2. september 2016

„I love the smell of napalm in the morning,“ sagði Bill Kilgore ofursti. Ég þekki sjálfur ekki lyktina af napalmi; það sem ég aftur á móti elska á morgnana er að hlusta á hið Elektróníska ljóð Edgars Varèse, og síðan í framhaldi á hinn Djúpa svarta svefn sama höfundar – eftir það er klukkunni óhætt að verða níu. Og þá er maður líka vaknaður.

1. september 2016

Kominn nýr mánuður, og rúm vika liðin frá síðustu færslu. Kafli á viku (eins og yfirskriftin var um tíma) dugir ekki einu sinni sem afsökun fyrir svona lélegum afköstum. Og ekki ætla ég að fara að vitna í The Beatles. En þegar líf og starf kemur í veg fyrir að maður geti sinnt svona tómstundaiðju (að setja færslur á vefinn), þá hlýtur eitthvað gott að vera að gerast í lífi og starfi. Ég held ég ljúki þessari áttundadagsfærslu á þeim nótum. Og bæti við nokkrum píanónótum frá John Cage – að vísu breyttum píanónótum – bara til að hafa einhverja myndskreytingu:

 

24. ágúst 2016

ÁN TITILS

 

Í kjörbúðinni hitti ég gamlan vin föður míns heitins. Og við spjöllum saman; við höfum ekki hist í einhver sjö eða átta ár. Sígarettupakki gægist upp úr skyrtuvasa hans. Það sem hann segir við mig áður en við kveðjumst, eftir svolítið spjall (þó ekki um föður minn) hlýtur að vera eitthvað sem margir hafa orðað áður – það hljómar þannig – en ég hafði samt aldrei heyrt það fyrr: „Maður er bara á einum stað í einu,“ segir hann.

 

Ég segi já við því. Við höfðum talað saman um rafeindir og taugaboð, bílategundir og líkamsheilsu, og að lokum um útsýni úr sumarbústöðum og þá fjarlægð sem að hans mati hafði verið svo óþörf á milli bústaðar hans, vinar pabba og konunnar hans, og pabba og mömmu; þau áttu bústað á sama stað á landinu, við sama vatn.

 

Svo kveðjumst við, og göngum í sitthvora áttina; hann inn í búðina, ég út úr henni. Fimm mínútum síðar, þegar ég nálgast heimili mitt í bílnum, finnst mér eins og að með orðinu maður hafi vinur pabba verið að tala um pabba, ekki okkur, eins og ég hélt í fyrstu. Og það tekur mig svolítinn tíma að ákveða hvað ég á að kalla þessa frásögn mína, hvort Á einum stað í einu sé eðlilegasti titillinn, eða Að deyja merkir meðal annars það að maður fer aldrei aftur í kjörbúðina.

23. ágúst 2016

Bobby Hutcherson er dáinn. Ég ætlaði að segja frá því fyrir nokkrum dögum, því þetta gerðist núna um daginn, en ég hef bara verið svo upptekinn. Ég hef aldrei þekkt jafn upptekinn mann og mig núna síðustu daga. Ég var líka rétt í þessu að fá sjóðheitar fréttir úr íslenskum bókaútgáfuheimi, reyndar svo heitar að ég er að hugsa um að láta þær kólna aðeins áður en ég sendi þær út í loftið. Þessar fréttir varða Das Verlag við Bræðraborgarstíg. Ég kem kannski með þær eftir nokkra daga, þegar fólk verður búið að átta sig á þeim. En þangað til er við hæfi að setja á fóninn hljóðritun með Bobby Hutcherson – Bobby Hutcherson er alltaf við hæfi:

 

 

En þegar maður minnist á Bobby Hutcherson, þá verður ekki hjá því komist að láta eftirfarandi fylgja með. Á mínútu 5.52 hefst eitt fallegasta sóló jazzsögunnar (svo ég gerist ögn hátíðlegur):

 

17. ágúst 2016

Ég birti í gær ljóð Nezvals, Tunglskin. Um kvöldið fór ég síðan að fletta í öðru verki eftir annan höfund, en með sama titli: Moonlight eftir Harold Pinter:

 

„Rationality went down the drain donkey´s years ago and hasn´t been seen since. All that famous rationality of yours is swimming about in waste disposal turdology. It´s burping and farting away in the cesspit for ever and ever.“

 

Það var Ian Holm, í hlutverki Andys, hins deyjandi föður í leikritinu, sem fór með þessar línur í frumuppfærslu verksins. Það skiptir öllu máli hver fer með svona línur – þær myndu aldrei hljóma vel úr mínum munni.

