30. október 2016

Holdsveikissjúklingur íslenskra stjórnmála fær 29% atkvæða. Hinn sjúklingurinn 11,5%. Allt í einu er pólitískur ómöguleiki eitt fallegasta hugtak íslenskrar tungu. Ég lofaði sjálfum mér í morgun að hugsa ekki eina hugsun framar um pólitík, en nú þegar hádegið er liðið, og miður dagur tekur við, þá verður hugsunin um að hugsanlega vilji enginn hinna fimm flokkanna koma nálægt jafn sjúkum flokki og þeim holdsveika afar aðlaðandi. Ekki að sú hugsun sé eitthvað óskaplega ný eða fersk. En á sunnudegi fer maður ekki fram á það af sjálfum manni að hugsanir séu nýjar eða ferskar. Og ég er að hugsa um að hugsa aðeins meira um þetta. Og í tilefni dagsins að hafa músík. Joni og Jaco (af hinni frábæru plötu Don Juan´s Reckless Daughter):

28. október 2016

Föstudagslagið:

 

 

Þetta er af plötunni The Bells frá 1979. Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað með kosningar morgundagsins að gera – hvort nokkuð í heiminum hafi með þær kosningar að gera, annað en þær sjálfar – en þetta lag er í algerum sérflokki, eins og reyndar lagið á undan þessu á sömu plötu, All through the night. Það er ekki hægt annað en að láta það fylgja með líka. Þannig að það hlýtur því að vera föstudagslag nr. 2:

 

27. október 2016

„A beating would do me a world of good.“

 

Svo er ekkert annað eftir en að styrkja sig í þeirri ákvörðun að kjósa Pírata á laugardag. En styrkja sig með hverju? Kaffi eða nýjustu sjónvarpsauglýsingunni frá fjármálaráðherra? Eða búrbón? Og talandi um auglýsingar og búrbón, þá eru þær ansi fínar, auglýsingarnar frá Vinstri-grænum. Sú nýjasta þeirra fékk meira að segja einn Samfylkingarmann til að minna fólk á að hann væri á lista Samfylkingarinnar, og þar með dauðrota þann flokk í eitt skipti fyrir öll: að veita honum náðarhöggið:

 

http://www.visir.is/simon-sakadur-um-kerlingarvael-af-vinum-sinum-vegna-auglysinga-rassa/article/2016161028984

 

„A beating would do me a world of good.“

26. október 2016 (aukafærsla)

Það er auðvitað spurning hversu hátíðlega á að tala um nóbelsverðlaun í bókmenntum, en ég get samt ekki annað en verið sammála þessum orðum – ef, það er að segja, nóbelsverðlaunin hafa einhverja dýpri merkingu en að vera bara einhver verðlaun sem hópur fólks kemur sér saman um að veita einstaklingi:

 

For almost a quarter of a century, ever since Toni Morrison won the Nobel in 1993, the Nobel committee acted as if American literature did not exist — and now an American is acting as if the Nobel committee doesn’t exist. Giving the award to Mr. Dylan was an insult to all the great American novelists and poets who are frequently proposed as candidates for the prize. (Adam Kirsch, New York Times, 26. okt.)

 

Og alveg er ég viss um að Dulúðarmaðurinn (eins og Guðmundur Andri kallaði hann um daginn: Bob frá Duluth) er sammála Adam Kirsch. Enda er umræðan um það hvaða tónlistarmaður eigi næst að fá nóbelsverðlaun í bókmenntum farin að verða nokkuð áberandi. Ég hallast að Rufus Wainwright, þó ekki væri nema fyrir textann í laginu Montauk. Sem sagt: mér finnst líklegt að Rufus Wainwright verði næsti handhafi nóbelsverðlaunanna í bókmenntum frá þessu svæði í heiminum (Bandaríkjunum/Kanada) – ég óttast nefnilega að Leonard Cohen og Joni Mitchell verði fallin frá þegar sænska nefndin horfir næst til Kanada/Bandaríkjanna í sínum ákvarðanatökum.

