1. febrúar 2016

Ég tala við sjálfan mig eins og hálfviti. Ég er hálfviti. Þegar ég geng eftir Lækjargötunni, í átt að Bankastrætinu, með það fyrir augum að fara upp Laugaveginn, sé ég annan hálfvita. Og þegar ég nálgast Hlemm hefur þriðji hálfvitinn orðið á vegi mínum. Við erum að minnsta kosti þrír sem teljumst vera hálfvitar – mér kæmi ekki á óvart að þeir væru fleiri. Reykjavík er full af hálfvitum. (Í síðustu færslu, fyrir viku síðan, minntist ég á að til greina kæmi að skrifa bók sem héti Ferðir mínar um Ísland. Sú hugmynd hefur enn ekki verið slegin út af borðinu, en það er komin ný hugmynd sem í augnablikinu er eitthvað að trufla Íslandsferðirnar; hugmynd sem mér dettur í hug að gæti kallast Ferðir mínar um Reykjavík, en fengi þó væntanlega annan titil, því ég hef ekki hugsað mér að láta þessar ferðabækur líta út sem einhvers konar sería. Textinn hér að ofan, um hálfvitana, yrði þó ekki með í þeirri bók; hann hefur þegar þjónað sínum tilgangi, sem var sá að kveikja hugmyndina að Reykjavíkurferðunum. Í gær, sunnudag, gekk ég niður á Borgarbókasafn í Grófinni til að skila tveimur bókum var ég var með í láni og ná í eina í staðinn. Þá hitti ég hjón sem ég kannast við. Við spjölluðum saman í nokkrar mínútur, meðal annars um bók sem þau voru að skoða (sem er reyndar tímarit: 1005, sem kom út á síðasta ári, þar sem meðal annars er að finna hina fínu sögu Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler, sem núna er komin út í nýrri útgáfu hjá bókaforlaginu Sæmundi á Selfossi); svo töluðum við eitthvað aðeins um endurminningabækur Hannesar Sigfússonar skálds (sem ekki er síður þörf á að endurútgefa, jafn skemmtilegar og fróðlegar og þær eru); en þegar ég hafði talað við hjónin á bókasafninu í nokkrar mínútur, eins og fyrr sagði, mundi ég eftir að ég var á leiðinni annað: ég var orðinn of seinn á stefnumót við útlenskan mann á kaffihúsinu Stofunni; og ég afsakaði mig við bókasafnshjónin; ég sagði þeim að ég þyrfti að hitta þennan mann, en að það hefði verið gaman að spjalla við þau; og við kvöddumst, og ég gekk út af safninu og í áttina að Stofunni, sem er í Vesturgötu (í húsinu þar sem antíkbúðin Fríða frænka var einu sinni). Ég get vel ímyndað að mér þessi bæjarferð mín muni rata í Reykjavíkurbókina, verði af því að ég skrifi hana. Á einhvern hátt rímar hún við frásögnina af mér og E. á Ísafirði.)

