017

„Sæl veriði.“

„Hvað áttu við – sæl veriði …? Erum við ekki bara tveir hérna?“

„Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hjá mér hér á eftir.“

Á eftir? Hvað áttu við? Erum við ekki bara að tala hérna saman?“

„Við vissum ekki þegar þetta var ákveðið fyrir helgi að að hann yrði hér í dag, að hamfarirnar yrðu í pólitíska heiminum þegar Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media á málefni er varðar forsætisráðherrann sjálfan. Í minni bók þá er Stundin, og þeir sem að þessu standa, þessum níðskrifum um Bjarna Benediktsson og hans fjölskyldu alla, svona götustrákar sem eru með skírteini frá Blaðamannafélagi Íslands og ég skammast mín fyrir að vera í sama félagi og þessir, að því er ég kalla, pörupiltar.“

„Veistu … að nú skil ég ekki alveg.“

 Ekki það? Ekki misskilja mig, ef það væri eitthvað, einhvers staðar einhver ofboðslegur leyndardómur, einhver svik, einhver spillin, eitthvað það sem snertir gjörðir Bjarna Benediktssonar þá myndi ég fyrstur standa að því að hann yrði gerður ábyrgur fyrir slíku. Málið er bara það að þetta fólk er búið að ráðast látlaust að persónu Bjarna Benediktssonar frá því hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins, má í raun og veru segja. Ég er allur fyrir málfrelsi og tjáningarfrelsi og ritfrelsi og ég veit ekki, allt það frelsi sem er, nákvæmlega eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er að velta fyrir mér, eins og til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem Trump forseti, Donald Trump, sennilega aldrei í bandarískri sögu hefur verið gerð jafn hörð atlaga að einum mann eins og þessum forseta. Og hann stofnar alveg sjálfur til þeirra illinda sem hann vill gera. En þegar allt þetta tal um málfrelsi, tjáningarfrelsi og standa vörð um ritfrelsi og allt þetta sem við blaðamenn og við sem störfum við fjölmiðla og að miðla upplýsingum til almennings stöndum fyrir, ég velti fyrir mér hvenær hættir þetta að vera tjáningarfrelsi? Hvar liggur línan á milli prentfrelsis og tjáningarfrelsis og ritfrelsis og málfrelsis og alls annars, hvar liggur línan á milli þessa og rógs? Illvilja rógs, uppspuna og svona Gróa á Leiti vinnubrögð. Hvar eru þessi mörk?“

„Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að spyrja að því …“

 „Ég fór að hugsa um það þegar ég horfði á þessa tvo pörupilta í beinni útsendingu frá gömlu fréttastofunni minni, RÚV, sjónvarpsins, að þeir, þar sem þeir stóðu þarna, verjendur lekinna eða stolinna gagna. Sennilega með gögn og upplýsingar um bankaviðskipti þúsunda einstaklinga, þúsunda Íslendinga, ég meðal annars og aðrir, sem við teljum að sé verndað af bankaleynd. En þarna stóðu þessir pörupiltar og eins og fréttamaðurinn á RÚV í beinni útsendingu, í beinni útsendingu. Eins og Bogi segir; takk fyrir að koma hérna í myndverið í beina útsendingu. Mikið mál greinilega að vera í beinni útsendingu en þarna var, að mínum dómi, verið að afhenda þessum pörupiltum jólagjafir með því að setja þetta lögbann á og sennilega hefur ekkert komið sér, eða valdið Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum jafn miklum erfiðleikum, ergilegheitum og öðru slíku, eins og það að þessi flokkur stendur fyrir frelsi fólks til athafna, tjáningarfrelsis og frelsi fjölmiðla, að það hafi verið sett lögbann á. En Bjarni Benediktsson hefur ekkert að fela. Nákvæmlega ekkert að fela. Ef hann hefði eitthvað að fela, væri eitthvað í pokahorninu sem ekki passaði, þá væri hann löngu farinn.“

„Farinn hvert …?“

 „Svo núna, þá er verið að setja upp skilti. Vinstra hyskið á Íslandi er að setja upp skilti, til dæmis í Hlíðunum, þar sem segir eitthvað á þá leið að Engeyjarættin séu bófar. Við erum að breytast í eitthvað skítaþjóðfélag.“

„Áttu þá við … við Íslendingar?“

„Ég var í ræktinni í hádeginu, sem er nú ekki frásögufærandi …“

„Það gerist nú ekki oft.“

„Nei. Svo fara menn í gufuna og menn eru í heita pottinum. Þetta eru svona, þetta eru mikið þínir menn. Menn sem reka sín eigin fyrirtæki og eru að reka fyrirtæki og menn sem eru kannski að borga tryggingagjald og eru ekkert ofboðslega glaðir með það. En það var mikið talað um þetta Stundarmál og þegar menn fréttu það að þú yrðir hjá mér í kvöld þá sögðu þeir; Ingvi, þú verður að taka þetta!“