26. október 2016

Í gær las móðir mín, Soffía Sigurjónsdóttir, upp smásögu eftir sjálfa sig í Seltjarnarneskirkju. Kirkjan býður stundum höfundum að lesa upp eitthvað – það er gott að vita til þess að í kirkjum landsins sé ekki bara lesið upp úr biblíunni. Mamma hefur ekki skrifað mikið um ævina, en fyrir stuttu datt henni í hug að setja á blað mjög skemmtilega – en líka svolítið krassandi – æskuminningu; og til að gera langa sögu (sem reyndar er ekki svo löng) aðeins styttri, þá frétti presturinn af því að mamma lumaði á sögu eftir sjálfa sig, og hann bauð henni að lesa hana upp í guðshúsinu. Það tók mömmu svolitla stund að ákveða sig hvort hún ætti að þiggja boðið, en hún gerði það að lokum (með hvatningu frá mér, því mér fannst sagan hennar góð); og hún spurði mig, eldri son sinn, hvort ég vildi ekki lesa upp með henni; hana langaði til að ég læsi ákveðna smásögu eftir mig sem gerist (eða á að gerast) í íbúð sem við bjuggum í við Hagamelinn á áttunda áratugnum. Ég tók vel í að lesa, en svo kom í ljós að ég komst ekki á þeim tíma sem lesturinn átti að fara fram, og það varð úr að Sigurjón bróðir tók að sér lesturinn. Hann ætlaði þó ekki að lesa smásöguna mína, og heldur ekki upp úr bókinni sem hann gaf út sjálfur á síðasta ári (Bókinni um vefinn) – nei, hann ákvað að lesa upp úr Hinni nýju sýn eftir Vestur-Íslendinginn Harald C. Geirsson, bók sem Smekkleysa gaf út árið 1990, með trúarlegum ljóðum (og reyndar veraldlegum í bland); honum fannst eins og tími væri kominn til að rödd Haraldar C. Geirssonar heyrðist í kirkjum landsins (þótt ekki yrði það rödd hans sjálfs, Haraldar, sem heyrðist; hann er ekki lengur meðal vor – eða Kanadabúa, réttara sagt). Það er annars skrítið til þess að hugsa að þessi ágæta bók sem rataði á fjörur Smekkleysu fyrir 26 árum skuli aldrei fyrr hafa verið kynnt meðal íslenskra kirkjugesta. En það gerðist sem sagt í gær. Sigurjón valdi nokkur kvæði úr bókinni, og las nokkur aðfararorð (sem ég, einn af útgefendum bókarinnar, hripaði niður í skyndi) – þetta gekk víst nokkuð vel í áheyrendur; það var spurt hvort bókin væri fáanleg í búðum, sem hún er því miður ekki: hún er uppseld fyrir löngu. Smekkleysa dreifði bókinni í nokkrar búðir, mest á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landi, og ef ég man rétt, þá fóru flest eintökin í Kirkjuhúsið í Kirkjuhvoli. Hvað varð um Kirkjuhúsið veit ég ekki – ég veit ekki heldur hvað varð um eintök bókarinnar. Ég veit samt um eitt eintak til sölu í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi; mér er sagt að það kosti 2500 krónur. En hér er kynningarbrotið um hinn vestur-íslenska Harald C., og tvö þeirra kvæða sem lesin voru upp í kirkjunni, auk eins annars, Trúvillunnar, sem okkur útgefendunum fannst á sínum tíma eitt af sterkari kvæðum bókarinnar.

 

HARALDUR C. GEIRSSON – Hin nýja sýn

 

Harla lítið er vitað um ævi Haraldar C. Geirssonar, annað en það að hann var af íslenskum ættum, bjó alla sína tíð í Toronto, Kanada, var ógiftur, og starfaði lengst af sem bókhaldari hjá vöruflutningafyrirtæki. Það fyrirtæki virðist ekki lengur vera til, og ekki hefur tekist að finna skyldfólk Haraldar, hvorki í Kanada né á Íslandi. Hann lést fyrir um það bil tíu árum. Þegar ljóðabók Haraldar, Hin nýja sýn, kom út á Íslandi árið 1990, fékk útgefandi bókarinnar, Smekkleysa, einhverjar frekari upplýsingar sendar frá höfundi, en þær upplýsingar hafa týnst, og ekkert virðist vera að finna um Harald á veraldarvefnum, utan fréttatilkynningu í íslensku dagblaði í tilefni af útgáfu bókarinnar. Haraldur sendi handritið að Hinni nýju sýn til Smekkleysu einu eða tveimur árum áður en ákveðið var að ritið út; útgefandi hafði þá hug á að bjóða honum til landsins af því tilefni, en ekkert varð af þeim áformum, hver sem ástæðan fyrir því kann að hafa verið, áhugaleysi Haraldar eða þröng fjárhagsstaða útgáfunnar á þeim tíma. Einhver tvö eða þrjú nýrri ljóð bárust frá Haraldi eftir að bókin kom út, en þau ljóð voru meira í ætt við tækifærisljóð, ort í tilefni giftingar og/eða afmælis. Það er óhætt að segja að Haraldur hafi haft nokkuð gott vald á íslenskri tungu, miðað við að hann ólst ekki upp við að tala málið, og kom aldrei til Íslands svo vitað sé. Eitt kvæðanna í Hinni nýju sýn lýsir flugferðalagi, en í ljósi þess að það hefst á línunum „Aldregi á ævi minni / upp í flugvél komið hef“, má ætla að Haraldur aldrei látið verða af því að ferðast til lands forfeðra sinna. Hvað varðar hinn trúarlega þátt Hinnar nýju sýnar, sem vissulega er fyrirferðarmestur í bókinni, þá er ekki hægt að efast um sannfæringu höfundar, sem virðist einlæg og hrein, þótt sitthvað í biblíuskilningi hans hafi ef til vill skolast svolítið til. Nokkur vandlætingartónn er í sumum kvæðanna, en það má segja að hann bæti þann tón upp með þeim létta takti sem sleginn er í fyrrnefndu kvæði um flugferðalögin, þar sem hann í lokalínunum gerir grín að sjálfum sér fyrir að vera dagdraumamaður, í fyllstu merkingu þess orðs: „En oft mig dreymir daga langa / dásemd himins meðan sef.“