25. janúar 2016

Það líður varla sú vika að ég fái ekki hugmynd að nýrri bók eða sögu, stundum ljóði en aðeins sjaldnar leikriti. Sem er ekki gott, því hver ný hugmynd truflar þá sem er í vinnslu í það og það skiptið. Nýjasta hugmyndin er sú að skrifa bók um ferðir mínar um Ísland. Titillinn yrði væntanlega Ferðir mínar um Ísland. Fyrstu rökin gegn þeirri hugmynd eru reyndar augljós: ég hef sáralítið ferðast um landið; en sú staðreynd er á hinn bóginn það sem ef til vill mælir helst með hugmyndinni, og gæti orðið til þess að ég léti verða af því að hrinda henni í framkvæmd. Ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvers vegna ég fékk þessa hugmynd. Það getur þó verið að ég hafi verið að lesa einhverjar ferðabækur nýlega, og dáðst að einhverju þar, og kannski hugsað sem svo að ég gæti alveg gert svona. En því færri ferðir sem maður hefur til að spila úr, því færri sem maður hefur farið sjálfur, þeim mun auðveldara er að velja úr, komi að því að skrifa um þær. Ég geri mér grein fyrir að þetta er mótsögn; en mótsagnir reynast mér oftast betur í starfi (og leik), því ég hef tilhneigingu til að láta hið rökrétta og samhverfa draga úr mér áhugann, jafnvel kjarkinn. Ég þyrfti til dæmis ekki að velta vöngum yfir því hvort ég ætti að hafa með í fyrirhugaðri bók (ef beinlínis er rétt að nota orðið fyrirhugaðri) ferð mína á Fáskrúðsfjörð, en sleppa (svo ég nefni bara eitthvað) ferðinni í Borgarfjörð eystri eða norður á Dalvík, einfaldlega vegna þess að ég hef aldrei komið í Borgarfjörð eystri eða á Dalvík. En hvað sem þessu líður hef ég þegar tekið ákvörðun um að minnsta kosti eina ferð sem ég mun skrifa um, fari svo að bókin komist á koppinn. Ísafjörður í nóvember 2010. Ég fór nefnilega til Ísafjarðar það ár, ásamt fleiri höfundum, til að lesa upp úr nýútkominni bók. Það var kalt í þeirri ferð, og snjór yfir öllu; við dvöldum í bænum yfir helgi, fjórir karlkyns höfundar, einn kvenkyns; ég man ekki hvort það voru tvær nætur eða ein. Einna minnisstæðast úr þessari ferð er heimsókn í kirkjuna fyrir hádegi á sunnudeginum. Einn okkar kannaðist við prestinn; þeir höfðu verið saman í skóla. Annars er maður ekki vanur að fara í kirkju með öðrum höfundum – það er í sjálfu sér svolítið framandi hugsun. Eða hvað? Er það svo? Hér verð ég reyndar aðeins að staldra við. Getur ekki einmitt verið að maður fari beinlínis oftar í kirkju með starfsbræðrum sínum og -systrum en öðru fólki? Ég er ekki að segja að rithöfundar deyi oftar en annað fólk, en þegar ég hugsa betur um það, þá finnst mér ég hafa verið í ansi mörgum útförum þeim tengdum á síðustu árum. En það er auðvitað bara eitthvað sem mér finnst – ekki endilega það sem er. Það sem annars stendur upp úr áðurnefndri Ísafjarðarheimsókn, svo ég komi aftur að henni, gerðist á laugardeginum, sem var annað hvort dagurinn sem við komum eða annar dagur ferðarinnar, ég man það ekki alveg. Ég hafði gengið yfir í bakaríð gegnt hótelinu sem við dvöldum á (þetta er vel þekkt bakarí, var mér sagt; það er kallað Gamla bakaríið), og á meðan ég sat þar með kaffibolla og eitthvað brauðkyns til að dýfa í kaffið sá ég út um gluggann að einn okkar höfundanna, E., stóð fyrir utan hóteldyrnar í kuldanum og var að reykja. Ætli ég hafi ekki fylgst með honum í nokkrar mínútur – mig minnir að hann hafi reykt tvær sígarettur – en svo fór hann inn, og ég fór sjálfur stuttu síðar út úr bakaríinu, og þaðan yfir í Eymundsson-bókabúðina við sama torg. (Ég hef ábyggilega verið að athuga hvort bækur okkar höfundanna að sunnan væru til sölu í búðinni.) En þegar ég fór aftur á hótelið, og staldraði aðeins við fyrir framan dyrnar, til að virða fyrir mér torgið, tók ég eftir að E. var kominn inn í bakaríið; hann sat við sama borð og ég hafði setið fyrir stundarfjórðungi eða svo. Við höfðum með öðrum orðum skipt um stað. Ég var núna við hótelið; hann inni í bakaríinu. Ég reyndi að sjá hvort hann tæki eftir mér, en svo virtist ekki vera; hann horfði bara fram fyrir sig, en ekki út um gluggann. (Var hann ef til vill of kunnugur staðnum til að nenna að vera að horfa út um gluggann?) Ég ákvað hins vegar að standa ekki lengi fyrir framan hótelið, því einhverra hluta vegna leið mér betur með að E. myndi ekki taka eftir mér; að ég væri einn um að vita um ferðir okkar beggja þennan tæpa hálftíma sem um ræddi. En auðvitað gat ég ekki verið viss um að E. tæki ekki eftir mér þegar ég sat inni í bakaríinu og hann stóð reykjandi fyrir utan hótelið. Það var síðan daginn eftir, eins og ég var búinn að nefna, sem við fórum saman í kirkjuna – þá vorum við allir saman, höfundarnir sem heimsóttu Ísafjörð þessa helgi árið 2010.

18. janúar 2016

Maður reynir allajafna, sem einstaklingur og höfundur, að opna sig sem minnst tilfinningalega. Ekki síst á þessum væmnivæddu tímum. En ég verð samt að segja að allt í kringum dauða Davids Bowie hefur haft ansi sterk áhrif á mann. Á mig. Á „mann“ og „mig“. Ég finn reyndar núna að það sem mig langar til – eða dettur í hug – að segja í framhaldinu er betur látið ósagt. En það er í lagi að hugsa það. Enda er ég bara að tala við sjálfan mig. Þetta með áhrifin stendur aftur á móti: þau voru mjög sterk. Og allt hefur breyst / ekkert hefur breyst. Nei, það var öfugt: And nothing has changed / everything has changed. Og nú fer ég að hugsa um eitthvað allt annað. Ég fer að hugsa um Alexíus Árnason, fyrsta lögreglustjóra í Reykjavík, og hvers vegna í ósköpunum honum datt í hug, næstum einni og hálfri öld eftir að hann dó, að hrella föður minn um miðja nótt. Föður minn, sem hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var. Og þaðan af síður að húsið sem þau mamma bjuggu í við Skólavörðustíginn var reist á sama bletti og húsið sem Alexíus lét reisa í kringum 1865: Bergshús (sjá Þórberg Þórðarson og allt það). Alexíus birtist pabba í svefnherbergisdyrunum, sem fyrr segir um miðja nótt. Og pabbi varð dauðhræddur, hann sem hafði aldrei játað neina trú á drauga eða handanlíf. Þegar hann fór að kynna sér (í bókum og á internetinu) hver þessi maður gæti hafa verið sem hann sá – þessi hávaxni maður í dimmrauða einkennisklæðnaðinum með hattinn – komst hann að þessu með Bergshús og Alexíus. Og honum fór í raun að þykja vænt um myndina af þessum manni; að hann skyldi hafa haft fyrir því að heilsa upp á sig (jafnvel þótt honum brygði illilega). Hann heimsótti meira að segja leiði Alexíusar í Hólavallagarði. En svo dó pabbi ekki löngu síðar. Þá voru þau mamma flutt úr húsinu við Skólavörðustíg. Alltaf þegar ég geng framhjá „gamla Bergshúsi“ verður mér hugsað til þessa næturinnlits gamla lögreglustjórans, hversu einkennilegt það hljóti að vera fyrir manneskju að hitta aðra löngu liðna manneskju sem hún hafði ekki nokkra vitneskju um að hefði verið til, hvað þá hvernig hún leit út. En ég veit ekki af hverju ég er að skrifa þetta. Ég vona að minnsta kosti að ég hafi ekki verið að „láta uppi“ einhverjar tilfinningar.