„Já, þú meinar …“

„Ég segi; já bíddu, taka hvað? Já, þú verður bara að spyrja hann um þetta. Já, ókei, ég skal spyrja hann út í þetta, en ef þetta er ekki neitt? Dettur ykkur til hugar að ef það væri eitthvað gruggugt, að Bjarni Benediktsson væri að biðja um lögbann á Stundina?“

„Já, nei ég reyndar …“

„Það hlýtur að, á einhverjum punkti, þá hlýtur þetta að fara í pirrurnar á þér?“

Ég er nú feginn að fá tækifæri til að tjá mig aðeins um þetta. Mig langar að byrja á því að segja að frá því að ég gaf kost á mér til forystu í stjórnmálum þá hefur reglulega verið skrifað um þau ár sem ég var í viðskiptum. Og það hafa oft verið notuð gögn sem greinilega voru ekki vel fengin. Ég hef ávallt svarað því sem mér hefur fundist að þyrfti að bregðast við. Ég hef líka látið yfir mig ganga umræðu um persónuleg málefni sem eiga nákvæmlega ekkert erindi í opinbera umræðu og varða með engum hætti almannahagsmuni. Ég hef líka tjáð mig um þessi nýjustu gögn sem menn eru núna að tala um og það hafa verið birtar tugir frétta um þau mál. Ég talaði við flesta fjölmiðla um þau mál og gefið út yfirlýsingu út af því. Aldrei á nokkrum tímapunkti hef ég reynt að stöðva fjölmiðlaumfjöllun, hvorki sem varðar þessi ár sem ég var í viðskiptum, persónuleg mál um mig eða annað. Ég bað ekki um þetta lögbann. Þetta lögbann er í raun og veru að koma sér mjög illa fyrir mig. Ég get ekki talað fyrir alla þá sem mér sýnist að Glitnir sé að reyna að vernda. Glitnir, sem er skelin af gamla bankanum í eigu kröfuhafa, stígur hér inn í atburðarás á mjög óheppilegum tíma. Það er eiginlega algjörlega út í hött að menn tali þannig að það sé til þess að hjálpa mér, eða vernda mig. Í fyrsta lagi hefðu menn þá átt að, ef það hefur verið hugsunin, þá hefðu menn nú átt að hreyfa sig eitthvað fyrr, ekki satt? Áður heldur en að allir þessir tugir frétta birtust. En síðan er bara hitt að ég vil vera að tala um allt aðra hluti núna í aðdraganda kosninga heldur en lögbann á fjölmiðla. Ég hef bara enga hagsmuni af því að þetta mál sé svona.“

„Menn spurðu líka, Bjarni …“

„Þetta er beinlínis að koma mér illa að þetta komi á þessum tímapunkti.“

En þeir spurðu líka; hvað hefur Bjarni Ben gert þessum feðgum sem gerir það að verkum að þeir virðast í öllum sínum vinnubrögðum? Með mann sem heitir Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem hefur verið aðalverkfærið eða böðullinn, með blaðamannaskírteinið, til þess að taka á þessu. Og menn velta fyrir sér; hefur einhver ykkar gert þeim eitthvað þannig þetta fólk telur sig eiga ofboðslegra harma að hefna?“

„Sko, hérna, veistu, ég er ekkert að velta því fyrir mér. Það sem ég horfi á er þetta; þegar maður er í þeirri stöðu sem ég er í þá verða menn að sætta sig við að umfjöllun um þá, fjölmiðlaumræða, jafnvel fréttaflutningur, er óvægnari heldur en almennt gerist með fólk. Ég legg upp með því að verja rétt fjölmiðla til þess að flytja fréttir. Ég vil standa vörð um tjáningarfrelsið. Við höfum sem flokkur staðið fyrir fjölmiðlafrelsi í þessu landi, til dæmis börðumst fyrir frjálsu útvarpi á sínum tíma, og það finnst mér vera miklu göfugri baráttumál heldur en það að reyna að verja mig og mína persónu, þegar ég hef sjálfur tekið ákvörðun um að stíga út í  …“

„Fenið!“

 Ja, ég ætlaði að segja opinbera umræðu eða bara inn á vettvang stjórnmálanna. Þess vegna hef ég aldrei haft tilburði uppi til þess að stöðva umræðu um þessi mál. Þetta er bara hluti af því að vera í stjórnmálum í dag. Þetta getur verið mjög óvægið, já. Stundum mjög persónulegt. Mér hefur fundist margt sem hefur verið skrifað í þessum tiltekna fjölmiðli vera bara hreinar dylgjur, menn geri í því að vera með hálfsannleik, menn skjóti undan upplýsingum sem gefi betri heildaryfirsýn yfir stöðu mála og svo framvegis. En jafnvel þótt menn gefi út slíkan fjölmiðil þá vil ég vernda rétt manna til þess að gera það, og vera til, vegna þess að það er alltaf betra fyrir lýðræðisþróun í landinu, heldur en hitt að þykjast geta setið í dómarasæti og sagt; já þessir eru ágætir, þeir mega tala, þessir eru ekki nægilega góðir, þeir geta ekki haldið áfram að skrifa.“