 

TIL FLUGSINS

 

Aldregi á ævi minni

upp í flugvél komið hef.

En oft mig dreymir daga langa

dásemd himins meðan sef.

 

Hugvit mannsins hefur komið

honum ofar skýjahnjúk.

Á milli landa fljótt hann ferðast

með farangur og eigin búk.

 

Og vélar þessar þykja fínar

og þjónusta er víða góð.

Færð er á bökkum fæða og drykkur

og ferðin er örugg, snögg og hljóð.

 

Hægt er að versla varning margan

við vægri borgun og frjálsan skatt.

Hlutir þeir sem hægt er að eignast

hafa mæður og frændur glatt.

 

Og sæki að þorsti þarf ei annað

en þrýsta á lítinn rauðan hnapp,

og birtist þá stúlka með blíðum orðum

og býður þér drykki, hvílíkt happ!

 

Aldregi á ævi minni

upp í flugvél komið hef.

En oft mig dreymir daga langa

dásemd himins meðan sef.

 

 

SUNNUDAGUR

 

Til kirkju er farið

við klukknahljóm

 

og klukkustund varið

við helgan óm.

 

 

TRÚVILLAN

 

Tóm eru orðin sem trúvillan mælir

og tárin sem hún fellir eru rykug og þurr.

Frá orði Drottins hún fólkið fælir

og fölsk hún hljómar sem hundsins urr.

 

Hún birtist fólki í mörgum myndum

og miskunn enga hún sýnir þeim

sem lifa og hrærast í sætum syndum

og sigla án Guðs um þennan heim.

 

Og þeir sem orð hennar boða og bera

með bros á vör og ylfingsglott

illsku mannsins upp munu skera

og ávallt bera því slæma vott.

24. október 2016

Tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Þegar ég kíkti í nýja (eða nýja og gamla) bók Sjónar (Sigurjóns B.), CoDex 1962, í bókabúð Máls og menningar í gær, þá sá ég, mér til hrellingar, að hann notar yfirstrikanir í textanum. Í bókinni sem ég er að skrifa nota ég nefnilega yfirstrikanir. Þannig að á næsta ári kemur út önnur skáldsaga þar sem yfirstrikanir eru notaðar – mér finnst rétt að nefna þetta hér, svo lesendur „hinnar“ skáldsögunnar, sem kemur út á næsta ári (þeir lesendur hennar sem lesa þetta líka), hugsi ekki sem svo: „Já, hann hefur líka ákveðið að nota yfirstrikanir í sinni bók, hm …“ Auðvitað ætti ég að taka út þessar yfirstrikanir í minni bók, en í fljótu bragði sé ég ekki hvernig það er hægt. Skáldsaga veitir manni ekki meira frelsi en það: það sem einu sinni er komið í hana verður ekki tekið út úr henni aftur. Ég hef þó alltént látið vita af þessu. Og kannski mun mér auðnast að strika yfir þessar yfirstrikanir mínar, þannig að ekki verði um neinar yfirstrikanir að ræða. Það er vandlifað. Og ekki nema tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Til að gleyma þessu öllu í bili ætla ég að bregða á það ráð að hafa mynd:

20. október 2016 (aukafærsla)

