29. september 2016

Vakni ég í fyrramálið mun ég laga mér kaffi; pissa og bursta tennurnar, og drekka kaffið sem ég laga. Svart, eins og ég er vanur að drekka það. En vakni ég ekki verður allt svart, eins og kaffið.

 

23. september 2016

Prógramm gærkvöldsins í MH gekk fyrir sig eins og ætlað hafði verið. Ég las textana um Botnskálann, og aðrir höfundar lásu sína texta; það var þéttsetinn Norðurkjallari, og Yrsa Þöll Gylfadóttir (sem las upp ansi skemmtilegan texta úr óbirtri skáldsögu) sagði mér að Þorgerður Ingólfsdóttir væri í húsinu (in da house – sem sagt í gærkvöldi), eftir að ég hafði eitthvað minnst á gamla minningu úr Norðurkjallara, minningu sem hafði með Þorgerði að gera, og Paul Zukovsky og Purrk Pillnikk – fyrstu æfingu Purrks Pillnikk, sem einmitt átti sér stað í Norðurkjallara (þegar Þorgerður og Paul voru að vinna að öðruvísi músík á efri hæðinni, í Hátíðasalnum – segi kannski frá þessu seinna). En sem sagt: Hamraskáldaupplesturinn var fínn. Svo fórum við, nokkrir höfundarnir, á Kringlukrána rétt fyrir lokun, og fengum okkur hressingu. Ég hlakka mjög til að lesa Látra-Björgu eftir Hermann Stefánsson. Sú bók á að koma út fyrir jólin. En nú að öðru. Ég hef gerst gestabloggari hjá dóttur minni Hrafnhildi. Hún heldur úti þessum fína vef, Ráðlögðum jazzskammti:

 

https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com

 

Þegar ég sendi henni þetta áðan – það var í hádeginu hér í Mordor, Reykjavík – var morgunn hjá henni í Cambridge, Massachusetts. Og þetta fór strax á vefinn. Enda má ekki bíða með eitthvað svona; Arthur Blythe þolir enga bið.

22. september 2016

Fjórir dagar liðnir og ég hef ekki bætt úr misheppnaðri birtingu minni á myndinni af fráfarandi forsætisráðherra og Danadrottningu. Rúma hálfa viku hefur sú myndbirting legið í loftinu en ekki losnað úr því ástandi og orðið að veruleika. Sá sem hefur ekki tíma til að sinna heimasíðunni sinni, hann hlýtur að vera að gera eitthvað annað. Og það stendur heima: ég er að gera svolítið annað. Það er varla að ég hafi tíma til að pikka inn þessi orð hér, því þetta „annað“ sem ég er upptekinn við hefur einmitt með orð að gera (en spurning hvort orð sé á því gerandi). (Ég hef aldrei áður notað þetta orðalag: að orð sé á því gerandi. Einhvern tíma er allt fyrst.) Í kvöld á ég að lesa upp í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð, ásamt öðrum höfundum sem stunduðu nám við þann skóla. Því var stungið að höfundunum að þeir læsu eitthvað sem tengdist veru þeirra í skólanum, en vegna þess að ég man ekki í fljótu bragði eftir að hafa skrifað eitthvað sérstaklega um MH, þá datt mér í hug að taka einn léttan Guðberg á þetta, og lesa eitthvað sem ég hefði skrifað um Verzlunarskóla Íslands, þar sem ég var við nám áður en ég hóf nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. En ég finn ekki heldur neitt sem ég hef skrifað um Verzlunarskóladvöl mína. Nema þá auðvitað bullið sem ég birti í skólablaðinu, Viljanum (þvílíkt nafn á skólablaði!). Ég ætla ekki að fara að rifja upp þau skrif. Er þá niðurstaðan sú að ég hef ekkert skrifað um reynslu mína í þessum skólum? Sé svarið já, þá er ástæðan líklega sú að ég var aldrei almennilega með hugann við þessa skóla á meðan ég var þar. Ég var annars staðar. Hér í Kafla á dag hef ég nýlega (minnir mig) rifjað upp einkunnablað mitt frá VÍ; og ef ég mínusa frá góðar einkunnir í tungumálunum, þá held ég að aðrar einkunnir mínar úr báðum skólunum, VÍ og MH, séu fullkomlega áþreifanleg sönnun þess að ég var fjarverandi í námi mínu á meðan ég stundaði það. Ég hef aftur á móti skrifað eitthvað um veru mína og reynslu í Hagaskóla (sem er gagnfræðaskóli, eins og það hét þá). Sá skóli dúkkar upp í nokkrum sögum, aðallega smásögum (minnir mig). En hvað á ég þá að lesa upp fyrir nemendur MH í kvöld? Ég er að hugsa um að lesa tvo stutta texta um Botnskálann í Hvalfirði, og nota tækifærið til að kynna smásagnaúrvalið sem kom út í vor, Dulnefnin. (Það verður að kynna þá bók betur; ég hef á tilfinningunni að ekki eitt einasta eintak hafi selst.) Botnskálinn er umfjöllunarefni sem hentar hverri stund og hverjum stað, jafnvel Norðurkjallara. Því mig grunar að ekki svo margir áheyrendur í kjallaranum í kvöld muni hafa hugmynd um hvað Botnskálinn er. Eða var. Hvað hann er – hann er nefnilega ennþá til, að minnsta kosti fýsískt séð, kannski ekki beint „andlega“. Þegar Guðbergur var beðinn um að tala um Halldór Laxness í sjónvarpinu, stuttu eftir að Halldór lést, þá talaði Guðbergur um Jón úr Vör. Ég mun segja frá Botnskálanum þegar ég á að tala um Menntaskólann við Hamrahlíð. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók árið 2011 af bakhlið þess sem einu sinni var Botnskálinn, og er það í einhverjum skilningi enn. Myndin af Danadrottningu og fráfarandi forsætisráðherra verður að bíða betri tíma. Enda allt í lagi með það: ég held að sú mynd hljóti að vera sígild, rétt eins og myndin af fyrrverandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. ps. Aftur klikkar myndbirtingin. Myndin af bakhlið Botnskálans vill ekki festast á síðunni. Ég verð að biðja um tæknilega aðstoð. Getur einhver veitt mér tæknilega aðstoð? Sigurjón?)