„Á hvaða punkti Bjarni, þú ert löglærður maður, með framhaldsnám bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, Þýskalandi og í Suður-Flórída, þar sem ég þekki nú dálítið til. Mín spurning er sú; á hvaða tíma hættir tjáningarfrelsið að vera frelsi til tjáningar og hvenær hættir málfrelsið að vera frelsi til að tala og breytist í róg og níð? Ég meina rógur og níður Bjarni, eru út af fyrir sig, hvað eigum við að segja, einhvers konar afbrot. Þú brýtur gegn, rógur rógar, og sá sem er með róg og aðdróttanir svo heldurðu áfram með lygina svo lengi að þú ferð að trúa henni. Á hvaða punkti segja menn, bíddu, ahh. Af hverju kemur svo, nú Þórólfur Halldórsson sýslumaður, hann er þá náttúrlega tengdur inn í Sjálfstæðisflokkinn, sé Bjarnamaður þú veist, og þetta sé allt gert í …“

„Já, já, það er náttúrlega allt gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Ég hef ekki verið með nokkrum hætti aðili að þessari lögbannskröfu eða ákvörðun um hvernig það mál fór. Ég ætla bara …“

„Hvenær breytist þetta í róg Bjarni?“

„Já, ég ætla bara að segja við þig þetta; reglan sem þarf að fylgja í þessu er að frelsinu fylgir ábyrgð. Fjölmiðlafrelsinu, tjáningarfrelsinu, fylgir ábyrgð. Að menn þurfi þá líka að sæta því, ef á það er látið reyna, að menn séu dregnir til ábyrgðar fyrir það sem ekki stenst skoðun eða veldur öðrum tjóni. Og þarna erum við líka að tala aftur um það sem ég var að nefna áðan að þegar maður gefur sig í opinber störf þá þarf maður að sætta sig við að það er hægt að ganga nær manni heldur en á við um allan almenning og stundum finnst manni það ekkert sérstaklega sanngjarnt. En ef maður fellir sig ekki við það þá verður maður að fara að finna sér eitthvað annað að gera. Ég hef bara einfaldlega tekið því, ég hef ávallt brugðist við því sem mér hefur fundist að þyrfti að skýra. Ég gerði það bara nýlega, núna þegar menn eru að tala um Sjóð 9. Ég nefni sem dæmi að menn eru með hálfsannleik og koma ekki með alla myndina, mér fannst algjört hneyksli að fjölmiðlar sem fjölluðu um það mál segðu ekki bara strax frá því að Sjóði 9 var lokað á mánudegi og þriðjudegi, svo féll sjóðurinn um sjö prósent á miðvikudegi og ég sel á fimmtudegi eftir að hafa tekið á mig það högg. Auðvitað hlaut það að vera hluti af fréttaflutningi um þetta mál ef menn vildu tala um það sem hefði verið að gerast í þessari tilteknu viku. En ég þurfti að hafa fyrir því að koma því á framfæri, almennt var ekki sagt frá því. Þetta fannst mér ekki sanngjörn málsmeðferð, eða sanngjarn fréttaflutningur, ef menn ætluðu af einhverri sanngirni og yfirvegun að setja sérstakt kastljós á það hvað var að gerast þessa tilteknu viku og hvaða ákvarðanir ég hafði tekið. En þessu svaraði ég bara, gott og vel, maður þarf stundum að taka daga í það og mér finnst vont núna í aðdraganda kosninga að þurfa að vera að eyða tíma í þetta mál. Það er ekkert nýtt í þessum gögnum, það er ekkert sem stenst ekki skoðun. Öll þessi mál, öll þessi skjöl sem ég hef séð að hafa verið birt, nú veit ég ekki nákvæmlega hvað menn eru með undir höndum, en allt sem ég hef séð hefur greinilega komið til skoðunar, til dæmis hjá slitanefnd Glitnis, og hefur aldrei gefið tilefni til einhvers málareksturs eða riftanamála eða neins slíks. Ekkert af öllum þessum málum sem þessir menn hafa verið að birta er þess eðlis að það standist ekki skoðun. Menn geta síðan alveg sagt; er ekki óeðlilegt að menn séu á sama tíma í viðskiptum og þeir eru inni á þingi? Og ég hef svarað því fyrir löngu, löngu, löngu síðan með því að stíga alfarið út úr viðskiptum, jú ég er sammála því.“

„En hvað með, Bjarni, hvað með, þú ert kominn með skráp. Þú ert töffari, ég meina þú ferð ekkert úr jafnvægi þó að einhverjir götustrákar séu að atast í þér.“

Tónlist (eða auglýsingar – ekki gott að segja hvort er).