Í smásagnasafni sem ég er meðfram öðru að vinna að, á að vera saga sem fjallar um svolítið dularfullt fyrirbæri, einhvers konar sjálfkæfingu. (Reyndar er þetta smásagnasafn ekki beinlínis smásagnasafn, heldur bók sem fjallar um safn smásagna eftir höfund sem ekki er ólíklegt að sé ég sjálfur.) Ég nefni þetta hérna (í aukafærslu, vel að merkja) vegna þess að ég var að lesa í nýútgefnu smásagnasafni eftir Þórarin Eldjárn, Þáttum af séra Þórarinum og fleirum (ég fékk bókina lánaða hjá vini sem fékk hana senda frá ÞE – kannski er hún ekki enn komin út?); og í þessari bók Þórarins er brot sem á óbeinan hátt minnti mig á áðurnefnda sjálfkæfingu. Ég ætla að birta þessar línur hér, í algeru leyfisleysi (enda er ég alvarlega að bræða með mér að kjósa Pírata eftir rúma viku); þær er að finna í sögu sem nefnist Músin sem æðir; sagan gerist í Elko-búðinni, og segir frá því þegar sögumaður kemur auga á gamlan skólafélaga úr Mynd og hand í biðröðinni við afgreiðsluna:

 

Mér gafst því gott tækifæri til að stúdera Dúdda meðan við biðum. Það var tvennt eða þrennt á milli okkar í röðinni. Ég tók strax eftir því að hann var enn eftir öll þessi ár með sinn gamla kæk, að naga sífellt lausar húðflögur af vörunum. Ég gat fylgst vel með þessu alltaf þegar hann leit til hliðar og í framhaldinu fór ég að hugsa eitthvert rugl um að þannig ætti hann líklega eftir að éta sjálfan sig upp til agna með tímanum. Var þetta kannski einskonar hægfara konseptverk hjá honum? (Þættir af séra Þórarinum og fleirum, bls. 90)

20. október 2016

Sjö ára gamalt „dagbókarbrot“ í tilefni dagsins. Ég var að hugsa um að skrifa um nafna minn Gunnar, og nýjustu tíðindin af honum (Matís og allt það), en svo hugsaði ég: Æ, nei. Ekki eitthvað svoleiðis, það er búið að segja frá því í fréttamiðlum veraldarvefsins (þó væntanlega ekki á Mbl, mér finnst það ólíklegt; ekki heldur í gamla Tímanum, ef hann er enn til). En hér er „dagbókarbrotið“:

 

FÍN MÚSÍK

 

„Þetta er fín músík,“ segir sú litla, þegar ekki nema tvær eða þrjár mínútur eru liðnar af spilunartíma þrettán og hálfrar mínútu langs lags með Eric Dolphy, Ted Curson, Charles Mingus og Dannie Richmond. Ég passaði mig á að hafa tónlistina ekki mjög hátt stillta í hljómflutningstækjunum – við erum stödd í stofunni; við sitjum við sama borð – en ég leyfi mér að hækka ofurlítið eftir að sú litla hefur gefið mér leyfi til þess, ef svo má að orði komast.

 

Sú litla er þriggja ára. Ég á nokkur ár í fimmtugt.

19. október 2016

„Sá sem heldur sig við staðreyndir mun ekki komast hinum megin við þær, að kjarna hlutanna. Ég afneita staðreyndum, þeim öllum, án undantekninga. Fyrir mér hafa þær ekki nokkurt gildi; þess vegna forðast ég þær áður en þær ná að draga mig niður til sín.“ (Arnold Schoenberg, 1874 – 1951) Maður hefði haldið að þetta væri einhvers konar leiðarvísir fyrir listamenn og skáld, enda settur fram af tónskáldi; en „staðreyndin“ virðist samt vera sú að það séu frekar stjórnmálamenn sem líta til þessara orða Austurríkismannsins. Enda er oft talað um að stjórnmál séu listgrein. Og þess vegna eru þau ríkisstyrkt.