 

18. september 2016

Kafla á dag hefur borist mynd í tölvupósti. Myndefni. Ég geri ráð fyrir að myndin sé tekin í Kaupmannahöfn. Hún sýnir „framsóknarmann“ og hina glaðhlakkalegu Margréti Þórhildi danadrottningu (án sígarettu – en hún er kannski hætt). Jafnvel þótt Margrét virki svo glöð á myndinni að það hvarflar að manni að varla sé á færi mannlegrar veru að sýna meiri gleði en hún sýnir, þá er ég ekki frá því að „framsóknarmaðurinn“ sé öllu kátari en drottningin á því augnabliki sem myndin er tekin. En það er túlkunaratriði. Myndin á að minnsta kosti vel við á svona björtum sunnudegi á Íslandi. Það er annars spáð rigningu seinnipartinn eða í kvöld, hér á suðvesturhorninu. Í gær var sagt við mig: „Þannig að þú ætlar að kjósa Viðreisn?“ Þetta kom alveg flatt upp á mig. Ætlaði ég að kjósa Viðreisn? Hvar hafði sá sem spurði mig heyrt eitthvað um það? Ég ákvað að snúa vörn í sókn (með þeim fyrirvara að ég myndi draga úr sókninni frekar snögglega þegar samtalinu yndi fram – „yndi fram“, segir maður það?): „Já, ég var eitthvað að hugsa um það,“ sagði ég. „En fólkið í Viðreisn er sjálfstæðismenn,“ sagði viðmælandinn. „Nú, þá gengur það ekki,“ sagði ég, og bætti við: „En hvað er þá hægt að kjósa? Pírata?“ „Samfylkingin er í mestri þörf fyrir atkvæði í augnablikinu,“ sagði viðmælandinn, og útskýrði fyrir mér að hann hefði ætlað sér, sem félagshyggjumaður, að kjósa Vinstri-græna, en væri farinn að hallast að því að Samfylkingin hefði meiri þörf fyrir atkvæði hans en Vinstri-grænir. „En þá ertu að kjósa Össur Skarphéðinsson,“ sagði ég (og fannst ég aftur hafa snúið vörn í sókn). „Já, þá gengur það ekki,“ sagði viðmælandinn. Lengra varð samtalið ekki. Og við fórum báðir að hugsa um „Framsóknarflokkinn“, og þörf hans fyrir atkvæði frá landsmönnum. Við hugsuðum um Bósa Ljósár, að minnsta kosti ég. (Í ljós kemur að myndin frá Kaupmannhöfn vill ekki festast á vefsíðunni. Tæknin eitthvað að stríða mér. „I´ll have to look into this,“ eins og sagt er á ensku.)