„En þú átt eiginkonu, þú átt börn og alveg frá Línu litlu, sem er hvað, fimm, sex ára og upp í fullorðið fólk. Þetta reynir á. Ég meina, ég veit ekki, verða krakkarnir yfir einelti í skólum? Verður þú var við það að þetta sé að, þú veist, hvað eigum við að segja, raska ró konunnar þinnar og krakkanna?“

„Já, já. Það eru alveg til dæmi um það. Já, já. Stundum þarf maður að taka fjölskyldufund og aðeins brynja menn fyrir umræðunni og það gildir alveg niður í sex ára. Já, já, það kemur fyrir.“

„Heyrðu, þetta er nóg fyrir mig. Mig langar að tala um efnahagslífið á Íslandi.“

Meiri tónlist (eða auglýsingar).

23. október 2017

„Upphaflega notaðirðu þessa bloggsíðu til að kynna skáldsögu sem þá var að koma út, var það ekki?“

„Sem þá kom út. Ég hélt þú vissir þetta.“

„Ég vissi þetta.“

„En spurðir samt?“

„En hvað með bókina sem núna er að koma út? Sem núna kemur út. Þú ætlar ekkert að …?“

„Það lengist reyndar alltaf í að hún komi út, þannig að ég ætla mér alltaf lengri og lengri tíma til að upphugsa kynningu á henni. Og kannski mun líða svo langur tími að ég verð búinn að gleyma þessu öllu þegar bókin loks kemur út.“

„Horfðirðu á Morðsögu í gær?“

„Ég gerði það. Það eru 40 ár síðan ég sá hana síðast.“

„Það eru líka 40 ár síðan ég sá hana síðast.“

„Sem sagt rúm – eða vel útilátin – mannsævi síðan við báðir sáum hana síðast.“

„En hvað er ævi svona bíómyndar löng? Var hún ennþá á lífi þegar Ríkissjónvarpið sýndi hana í gær?“

„Varla. En ég ætla sjálfur (og vil þakka Ríkissjónvarpinu fyrir að aðstoða mig við það) að gera mitt besta til að blása í hana örlitlu lífi – það verður í bók sem kemur út á næsta ári (ekki þessu). Sú bók segir frá atburðum sem gerðust árið 1977, og reyndar líka árið á undan því, sem var 1976.“

„Kannski ótímabært að vera að tala um það núna?“

„Já.“

„En er þetta morðsaga?“

„Hver?“

„Þessi bók sem segir frá atburðum sem gerðust árið 1977.“

„Það er í henni eitt morð. Og fleiri en eitt sjálfsmorð. Reyndar er eitt sjálfsmorðið misheppnað – en sjálfsmorð engu að síður.“

„Hvernig getur sjálfsmorð verið misheppnað?“

„Það getur það ekki. En í bókinni er það samt misheppnað. Slíkur er máttur skáldskaparins, eins og Guðbergur Bergsson, og eflaust fleiri myndu orða það.“

„Eins og þú varst sjálfur rétt í þessu að orða það.“

„Akkúrat: slíkur er máttur skáldskaparins. En talandi um annan skáldskap …“

„Þriðjungur íslensku þjóðarinnar sá þessa mynd í bíó á sínum tíma.“

Morðsögu?“

„Já.“

„Sá tími var líka tími þeirrar þjóðar sem þá var. En nú að hinum skáldskapnum. Ég hefi fengið nokkrar bækur í hendurnar á síðustu vikum.“

„Ekki þó morðsögur?“

Almennur hlátur.

„Jú, auðvitað eru í þeim einhver morð, en ekki samt á sama hátt og í væntanlegri morðsögu íslensks morðsöguhöfundar sem ég heyrði lesið upp úr fyrir nokkrum vikum – það var á bókmenntahátíðinni í Iðnó. Þar endaði fyrsti kaflinn á því að lík kom undan snjónum.“

„Bara eins og krónurnar sem koma undan snjónum?“

„Já, er það ekki? Stundum koma krónur undan snjónum, og stundum lík. Í þessari óútgefnu bók sem ég heyrði lesið upp úr í Iðnó var það lík sem kom undan snjónum. Það gerðist í lok fyrsta kaflans. Þannig að ég geri ráð fyrir að aðrir kaflar bókarinnar, frá og með númer tvö, muni segja frá því hver kom líkinu fyrir undir snjónum – en kannski snjóaði ofan á líkið eftir að það var drepið? Hugsanlega var líkið löngu dautt þegar það var drepið. Kannski líka sá sem drap það? (Þessi „lestur“ minn á óútkominni „Iðnó-bók“ hlýtur að vera undir áhrifum frá öðrum lestri – lestri á nýjustu Booker-verðlaunabókinni, Lincoln in the bardo – og nú tek ég fram að almennt forðast ég eins og eldinn – hinn heita eld – að lesa Booker-verðlaunabækur strax og þær eru orðnar Booker-verðlaunabækur – ég bara stóðst ekki freistinguna að þessu sinni – fékk eintak lánað á Landsbókasafninu, og sé ekki eftir því.)“