Fantastic Voyage (David Bowie)

In the event that this fantastic voyage

Should turn to erosion and we never get old

Remember it’s true, dignity is valuable

But our lives are valuable too

We’re learning to live with somebody’s depression

And I don’t want to live with somebody’s depression

We’ll get by, I suppose

It’s a very modern world but nobody’s perfect

It’s a moving world but that’s no reason

To shoot some of those missiles

Think of us as fatherless scum, it won’t be forgotten

‘Cos we’ll never say anything nice again, will we?

And the wrong words make you listen

In this criminal world

Remember it’s true, loyalty is valuable

But our lives are valuable too

We’re learning to live with somebody’s depression

And I don’t want to live with somebody’s depression

We’ll get by, I suppose

But any sudden movement, I’ve got to write it down

They wipe out an entire race and I’ve got to write it down

But I’m still getting educated but I’ve got to write it down

And it won’t be forgotten

‘Cos I’ll never say anything nice again, how can I?

10. janúar 2016

Núna er ég að brjóta allar þær reglur sem ég hef sett mér (og ekki nema ein og hálf vika liðin af árinu): það eru hvorki liðnir tveir dagar frá síðustu færslu né ein vika; það eru liðnir þrír dagar. Með þessu áframhaldi neyðist ég til að breyta yfirskrift síðunnar. Franska tónskáldið og stjórnandinn Pierre Boulez, sem lést fyrir nokkrum dögum, notaði ekki sprota þegar hann stjórnaði hljómsveitum. Bara hendurnar. Kannski notaði hann sprota við önnur tækifæri. Mér verður hugsað til priksins undan flugeldinum sem ég á eftir að sækja út í garð. Boulez á að hafa sagt að of mikil ytri orka æti upp innri orkuna. Sólgleraugun sem hann hefur fyrir augunum á myndbandinu hér fyrir neðan eru eins og myndskreyting við þau orð hans:

7. janúar 2016

Hjálmar frændi (sem ég nefni svo hér, en hét öðru nafni) skildi eftir sig einhvern helling af pípum. Reykjarpípum. Svo stökk hann ofan af svölunum. Af elleftu hæð, þar sem hann bjó. Nei, það var öfugt. Fyrst stökk hann. Og hafði þá skilið eftir sig allar pípurnar.

2. janúar 2016

Fyrsti dagur ársins liðinn, og allt í einu kominn nr. 2. Sunnudagurinn á morgun verður því þriðji dagur ársins; mánudagurinn þar á eftir sá fjórði, og svo koll af kolli. En telst nýársdagur, þegar hann lendir á föstudegi, vera hvíldardagur? Allan gærdaginn velti ég þessu fyrir mér, án þess að komast að niðurstöðu. Nýársdagur? Dagurinn þegar allt er yfirstaðið, og spýtan af rakettunni hefur snúið aftur til jarðar. Samkvæmt Biblíunni (sem ég fékk í jólagjöf) voru lærisveinar Jesú eitt sinn svangir á hvíldardegi (líkt og á öðrum dögum væntanlega) og tóku að tína sér kornöx til að éta. En þá komu farísearnir að máli við Jesú og sögðu við hann: „Lít á, lærisveinar þínir gera það sem ekki er leyft að gera á hvíldardegi.“ Jesús átti ekki í erfiðleikum með að svara því. Svar hans er reyndar svolítið langt, og heldur ruglingslegt, en það endar á þessum orðum: „Mannssonurinn er Drottinn hvíldardagsins.“ Drottinn hvíldardagsins? Ég er engu nær. Auk spurningarinnar hvort nýársdagur teljist vera hvíldardagur velti ég þessum orðum Jesú fyrir mér í gær, að minnsta kosti part úr degi; en skil ekki neitt ennþá. Enda líklega of stutt liðið af nýju ári til að byrja að gorta sig af nýjum niðurstöðum. Ég tel mig þó vita eitt: að prikið undan flugeldinum hefur snúið aftur til jarðar, og hafi það lent í garðinum hjá mér, þá er mér frjálst að ná í það og nota að vild. Þess vegna að ota því í áttina að einhverjum mannssyninum og segja honum til syndanna.