 

16. september 2016

Bara til að láta mig sjálfan vita að ég sé á lífi. Þetta er annars falleg dagsetning. Heil vika undirlögð af flutningum úr 101 í 105, frá gamla kirkjugarðinum yfir í Mordor Reykjavíkur. Ég lít í anda núliðna tíð. Og horfi til turna Stýrimannaskólans, Háteigskirkju og Hallgrímskirkju – og til Bláfjalla. Í huganum horfi ég aftur á móti til Vatíkansins, og af því ræðst myndefni dagsins (eða öllu heldur vikunnar, því Kafli á dag, dagsins í dag, er í raun Kafli á viku).

9. september 2016

Gamla konan sem sat fyrir framan mig á tónleikunum í Hörpu í gær klappaði svo mikið fyrir rússneska píanóleikaranum í lok Rakhmanínov-konsertsins að ég óttaðist í raun og veru að hún myndi ekki hafa það af. Ég var sjálfur hættur að klappa – gat einfaldlega ekki meir – þegar hún var ekki nema hálfnuð með sitt klapp. Kannski er ég ekki sanngjarn að segja að þessi kona hafi verið gömul, en hún var að minnsta kosti tuttugu árum eldri en ég. Fyrir utan gleðina með tónleikana (sérstaklega Ravel-ballettinn eftir hlé) gladdist ég mjög yfir að ekkert gerðist fyrir konuna; ég las nefnilega fyrir nokkrum vikum um eitthvert atvik í Eldborgarsalnum þegar þurfti að kalla til lækni; en þarna sluppum við fyrir horn: það gerðist ekkert svoleiðis í gærkvöldi. „Eldri“ konan klappaði ekki síður fyrir Dafnis og Klóa eftir hlé, og nýja stjórnandanum, Tortelier; en það var ekki eins ákaft klapp og fyrir rússneska píanóleikaranum, Lugansky – kannski var af henni dregið. En þetta var gott kvöld. Ég elska Ravel ekki minna núna en ég gerði.

6. september 2016 (aukafærsla)

Það eina skemmtilega við hinn leiðinlega fótboltaleik í gærkvöldi var áhorfendaleysið. En svo er spurning hvort það hafi einmitt verið áhorfendaleysið sem gerði leikinn leiðinlegan. Mér varð strax hugsað til Ashes to ashes eftir Harold Pinter, þar sem Devlin ræðir um Guð við Rebeccu:

 

Be careful how you talk about God. He´s the only Go we have. If you let him go he won´t come back. He won´t even look back over his shoulder. And then what will you do? You know what it´ll be like, such a vacuum? It´ll be like England playing Brazil at Wembley and not a soul in the stadium. Can you imagine? Playing both halves to a totally empty house. The game of the century. Absolute silence. Not a soul watching. Absolute silence. Apart from the referee´s whistle and a fair bit of fucking and blinding. If you turn away from God it means that the great and noble game of soccer will fall into permanent oblivion.

 

(Vegna fámennisins á 70.000 manna leikvanginum í Kiev heyrði maður í fyrsta skipti í gær í þjálfara íslenska liðsins þegar hann hrópaði leiðbeiningar til „strákanna“. Hann hrópaði meðal annars: „Þið verðið að refsa þeim!“ Þá varð mér hugsað til Guðs.)

6. september 2016

MANNAMÓT

ljóð í óbundnu máli eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson

 

„Ég hef ekki, frá því ég byrjaði í stjórnmálum, fundið eins mikinn stuðning og velvild frá almenningi eins og síðustu misseri. Á meðan á öllu þessu gekk síðasta vor, þá vissulega vissu margir ekki hvernig ætti að taka því, en ég til dæmis fer ekki út í búð núna eða einhvers staðar á mannamót öðruvísi en að það komi til mín fólk til að ræða þessi mál og alltaf á jákvæðum nótum; til þess að segja mér að núna þegar rykið sé sest þá sjái menn hverskonar aðför þetta hafi verið og alltaf hvatning: ekki gefast upp. Við treystum á að þú haldir áfram. Þú verður að halda áfram þeirri baráttu sem þú hefur leitt. Oft fengið að heyra: ef þú lofar mér að þú heldur áfram þá skal ég kjósa Framsóknarflokkinn í fyrsta skipti.“