15. október 2016

Daginn áður en Bob Dylan var útnefndur sem næsti nóbelshöfundur í bókmenntum keypti ég mér bók í second-hand-bókabúð í Cambridge, Massachusetts, bara af því að hún var svo ódýr: Like a rolling stone – Bob Dylan at the crossroads, eftir Greil Marcus. Ég er „ævilangur“ aðdáandi Bobs, sérstaklega þeirra platna sem hann gaf út á árunum 1965 til 1976; en ef ég væri Bob Dylan – ef það gerðist allt í einu að ég væri hann, og hann ég – þá myndi ég gera það sama og Sartre gerði á sínum tíma, að afþakka heiðurinn. Mér finnst þetta misráðið. Ég er alveg sammála því sem Kristján B. sagði í útvarpsþættinum Lestinni í gær, að verk Bobs Dylan væru ekki bókmenntaverk. Og allt í lagi með það. En einmitt vegna þess finnst mér (og mig grunar að það muni gerast) að Bob Dylan eigi að afþakka kurteislega. (Barack Obama hefði líka átt að afþakka sín friðarverðlaun, finnst mér. Það var alveg nóg að heimsbyggðin frétti af því að nóbelsnefndin hefði hugsað til hans; það stenst engin rök að Bandaríkjaforseti taki á móti friðarverðlaunum.) Svo er líka miklu smartara af tónlistarmanni að senda frá sér kurteislega yfirlýsingu um að hann afþakki verðlaun fyrir bókmenntaverk. En nú verð ég afsaka mig (gagnvart sjálfum mér), því ég hef ekki tíma til að skrifa meira. Það er laugardagur. En fyrst ég hef minnst á Bob Dylan, þá ætti maður auðvitað að vera að hlusta á Bob Dylan þessa dagana. Ég „lenti aftur á móti í því að lenda“ í svolitlu nostalgíukasti vegna annars tónlistarmanns, bandarísks; ég keypti mér Born to run með Bruce Springsteen, í sömu búð og ég keypti bókina um Bob Dylan. Hún kostaði ekki nema 5.99 American Dollars. Ég held ég hafi síðast hlustað á Born to run, í heild, þegar ég var 17 eða 18. En þvílík plata. Ég ætla að leyfa mér að nota hæsta stigið: snilld. Ég er samt ekkert viss um að Bruce Springsteen sé snillingur (ekki á sama hátt og Arnold Schoenberg eða Eric Dolphy eða Miles Davis – sem ég veit reyndar ekki heldur hvort flokkist sem snillingar); en Born to run er svo fín plata að maður neyðist til að nota hæsta stigið. Auðvitað gerist það að fólk sem ekki er snillingar búi til eitthvað sem er snilld – eða á það skilið að vera verðlaunað með hæsta stiginu. Og talandi um hæsta stigið, þá er mér ljúft og skylt (hræðilegt orðalag; ég lofa að nota það ekki aftur) að benda á skrif Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um nýjustu útgáfu Smekkleysu, skáldsöguna Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Ég veit ég var búinn að lofa (sjálfum mér) að minnast á nokkrar aðrar nýútkomnar bækur, en aftur verður útgáfa Smekkleysu að ganga fyrir:

 

http://hugras.is/2016/10/freistingar-arkivunnar/

8. október 2016

Féeggsstaðaá er á sem fellur niður í Barká í Hörgárdal. Ég vissi það ekki fyrr en í dag. Ég vissi ekki heldur að á Íslandi væri til á sem kölluð er Féeggsstaðaá. En allt er til, jafnvel þótt ég finni ekki mynd á netinu af ánni Féeggsstaðaá. Ég gæti látið fylgja eitthvert annað myndefni, ótengt ánni (eða jafnvel tengt Hörgárdal), en Féeggsstaðaá says it all, eins og sagt er á ensku.

7. október 2016

Nú vill svo til að ég er staddur í húsi með fólki frá Texas – og verð næstu dagana – fólki sem samkvæmt grun, og nokkuð haldbærri vissu, ætlar sér að kjósa forsetaefni Repúblikanaflokksins í næsta mánuði. Þetta eru roskin hjón; ég hef hitt þau áður. Í gær sagði konan mér frá tónleikum sem hún fór á með Elvis Presley þegar Elvis var um tvítugt, og hún líklega 13 eða 14. Þeir hafi verið haldnir á Cotton Bowl-leikvanginum í Dallas, þar sem konan býr ásamt manni sínum. Ég fletti þessu upp á netinu áðan, og fann út að Elvis var 21 árs þegar hann spilaði á Cotton Bowl; og hún, konan, nýorðin 15 ára; hún átti afmæli daginn fyrir tónleikana, sem voru haldnir 11. október 1956. Hér er ítarefnið um þessa fjölmennu tónleika:

 

http://www.elvis-history-blog.com/elvis-dallas-56.html

 

