11. júní 2016

Óbeina lýsingin heldur áfram. Að vísu eru leikir dagsins ekki byrjaðir; þeir voru það að minnsta kosti ekki þegar ég kveikti á sjónvarpstækinu klukkan hálfníu í morgun. Ég hef ekki hugmynd hverjir spila í dag, fyrir utan leikinn í kvöld, sem er milli Englendinga og Rússa. En ég hef tekið eftir einu – svo ég stökkvi úr einu í annað – og það er þetta: Þegar fótboltamennirnir eru í viðtölum, þá virðast þeir hafa tilhneigingu til að horfa ekki í augu viðmælandans, eða spyrjandans, heldur út um víðan völl, ef svo má að orði komast. Og líklega er það nokkuð heppilega orðað hjá mér, því það má alveg ímynda sér að á meðan los fútbolistas tala við fjölmiðlafólkið, þá séu þeir að fylgjast með stöðunni í kringum sig; alltaf á varðbergi; stöðugt með hugann við að á hverju augnabliki geti verið von á bolta úr einhverri áttinni. Mér finnst þetta frekar áberandi. Þeir (fótboltamennirnir) horfa kannski í augu spyrjandans þegar spurningin kemur; en svo fara þeir að skima eitthvað annað; og í lok svarsins hafa þeir jafnvel snúið sér alveg við, og þurfa því að fara aftur í upprunalega stöðu þegar næsta spurning kemur. Ég verð ekki svo mikið var við þetta þegar stjórnmálamenn eða rithöfundar koma í viðtöl. En þá er ég kannski með hugann við eitthvað annað. Þegar ég hlusta – eða horfi öllu heldur – á viðtölin við fótboltamennina, þá er ég bara að hugsa um það, ekkert annað. Ég tók líka eftir öðru, þegar ég fylgdist með útsendingunni frá EM-stofunni í Gamla bíói í gærkvöldi: það rigndi ofan í sófann á svölunum. Eflaust er þetta sófi sem þolir vel bleytu; en ég fór bara að velta því fyrir mér hvort hann nái að þorna fyrir næstu útsendingu, sem væntanlega er einhvern tíma í dag. Því sófinn hlýtur að vera þarna til þess að einhver setjist í hann. Og varla getur það verið freistandi að setjast í blautan sófa. (Ég áskil mér rétt til að vera með aukafærslu í dag. Ekki það að ég þurfi að biðja um leyfi, en samt.)

10. júní 2016

Franska skáldsagan heldur áfram: mamma hringdi aftur frá Tenerife í dag. („Móðir hringdi frá Tenerife í dag.“) Nýjustu upplýsingar eru þær að það hefðu ekki beinlínis verið tjallar sem opnuðu gáttir Helvítis á hótelinu í gær; það voru Skotar. En eru ekki Skotar tjallar? Nei. Það eru Englendingar sem eru tjallar. En það voru samt læti í Skotunum; ég heyrði í þeim í gegnum símann í gær. Evrópukeppnin fór heldur betur vel af stað í dag. Auðvitað vonar maður alltaf að „ólíklegri“ þjóðin vinni leikinn – og keppnina – en markið á 89. mínútu var svo fallegt að allar væntingar aðrar en þær að fá falleg mörk gufuðu upp. Maður gufar upp sjálfur við að horfa á svona mark. Ég hélt ég hefði nýtt mína peninga illa með því að borga 6 þúsund og níu hundruð krónur í áskrift að „áhorfinu“, en ég er strax kominn út í gróða. Ég get ekki beðið eftir að fá að sjá Iniesta, hvenær sem það verður. (Ég sá hann á auglýsingaplakati í Barcelona um daginn.) Og íslenska landsliðið. Ég get bara almennt ekki beðið. Ég er að hugsa um að vera með óbeina lýsingu frá keppninni í Frakklandi. Enda er ég ekki staddur í Frakklandi; það eru bara systkini mín sem eru stödd þar (bróðir og systir). En „Mamma hringdi aftur í dag.“ (Franska skáldsagan heldur áfram.)

 

9. júní 2016

Móðir mín hringdi í mig áðan. (Hljómar eins og upphaf franskrar skáldsögu.) Hún er á Tenerife, og verður þar, ásamt systur sinni og bróður, þangað til á laugardag. Það var kominn hópur af tjöllum á hótelið. Mér fannst eins og hún væri að hringja í mig til að segja mér frá því. Allavega var friðurinn úti á hótelinu, sagði hún mér. Ég heyrði vel í tjöllunum gegnum símann. Mamma spurði hvort ég heyrði ekki í þeim – og hvort ég gerði! Hún lýsti þessum mönnum fyrir mér; þeir væru með mikla vöðva – og maga. Og borðið hjá þeim væri þakið bjórdósum og flöskum. Mamma sat á svölunum hjá sér á meðan hún talaði við mig í símann; þær systurnar voru á fjórðu hæð; og tjallarnir, sem sátu við sundlaugina, voru beint fyrir neðan þær. Og það rifjaðist upp fyrir mér að í síðustu ferð mömmu til Tenerife, eða þarsíðustu, gerðist það sama: tjallarnir mættu á svæðið, og gáttir Helvítis opnuðust. Svo byrjar Evrópukeppnin á morgun. Er England annars í Evrópu?

8. júní 2016

Hálfur dagurinn liðinn, og ég er rétt að muna eftir því núna, klukkan 14:45, að útgáfufélagið Smekkleysa sm.ehf. er þrjátíu ára í dag. Til hamingju, Smekkleysa. Ég mundi eftir þessu fyrir viku, en framan af sjálfum afmælisdeginum var það gleymt. (Ég var að hugsa annað.) En hvað á maður að segja? Hér er fyrsta útgáfa Smekkleysu, póstkortið með myndinni eftir Frikka, í tilefni Höfðafundarins sögulega:

Unknown

Útgáfa númer tvö var fyrsta ljóðabókin mín, Dragsúgur. (Hana er að finna á Náttborði lemúrsins, meðal annarra „fyrstu útgáfa“, þótt ekki sé mynd af framhlið bókarinnar):

 

http://lemurinn.is/2015/01/11/islenzkar-ljodabaekur-fyrsta-utgafa/

 

Mér er mjög minnisstætt hvernig þessi bók varð til, það er að segja hluturinn sjálfur. (Og ekki síður er mér minnisstætt hvernig textinn í henni varð til, þótt ég muni auðvitað fæst af því, nema auðvitað textann sjálfan, sem ég man reyndar heldur ekki, væri ég beðinn um að fara með hann blaðlaust.) Við Einar Melax sátum kvöld eftir kvöld, í íbúð sem ég bjó í á þeim tíma, við Laugaveg 139, og undir stjórn Einars föndruðum við einhver 200 til 250 eintök; límdum þau saman og pressuðum yfir nótt undir sjónvarpstækinu mínu. Það er hægt að verða mjög nostalgískur við að rifja upp eitthvað svona. Þriðja útgáfa Smekkleysu var síðan fyrsta plata Sykurmolanna, einn mol´á mann, með lögunum Ammæli og Köttur, fjármögnuð (að minnsta kosti að hluta til) með ágóðanum af póstkortinu …