31. desember 2015

Nú hef ég lokið við að horfa á kvikmyndina um Jesú, um síðasta hálfa sólarhringinn í lífi hans. Ég horfði á hana um daginn (áður en ég horfði á þáttinn um Adele – eða var það eftir?). Og þá er það frá. Í myndinni var Jesús pískaður svo mikið og laminn, og svo mikið blóð rann úr djúpum skurðum í líkama hans, að mér reiknaðist lauslega til að ég hefði sjálfur dáið sirka þrisvar til fjórum sinnum hefði ég fengið sambærilega meðferð. Ég virkilega fann til með honum, frelsaranum svonefnda; og á löngum kafla í myndinni varð ég beinlínis hann (nei, stopp nú: er hann að líkja sér við Jesú? heyri ég hljóma allt í kringum mig); sú tilfinning náði hámarki þegar hermenn landshöfðingjans höfðu fest hann á krossinn; þegar þeir slengdu honum niður, svo andlitið snerti næstum jörðina, eins og til að sannreyna að hann væri fastur á krossinum. Svo reistu þeir hann við; Jesús dó og myndin fékk fljótlega endi eftir það; og ég fylgdist með nöfnum leikaranna og aðstandenda myndarinnar renna yfir skjáinn. Það var ung kona sem lék djöfulinn (Rosalinda eitthvað), hugsanlega jafngömul leikaranum sem lék Jesú. Ég er sjálfur orðinn tuttugu árum eldri en Jesús á að hafa verið þegar hann dó; og þegar ég hugsa um hvort meðferðin á honum í myndinni hafi virkilega verið raunsæ, hvort sársaukinn sem hann upplifði áður en hann hóf gönguna með krossinn upp á hæðina hefði einn og sér ekki átt að vera nægur til að taka frá honum meðvitundina eða einfaldlega ganga af honum dauðum, hvarflar að mér að ég sé sjálfur orðinn nógu gamall til að finna fyrir hinu og þessu í líkamanum, þótt ekki þurfi maður að lifa við húðstrýkingar. Og í framhaldi af því: hvort ekki sé kominn tími til að trúa á eitthvað; eitthvað til að sefa mann, ef til þess kæmi að engin áþreifanleg meðöl nægðu til að deyfa sársaukann. Bara trúa á eitthvað. Reyndar er það sársaukinn sjálfur sem fyrst sem kemur upp í hugann í því sambandi. Er það ekki einmitt hann sem maður ætti að trúa á? Þegar ég stend upp úr sófanum og slekk á sjónvarpstækinu finn ég líka fyrir einhverju í síðunni, einhverjum óþægindum; og ég hugsa um hversu mikill máttur kvikmyndarinnar sé; ég er ekki fyrr stiginn upp frá áhorfinu þegar sársaukinn segir til sín. En þegar ég nefni þau orð, máttur kvikmyndarinnar, þá er ég ekki 100% viss hvort ég eigi við þessa tilteknu mynd eftir Mel Gibson, eða kvikmyndir almennt. Kannski Three Amigos líka? Dagbók herbergisþernu? La Grande bouffe? Síðastnefnda myndin, sú sem kom aðeins fyrir í bókinni sem ég gaf út í nóvember, Sögumanni (og sem auglýst er hér fyrir ofan, með kápumyndinni), er svo sannarlega kvikmynd sem hefur áhrif. Og hugsanlega mátt. Það er heldur ekki ólíklegt að sú mynd dragi úr manni allan mátt. Ég hafði annars verið að hugsa um að láta fylgja þessum orðum, úr því ég minntist á myndina um Jesú, svolítið brot úr þeirri mynd, The Passion of the Christ – helst senuna þar sem djöfullinn heldur á aldraða barninu – en svo fannst mér það ekki við hæfi; ég spurði mig meira að segja þeirrar spurningar hvort maður eigi yfirhöfuð að vera að þröngva djöflinum upp á annað fólk, hvort hann sjái ekki alveg um það sjálfur. Enda finnst mér líka mun meira við hæfi, á þessum síðasta degi ársins, að benda á lagið sem hljómar í La Grande bouffe, því það er eitthvað mjög áramótalegt við það lag: einhverjar ólíkar tilfinningar sem mætast. Ég læt meira að segja píanóútgáfuna fylgja líka; hún er ekki síðri en hin. Svo kemur nýtt ár í kvöld.

30. desember 2015

Það er ekki bara vegna þess að ég þarf að hafa hraðan á sem mér dettur í hug að birta hérna eftirfarandi ljóð; mér dettur það í hug vegna þess að það kom upp í hugann í gær þegar ég leiddi hann, hugann, að liðnu ári. Auk þess finnst mér viðeigandi að rifja upp þetta fallega ljóð því bróðir minn á afmæli í dag, og það eru ellefu ár síðan faðir okkar lést. Ljóðið er eftir þýska skáldið Gottfried Benn, frá miðri síðustu öld, og það er Sigfús Daðason sem þýddi:

 

FÓLK SEM ÉG HEF HITT

 

Ég hef hitt fólk sem svaraði,

þegar það var spurt að nafni,

feimnislega – líkt og því fyndist

það ætti ekki kröfu til nafns –

„Fröken Kristján“ og bætti síðan við:

„eins og eiginnafnið,“ það vildi gera manni hægara að skilja,

ekki óvenjulegt nafn einsog „Pópíól“ eða „Babendererde“ –

„einsog eiginnafnið“ – fyrirgefið þér, íþyngið ekki minni yðar

með þesskonar nafni!

 

Ég hef hitt fólk sem óx upp

með fjórum systkinum og foreldrum í einu herbergi

lærði lexíurnar á næturnar við eldhúsborðið

með fingurna í eyrunum,

þroskaðist, fagurt álitum og ladylike sem greifynjur

með mjúkt geð og eljusamt einsog Násíka,

með sviphreint enni engla.

 

Ég hef oft spurt og ekkert svar fengið,

hvaðan mýktin og gæskan koma,

veit það ekki heldur nú og þarf að hafa hraðan á.

29. desember 2015

Í bókahillunni minni eru tvær bækur hlið við hlið: Three Soviet Plays og Four Soviet Plays. Three Soviet Plays er pappírskilja frá Penguin-útgáfunni. Kápan er í þremur litum: lillabláum, bleikum og fölrauðum. Hin bókin, Four Soviet Plays, sem gefin er út af Co-operative publishing society of foreign workers in the U.S.S.R., árið 1937, er í brúnum, gráum og öðrum áþekkum tónum. Hún er innbundin og máð á köntunum. Hún er mun meira sovét en sú bleika og lillaða, enda einu leikriti ríkari. Það munar um Harmleikinn upplitsdjarfa eftir Vsevolod Vishnevsky.