 

(birtist í Kjarnanum 4. sept. 2016, en var upphaflega flutt á útvarpsstöðinni Bylgjunni þann dag, fyrir hádegi)

5. september 2016

Auglýsing: Þessa viku verða Dulnefnin (sögur 1996 – 2014) bók vikunnar á Rás 1. Það prógramm hefst í Víðsjá í dag, og lýkur næsta sunnudag. Ég fór í spjall til Helga Snæs Sigurðssonar í morgun (við töluðum um ferhyrninga og miðaldra karlmenn, meðal annars); svo skilst mér að Guðrún Lára Pétursdóttir, sem skrifaði eftirmála bókarinnar, og Árni Matthíasson, eigi að spjalla um Dulnefnin á sunnudaginn. Messan í Hafnarfjarðarkirkju í gær var sem sagt upptakturinn að þessu. (Núna var ég búinn að láta mér detta í hug að birta hér stystu söguna í Dulnefnunum, en mundi þá eftir því að ég birti tvö eigin ljóð í gær, og fannst að með birtingu sögunnar (Botnskálinn) yrðu birtingar á eigin efni fulltíðar hér á síðunni, þannig að ég ætla að hafa smá músík í staðinn. Þessa dagana er ég að reyna að gíra mig upp í að senda einhvers konar gestafærslu á bloggsíðuna Ráðlagður jazzskammtur, sem nýlega hefur verið ræst í netheimum (https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com) – ef ég má gera svoleiðis, það er að segja – og var eitthvað að hugsa um að láta þá færslu fjalla um snillinginn Gil Evans. En svo var ég hálfpartinn fallinn frá því; ég fór að hugsa um að velja svolítið annað. En til að láta ekki Gil Evans liggja alveg óbættan hjá garði, þá hefi ég látið mér detta í hug að spila hann hér í dag, og láta hann verða upptakt að gestafærslunni á Ráðlögðum jazzskammti (ef ég má á annað borð koma með gestafærslu – ég endurtek það), jafnvel þótt í gestafærslunni verði ekkert minnst á Gil Evans. Ég hefi valið hina óviðjafnanlegu útgáfu af lagi Willies Dixon, Spoonful; þetta er að finna á plötunni The Individualism of Gil Evans, aukalag á geisladisksútgáfunni.)

4. september 2016 (aukafærsla)

Móðir mín hringdi í mig í dag. Bara rétt áðan. „Hvað heldurðu, sonur sæll,“ sagði hún (hún orðaði það reyndar ekki þannig): „það var vitnað í ljóð eftir þig í útvarpsmessunni áðan!“ „Hvaða ljóð?“ spurði ég. „Það var eitthvað um haustið,“ sagði hún, „eitthvað um ilmandi skólatösku. Í hvaða bók er þetta?“ Það fór um mig óttablandin sæla, og um leið skammaðist ég mín (búinn að vera vondur við forsætisráðherra, eða „forsætisráðherra“, í færslu morgunsins, og ábyggilega búinn að hugsa eitthvað ljótt um kirkjuna í landinu líka frá því ég vaknaði í morgun); og ég svaraði mömmu: „Þetta ljóð er í bókinni Ansjósur. Það heitir Haustið.“ Ég spurði hana hvort þetta væri framar- eða aftarlega í messunni; við ræddum síðan um eitthvað annað, alveg ótengt haustinu eða ljóðlistinni; mig minnir (þótt ekki sé nema korter liðið frá símtalinu) að við höfum rætt svolítið um Katrínu Jakobsdóttur, Birgittu Jónsdóttur, og klæðnað kvenna á alþingi (jú, ég man það alveg núna: við töluðum um þetta – mamma var ekki alveg dús við hvernig þær Katrín og Birgitta koma fyrir; henni fannst Birgitta stundum eins og draugur; og ég get alveg tekið undir það – mér finnst það samt svolítið flott þegar fólki tekst að vekja upp þá hugmynd með klæðaburði sínum að það sé framliðið). En núna, þegar klukkan er að verða hálftvö, er ég búinn að hlusta á prestinn, Þórhildi Ólafs, fara með ljóðið mitt, og strax farinn að endurskoða hug minn gagnvart kristinni trú og kirkjumálum landsins. Moi orðinn hluti af predikun á sunnudegi í Hafnarfjarðarkirkju!? En moi er afar stoltur og ánægður. Með því að klikka mig í gegnum klukkutíma langa messuna heyrði ég að vitnað var einnig í ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og Snorra Hjartarson, gott ef ekki Matthías Jóhannesen líka, en Haustið mitt brestur á í kringum 38. mínútuna.