„Við munum fylgjast með þegar bókin kemur út.“

„Áttu við þegar „Iðnó-bókin“ kemur út?“

„Einmitt. Við verðum að komast að þessu.“

„Hverju?“

„Já, þú meinar. Nú er ég búinn að steingleyma því.“

„En hvaða bækur aðrar ætlaðirðu að tala um?“

„Ég er líka búinn að gleyma því. Við tölum allt of mikið. Nei, ég er ekkert búinn að gleyma því. Ég ætlaði að tala um Ko Un ljóðasafnið sem var að koma út í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Sorgin í fyrstu persónu. Ko Un er enn eitt ljóðskáld heimsins sem maður kynnist í gegnum þýðingar Gyrðis. Ég er ekki frá því að þarna sé komið mitt „uppáhalds“.“

„Áttu þá við Ko Un?“

„Já. Og nú er ég ekki að grínast. Það er hugsanlegt að eitthvert smá grín hafi fylgt með í „lestri“ mínum á „snjólíkinu“ sem lesið var um í Iðnó; en hér (í tilviki Ko Un) er ekkert grín á ferðinni, nema auðvitað húmorinn sem býr í ljóðum Ko Un. (Maður treystir sér ekki til að beygja nafnið Ko Un. Í ljóðum Kos Un hljómar ekki vel. En maður lifandi (vs. líkið í snjónum í lok fyrsta kafla „Iðnó-morðsögunnar“) – hér er fínt ljóðskáld á ferðinni. Og ekki spillir formáli þýðandans, þar sem hann dregur upp „lifandi“ fyrstuhandar mynd af hinu suður-kóreska skáldi frá hóteli í Lillehammer, Norge – þeir voru samtímis á hótelinu, þýðandinn og ljóðskáldið, án þess þó að tala saman; en myndin sem birtist af þeim síðarnefnda í formálanum segir mun meira en hundrað eða þúsund orð (þótt auðvitað sé um að ræða svolitla mótsögn hér, því myndin af Ko Un er vissulega dregin upp með orðum). En vegna þess að ég er sjálfur maður fárra orða …“

„Já, er það?“

„… þá ætla ég að láta staðar numið hér, en benda þeim mun ákafar á þessa nýútkomnu bók frá Dimmu, Sorgina í fyrstu persónu.“

„Voru ekki að koma út fleiri þýðingar frá Dimmu?“

„Jú, ég var einmitt að lesa eina þeirra: Síðasta úlfinn eftir László Krasznahorkai. En meira um þá bók síðar. Og meira um fleiri bækur fljótlega, t.d. Heilaskurðaðgerðina eftir Dag Hjartarson. Og Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Og rússnesku smásögurnar sem Áslaug Agnarsdóttir þýddi. Ég þarf að fara að gefa aðstoðarmanni mínum vatn að drekka. Blátt vatn – hann lítur ekki við öðru.“

„En hvað með Lincoln-bókina sem þú minntist á?“

„Var það ég sem minntist á hana – varst það ekki þú?“

„Getur verið. En það er bók sem þarf að tala um.“

„Helst þegar búið er að lesa hana.“

„Þú ert sem sagt ekki búinn með hana?“

„Nei, ertu ekki kominn á bls. 200 og eitthvað?“

„Jú. Rúmlega 100 eftir.“

„En það var ansi gaman að koma inn í plötubúðina í Morðsögu í gærkvöldi (svo talið sé leitt að öðru).“

„Algerlega. Ég er ekki ennþá kominn út úr henni.“

20. október 2017 (aukafærsla)

„Myndin í aðalfærslunni birtist án texta. Var það ætlunin?“

„Góð spurning. Nei, í raun var það ekki ætlunin. Ég hafði verið að hugsa um að setja við hana texta á borð við Hvað er innan í Sjálfstæðismanni? – ég var nefnilega með hugann við lagið eftir The Cramps, What´s inside a girl? – það hefur hljómað í höfðinu á mér eftir að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir tók tölvuna sína upp af borðinu og rauk út af fundinum – en svo fannst mér það ó-þarfi, auk þess að vera ó-sanngjarnt, bæði gagnvart Sjálfstæðismönnum og þeim sem kynnu að velta fyrir sér spurningunni.“

„Ó-sanngjarnt? Hvað áttu við?“

„Góð spurning. Þú átt við hvort mér finnist ó-sanngjarnt að Sjálfstæðismaður sé neyddur til að horfa inn á við – að hann gæti ó-vart gert sér grein fyrir því hvað er þar að finna? Séð sjálfan sig?“

„Góð spurning. Eða réttara sagt: góðar spurningar. Átti ég kannski við að …“

„Það er ég sem á að spyrja að þessu.“

„Já, auðvitað. En skiptir það einhverju máli?“

„Góð spurning.“

„Á ég ekki bara að spyrja þig?“

„Gjörðu svo vel.“

„Ég á við að aðrir en Sjálfstæðismenn muni kannski gera sér þann ó-leik að horfa inn í sortann sem býr innan í Sjálfstæðismanni. Að þessir „aðrir“ kunni að fyllast ó-hugnaði – jafnvel fara að hugsa ó-heppilegar hugsanir. Heldurðu að það geti verið?“