7. júní 2016

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur
(Skammidalur)

Þegar ég horfði á leik Íslendinga og Liechtenstein í gærkvöldi varð ég var við að orðið færsla var talsvert notað til að lýsa hreyfingum og stöðu leikmanna á vellinum. Ef ég skildi – eða heyrði – það rétt. Ég hef reyndar heyrt þetta orð notað áður í fótboltamáli, en það vakti sérstaka athygli mína núna vegna þess að ég hef sjálfur notað orðið í tengslum við eigin skrif, og þá aðallega skáldsöguna Fjarveran. Sú bók beinlínis fjallar um „færsluna“ á persónum hennar – og auðvitað fjarveru þeirra á sviðinu. Auðvitað er það galið (eins og ég hef ábyggilega talað um hér áður) að höfundur sé að lýsa því um hvað bókin hans er – það er ekki í hans verkahring – en mér fannst á einhvern hátt fremur saklaust að orða það með sjálfum mér (og frá og með núna í texta aðgengilegum öðrum) að skáldsagan Fjarveran, sem kom út árið 2012, fjalli öðru fremur um „færsluna“ á persónunum; um það hvernig þær færast úr einum stað í annan, og hvaða áhrif það hefur á hinar persónurnar að sú persóna sem lýst er hverju sinni skuli færa sig á þennan hátt eða hinn. Einhver sagði einhvern tíma um einhvern að hann hefði „þægilega fjarveru“. Ég stóðst þá freistingu að nota þau orð í bókinni Fjarveran; og eftir á að hyggja hefðu þau ekki átt heima þar. En núna er Evrópukeppnin í fótbolta framundan. Og ég hef ekki enn tekið ákvörðun um hvort ég fylgist með henni í sjónvarpinu eða ekki; hvort ég fylgist með færslu leikmanna í þeirri keppni. Einu sinni var ég beðinn um að spjalla um fótbolta í sjónvarpi – það var Þorsteinn Joð sem bað mig (mig af öllum mönnum; ég veit ekki af hverju; jú, það var vegna þess að ég var að skrifa niður orð og orðatiltæki í lýsingum á keppninni, og einhverra hluta vegna frétti Þorsteinn af því) – og þá, þegar ég mætti í þáttinn til hans, bjó ég óvart til hugtakið ambient-fótbolti (að gefnu tilefni reyndar, því í einhverjum leiknum í yfirstandandi keppni var leikinn fótbolti sem leit einmitt þannig út: ambient-fólbolti). Núna dettur mér í hug að gaman væri að sjá fótboltaleik þar sem engin færsla leikmanna ætti sér stað; að þeir væru í raun allir – allir 22 mennirnir á vellinum – fjarverandi. Ég gæti vel hugsað mér að horfa á svoleiðis leik.

6. júní 2016

Það er alltaf verið að hringja í mig frá ADHD-samtökunum. Núna síðast fyrir nokkrum dögum. Það var verið að biðja mig um fjárstyrk. Reyndar hefur ekkert verið hringt frá því þeir hringdu um daginn, þannig að ef til vill er ósanngjarnt af mér að „það sé alltaf verið að hringja“. En þá eru það bara einhverjir aðrir sem hringja. Síðast var það eitthvert fyrirtæki sem mér heyrðist að væri kallað Vís. Það var ekki Vísa, ég hefði áttað mig á því. En maðurinn sem hringdi (reyndar hljómaði hann svo ungur að réttara væri að tala um „dreng“), hann spurði hvort þeir mættu ekki kíkja í heimsókn til mín og kynna fyrir mér eitthvað sem væri mun betra en það sem ég hefði nú þegar … Um leið og ég rifja þetta upp, þá sé ég hálfpartinn eftir að hafa afþakkað „tilboðið“ jafnfljótt og ég gerði; ég hefði átt að leyfa „drengnum“ að tala aðeins lengur – þá hefði ég kannski komist að því hvað það var sem hann vildi bjóða mér. En það er of seint núna. Ég er ekki með þannig númerabirti eða -minni í símanum að ég geti flett upp númerum aftur í tímann. „Aftur í símann“. En talandi um heimsóknir, þá fékk ég heimsókn í morgun. Góður vinur minn rak inn nefið. (Og í kjölfar nefsins kom allur líkami hans inn, ef svo má að orði komast.) Hann staldraði ekki lengi við (hann gerir það aldrei á virkum dögum; hann veit að ég þarf að vinna – hann þarf sömuleiðis að vinna); en við náðum samt að fara yfir hin og þessi mál, og minnast á einhverjar bækur, jafnvel bíómyndir. (Við þögðum alveg um forsetakosningarnar. Og líka um Evrópukeppnina í fótbolta.) Það sem mér er þó minnisstæðast úr samtali okkar er orðið menja. Við vorum að virða fyrir okkur hús við Tjarnargötuna, þar sem verið er að undirbúa opnun safns í nafni Júlíönu Sveinsdóttur – húsið blasir við út um gluggann hjá mér – og við töluðum um litinn sem verið er að mála húsið með; það er fallegur grænn litur sem fellur vel inn í umhverfið, þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað liturinn er kallaður (annað en grænn). Almennt er ég ekki hrifinn af grænum lit, en þessi græni finnst mér fallegur – enda kann ég ekki nafnið á honum. „En liturinn sem þeir settu á fyrst, áður en þeir byrjuðu að mála með þessum græna – það er menja,“ sagði vinur minn. Og um leið og hann sagði orðið menja fór ég í huganum aftur um sirka 35 ár, í gamla Daníelsslipp við Mýrargötu, þar sem ég var sumarstarfsmaður eitt eða tvö sumur. Þar var ég alltaf að bera menju á skipabotnana. Menja er ryðvörn. En sú menja, sem notuð var í Daníelsslipp fyrir 35 árum, var öðruvísi á litinn en menjan sem þeir notuðu á húsið við Tjarnargötuna núna um daginn. Kannski er ástæðan fyrir því sú að húsinu er ekki ætlað að vera undir yfirborði sjávar. En núna (þegar ég skrifa þetta) koma fleiri minningar upp í hugann frá Daníelsslipp. Ég finn lyktina af tólgnum sem við þurftum að bera á teinana. Það var svakaleg lykt. Mér verður bumbult þegar ég hugsa um hana. Og ég man líka eftir að um svipað leyti og ég vann í Daníelsslipp – gott ef það var ekki bara sama sumarið (sem kannski voru tvö) – keypti ég plötuna Homecoming – Live at The Village Vanguard með saxófónleikaranum Dexter Gordon. Og á þeirri plötu var tónsmíð eftir sjálfan Dexter Gordon sem kallaðist Fenja. Hvernig Dexter kynnti lagið á upptökunni er mér mjög minnisstætt; hann hafði svo djúpa rödd. Fenja er held ég örugglega nafnið á eiginkonu Dexters. Auðvitað ætti ég að nota tækifærið núna og leiða talið að jazzútgáfufyrirtækinu Enja, en ég ætla að standast þá freistingu. Ég læt þetta gott heita í bili. Fyrir utan að fletta upp á youtube og athuga hvort þar sé ekki Fenja með Dexter Gordon. Það er ekki. En þarna er upptaka frá því í fyrra, með kvintett einhvers Daniels Matthews; og þeir eru að spila Fenja eftir Dexter Gordon, til heiðurs höfundinum. Þetta er ekki eins flott og á Homecoming-plötunni, en samt:

 

2. júní 2016

Ég hef verið að lesa í bók sem nefnist Vor unga stétt – Verzlunarskóli Íslands í 100 ár. Auðvitað ber mér að útskýra slíkt val á lestrarefni, en ég ætla ekki að gera það. Ég var reyndar sjálfur í þessum skóla (þess vegna á ég bókina), og lauk þaðan svokölluðu „verslunarprófi“, með frekar lágri einkunn, aðallega í bókfærslu og hagfræði. Ég lærði annars að vélrita í Verzlunarskólanum – það er að segja almennilega; það nám hófst í Hagaskóla – og að lesa ljóð eftir Þorstein frá Hamri. Svo lærði ég að skrifa verslunarbréf á íslensku og ensku. Ég mun alltaf búa að þeirri dýrmætu reynslu, að hafa lært að skrifa verslunarbréf; og núna í augnablikinu (þessa dagana) er ég óbeint að nýta mér þann lærdóm, verslunarbréfið, í bók sem ég er að skrifa. Annars er 100 ára saga V.Í. mjög svo áhugaverð bók, og vel unnin, með ansi ríkulegu myndefni. Mig langar til að vitna svolítið í hana – í gamni (það er alls ekki illa meint). Í bókinni er sérstakur dálkur sem nefnist „Ég valdi Verzló …“ (vegna þess osfrv.). Björgólfur Guðmundsson athafnamaður (sem var góður vinur, og skólabróðir, föður míns heitins), er einn af þeim sem var beðinn um að fylla út í þennan dálk. Hann útskýrir val sitt á Verzló meðal annars með eftirfarandi orðum: „… vegna þess að hugur minn stóð til viðskipta og atvinnureksturs, og hef ég verið aðili að stofnun og stjórnun ýmissa fyrirtækja.“ Um það bil þrjátíu árum síðar er sonur Björgólfs, Björgólfur Thor, fjárfestir, beðinn um að svara sömu spurningu; og það verður að segjast eins og er að svar hans er helvíti fínt. Hér er innan úr því: „… ég þekkti fullt af fólki sem hafði verið í Verzló, bæði ættingja og eldri systkini vina minna, og þau lofuðu skólann mjög mikið. Svo var hann einnig annálaður fyrir að vera með skemmtilegasta félagslífið, mesta djammið og sætustu stelpurnar og auðvitað hafði það mikið að segja. Í gegnum Verzló lærði ég eiginlega bara fyrir skyndiprófin.“ Þótt mín, „kaflahöfundar“, sé getið í þessari fínu bók, Vor unga stétt (það er vitnað í texta – agalegan texta – sem ég skrifaði í skólablaðið), þá var ég (því miður, verð ég að segja) ekki beðinn um að tjá mig um ástæður þess að ég valdi Verzló á sínum tíma. En ef ég man rétt, þá gerði ég það vegna þess að mér var illa við MR. Ég fann reyndar fljótlega eftir að ég hóf mitt „verzlunarnám“ að ég ætti ekki langa framtíð fyrir höndum í „faginu“. Ég entist þó í heil tvö ár, og náði verslunarprófinu, þvert á eigin væntingar – og þrátt fyrir að ég sofnaði í hagfræðiprófinu. Svo flutti ég mig yfir í MH. Og ég komst upp úr þeim skóla líka, þrátt fyrir að falla tvisvar á sama stærðfræðiprófinu – fékk einkunina E. Það hafðist þó í þriðju tilraun – þá fékk ég A – en bara vegna þess að Megas gaf mér svolítið kver til að styðjast við, Stærðfræðileg formúluljóð. (Heitir hún það ekki annars, litla bókin? Ég finn hana aldrei þegar á þarf að halda.)

1. júní 2016

Það gerðist næstum því í morgun að ég næði að taka ákvörðun varðandi óbirtar spurningar blaðakonunnar um daginn (sem ég ætla ekki að gera til geðs að þessu sinni að nefna á nafn; hún vakti mig nefnilega eldsnemma í morgun – fyrir mistök – hún hafði ætlað sér að hringja í aðra manneskju); en svo mundi ég eftir að hafa ákveðið að minnast á þá staðreynd (sem mér finnst einmitt í augnablikinu vera óskaplega „mikil staðreynd“, einkum ef hafður er í huga árafjöldinn sem liðinn er frá því að uppspretta staðreyndarinnar varð til) að útgáfufyrirtækið Smekkleysa mun fagna 30 ára afmæli eftir viku. Þann 8. júní nk. „Staðreyndin“ vekur upp í huganum alls kyns hrif og kenndir, ef mér leyfist að orða það svo. En ég verð að bíða aðeins með að gera mér þetta að „fréttaefni“; ég hef nefnilega öðrum hnöppum að hneppa í augnablikinu (enn og aftur) – ég hef bara ekki tíma. Enda er líka vika þangað til að Smekkleysa verður 30. Það er nægur tími. (Við hittumst fyrir viku, við eigendur fyrirtækisins, og það var tekin endanleg ákvörðun um að „prenta“ stuttermaskyrtur til að selja ferðamönnum í Smekkleysubúðinni í sumar. Ferðamenn kaupa nefnilega ekkert annað en boli – og hugsanlega lundalíkneski og lundabangsa. Þeir koma inn í Smekkleysubúðina við Laugaveg, og dást að því hversu frábært sé að svona lítil og sæt plötubúð skuli þrífast við aðalverslunargötuna í bænum; en þeir kaupa engar plötur eða geisladiska. Bara boli. Þeir fá tónlistina á netinu. Og þess vegna er þetta fín hugmynd að „prenta“ handa þeim boli. Hingað til hafa þeir bara getað keypt einhverja aðra boli en Smekkleysuboli; en frá og með næstu dögum munu þeir geta keypt sér Smekkleysuboli. Bolirnir verða í mismunandi litum, með nafni Smekkleysu á íslensku og ensku, held ég, og með nafni borgarinnar á bakhliðinni, til að ferðamennirnir geti „sannað“ fyrir vinum sínum og vandamönnum þegar þeir snúa aftur heim að þeir hafi verið í Reykjavík, og komið við í lítilli plötubúð.)