28. desember 2015

Dagar líða. Maður les um einhverja gamla ameríska bíómynd á Þorláksmessu – sem var ekki einu sinni sýnd á Þorláksmessu – svo líða dagarnir og eina ferska lesefnið eru bækur sem komu upp úr jólapakkanum; og varla hægt að segja að þar sé á ferðinni ferskt lesefni, því ekki varð það til í jólapakkanum. Í október á næsta ári verða átta ár síðan Guð var opinberlega beðinn um að blessa Ísland. Það voru sjö ár í október á þessu ári. Og núna er desember. Mér varð um daginn hugsað til íslensks rithöfundar sem gaf út bók núna fyrir jólin. Mér kæmi ekki á óvart þótt einhver spyrji sig núna: Fyrst Guð, svo íslenskur rithöfundur – hvar er samhengið þar? En ég ætla ekki að svara því – ekki beint. Ég vil þó taka fram að mér varð ekki hugsað til þessa íslenska rithöfundar vegna þess að hann gaf út bókina sína, þótt mögulega hafi það eitthvað spilað inn í. Mér varð hugsað til hans vegna sögu sem hann sagði mér einu sinni af sjálfum sér. Fyrir mörgum árum – hugsanlega þremur áratugum eða svo – hætti þessi maður að nota áfengi, og hefur ekki notað það síðan. En einhvern tíma gerðist það (og í því felst sagan sem hann sagði mér) að hann vaknaði einn morguninn með mjög erfiða timburmenn; og þá voru nákvæmlega sjö ár síðan hann hætti að drekka. Honum fannst þetta mjög skrítið. Eiginlega alveg stórfurðulegt. En um leið var hann ekki í minnsta vafa um hver það var sem sendi honum timburmennina. Hann hafði ekki smakkað dropa kvöldið áður; og eins og fyrr sagði: ekki síðustu sjö árin. En samt voru timburmennirnir sem hann fékk þennan morgun verri en hann hafði nokkurn tíma upplifað áður. (Það má vel vera að hér sé ég að ýkja, en það er þá bara vegna þess að íslenski rithöfundurinn var sjálfur að ýkja þegar hann sagði mér söguna.) Og núna heyri ég fyrir mér að einhver spyrji sig: En stóðst hann prófið? Fékk hann sér? (Og hér er auðvitað átt við það sem kallað er afréttari.) Nei, hann fékk sér ekki. Og síðan eru liðin mun fleiri ár en sjö. Það var meira að segja að koma út bók eftir þennan mann um daginn. En ég var búinn að nefna það.

23. desember 2015

Ofgnótt. Það er ekki vegna hátíðanna sem ég fer að hugsa um orðið ofgnótt. Alls ekki. Dytti það ekki í hug. Ég er að hugsa um amerísku kvikmyndina Three Amigos frá árinu 1986. Hún er að verða 30 ára gömul. Og leikararnir í henni þar með jafnmörgum árum eldri en þeir voru í myndinni. Steve Martin, Chevy Chase og Martin Short. Ég hef ekki hugmynd hvað hinir leikararnir heita, t.d. þeir sem léku Mexíkanana, en þeir voru ekki síðri í sínum hlutverkum en Steve, Chevy og Martin. Þegar ég horfði á þessa mynd á sínum tíma, fyrir næstum 30 árum, lærði ég orð á ensku sem þýðir ofgnótt á íslensku. Ég ætla mér ekki að fara að rifja upp efni eða þráð Three Amigos – geri það kannski síðar, í betra tómi – en þegar fer að síga á seinni hluta myndarinnar kemur að því að El Guapo, skúrkurinn, sá sem Vinirnir þrír eiga í höggi við, verður fertugur. Og vinir hans, vinir El Guapos (sem eru ekki Vinirnir þrír, vel að merkja), halda honum mikla veislu í þorpinu þeirra. Eftirfarandi samtal á sér stað þegar verið er að undirbúa veisluna, og El Guapo er að ræða við sinn helsta vin, sína hægri hönd má segja, persónu sem ég man ekki í augnablikinu hvað hét, eða hvað hún var kölluð; en sá maður er með fallegan sombrero á höfðinu (eins og þeir flestir, dólgarnir í liði El Guapos); og undan hattinum teygja sig fallegir grásvartir, síðir lokkar sem ná yfir byssubeltin á brjósti hans. El Guapo er sjálfur með drengjalegt hrokkið hár, og hann er fjallmyndarlegur, eins og nafn hans, eða gælunafn, gefur til kynna – jafn mikill óþokki og hann er. Sá síðhærði talar til yfirmanns síns, sem situr í háum söðli á hrossi sínu – þeir hafa verið að ræða um á hverju sá síðarnefndi megi eiga von í afmælisgjöf: „You will like your other presents too. I have put many beautiful piñatas in the storeroom, each of them filled with little surprises.“ Og El Guapo svarar, með tilhlökkun í augum: „Many piñatas?“ „Yes, many!“ segir sá síðhærði, og leggur mikla áherslu á orð sín með höndunum. En El Guapo finnst hann þurfi frekari fullvissu: „Would you say I have a plethora of piñatas?“ Smá þögn. „A what?“ spyr sá síðhærði. Og El Guapo endurtekur orðið: „A plethora.“ Sá síðhærði hefur ekki hugmynd um hvað foringinn á hestbakinu á við; hann verður hálfkindarlegur á svip, en svarar síðan, 100% viss í sinni sök (eða hugsanlega bara 40%): „Oh yes. You have a plethora.“ Þá brosir El Guapo og nefnir nafn vinar síns, sem nú kemur í ljós að er kallaður Jefe: „Jefe, what is a plethora?“ Jefe verður enn kjánalegri til augnanna en áður, og spyr: „Why, El Guapo?“ Og El Guapo svarar: „Well, you told me I have a plethora, and I just would like to know if you know what a plethora is. I would not like to think that a person would tell someone he has a plethora and find out that that person has no idea what it means to have a plethora.“ El Guapo er í senn reiður og fullur hneykslunar á Jefe. „Forgive me, El Guapo,“ segir Jefe afsakandi. „I know that I, Jefe, do not have your superior intellect and education. But could it be that once again you are angry at something else and are looking to take it out on me?“ „Like what, Jefe?“ spyr El Guapo, og virðist ekki kannast við nokkuð af því tagi sem Jefe hefur ýjað að. Og Jefe spyr: „Could it be because you are turning 40 today?“ Og svar El Guapos er einfalt – en ákveðið: „No!“ Svo heldur samtalið áfram; það kemur inn á konuna sem El Guapo þráir, þá sem myndin fjallar í raun um, þannig séð. Ég gæti vel hugsað mér að halda áfram með þetta spjall þeirra Jefes og El Guapos – ég gæti reyndar vel hugsað mér að horfa á myndina núna (í sjötta eða sjöunda skiptið) í staðinn fyrir að vera að skrifa upp úr henni samtölin – en ég hef bara ekki tíma. Aðfangadagur á morgun.