„Góð spurning.“

„Er það? Er það virkilega góð spurning?“

„Ég bara veit það ekki. Þú átt við hvort spurningin Er það virkilega góð spurning? sé góð spurning?“

„Góð spurning. Jú, það var það sem ég átti við.“

„En hvað með að setja bara The Cramps á fóninn?“

„Góð spurning.“

„Er það ekki bara?“

„Engin spurning.“

19. október 2017

“I think fiction writing which does not acknowledge the uncertainty of the narrator himself is a form of imposture which I find very, very difficult to take. Any form of authorial writing where the narrator sets himself up as stagehand and director and judge and executor in a text, I find somehow unacceptable. I cannot bear to read books of this kind.” – W. G. Sebald

18. október 2017 (aukafærsla)

 

 

 

 

„Ég kíkti aftur í viðtalið í Fréttablaðinu.“

„Við Sigurð Kristin?“

„Já. Ég gleymdi að minnast á áðan að staðurinn þar sem hann vann í Kaupmannahöfn er þriggja Michelin-stjörnu staður. Geranium.“

„Aldrei komið þangað.“

„Ekki ég heldur. Og staðurinn í Finnlandi – eða á Finnlandi (ef það er þannig) – hefur eina Michelin-stjörnu.“

„Hefurðu komið þangað?“

„Nei.“

„En í Grillið? Eða á Grillið? Hefurðu komið þangað?“

„Jú, reyndar. En það er orðið ansi langt síðan.“

„Hversu langt?“

„Lengra en ég man. Jú, ætli það hafi ekki verið á ofanverðum níunda áratug síðustu aldar.“

„En það var sem sagt í Olo – eða á Olo – sem Sigurður var varaaðstoðaryfirkokkur?“

„Já. Ég ætti að vita það, nú þegar ég er búinn að lesa viðtalið tvisvar.“

ps. það er kannski ástæða til að nefna það aftur að meðfylgjandi ljósmynd tengist ekki þeim veitingastöðum sem minnst er á í færslunni hér að ofan, og ekki heldur í færslunni fyrir neðan, sem sagt hvorki í aðal- né aukafærslunni

18. október 2017

 

 

 

 

„Ég las viðtal við matreiðslumanninn Sigurð Kristin Laufdal Haraldsson í Fréttablaðinu í morgun.“

„Hver er það?“

„Sigurður Kristinn?“

„Sagðirðu ekki Sigurður Kristinn Laufdal Haraldsson?“

„Jú. Hann er byrjaður að vinna í Grillinu á Hótel Sögu. Eða á Grillinu. En hann vann áður á veitingastöðum í Kaupmannahöfn og í Finnlandi. Eða á Finnlandi – ég veit ekki hvort er. Hann var varaaðstoðaryfirkokkur þar – á veitingastaðnum Olo.“

„Varaaðstoðar…?“

„Varaaðstoðaryfirkokkur.“

„Í Olo? Ég meina: á Olo?“

„Já. Hann var varaaðstoðaryfirkokkur þar.“

„En ekki á Grillinu?“

„Meinarðu hvort hann hafi verið ráðinn sem varaaðstoðaryfirkokkur á Grillinu?“

„Já, ég meinti það.“

„Ég er ekki viss um að það hafi komið fram í viðtalinu. Ég þyrfti eiginlega að lesa það aftur.“

ps. meðfylgjandi ljósmynd tengist ekki þeim veitingastöðum sem minnst er á í samtalinu hér að ofan

(engin leið að segja til um dagsetningu – eða ártal)

 

 

 

 

„Ég þekki að minnsta kosti sjö – nei, átta, hugsanlega níu – einstaklinga sem munu herðast í stuðningi sínum við Sjálfstæðisflokkinn, nú þegar sýslumaður hefur sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar, Reykjavík Media og Guardian (Guardian?!!!) um fjármálaóreiðu starfandi forsætisráðherra (fyrrv. fjármálaráðherra!???). Ég veit að „ég“ er ekki „margir“, en mér reiknast samt til að það megi margfalda töluna sjö til níu með einhverri mun hærri tölu, svo hárri að fylgi Sjálfstæðisflokksins mun stóraukast frá því sem var (í síðustu könnun) – það mun enda í að minnsta kosti 29 til 33% þegar talið verður upp úr kjörkössunum.“

„Hún er ekki að aukast, bjartsýnin, frá því síðast.“

„Nei, enda var þá ekki búið að segja frá þessu með lögbannið. Svona hlutir vinna alltaf með þeim sem „verða fyrir þeim“ (í skilningnum „setja lögbannið á“). Birgir Ármannsson og B. Níelsson eiga eftir að stórgræða á þessu. Líka Guðlaugur Þór (starfandi utanríkisráðherra), sérstaklega ef hann bætir aðeins í þjáningarsvipinn sem honum hefur tekist að koma sér upp á síðustu árum.“