31. maí 2016

Ég veit um mann sem er prógrammeraður til að skilja ekki peningamál. Eflaust má segja sem svo (eins og oft er sagt þegar rök skortir til að skýra út hlutina) að of flókið sé að útskýra nákvæmlega hvað átt er við með orðinu prógrammeraður; og það verður að duga í bili: hér er ekki pláss til að fara út í svo langa (og flókna) sálma. En hver var það sem prógrammeraði hinn prógrammeraða? Var það einhver nákominn hinum síðarnefnda, eða jafnvel kennari í skóla eða einhver annar utanaðkomandi uppeldisaðili? Er prógrammeringin jafnvel að hluta til á ábyrgð þess sem var prógrammeraður? Getur hugsast að hún sé hluti af einhverju stærra skema? Og – sem er kannski mikilvægari spurning – fékk fórnarlamb hennar eitthvað í staðinn fyrir að skilja ekki peningamál? Ég geri mér grein fyrir að spurningarnar sem þetta vekur eru óteljandi, en geri mér líka grein fyrir að til einskis er að velta þeim fyrir sér. Þegar hringt var í þennan prógrammeraða einstakling ekki alls fyrir löngu, frá bankanum (þeim banka sem hann vissi mætavel sjálfur að var hans eigin viðskiptabanki); og honum boðin ákveðin þjónusta, eða veittar upplýsingar um kjör sem hann myndi njóta að uppfylltum vissum skilyrðum (skiljanlega), þá rétti hann eiginkonu sinni símtólið, en lét þó manneskjuna í símanum (sem var líka kona) fyrst vita að það yrði eiginkona hans sem „tæki símtalið“, eins og hann orðaði það. Eftir á hugsaði hann með sjálfum sér: Er það þetta sem ég fæ í staðinn fyrir að hafa verið prógrammeraður til að skilja ekki peningamálin: að losna við svona símtöl? Er það góður díll? (Og nú verður mér ósjálfrátt hugsað til spurningar Halldórs Laxness varðandi forsetastarfið.) Þegar eiginkona hins prógrammeraða hafði tekið við símanum úr hendi hans liðu hátt í tíu mínútur þar til símtalinu lauk. Sem þýddi að hann gat notað þær tíu mínútur í annað; hann notaði þær til að panta sér bók á netinu: bók sem hann hafði verið að hugsa um í nokkurn tíma. Samkvæmt meldingu sem hann fékk til baka frá söluaðila bókarinnar myndi hún berast til landsins innan sjö til tíu daga. En auðvitað tekur engar tíu mínútur að panta sér bók á netinu, sérstaklega ekki fyrir mann sem er öllu hnútum kunnugur í því ferli; og á meðan hann beið eftir að eiginkona sín kláraði símtalið við konuna í bankanum gluggaði hann í aðra bók sem hann hafði áður pantað sér á netinu, en ekki ennþá lesið. Sú bók fjallaði einmitt um peningamál. Að vísu ekki á praktískan hátt; þetta var ekki leiðarvísir eða sjálfshjálparbók. Þetta var skáldsaga. Og hann ákvað að lesa hana – og helst klára hana – áður en hann fengi nýju bókina sem hann var rétt í þessu að panta. Og í framhaldi af þeirri ákvörðun hugsaði hann eitthvað á þá leið að ef til vill hefði hann sinn persónulega skilning á peningamálum. Hefði honum annars dottið í hug að hann þyrfti að nýta sér „innihald“ síðustu pöntunar sinnar áður en hann fengi þá nýju í hendurnar?

30. maí 2016

Unknown-1

Ég breytti nafninu á síðunni fyrr í dag, með hjálp Sigurjóns bróður. Það var ekki fyrr en núna rétt áðan (um áttaleytið) sem ég mundi eftir að hafa gert það. Núna kallast síðan Kafli á dag (eða sjaldnar), eins og hún gerði upphaflega – nema að þá var undirtitillinn nema á hvíldardögum (sem var ekki við hæfi; mér fannst það aldrei gera sig). Í millitíðinni kallaðist vefurinn Kafli á viku (eða annan hvern dag). En ég fékk leið á þeirri yfirskrift. Það er ekki nema til þess að leggja einhvers konar grunn undir nýju yfirskriftina sem ég birti þessa færslu núna (þótt undirskrift hennar gefi auðvitað til kynna að mér leyfist að gera undantekningar). Svo er ekki meira með það.

29. maí 2016 (aukafærsla)

Ef ég hefði ekki á tilfinningunni að opinber stuðningur minn við framboð Andra Snæs myndi koma honum illa, væri ég fyrir löngu búinn að styðja hann opinberlega. Í mínum augum er hann eini maðurinn (og eina konan, ef því er að skipta) – ekki síst eftir „spjall“ í Eyjuþættinum á Stöð tvö í dag – sem myndi fúnkera sem fulltrúi þjóðarinnar á hinum fáránlega stað, Bessastöðum. (En talandi um þennan sjónvarpsþátt í dag. Mér er frekar illa við að þakka mér sjálfum fyrir eitthvað opinberlega – og nú skynja ég að eitt stórt og merkingarþrungið EN sé í uppsiglingu … – en ég get samt ekki nógsamlega þakkað mér fyrir að hafa tekið þá ákvörðun fyrir sirka sjö árum að hafa ekki samskipti við Morgunblaðið, á meðan núverandi ritstjóri stjórnaði blaðinu. Og að hafa haldið mig við þá ákvörðun. Hvernig datt annars fólki í hug að það væri nóg að segja upp áskriftinni?) En aftur að Andra Snæ: af hverju í ósköpunum má maðurinn ekki nota hendurnar til að leggja áherslu á það sem kemur út úr munninum? Eiga ekki einmitt hendurnar og orðin að vinna saman?

29. maí 2016

Ég var að lesa grein eftir enska rithöfundinn Adam Thirlwell um fjórar nýlegar bækur; tvær sem með ólíkum hætti fjalla um svokallaðar heimsbókmenntir, og aðrar tvær, skáldsögur, eftir perúanska höfundinn Mario Bellatín. Í þessari grein er að finna eftirfarandi orð frá Clarice Lispector, sem vitnað er til í tengslum við veruleikasýn og skáldskaparaðferð Marios Bellatín: Það sem kallað er óhlutbundið er svo oft í mínum augum tákn fyrir viðkvæmari og erfiðari veruleika. Eða kannski er réttara að snara þessu svona: Það sem kallað er abstraksjón virkar svo oft á mig sem tákn fyrir fínofnari og flóknari veruleika …? Hvort sem er, þá er erfitt að hverfa ekki inn í heim þessara orða, eða festast ekki í vef þeirra.