22. desember 2015

Í nýlegum ritdómi um skáldsöguna Sögumann var ég ranglega sakaður um að hafa skrifað póstmóderníska bók. Held ég. Þegar ég heyrði – eða las – umsögnina, þá leið mér svolítið eins og glæpamanni (að minnsta kosti meintum glæpamanni), því mér varð hugsað til orða sem ég las fyrir stuttu (og ég held að sé óþarfi að vera að þýða): Modernism is about finding out how much you could get away with leaving out. Postmodernism is about how much you can get away with putting in. (John Lanchester: The Dept to Pleasure)

21. desember 2015

Út um gluggann á efri hæð kirkjunnar, af svölunum, þaðan sem ég hef komið mér fyrir til að sjá betur yfir tónlistarfólkið við altarið – og hugsanlega heyra betur í því – vill svo til að ég sé inn um glugga á efstu hæð í fjölbýlishúsi í nágrenninu. Það er kveikt í tveimur gluggum, þetta er greinilega stofan í íbúðinni; og það er líka greinilegt að einhverjar deilur eiga sér stað milli fólks sem statt er í íbúðinni. Eru það íbúarnir? Eða innbrotsþjófar sem koma sér ekki saman um hverju þeir eiga að stela? Það er skrítið að verða vitni að einhverju svona út um glugga á kirkju. Misklíð fólksins lýsir sér í bendingum og áköfum handahreyfingum; þetta eru maður og kona – sem í huga mér útilokar að þau séu innbrotsþjófar. Þegar fyrstu hljómar tónlistarfólksins berast til mín, þar sem ég sit á kirkjusvölunum, er ég of upptekinn við að fylgjast með senunni í fjölbýlishúsinu til að einbeita mér sem skyldi að tónlistinni. En ég skynja þó í henni einhverja uppbyggingu, líkt og fyrstu tónarnir séu að afsaka það sem á eftir kemur. Þetta er ósköp lágstemmt. En um leið og ég veit að tónlistin passar engan veginn við það sem ég sé vera að gerast í glugga fjölbýlishússins veit ég að hún á eftir að verða að einhverju meiru, jafnvel bíta svolítið frá sér. Og ef ég þekki þau sem standa að henni eins vel og ég tel mig gera, þá á lagið – eða verkið, eins og þau vilja eflaust kalla það – eftir að ná ákveðnum hápunkti, og í kjölfar þess punkts fjara út. Þetta er einmitt það sem mér mislíkar við tónlist þessa hóps: hún leitar alltaf í sama áþekka hápunktinn, sem er alltaf svo innantómur og tilgerðarlegur; og síðan kemur langdreginn hali, eins og tónlistarmennirnir þurfi allir að jafna sig eftir eitthvað sem ekkert var. En nú er eitthvað meira að gerast í glugganum. Maðurinn reiðir til höggs. En slær samt ekki strax. Það líður einkennilega langur tími án þess hann láti hendina vaða. En svo gerist það. Og konan sem stendur andspænis honum tekur við högginu. Maðurinn stendur síðan einn eftir; konan er horfin úr rammanum.