„Þannig að Valhallarfálkinn er ekkert að lækka flugið?“

„Síður en svo. Við sjáum ekki lengur í hann, svo hátt er hann floginn.“

„Er þá ekki bara kominn tími á Bud Powell?“

„Ég held það.“

15. október 2017

 

 

 

 

„Ásmundur Friðriksson ER Sjálfstæðisflokkurinn. Og öfugt.“

„Fálkinn á klöppinni?“

„Stendur fálkinn á einhverju?“

„Nei, kannski ekki. Hugsanlega er hann bara á flugi.“

„Hann er allavega á miklu flugi núna. Eins og Ásmundur sjálfur, rock solid Sjálfstæðismaðurinn, sem baðar út vængjunum, grimmur á svip, en um leið einhvern veginn glaðbeittur og staðfastur, og umfram allt þéttur í sínu: Stöðugleikinn fljúgandi.“

„Þar hittirðu naglann á höfuðið: Hinn fljúgandi stöðugleiki.“

14. október 2017 (aukafærsla)

„R. er að leggja lokahönd (svakalegt orð, lokahönd – hljómar eins og náðarhögg) á franska þýðingu á skáldsögunni Sögumaður. Við höfum talað svolítið saman um frönsku ljóðatilvitnanirnar í sögunni, sem eru aðallega í Apollinaire, Tristan Corbière og Blaise Cendrars, og R. fannst svolítið skrítið að móðir G. („ég“ afturábak, eins og hefur alltaf sagt sig sjálft, þótt G. sé langt frá því að vera ég) skuli hafa haft saumaklúbb inni á heimilinu á Lynghaga (þar sem foreldrar G. eiga heima – eða áttu; þau eru kannski dáin núna). R. finnst þetta ekki í karakter móðurinnar. Ég þurfti svolítið að verja þennan þátt í minni „persónusköpun“ – ég skil hvað R. á við, en bakka samt ekki með að móðir G. hafi getað haft saumaklúbb. (Ég spurði R. hvort orðið „saumaklúbbur“ væri til á frönsku, en auðvitað var svarið nei.) Það sem truflar mig hins vegar mest við athugasemdir R. er að í hans upplifun á bíómyndinni La Grande bouffe, myndinni sem segja má að sé ein af persónum bókarinnar um G., er að rúllukragabolur (eða -peysa) Michels Piccoli sé ekki bleikur. Við ræddum svolítið um litinn bleikan – bleikur er auðvitað ekki það sama og bleikur, osfrv. – en ég tel mig vera alveg vissan um að rúllukragabolur Michels hafi verið bleikur, sem rímar náttúrlega svo vel við svínshausinn sem hann hefur á loft í senunni þegar flutningabíllinn frá slátraranum kemur í húsið til þeirra – í hús Philippes. R. sá þetta samt á annan hátt; að bolurinn hafi ekki verið bleikur. Í lokasenu Michels Piccoli, rétt áður en hann deyr á svalahandriðinu, er hann klæddur hvítu kaðlaprjónspeysunni sem Marcello heitinn skildi eftir sig, og kannski er R. eitthvað að láta það trufla sína litaskynjun varðandi áðurnefnt vandamál. (Því vissulega er þetta vandamál, að höfundur og þýðandi bókar sjái ekki rúllukragabol í sama lit.) Ástæðan fyrir því að ég er að gera þetta að færslu (sem þar að auki er aukafærsla) – það er nákvæmlega engin raunveruleg þörf á þessu (er þörf á einhverju yfirhöfuð?) – er sú að ég hef notið aðstoðar við að skrifa færsluna frá aðstoðarmanni mínum Basil; og ekki bara það, heldur erum við Basil staddir „undir himninum“ – án þaks yfir höfuðið – við hlustum á lækjarnið í íslenskri sveit, og ég er alveg við það að láta eftir þeirri freistingu að kveikja í rúllaðri sígarettu – ég er hársbreidd frá því að skrá mig inn á facebook til að fleiri geti notið þess með okkur (okkur Basil) að við séum að „njóta lífsins“. En þar set ég mörkin. Ég virði skoðun Jóhannesar Kjarval á því öllu saman. Við Basil erum alls ekki að njóta lífsins. Við erum að fylgjast með skýjunum færa sig úr stað. Honum leiðist reyndar svo mikið „í vinnunni“ þetta augnablikið að hann er hlaupinn í áttina frá ánni – mig grunar að hann sé að gæla við þá hugmynd að músarrindill verði á vegi hans, nær húsinu. Það var þar (út um gluggann) sem hann sá rindil fyrr í morgun. Ég trúi því samt ekki upp á hann að hann hafi í hyggju að aflífa rindilinn.“