HAUSTIÐ

 

Haustið, hvílíkur léttir!

 

Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn

sú sem leggur þér skæri í hönd

og pappír.

 

Sú sem ég þekki best

skólataskan sem ilmar

af bókum um allt sem er liðið

af leðri og gljáandi epli

og kveðju að heiman.

 

(Á sömu opnu í bókinni, vinstra megin, er ljóð sem ég hlýt á sínum tíma að hafa passað vel upp á að lenti í opnu með Haustinu.)

 

AÐ LOKNU SUMRI

 

Væri skap hans mælt í rúmmetrum eða öðrum kassalaga einingum, mæltist það á borð við meðalstóra hlöðu,

 

risastóra hlöðu að loknu sumri, og ég er þar á vappi í kring með eldspýtnastokkinn minn.

4. september 2016

Að kalla „forsætisráðherra“ feitilíus eru mistök vegna þess að „forsætisráðherra“ er meira fauti en feitur. Munið „Fiskistofu í heild sinni til Akureyrar“. Ég á að minnsta kosti mjög erfitt með að gleyma því máli; ég hef reynt en án árangurs. En hefði Arnar Páll Hauksson kallað „forsætisráðherra“ fauta, hefði hann þá verið neyddur til að biðjast afsökunar? Ég fletti orðinu fauti upp, og þar stendur þetta: 1 heimskingi 2 sá sem reiðist fljótt og illa, bráðlyndur maður. Að fautast er útskýrt svona: 1 asnast, bjálfast 2 hegða sér reiðilega, rjúka upp í reiði. Ég held, ef maður tekur mark á orðabókinni, að það hefði verið meiri ástæða til að fara fram á afsökunarbeiðni hefði Arnar Páll kallað „forsætisráðherra“ fauta – með öðrum orðum bráðlyndan heimskingja. En „Fiskistofa í heild sinni til Akureyrar“ var samt afar heimskuleg fyrirskipun, og asnaleg og bjálfaleg. Hvort ákvörðunin hafi verið tekin í einhverri reiði er ekki gott að segja, en ég er ennþá á því að „forsætisráðherra“ sé fauti frekar en feitur. Og biðst ekki afsökunar á því, enda virtist „forsætisráðherra“ (þá sjávarútvegsráðherra) ekki vera neitt sérstaklega sorrí vegna yfirgangs síns gagnvart starfsfólki Fiskistofu, þótt hann hafi neyðst til að draga ákvörðun sína til baka. En aðeins meira um orðið fauti. Ég fletti því upp í gömlu samheitaorðabókinni: flón, fól, funi, æðikollur, sbr. ofsamaður. Einmitt. Hinn hægláti „forsætisráðherra“ er ofsamaður. Myndskreyting dagsins er annars af gömlum framsóknarmanni (og Ratzinger páfa).

2. september 2016

„I love the smell of napalm in the morning,“ sagði Bill Kilgore ofursti. Ég þekki sjálfur ekki lyktina af napalmi; það sem ég aftur á móti elska á morgnana er að hlusta á hið Elektróníska ljóð Edgars Varèse, og síðan í framhaldi á hinn Djúpa svarta svefn sama höfundar – eftir það er klukkunni óhætt að verða níu. Og þá er maður líka vaknaður.