27. maí 2016

Enn ligg ég undir feldi vegna þeirrar ákvörðunartöku sem ég stend frammi fyrir, um hvort ég eigi að svara restinni af spurningunum sem ég minntist á hér fyrir ofan – eða neðan (eins og það kemur út á síðunni). Sem stendur hef ég ekki tíma til að sinna þessu; ég hef öðrum hnöppum að hneppa, eins og sagt er. Er þá ekki það besta í stöðunni að setja smá músík „á fóninn“? Ég fór á tónleika í fyrradag, og heyrði þar (og sá í fyrsta sinn) fluttan píanókonsert Ravels (fyrir báður hendur, ekki bara þá vinstri); og auðvitað ætti ég að velja þá músík til að hafa hér. En um leið og ég nefni það, þá er ekkert auðveldara en að fara bara beint á youtube og finna þennan dásamlega konsert. Hér er aftur á móti gömul upptaka með Camarón de la Isla og móður hans:

 

25. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á meðan ég var erlendis um daginn – það var held ég á þriðjudaginn var, fyrir rétt rúmri viku – fékk ég þá hugmynd að leita uppi áðurnefnda, eða títtnefnda, Rósu Sæberg, blaðakonuna sem hefur verið að hringja í mig undanfarið. Mig langaði til að deila með henni hugmynd sem mér datt í hug að myndi vekja áhuga hennar, í ljósi viðleitni hennar til að fjalla um bókina mína – eða hvað það var sem annars vakti fyrir henni. Ef til vill var þessi hugmynd mín í hégómlegri kantinum, en með það í huga að svo kynni að vera sagði ég við sjálfan mig: Hvers vegna alltaf að vera að velta slíku fyrir sér? Má maður ekki vera hégómlegur stundum? Til að gera langa sögu stutta (sem ég tek þó fram að ég lít ekki á sem dyggð – langt í frá – að gera langa sögu stutta), þá langaði mig einfaldlega til að heyra sjálfan mig, eða sjá, svara nokkrum spurningum sem mig hefur gjarnan langað til að ég yrði spurður. Og þess vegna datt mér í hug að fara þess á leit við Rósu Sæberg – ef ég næði í hana (sem ég síðan gerði) – að hún sendi mér nokkrar spurningar varðandi smásagnasafnið mitt, og mig persónulega; og ég myndi annað hvort svara þeim spurningum í pósti, nú eða spjalla við Rósu í síma. Ég tók sérstaklega fram við hana að „auga fyrir auga“ væri ekki valkostur. Not an option, eins og ég orðaði það þegar Rósa sagðist ekki skilja hvað ég ætti við með orðinu valkostur. Það kom mér síðan ekki á óvart hversu vel hún tók í þessa sérkennilegu hugmynd mína (sé hún á annað borð sérkennileg). Ekki heldur að Rósa virtist hreint ekki muna eftir mér frá því um daginn. Það var ekki fyrr en ég spurði hana um vinkonu hennar Lindu; hvort hún, Linda, væri enn að furða sig á að ég myndi ekki eftir henni frá því í skólaafmælinu (the reunion, eins og ég þurfti að ítreka til að Rósa áttaði sig á hvað ég meinti), að myndin af mér (eða hugmyndin um mig) skýrðist í höfði Rósu. „En hvers konar spurningar hafðirðu í huga?“ spurði hún; og ég lagði til að hún byggði á þeim spurningum sem hún hafði ætlað sér að leggja fyrir mig í „fyrra“ viðtalinu, því sem hún hugðist taka fyrir nokkrum vikum, og sem á einhvern furðulegan hátt liðaðist í sundur eins og skýhnoðrar í hádegissólinni. Og ég stakk upp á því að best væri að „stjórna“ viðtalinu (conduct the interview) í gegnum tölvupóst; það myndi spara okkur báðum yfirlestur og leiðréttingar. Rósa virtist ekki almennilega átta sig á hvað ég meinti með því. Hún spurði mig hvar þetta viðtal myndi birtast. „Mér datt í hug að birta þetta á heimasíðunni minni,“ svaraði ég, en sú hugmynd virtist ekki vekja mikinn áhuga Rósu; hún afsakaði sig, og ég heyrði gegnum símann að hún fékk sér sopa af einhverju – það tók hana reyndar heillangan tíma, undarlega mikinn – og síðan sagðist hún myndu senda mér spurningarnar „fljótlega“, og kvaddi mig (á meðan hún fékk sér annan sopa af því sem hún var að drekka). En svo sannarlega stóð hún við það sem hún lofaði, því spurningarnar komu í tölvupóstinum tveimur klukkustundum síðar. (Þá var klukkan hjá Rósu – á Íslandi, það er að segja – það sama og hún var hjá mér þegar ég talaði við hana í símanum, vegna þess að í landinu sem ég var staddur í er klukkan tveimur tímum á undan klukkunni á Íslandi, að minnsta kosti á þessum árstíma.) En hér kemur viðtalið – það er óþarfi að orðlengja þetta frekar. Það má reyndar vera að sumar spurningar Rósu séu lítið eitt „endurhannaðar“ eða breyttar af minni hálfu; þær voru satt að segja nokkuð misvel orðaðar þegar ég fékk þær í hendurnar. Auk þess voru nokkrar þeirra á einhvern hátt svo skringilegar að mér finnst núna að ég þurfi að gefa mér meiri tíma til að íhuga hvort ég leyfi þeim yfirhöfuð að þvinga mig til svars.

 

NÚ GAFST ÞÚ ÚT BÓK UM DAGINN. GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI?

Jú, ég gaf út smásagnaúrval fyrir nokkrum vikum.

 

GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI? Nei, það gerir það nú yfirleitt ekki, nema að bókin seljist í nokkrum þúsundum eintaka, sem mér finnst ólíklegt að mín bók muni gera.

 

GETURÐU SAGT MÉR EITTHVAÐ UM ÞESSA NÝJU BÓK?

Hún kallast Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, og er úrval sagna úr þremur smásagnasöfnum mínum, auk tveggja sagna úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft.

 

ERTU RÓMANTÍSKUR? [Ég verð að játa að þessi spurning kom mér svolítið á óvart, í ljósi þess að ómögulegt var að Rósa vissi hvert svar mitt yrði við spurningunni á undan. En það má segja að hún hafi komið mér þægilega á óvart. – innsk. Br.]