Á sunnudaginn næsta, 9. október, verða kappræður Dónalds og Hillaríar (Hillarís?) nr. 2 í sjónvarpinu hér í States. Ég sé fyrir mér að þetta verði eitthvað sem ég mun rifja upp eftir 10 eða 20 ár (ef almættið leyfir): kvöldstundin sem ég átti með fólkinu sem ætlaði sér að kjósa Dónald, fyrir framan sjónvarpið þar sem Dónald var að kappræða við Hillarí (Hillaríu); þegar helst mátti ekki ræða þessi mál í þeim hópi sem saman var kominn fyrir framan sjónvarpið, vegna þess að málið var allt of viðkvæmt: ef rætt væri um það sem fram færi á sjónvarpsskjánum myndi allt fara í háaloft, eða (sem mig grunar að sé líklegra) að samræðurnar þögnuðu um leið og þær hæfust. Hvort sem gerist, þá verður stemmning. Ég mun kannski rjúfa þögnina (eða yfirgnæfa hávaðann í heiftarlegu rifrildinu) með einhverju um íslenska pólitík; um Sigmund Davíð og nafna minn Gunnar. Og helli Bud Light yfir pappírinn og orðið. (Það er svo langt síðan heyrst hefur í Elvis Presley, að ég ætla að bæta úr því ekki seinna en núna. Elvis Presley: It´s Impossible.)

 

3. október 2016

Þegar ég horfði á útgöngu fráfarandi formanns Framsóknarflokksins (meðvituð ofstuðlun) í Háskólabíói gærdagsins, varð mér strax hugsað til fyrstu sögunnar í nýja smáprósasafninu frá Gyrði Elíassyni, Langbylgju. Sagan heitir Fallið, og segir frá kófdrukknum dönskum svínabónda um borð í flugvél frá Czech Airlines á leið frá Prag til Kaupmannahafnar. Ég ætla ekki að útlista söguna frekar – ég skora bara á fólk að ná sér í bókina og lesa – en það sem gerist er allsvakalegt; ég get lofað því. En var það eitthvað svakalegt sem gerðist í Háskólabíói gærdagsins? Var það ekki bara eðlilegt framhald þeirrar atburðarásar sem Framsóknarflokkurinn hefur hannað síðustu vikur og mánuði? „Eðlilegt framhald“? Tónlist dagsins í dag kemur frá Rod Stewart:

 

30. september 2016

Nýjasta útgáfa Smekkleysu sm.ehf. er skáldsagan Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Ég ætlaði að nota dagsetningu dagsins í dag til að segja frá öðrum bókum, meðal annarra endurútgáfu Sæmundar á 90 sýnum úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen (sem er alveg milljón fín), og annarri endurútgáfu (Kúbudagbókinni eftir Óskar Árna Óskarsson) sem er ekki síður fín bók – og nú fer þessi listi að lengjast nokkuð, því í gær fékk ég tvær glænýjar bækur eftir Gyrði Elíasson (smáprósasafnið Langbylgju, og ljóðabókina Síðasta vegabréfið) – en allt þetta verður að bíða annarrar dagsetningar (kannski morgundagsins, 1. október), því Smekkleysa verður að ganga fyrir, það er svo sjaldan sem Smekkleysa gefur út bækur. Ég ætla meira að segja að láta kynningartextann fyrir Kompu fylgja með:

 

Fræðimaður, ung kona, verður fyrir smávægilegri truflun inni á handritasafni við rannsókn á 365 ára gamalli dagbók. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar en koma þó ekki í ljós fyrir en sex árum síðar þegar konan áttar sig á að rannsóknartilgáta hennar hefur í öll þessi ár verið byggð á röngum forsendum, og að ritgerðin, heilar 600 síður, er að öllum líkindum þvættingur frá upphafi til enda. Í örvæntingu sinni grípur hún til þess eina ráðs sem virðist geta bjargað henni úr skelfilegum aðstæðum, en verknaðurinn eykur bara á hremmingar hennar og áfallið í kjölfar þessa alls verður til þess að gömul veikindi taka sig upp. Buguð og í fræðilegri sjálfheldu frestar hún námslokum og fylgir eiginmanni sínum heim til Íslands. Þar burðast hún með leyndarmál sitt og laskaða sjálfsmynd gagnvart fjölskyldu og vinum, og tekst á við afleiðingar veikinda sinna, ofskynjanir, sem virðast þó að lokum ætla að opna henni leið út úr ógöngunum.

Kompa er skáldsaga um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra.