18. desember 2015

Einhvers staðar í djúpum kassa á ég vetrarprógramm Fjalakattarins, kvikmyndaklúbbsins sem var starfræktur í Tjarnarbíói. Prógrammið var í A4-broti; ég man ekki hvaða mynd var framan á, bara að grár var fyrirferðarmesti liturinn í henni. Samt er Fjalakötturinn, og heimsóknirnar þangað, einhver litríkasta minning sem ég á frá árunum fyrir tvítugt: að ganga að heiman og í bíóið í Tjarnargötunni, búinn að lesa sér til um myndina sem maður átti í vændum; og síðan að ganga heim til sín í myrkrinu eftir sýningu, allur grár að innan, og svartur og hvítur, en fullur af skáldskap og óhugnaði. Og spurningum sem mig grunar að ég hafi ekki enn fengið svör við. Það var mun meira um liti í mánudagsmyndum Háskólabíós en laugardags- og sunnudagssýningum Fjalakattarins. Af mánudagsmyndunum man ég sérstaklega eftir mynd Romans Polanski, Hvað? Myndir sem Marcello Mastroianni leikur í gleymast ekki svo auðveldlega. Ég man líka eftir Slöngueggi Ingmars Bergman. Blásýruatriðið í lok þeirrar myndar er enn ljóslifandi í huga mér, þótt ég hefði gleymt því að Liv Ullman og David Carradine léku í henni; ég þurfti að fletta því upp á netinu. Ég þurfti líka að fletta því upp að aðalleikkonan í What?, þeirri hálfgleymdu, ef ekki algleymdu mynd Polanskis, hét Sydne Rome. Einhverra hluta vegna sá ég ekki hina alræmdu mynd Marcos Ferreri, Átveisluna miklu (La Grande bouffe), þegar hún var sýnd sem mánudagsmynd í Háskólabíói; ég man samt eftir umtalinu sem hún vakti. Kannski var ég ekki orðinn nógu gamall til að komast framhjá Gunnari í dyrunum – ég man nefnilega eftir að maðurinn sem reif af miðunum í bíóinu hét Gunnar. En þrátt fyrir að hafa ekki séð La Grande bouffe á þessum tíma situr hún í minninu sem eins konar tákn fyrir þann sérstaka heim sem mánudagsmyndirnar voru, rétt eins og popplyktin upp úr ristinni við vesturvegg bíósins var – og er ennþá – eins konar rammi utan um bíóupplifun manns í Háskólabíói hina daga vikunnar. Ég held annars að lokaatriði La Grande bouffe (sem ég sá löngu síðar, þegar ég keypti hana á disk) hljóti að vera með fallegustu lokaatriðum í bíómyndum. Í fyrstu gerð skáldsögunnar Sögumaður (þar sem minnst er svolítið á La Grande bouffe) hafði ég þetta atriði með – eða réttara sagt: lýsingu á því – en tók það út ásamt fleiri senum, þegar bygging sögunnar breyttist frá því sem ég hafði upphaflega séð fyrir mér. Dómarinn Philippe (leikinn af Philippe Noiret – og nú verð ég að gefa mér að þeir sem lesa þetta þekki þráð og efni La Grande bouffe) er einn eftir á lífi af þeim fjórum herrum sem myndin segir frá. Hann og Andrea, kennslukonan sem heimsækir þá:

Philippe sest á bekkinn. Hann heldur á innrömmuðu myndinni af móður sinni. Hann er í hvítri skyrtu, svörtu vesti, og með ljóst ullarsjal yfir herðum. Hann er veiklulegur að sjá. En þó ekki svo að mann gruni að þarna muni hann deyja. Það hvarflar jafnvel að manni að hann muni lifa þetta af; að þau Andrea muni lifa hamingjusöm saman það sem eftir er ævinnar; að ævintýrið taki á sig mynd hinnar fáguðu formfestu.

Og vissulega bendir allt til þess, þegar Andrea kemur labbandi í átt til Philippe, með mjög svo ákveðin form á flötum kökubakka: tvö stór, fagurbleik brjóst úr einhvers konar búðingi, með brúnum geirvörtum ofan á.

Hún leggur bakkann varlega frá sér á borðið við bekkinn, og brosir fallega til Philippes. „Þetta er fyrir þig. Þetta er mjög sætt og gott.“ Svo strýkur hún kolli hundsins sem hafði haldið Philippe félagsskap á bekknum, og Philippe byrjar að fá sér af búðingnum; hann stingur skeiðinni í hægra brjóstið.

Andrea sest hjá honum. Hún strýkur á honum bakið, og horfir ástúðlega til hans. Á milli þess sem hann stingur upp í sig skeiðinni telur Philippe upp nöfn hinna látnu félaga sinna.

„Marcello. Michel. Og Ugo.“

Hann verður klökkur í framan. Og segir: „Guð veit hvaða álit þeir hafa á mér. Þeim hlýtur að finnast ég hafa svikið þá. Svo sitjum við hér, tvö saman, hamingjusöm. Og þeir …“

Þau heyra bíl renna í hlað, og Andrea biður hann að bíða, hún ætli að athuga hver sé að koma. Og hún stendur upp og gengur út úr myndrammanum.

Philippe heldur áfram að borða. Svo sjáum við hvítan sendiferðabíl bakka inn í garðinn, það er sams konar bíll og kom með kjötið frá slátraranum í upphafi sögunnar. Það er komin ný sending. Slátrarinn (síðskeggjaður maður, feitur, í skítugum slopp) spyr Andreu hvar þeir eigi að setja kjötið; og hún bendir á garðinn.

„Garðinn?“

„Já, í garðinn.“

„En þetta er fínasta kjöt.“

„Ég veit það. Setjið það í garðinn.“ Og hún bendir þeim hvar.

Þeir hlýða henni. Þeir byrja að tína út úr bílnum heilu skrokkana, og henda þeim á jörðina.

Philippe er langt kominn með annað brjóstið þegar Andrea kemur aftur til hans.

„Það var að koma ný sending af kjöti,“ lætur hún hann vita.

„Lítur það vel út?“ spyr hann.

„Mjög vel.“

Svo hrópar Philippe til slátraranna að þeir megi skila til yfirmanns þeirra að kálfakjötið í síðustu sendingu hafi verið annars flokks. Það reynir á hann að hrópa. Hann er orðinn þreyttur. Hann er að niðurlotinn kominn. Hann er að fyllast af búðingi. En heldur samt áfram að borða.

Allt í einu virðist sem hann nái ekki andanum; hann segist ekki geta meira; hann missir út úr sér síðasta bitann, og hallar höfðinu fram, en reisir sig við aftur.