1. september 2016

Kominn nýr mánuður, og rúm vika liðin frá síðustu færslu. Kafli á viku (eins og yfirskriftin var um tíma) dugir ekki einu sinni sem afsökun fyrir svona lélegum afköstum. Og ekki ætla ég að fara að vitna í The Beatles. En þegar líf og starf kemur í veg fyrir að maður geti sinnt svona tómstundaiðju (að setja færslur á vefinn), þá hlýtur eitthvað gott að vera að gerast í lífi og starfi. Ég held ég ljúki þessari áttundadagsfærslu á þeim nótum. Og bæti við nokkrum píanónótum frá John Cage – að vísu breyttum píanónótum – bara til að hafa einhverja myndskreytingu:

 

24. ágúst 2016

ÁN TITILS

 

Í kjörbúðinni hitti ég gamlan vin föður míns heitins. Og við spjöllum saman; við höfum ekki hist í einhver sjö eða átta ár. Sígarettupakki gægist upp úr skyrtuvasa hans. Það sem hann segir við mig áður en við kveðjumst, eftir svolítið spjall (þó ekki um föður minn) hlýtur að vera eitthvað sem margir hafa orðað áður – það hljómar þannig – en ég hafði samt aldrei heyrt það fyrr: „Maður er bara á einum stað í einu,“ segir hann.

 

Ég segi já við því. Við höfðum talað saman um rafeindir og taugaboð, bílategundir og líkamsheilsu, og að lokum um útsýni úr sumarbústöðum og þá fjarlægð sem að hans mati hafði verið svo óþörf á milli bústaðar hans, vinar pabba og konunnar hans, og pabba og mömmu; þau áttu bústað á sama stað á landinu, við sama vatn.

 

Svo kveðjumst við, og göngum í sitthvora áttina; hann inn í búðina, ég út úr henni. Fimm mínútum síðar, þegar ég nálgast heimili mitt í bílnum, finnst mér eins og að með orðinu maður hafi vinur pabba verið að tala um pabba, ekki okkur, eins og ég hélt í fyrstu. Og það tekur mig svolítinn tíma að ákveða hvað ég á að kalla þessa frásögn mína, hvort Á einum stað í einu sé eðlilegasti titillinn, eða Að deyja merkir meðal annars það að maður fer aldrei aftur í kjörbúðina.

23. ágúst 2016

Bobby Hutcherson er dáinn. Ég ætlaði að segja frá því fyrir nokkrum dögum, því þetta gerðist núna um daginn, en ég hef bara verið svo upptekinn. Ég hef aldrei þekkt jafn upptekinn mann og mig núna síðustu daga. Ég var líka rétt í þessu að fá sjóðheitar fréttir úr íslenskum bókaútgáfuheimi, reyndar svo heitar að ég er að hugsa um að láta þær kólna aðeins áður en ég sendi þær út í loftið. Þessar fréttir varða Das Verlag við Bræðraborgarstíg. Ég kem kannski með þær eftir nokkra daga, þegar fólk verður búið að átta sig á þeim. En þangað til er við hæfi að setja á fóninn hljóðritun með Bobby Hutcherson – Bobby Hutcherson er alltaf við hæfi:

 

 

En þegar maður minnist á Bobby Hutcherson, þá verður ekki hjá því komist að láta eftirfarandi fylgja með. Á mínútu 5.52 hefst eitt fallegasta sóló jazzsögunnar (svo ég gerist ögn hátíðlegur):

 

17. ágúst 2016

Ég birti í gær ljóð Nezvals, Tunglskin. Um kvöldið fór ég síðan að fletta í öðru verki eftir annan höfund, en með sama titli: Moonlight eftir Harold Pinter:

 

„Rationality went down the drain donkey´s years ago and hasn´t been seen since. All that famous rationality of yours is swimming about in waste disposal turdology. It´s burping and farting away in the cesspit for ever and ever.“

 

Það var Ian Holm, í hlutverki Andys, hins deyjandi föður í leikritinu, sem fór með þessar línur í frumuppfærslu verksins. Það skiptir öllu máli hver fer með svona línur – þær myndu aldrei hljóma vel úr mínum munni.

 

Andy aftur, örlítið síðar í leikritinu:

 

„I would never use obscene language in the office. Certainly not. I kept my obscene language for the home, where it belongs.“

 

Ég get ekki beðið eftir að sjá Ian McKellen og Patrick Stewart í nýrri uppfærslu á No man´s land í London í desember; það verður í fyrsta skipti sem ég sé leikrit eftir Pinter á sviði í öðru landi en Íslandi. En ég verð víst að bíða. Það eru ýmsar leiðir til að telja manni sjálfum trú um að tíminn líði hraðar en hann gerir á klukkunni, en samt engin til að láta hann líða hraðar. Ég þekki að minnsta kosti enga.