Já. En mér er alveg fyrirmunað að sýna það.

 

AÐ ÞÚ SÉRT RÓMANTÍSKUR? [Aftur kom hún mér á óvart. – innsk. Br.]

Já.

 

EF ÞÚ MYNDIR KJÓSA Í FORSETAKOSNINGUNUM Í JÚNÍ, HVAÐA FRAMBJÓÐANDA MYNDIRÐU ÞÁ KJÓSA?

Ef ég myndi kjósa? Ég myndi kjósa Andra Snæ Magnason. Ég sé engan annan ferskan einstakling í boði – eða ferskari en Andra, það er að segja – sem gæti hugsanlega ýtt hinu íhaldssama Íslandi fram á við, og veitt viðspyrnu þeim afturhalds- og niðurrifsöflum sem núverandi stjórnarflokkar eru fulltrúar fyrir. Hvað varðar fylgjendur ritstjóra Morgunblaðsins í þessari keppni, þá á ég erfitt með að sjá það fólk sem annað en brjálæðinga. Annars fyndist mér forvitnilegt að vita hversu margir ætla sér að kjósa Guðna Th. fyrir þá ástæðu eina að þeir telja ekki að Andri Snær eigi möguleika. Þótt ritstjóri Morgunblaðsins myndi mælast með jafnmikið fylgi og Guðni Th. í síðustu skoðanakönnuninni fyrir kosningar, og Andri Snær með nánast ekkert, ætla ég samt að kjósa Andra. Maður á að kjósa þá manneskju sem maður heldur að sé besti kosturinn. Guðni Th. er fínn, en Andri yrði að mínu mati besti forsetinn. Það hefur ekkert með bækur hans að gera; ég þekki þær ekki svo vel. En þú, Rósa? Hvernig horfir þetta við þér? [Veit svo sem vel að spurningin er út í hött – það er ekki Rósa sem er í viðtali – en ég er þó einlæglega forvitinn að vita svarið. – innsk. Br.]

 

ÉG MAN AÐ VINKONA MÍN, LINDA GYLFADÓTTIR, SAGÐI MÉR AÐ ÞÚ HEFÐIR EINU SINNI VERIÐ Í HLJÓMSVEIT. NÚ MAN ÉG EKKI HVAÐ SÚ HLJÓMSVEIT HÉT, EN HLUSTARÐU MIKIÐ Á TÓNLIST, OG HVAÐ ER HELST Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR?

Jú, ég var einu sinni í hljómsveit, meira að segja oftar en einu sinni. (Það kemur mér svolítið á óvart að þú munir ekki hvað „sú hljómsveit“ heitir – eða hét.) Og ég hlusta mikið á tónlist. En er það virkilega þetta sem þú vilt ræða, Rósa? Ég myndi heldur kjósa að fá spurningar um bókina sem ég var að gefa út, og þess vegna líka spurningar um aðra nýja bók: Neyðarútgang, þýðingar á ljóðum pólska skáldsins Ewu Lipsku, sem var að koma út hjá bókaforlaginu Dimmu. Ég þýddi þar nokkur ljóð, með aðstoð Olgu Holowniu, sem sá um útgáfuna og þýddi flest ljóðanna. Hinir þýðendurnir eru Áslaug Agnarsdóttir, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Ég verð að mæla alveg sérstaklega með þessu ljóðasafni. Ewa hefur alveg hreint einstaka rödd sem skáld, og býr til alveg nýtt samhengi úr hlutum og orðum. Annars veit ég (og núna er ég að tala við þig, Rósa) að Óskar Árni veit hver þú ert. Og mér fyndist gaman að láta fylgja það sem hann sagði mér um þig – sem er býsna áhugavert – en eins og ég var búinn að nefna, þá snýst þetta viðtal ekki um þína persónu. Hvað varðar tónlistina í spurningu þinni, þá keypti ég mér um daginn nýjustu plötu hins kanadíska Rufusar Wainwright, Take all my loves, með lögum hans við nokkrar af sonnettum Shakespeares. Og ég hef verið að hlusta á hana frekar mikið. Dásamleg plata, eins og flest sem Rufus gefur út. Fljótt á litið er þetta fullkomlega ómöguleg blanda tónlistar – það ægir í raun öllu saman; „þægilegu“ poppi, þýskri sönglagamúsík, mahlerískum ljóðasöng, hörðu rokki og leikrænum ljóðalestri, bæði á ensku og þýsku, og eflaust má segja að þetta sé allt eitt óyfirstíganlegt fjall af kitsi – en það sem fær plötuna til að ganga upp sem heild, og það sem gerir manni kleift að hlusta á hana út í gegn er hinn óendanlega sjarmerandi karakter Rufusar sjálfs, bæði sem lagahöfundar og söngvara. Fyrir nokkrum árum hefði mér fundist óhugsandi að ég gæti hlustað á eitthvað sem hægt væri að flokka sem óperupopp, en þegar Rufus er annars vegar, þá er allt mögulegt, svo ég gerist dramatískur. Fyrir utan þetta hef ég verið að hlusta mikið á flamenco (El Camarón og Carmen Linares, til dæmis) og spænskar „coplas“ með Juanito Valderrama og Rocío Jurado. En hefur þú, Rósa, hlustað (eitthvað nýlega) á lagið December, 1963 (Oh, what a night) með Four Seasons? [Vitaskuld fæ ég ekki svar við þeirri spurningu, en ég stenst samt ekki freistinguna að spyrja. Rósa getur í það minnsta rætt þetta við Lindu, vinkonu sína; ég þykist vita að Linda þekki lagið með Four Seasons – sé á annað borð rétt að hún þekki gamla skólasystur mína. Allir í skólanum okkar þekktu þetta lag, og flestir hafa væntanlega dansað við það, meira að segja ég. – innsk. Br.]

 

ERTU MEÐ EITTHVAÐ Á PRJÓNUNUM Í AUGNABLIKINU?

Ég er að skrifa skáldsögu sem nefnist Staða pundsins. Hún fjallar um mæðgin (ekkju og son hennar); og sögutíminn er miður áttundi áratugur síðustu aldar. Það er kannski vitleysa að vera að láta uppi titla á bókum sem eru í vinnslu – á sama hátt og það er galið að vera að tjá sig um efni þeirra eða söguþráð – en mér fannst eins og þú, Rósa, ættir það inni hjá mér að ég nefndi þetta, hvað svo sem gerist með titilinn, hvort hann verður á vegi þínum í búðinni eða á safninu þegar þar að kemur – og hvort hann lifir bókina af. Ég er heldur ekki viss um að …

 

(Eins og ég nefndi hér á undan „spjalli“ okkar Rósu, voru nokkrar af spurningum hennar þess eðlis að ég hef ekki enn gert upp við mig hvort viðeigandi sé að svara þeim. Það verður að koma í ljós. Þar fyrir utan líður mér eitthvað einkennilega núna – það er einhver svimi eða eitthvað – og mér finnst ekki rétt, hvorki gagnvart lesendum né mér sjálfum, að vera að tjá sig í slíku ástandi.)