Andrea tekur um öxl hans.

Hann biður hana að afsaka; honum segist vera kalt. Og hann hvílir höfuðið á brjósti Andreu; hann tekur um upphandlegg hennar, og endurtekur að honum sé kalt. Svo stynur hann, kippist snöggt til, og lognast síðan út af með lokuð augun, með ennið á ljósblárri peysu Andreu.

Það tók fljótt af.

Andrea hrópar nafn hans; hún kyssir hann á ennið og leggur hann varfærnislega frá sér við arminn á bekknum. Svo breiðir hún teppið betur yfir magann á honum, hagræðir sjalinu um axlirnar og stendur upp til að fara. Þegar hún gengur upp á veröndina og inn í húsið, eru slátrararnir enn að losa farminn á mölina, innan um hundana; og annar þeirra hengir einn skrokkinn milli greina á nöktu, haustlegu tré – og hlær og gerir grín.

17. desember 2015

“All the people run from the horizon” (Julia Holter: How long? af Have you in my wilderness, plötu ársins skv. popptímaritinu) Ég veit ekki nákvæmlega um hvað lagið fjallar, ef hægt er að segja að það fjalli um eitthvað, umfram það að vera bara lag og texti. En í textanum eru líka þessar línur: Do you know the proper way to ask for a cigarette?/I´m asking before winter comes.

 

16. desember 2015

Góður vinur minn á það til að bera ýmislegt bóka- eða blaðakyns inn á heimilið. Um daginn kom hann með nýjasta tölublað bókmenntatímaritsins Skjaldar. Í því tölublaði er að finna 84 ára gamlan pistil eftir Tómas Guðmundsson skáld, sem upphaflega birtist í Stúdentablaðinu. Pistillinn nefnist Eftir kl. 10 á kvöldin. Ég get ekki stillt mig um að birta fyrstu málsgrein textans (sem lýkur um leið og skáletrið hættir), bara rétt til að kveikja í þeim sem gætu hugsað sér að lesa áfram: Vinur minn hefur sagt mér frá manni vestur í bæ sem alltaf er farinn að hátta kl. 10 á kvöldin. Oft hef ég hugsað um það hvernig heimurinn muni líta út í höfði slíks manns og talsvert myndi ég vilja á mig leggja til að öðlast þekkingu á sálarástandi hans og lífsskoðunum ef þess væri kostur, en þar sem reynsla mín er sú að engum manni sé unnt að kynnast til hlítar fyrri en eftir kl. 10 á kvöldin, þá segir sig sjálft að þetta getur ekki orðið. Og svo framvegis. En fyrst hér er á annað borð minnst á vini (fyrst þann sem kom með Skjöld inn á heimilið, síðan vin Tómasar sem segir honum frá kl. 10-manninum), þá er ekki úr vegi að bæta þriðja vininum við, þótt sá vinur flokkist fremur í huga mér sem kunningi en vinur. Á þennan mann hefur verið minnst á áður; þetta er hinn nafnlausi höfundur frá 14. desember sem hafði áhyggjur af því að honum tækist ekki að hemja þá löngun sína að láta hafa eitthvað eftir sér opinberlega um ástandið í heiminum eða einhvers konar samfélagsmál. Hann hringdi í mig í gærkvöldi. Og hann var ekkert sérlega ánægður. Með mig, það er að segja. „Maður hittir þig á förnum vegi,“ sagði hann, „og fær síðan að lesa um það nokkrum dögum síðar í einhverjum miðli sem allur heimurinn hefur aðgang að.“ „Það les þetta enginn sem ég er að skrifa,“ svaraði ég. „En af hverju ertu þá að birta þetta?“ spurði hann. „Ég er nú meira svona að tala við sjálfan mig, frekar en að tala við aðra,“ sagði ég, og bætti við: „Kannski er þetta eintal sálarinnar, eins og Þórbergur kallaði það.“ Og ég reyndi að sannfæra hann um að enginn færi að velta því fyrir sér hvaða höfundur þetta væri sem ég sagðist hafa hitt um daginn; í fyrsta lagi læsi enginn þessi skrif mín á vefnum, eins og ég hafði þegar sagt honum; í öðru lagi væri hann (höfundurinn áhyggjufulli) ekki svo vel þekktur sem höfundur að einhver færi að brjóta heilann um hver þetta gæti verið sem ég (svona álíka þekktur höfundur og hann) væri að segja frá að ég hefði hitt á förnum vegi. Það væri t.d. annað mál ef X (mjög þekktur höfundur, sem ég læt vera að nefna með nafni) hefði hitt Y (annan álíka þekktan höfund, sem ég nefni ekki heldur, af þeirri ástæðu að þá gæti ég átt von á fleiri símtölum) – ef þessir tveir höfundar, X og Y, hefðu hist á förnum vegi, og annar þeirra (eða jafnvel ég sjálfur) myndi segja frá því á alheimsvefnum, myndu lesendur þeirra (sem ég veit að eru mun fleiri en okkar beggja samanlagðir, mínir og áhyggjufulla höfundarins) virkilega fyllast áhuga; þeir myndu setja af stað einhvers konar rannsókn. En nóg um þetta; þetta leiðir ekki neitt. Núna er ég aftur á móti búinn að nefna bæði Tómas Guðmundsson og Þórberg Þórðarson í sömu færslu; þessa tvo menn sem Matthías Johannessen talaði við og sagði frá í viðtalsbókunum sínum. Og það minnir mig á að mig langar til að lesa nýju bókina sem var að koma út um Þórberg Þórðarson. Ég mæli líka með pistlinum eftir Tómas.