Sigrún Pálsdóttir lauk doktorsprófi í sagnfræði frá University of Oxford árið 2001 og hefur frá námslokum einkum unnið við ritstjórnarstörf; frá árinu 2008 sem ritstjóri Sögu, tímarits Sögufélags. Fyrri bækur hennar eru Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010) og Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013)

29. september 2016

Vakni ég í fyrramálið mun ég laga mér kaffi; pissa og bursta tennurnar, og drekka kaffið sem ég laga. Svart, eins og ég er vanur að drekka það. En vakni ég ekki verður allt svart, eins og kaffið.

 

23. september 2016

Prógramm gærkvöldsins í MH gekk fyrir sig eins og ætlað hafði verið. Ég las textana um Botnskálann, og aðrir höfundar lásu sína texta; það var þéttsetinn Norðurkjallari, og Yrsa Þöll Gylfadóttir (sem las upp ansi skemmtilegan texta úr óbirtri skáldsögu) sagði mér að Þorgerður Ingólfsdóttir væri í húsinu (in da house – sem sagt í gærkvöldi), eftir að ég hafði eitthvað minnst á gamla minningu úr Norðurkjallara, minningu sem hafði með Þorgerði að gera, og Paul Zukovsky og Purrk Pillnikk – fyrstu æfingu Purrks Pillnikk, sem einmitt átti sér stað í Norðurkjallara (þegar Þorgerður og Paul voru að vinna að öðruvísi músík á efri hæðinni, í Hátíðasalnum – segi kannski frá þessu seinna). En sem sagt: Hamraskáldaupplesturinn var fínn. Svo fórum við, nokkrir höfundarnir, á Kringlukrána rétt fyrir lokun, og fengum okkur hressingu. Ég hlakka mjög til að lesa Látra-Björgu eftir Hermann Stefánsson. Sú bók á að koma út fyrir jólin. En nú að öðru. Ég hef gerst gestabloggari hjá dóttur minni Hrafnhildi. Hún heldur úti þessum fína vef, Ráðlögðum jazzskammti:

 

https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com

 

Þegar ég sendi henni þetta áðan – það var í hádeginu hér í Mordor, Reykjavík – var morgunn hjá henni í Cambridge, Massachusetts. Og þetta fór strax á vefinn. Enda má ekki bíða með eitthvað svona; Arthur Blythe þolir enga bið.

22. september 2016

Fjórir dagar liðnir og ég hef ekki bætt úr misheppnaðri birtingu minni á myndinni af fráfarandi forsætisráðherra og Danadrottningu. Rúma hálfa viku hefur sú myndbirting legið í loftinu en ekki losnað úr því ástandi og orðið að veruleika. Sá sem hefur ekki tíma til að sinna heimasíðunni sinni, hann hlýtur að vera að gera eitthvað annað. Og það stendur heima: ég er að gera svolítið annað. Það er varla að ég hafi tíma til að pikka inn þessi orð hér, því þetta „annað“ sem ég er upptekinn við hefur einmitt með orð að gera (en spurning hvort orð sé á því gerandi). (Ég hef aldrei áður notað þetta orðalag: að orð sé á því gerandi. Einhvern tíma er allt fyrst.) Í kvöld á ég að lesa upp í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð, ásamt öðrum höfundum sem stunduðu nám við þann skóla. Því var stungið að höfundunum að þeir læsu eitthvað sem tengdist veru þeirra í skólanum, en vegna þess að ég man ekki í fljótu bragði eftir að hafa skrifað eitthvað sérstaklega um MH, þá datt mér í hug að taka einn léttan Guðberg á þetta, og lesa eitthvað sem ég hefði skrifað um Verzlunarskóla Íslands, þar sem ég var við nám áður en ég hóf nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. En ég finn ekki heldur neitt sem ég hef skrifað um Verzlunarskóladvöl mína. Nema þá auðvitað bullið sem ég birti í skólablaðinu, Viljanum (þvílíkt nafn á skólablaði!). Ég ætla ekki að fara að rifja upp þau skrif. Er þá niðurstaðan sú að ég hef ekkert skrifað um reynslu mína í þessum skólum? Sé svarið já, þá er ástæðan líklega sú að ég var aldrei almennilega með hugann við þessa skóla á meðan ég var þar. Ég var annars staðar. Hér í Kafla á dag hef ég nýlega (minnir mig) rifjað upp einkunnablað mitt frá VÍ; og ef ég mínusa frá góðar einkunnir í tungumálunum, þá held ég að aðrar einkunnir mínar úr báðum skólunum, VÍ og MH, séu fullkomlega áþreifanleg sönnun þess að ég var fjarverandi í námi mínu á meðan ég stundaði það. Ég hef aftur á móti skrifað eitthvað um veru mína og reynslu í Hagaskóla (sem er gagnfræðaskóli, eins og það hét þá). Sá skóli dúkkar upp í nokkrum sögum, aðallega smásögum (minnir mig). En hvað á ég þá að lesa upp fyrir nemendur MH í kvöld? Ég er að hugsa um að lesa tvo stutta texta um Botnskálann í Hvalfirði, og nota tækifærið til að kynna smásagnaúrvalið sem kom út í vor, Dulnefnin. (Það verður að kynna þá bók betur; ég hef á tilfinningunni að ekki eitt einasta eintak hafi selst.) Botnskálinn er umfjöllunarefni sem hentar hverri stund og hverjum stað, jafnvel Norðurkjallara. Því mig grunar að ekki svo margir áheyrendur í kjallaranum í kvöld muni hafa hugmynd um hvað Botnskálinn er. Eða var. Hvað hann er – hann er nefnilega ennþá til, að minnsta kosti fýsískt séð, kannski ekki beint „andlega“. Þegar Guðbergur var beðinn um að tala um Halldór Laxness í sjónvarpinu, stuttu eftir að Halldór lést, þá talaði Guðbergur um Jón úr Vör. Ég mun segja frá Botnskálanum þegar ég á að tala um Menntaskólann við Hamrahlíð. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók árið 2011 af bakhlið þess sem einu sinni var Botnskálinn, og er það í einhverjum skilningi enn. Myndin af Danadrottningu og fráfarandi forsætisráðherra verður að bíða betri tíma. Enda allt í lagi með það: ég held að sú mynd hljóti að vera sígild, rétt eins og myndin af fyrrverandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. ps. Aftur klikkar myndbirtingin. Myndin af bakhlið Botnskálans vill ekki festast á síðunni. Ég verð að biðja um tæknilega aðstoð. Getur einhver veitt mér tæknilega aðstoð? Sigurjón?)