23. maí 2016

Neyðarútgangur. Ewa Lipska. Bókaforlagið Dimma hefur gefið út ljóðaúrval pólska skáldsins Ewu Lipsku á íslensku. Olga Holownia sá um útgáfuna, þýddi flest ljóðin og skrifaði eftirmála. Aðrir þýðendur eru Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Það hefur verið sérlega gaman að taka þátt í þessu verkefni undir stjórn Olgu, og ég finn mjög sterkt, nú þegar þessi fallega bók er komin út, hversu dýrmætt er að hafa hin einstöku ljóð Ewu svona samankomin. Ekkert okkar þýðendanna, fyrir utan Olgu, er læst á pólsku, en við höfum þýtt ljóðin úr ensku og spænsku, og eitthvað aðeins úr skandinavískum málum; og Olga hefur síðan borið þær þýðingar saman við frumtextann, og leiðrétt og lagað; og við síðan lesið yfir þýðingar Olgu á íslensku. Fleira fólk hefur komið að verkinu; Hildur Finnsdóttir hefur horft yfir öxl Olgu frá upphafi, og útgefandinn sjálfur, Aðalsteinn Ásberg, lesið yfir og unnið með okkur þýðendunum; og fleira fólk sem getið er um í fínum eftirmála Olgu. En ég ætla ekki að segja meira um þetta – ég hvet bara fólk til að kynna sér bókina. Ég stenst þó ekki þá freistingu að láta einar af mínum eftirlætislínum úr bókinni fylgja með; þær koma úr ljóðinu Enginn, og eru þýddar af Olgu:

 

Tómu herbergi

var komið fyrir í myrkri

íbúðarhússins.

16. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

VIÐSKIPTALÍFIÐ

 

„Ég nota alltaf fleiri og fleiri orð.“

 

Nú hafið þér gersamlega gengið fram af mér. Og ekki aðeins mér heldur öllum við borðið. Nú, og hvað á ég við með því, að þér hafið „gersamlega gengið fram af mér“? Ég gríp til þess orðalags í gríni fremur en alvöru. Klukkan er ekki orðin níu að morgni, það er þétt setið á kaffihúsinu; jafnvel með góðum vilja tækist ekki að koma fyrir fleiri en fimm eða sex gestum til viðbótar þeim sem þegar hafa fundið sér sæti við borðin hér inni. Þér gerðuð yður eflaust ekki grein fyrir því sjálfir – slíkur var asinn þegar þér genguð í átt til félaga yðar við borðið í norðausturhorni staðarins (þeirra sem höfðu svo fyrirhyggjusamlega tekið frá einn stól fyrir yður) – en þegar þér genguð framhjá borðinu mínu, og félaga minna, þar sem við höfðum setið á fundi í um það bil hálfa klukkustund, var eins og þér tækjuð eitt örstutt augnablik þátt í þeim fundi okkar. Og það var óþægileg tilfinning. Sem ég segi ekki í gríni, og heldur ekki alvöru; ég held þér skiljið alveg hvað ég á við. Það var þó ekki svo að umræðuefni okkar mætti ekki fréttast yfir á önnur borð – alls ekki. (Nú – geri ég ráð fyrir – er tímabært að taka aftur þá yfirlýsingu að þér hafið „gengið fram af mér“, eins og ég orðaði það, því nær væri að orða það svo að þér hafið gengið framhjá mér, eins og þér vissulega gerðuð.) Tilfinningin sem ég nefndi sem „óþægilega“ var óþægileg vegna þess að á þeirri stundu sem þér genguð framhjá okkur, félögum mínum og mér, langaði mig aðeins til eins, nefnilega til þess að vera á fundi með yður, og yður einum; mig langaði til þess að við værum tveir saman á fundi, en ekki með félögum mínum, og þaðan af síður með félögum yðar. Bara við tveir: þér og ég. Það yrði okkar fundur: yðar og minn. Viðskiptin sem við myndum ræða yrðu í engu samhengi við þau viðskipti sem hafa verið rædd á borði mínu og minna félaga frá því klukkan átta, né þau sem ég geri ráð fyrir að séu í augnablikinu rædd á borði yðar og yðar félaga – þau yrðu ekki í neinni harmony við það viðskiptalíf sem svo snemma vaknar á kaffihúsum borgarinnar. Nei, þau viðskipti sem við myndum ræða myndu eingöngu lúta að því sem að okkur tveimur sneri, yður og mér – mér og yður. Okkur tveimur. En „viðskiptalífið“? Ég segi viðskiptalífið, eins og til að afmarka þá hlið lífsins frá lífinu sjálfu, en auðvitað er viðskiptalífið samofið lífinu í heild; í raun er ekki rétt að nefna þetta tvennt sem aðskilda hluti: viðskiptalífið/lífið. Að skilja þessi „tvö líf“ að leyfi ég mér að fullyrða að líkist helst því að spyrja þann sem maður hefur lánað alla peningana sína: Og hvað skulda ég yður svo?