„Er þetta allt og sumt? Is that all? Þú hefur ekki hlustað á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu í dag?“

„Jú, ég gerði það. Og þess vegna er mér núna skapi næst að undirrita þessa tölvufærslu með eiginhandaráritun minni, helst tvisvar, ef ekki oftar, og fagna því um leið að Þjóðfylkingin (íslenska) hafi notað þá sömu aðferð í því skyni að mega bjóða fram til alþingis. En ég er ekki á leiðinni þangað (á alþingi) – ég er á leiðinni upp á Strút.“

„Sem er hvar? Strútur?“

„Bara hérna rétt hjá.“

ps. meðfylgjandi er ljósmynd frá því í dag af Litlafljóti, „burðarfljótinu“ í væntanlegri bók frá Bjarti um það hvernig á ekki að yrkja.

14. október 2017


„Gesundheit?“·

„Ég er kominn upp í sveit, þannig að nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af heilsunni í bili. Ég horfi bara til jöklanna og hugsa: Það eru þeir sem eru veikir, ekki ég. Svo er áin byrjuð að renna aftur, eftir sumarlangt hlé. Reyndar fór hún af stað, af veikum mætti, einn daginn í sumar, en rann þá ekki lengur en sirka sólarhring. Kannski bara til að minna sjálfa sig á að hún væri á, en ekki eitthvað annað. Allt þetta leiðir hugann að því að ef til vill er ég spámaður í eigin föðurlandi. Ég lýsti því nefnilega yfir um daginn – það var eitthvað í tengslum við fótboltaleikinn á Laugardalsvelli milli Íslendinga („strákanna okkar“, „hú-mannanna“) og Kosóvó„strákanna“ – að enginn væri spámaður í sínu eigin föðurlandi. En það er bara ekki rétt. Það lítur út fyrir að ég sé sá maður: spámaðurinn í föðurlandinu. Því einnig um daginn spáði ég því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá fleiri atkvæði frá landsmönnum í kosningunum 28. okt. nk., fleiri en Vinstri græn; og nú er að koma á daginn í skoðanakönnunum að sú verði niðurstaðan. Kannski var ég með hugann við fylgi þessara tveggja flokka (eða samtaka) þegar ég spáði því að úrslitin í Ísl./Kos.-leiknum yrðu 1 – 1? Sjálfstæðisflokkurinn 1 – Vinstri græn 1. En svo urðu úrslitin í leiknum 2 – 0. Og þetta held ég nefnilega að verði úrslitin upp úr kjörkössunum núna í lok mánaðarins: Sjálfstæðisflokkurinn 2 – Vinstri græn 0.“

„Þú ert ekki sérlega bjartsýn manneskja.“

„Ég er ekki einu sinni viss um að ég sé manneskja.“

„En þú ert samt búinn að stíga út í ána?“

„Já. Tvisvar. Mér tókst að afsanna orð Heraklítosar, um að enginn stigi tvisvar í sama lækinn. Því fyrr í morgun gerði ég einmitt það: ég steig tvisvar út í Litlafljót. Það var nákvæmlega sama fljótið í bæði skiptin, þótt vatnið sem ég steig út í fyrst væri runnið burt þegar ég steig aftur út í. Litlafljót hélt áfram að vera Litlafljót – það breytti ekki um nafn á þeim tíma sem leið milli þess að ég steig fyrst út í rennslið, og síðan aftur.“

13. október 2017


„Þegar ég horfi út um gluggann, á albönsku og makedónsku byggingaverkamennina negla vinklana í mótatimbrið á áttundu hæð hússins sem enn hefur ekki verið sett ofan á þak, þá geri ég mér grein fyrir að ég þarf sjálfur að „negla mína vinkla“ í uppbyggingu dagsins, að öðrum kosti muni dagurinn liðast í sundur, eins og framsóknarflokkar þessa lands. Ég hef allt of mörgum ólíkum hnöppum að hneppa í dag; ég verð að halda mjög vel á spöðunum til að hver hnappur lendi í réttu gati; og þess vegna ætla ég að grípa til „stafaruglsins“ frá í fyrradag, og láta líta svo út fyrir að það sem Jóhann Helgi Heiðdal segir þar sé einmitt það sem ég hafði hugsað mér að segja við þig núna.“

„Mig?“

„Já, eða … Kannski er ég ekki sammála öllu sem JHH segir um nýfæddan nóbelshöfund heimsins – til dæmis fjallar hann ekkert um hina stórkostlegu bók Óhuggandi (Unconsoled) – en það er bara svo margt umhugsunarvert í þessari grein að hún er margfalt þess virði að lesa. T.d. þetta um nóbelsverðlaunahafann á undan Kazuo Ishiguro.“

„Bob?“

„Ég verð alltaf hræddur þegar ég heyri þetta nafn.“

„Ég líka. En hérna er „stafaruglið“ frá því í fyrradag:

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2017: Kazuo Ishiguro

Gesundheit.“