 

18. september 2016

Kafla á dag hefur borist mynd í tölvupósti. Myndefni. Ég geri ráð fyrir að myndin sé tekin í Kaupmannahöfn. Hún sýnir „framsóknarmann“ og hina glaðhlakkalegu Margréti Þórhildi danadrottningu (án sígarettu – en hún er kannski hætt). Jafnvel þótt Margrét virki svo glöð á myndinni að það hvarflar að manni að varla sé á færi mannlegrar veru að sýna meiri gleði en hún sýnir, þá er ég ekki frá því að „framsóknarmaðurinn“ sé öllu kátari en drottningin á því augnabliki sem myndin er tekin. En það er túlkunaratriði. Myndin á að minnsta kosti vel við á svona björtum sunnudegi á Íslandi. Það er annars spáð rigningu seinnipartinn eða í kvöld, hér á suðvesturhorninu. Í gær var sagt við mig: „Þannig að þú ætlar að kjósa Viðreisn?“ Þetta kom alveg flatt upp á mig. Ætlaði ég að kjósa Viðreisn? Hvar hafði sá sem spurði mig heyrt eitthvað um það? Ég ákvað að snúa vörn í sókn (með þeim fyrirvara að ég myndi draga úr sókninni frekar snögglega þegar samtalinu yndi fram – „yndi fram“, segir maður það?): „Já, ég var eitthvað að hugsa um það,“ sagði ég. „En fólkið í Viðreisn er sjálfstæðismenn,“ sagði viðmælandinn. „Nú, þá gengur það ekki,“ sagði ég, og bætti við: „En hvað er þá hægt að kjósa? Pírata?“ „Samfylkingin er í mestri þörf fyrir atkvæði í augnablikinu,“ sagði viðmælandinn, og útskýrði fyrir mér að hann hefði ætlað sér, sem félagshyggjumaður, að kjósa Vinstri-græna, en væri farinn að hallast að því að Samfylkingin hefði meiri þörf fyrir atkvæði hans en Vinstri-grænir. „En þá ertu að kjósa Össur Skarphéðinsson,“ sagði ég (og fannst ég aftur hafa snúið vörn í sókn). „Já, þá gengur það ekki,“ sagði viðmælandinn. Lengra varð samtalið ekki. Og við fórum báðir að hugsa um „Framsóknarflokkinn“, og þörf hans fyrir atkvæði frá landsmönnum. Við hugsuðum um Bósa Ljósár, að minnsta kosti ég. (Í ljós kemur að myndin frá Kaupmannhöfn vill ekki festast á vefsíðunni. Tæknin eitthvað að stríða mér. „I´ll have to look into this,“ eins og sagt er á ensku.)