14. maí 2016

  1. maí síðastliðinn birti ég ljóð um framandi lönd. Það var ort í Noregi fyrir fimm árum, í pappírsbænum Moss. Sem sagt: á framandi slóðum. Ég veit að þetta hljómar sem formáli að því að ég ætli að birta enn eitt ljóðið, en það er ekki það sem ég hef í hyggju. Í dag hafði ég nefnilega hugsað mér að segja frá „nýju“ símtali við „blaðakonuna“ Rósu Sæberg (sem ég kalla blaðakonu innan gæsalappa, því ég hef engar áþreifanlegar sannanir fyrir því að hún sé blaðakona). Hún hringdi í mig í gær – aftur – þangað sem ég er staddur erlendis. Og ég veit satt að segja ekki hvað ég á að segja um það símtal. Ég held ég þurfi beinlínis meiri tíma til að „vinna úr“ því. Því mig grunar að hún, Rósa, hafi verið drukkin þegar hún hringdi – og ekki bara grunar: ég tel mig vita það með vissu. Hún sagðist vera í félagsskap vinkonu sinnar Lindu; þær væru á heimili þeirrar síðarnefndu; en það var þó ekki að heyra á Rósu að fótur væri fyrir því. Hún sagðist vilja láta mig tala við Lindu; að best væri að hún, Linda, spyrði mig út í „okkar gömlu kynni“ á skólaafmælinu; en þegar ég sagðist vera tilbúinn til þess, að tala við Lindu, þá var eins og kæmi eitthvert hik á Rósu; þá var eins og hún vildi ekki kannast við að hafa nefnt þetta (að við Linda ættum að tala saman). En allavega, þá verður „úrvinnsla“ þessa símtals að bíða eitthvað. (Þegar maður er erlendis, þá vill oft taka lengri tíma að vinna úr hlutunum: að grisja hið nothæfa úr öllu óþarfa áreitinu.) Mig langaði auk þess að láta færslu dagsins í dag „byggjast á“ tveimur gömlum textum sem ég gróf upp í tölvunni; og þar kemur tengingin við fyrstu orð færslunnar, því þessir gömlu textar koma nefnilega frá pappírsbænum Moss í Noregi, eða öllu heldur: þeir eru skrifaðir þar. 14. maí 2011, fyrir nákvæmlega fimm árum. Mér leiddist svo óskaplega í þeirri heimsókn minni til Noregs (ég var á einhvers konar bókmenntahátíð, mjög illa skipulagðri) að ég hlaut að setjast niður til að „pára“ eitthvað út í loftið, eins og ónefndur ísl. rithöfundur myndi orða það. Og mér sýnist á þessum Moss-textum mínum að helsta upplifunin í Moss (fyrir utan hinn svakalega fnyk sem barst frá pappírsverksmiðjunni og lagðist yfir miðbæinn) hafi verið í gegnum fjölmiðla. En nú má ég ekki vera að þessu lengur – ég þarf að hafa hraðan á, sbr. G. Benn; útlenska stórborgin bíður fyrir utan dyrnar; það má ekki láta áreitið fara til spillis. En hér eru „norsku“ textarnir (orðnir fimm ára gamlir):

PAVILJONGEN

 

Föstudagur, þrettándi maí. Sjálfsmorðsárás í Pakistan, minnst áttatíu látnir – ég sé það á sjónvarpsskjá á hóteli í Noregi. Þegar ég spyr í móttökunni hvar morgunverður sé framreiddur – hvort hann sé ekki örugglega innifalinn fyrir gesti bókmenntahátíðarinnar – fæ ég að vita að morgunverðurinn sé framreiddur í paviljongen. „Hvar er paviljongen?“ spyr ég. Í garðinum fyrir aftan hótelið, er mér sagt. En þegar ég kem út í garð og sé paviljongen – það fer ekkert á milli mála hvað starfsmaðurinn í móttökunni átti við með því orði – kveður við sprenging, og paviljongen er á sama augnabliki í ljósum logum. Minnst tuttugu látnir, jafnvel tuttugu og fimm. Aðallega ljóðskáld, flest mjög ung. Skipuleggjandi hátíðarinnar líka, og konan hans. Þegar ég sný aftur í móttökuna er kominn annar starfsmaður en var þar fyrir hálfri mínútu. „Lukkunnar pamfíll,“ segir hann við mig, og mér finnst sem snöggvast að hann brosi. En hvað á ég með að hafa skoðun á því – ég þekki þennan mann ekki. Ég kinka hins vegar til hans kolli og segist bara fá mér eitthvað úr minibarnum; minibarinn hljóti að vera öruggara umhverfi en paviljongen. „Alltaf léttur á því,“ segir þá starfsmaðurinn í móttökunni, eins og hann þekki mig.

Moss, Noregi, 14. maí 2011

 

 

VITNI

 

Búlgarskur maður sker höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun í Tenerife á Kanaríeyjum. Konan er bresk, og maðurinn hleypur með höfuðið út úr versluninni. Þetta gerðist í gær, þrettánda maí, þegar minnst áttatíu manns létust í sjálfsmorðsárás í Pakistan, en í mesta lagi tuttugu og fimm við morgunverðarborðið í Noregi. Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum voru vitni að atburðinum í Tenerife; vitni í merkingunni manneskja sem með berum augum (hugsanlega þó með sólgleraugu) horfði á mann skera höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun og hlaupa með það út á götu. Sannleikans vitni.

Moss, Noregi, 14. maí 2011

12. maí 2016 (aukafærsla)

Rósa Sæberg var að hringja í mig aftur. Ég er enn staddur erlendis, eins og kom fram í fyrri færslu dagsins, aðalfærslunni; og ég sagði við Rósu (nú finnst mér sem snöggvast að nafn hennar sé orðið mér tamt, sem það er alls ekki) að ég væri í útlöndum, og það gæti orðið öðru okkar dýrt að tala svona í farsíma milli landa, annaðhvort henni eða mér – ég man aldrei hvor aðilinn borgar fyrir símtal milli landa, sá sem staddur er erlendis eða sá sem staddur er heima, í því landi sem síminn er skráður. Auk þess spurði ég Rósu, áður en lengra yrði haldið, hvert væri erindi hennar með símtalinu, hvort hún hygðist halda áfram með viðtalið í tilefni af útgáfu Dulnefnanna (bókarinnar sem ég gaf út um daginn); þetta viðtal sem í raun komst aldrei á skrið; sem ég skildi ekki alveg hvers vegna hún hefði léð máls á að taka. (Ég hef enn á tilfinningunni að hún, Rósa, viti í raun ekki neitt um þessa bók mína. Og allt í lagi með það.) En nei; þetta (að halda áfram með viðtalið osfrv.) var ekki það sem vakti fyrir Rósu Sæberg með símtalinu núna; hún væri með aðra spurningu frá vinkonu sinni, Lindu Gylfadóttur; hún, Rósa, hefði sagt henni (Lindu) að ég myndi ekki eftir henni frá því á skólaafmælinu; og Lindu hefði fundist það skrítið, vegna þess hversu lengi við töluðum saman (ég og þessi Linda) þegar við hittumst. „Ég er ekki mjög mannglöggur,“ sagði ég við Rósu, og mundi um leið að ég hafði nefnt það við hana áður, í símtalinu um daginn. Svo bætti ég við: „En hver var spurningin frá Lindu?“ (Þetta var ofurlítið farið að fara í taugarnar á mér; ég var nefnilega á leiðinni út af hótelinu.) En þá mundi Rósa ekki spurningu Lindu. Hún sagðist myndu hringja í hana, og hringja síðan aftur í mig. Ég ítrekaði við Rósu að ég væri erlendis, og bað hana að hringja daginn eftir, eða jafnvel senda mér póst. En þá var engu líkara en að ég hefði móðgað hana á einhvern hátt. Ef til vill er ég þó að misskilja þau viðbrögð hennar; og í raun hef ég ekki tíma til að velta þessu fyrir mér frekar núna í augnablikinu; ég þarf í raun og veru að fara út af hótelinu. Það verður bara að koma í ljós hvort Rósa hringir aftur. Og meira um það síðar – ef af verður.