 

Andy aftur, örlítið síðar í leikritinu:

 

„I would never use obscene language in the office. Certainly not. I kept my obscene language for the home, where it belongs.“

 

Ég get ekki beðið eftir að sjá Ian McKellen og Patrick Stewart í nýrri uppfærslu á No man´s land í London í desember; það verður í fyrsta skipti sem ég sé leikrit eftir Pinter á sviði í öðru landi en Íslandi. En ég verð víst að bíða. Það eru ýmsar leiðir til að telja manni sjálfum trú um að tíminn líði hraðar en hann gerir á klukkunni, en samt engin til að láta hann líða hraðar. Ég þekki að minnsta kosti enga.

16. ágúst 2016

TUNGLSKIN

 

Í dag líkist borgin

Hvítri rós

Fiðlu

Og kufungi

Það er nótt og dúfur kurra

Við skulum opna alla glugga að strætinu

Og þá mun borgin líkjast

Púðurdós

Hvítum hanzka

Og silfraðri hárkollu

 

(Vitezslav Nezval, þýð. Hannes Sigfússon)

15. ágúst 2016

Mér var sagt frá því um daginn („það var sagt mér“) að nýrra tíðinda mætti fljótlega vænta í bókaútgáfu á Íslandi. Og það var vitnað í facebook og tölvupósta – gott ef ekki líka í hljóðlátt skraf milli aðila í bransanum – því til staðfestingar. Einhverjar breytingar eru sem sagt á döfinni hjá forlögum og rithöfundum. Á mínu heimili er svoleiðis kallað „að gera breytingar“. („Ég geri breytingar; þú gerir breytingar; hann/hún gerir breytingar“, og svo framvegis. „Þau gera breytingar.“) Ég tel mig búa yfir nokkuð áreiðanlegum heimildum hvað þessi tíðindi varðar. Til dæmis var hjá mér rithöfundur áðan sem beinlínis rakti fyrir mér ákveðnar hrókeringar höfunda milli forlaga; og sá hinn sami hafði upplýsingar um ný forlög sem sagt er að séu um það bil að verða til. En vegna þess að sumar upplýsingarnar gætu komið illa við ákveðnar manneskjur sem óbeint „hanga utan á þeim (upplýsingunum)“ vil ég að svo stöddu máli ekki tjá mig um þetta frekar en ég hefi nú þegar gert. Ég tek þó fram að ekkert af þessu „slúðri“ snertir mig sjálfan sem höfund (ekki enn að minnsta kosti); það getur verið að eitthvað af því snerti mig sem manneskju eða tilfinningaveru (sem ég vissulega tel mig vera, þrátt fyrir að ákveðnir einstaklingar myndu aldrei taka undir það), en ekkert af þessu snertir mig sem höfund (enda er ég tilfinningalaus sem höfundur). Ég er strax farinn að velta fyrir mér myndefni fyrir þessa færslu, einkum vegna þess að orðið tilfinningar dúkkaði upp. Ég ætla þó aðeins að taka mér lengri frest til að ákveða það. En hvar var ég? Framsóknarflokkurinn vill ekki lengur kannast við eigin foringja. Nei, það var ekki það sem ég var að tala um. Ég var að tala um tilfinningar. Og myndefni sem hæfir tilfinningum. Ég ætlaði mér reyndar upphaflega að gera að umtalsefni bráðskemmtilega pistla Guðmundar Brynjólfssonar djákna og rithöfundar (sem hann birtir sem blogg, en líka á facebook; mér hefur verið sagt frá þeim, og meira að segja fengið nokkrar facebook-færslur sendar með tölvupósti); en nú finnst mér eins og ég sé búinn að velta svo feykilega þungum steinum í dag (með því að segja frá orðrómi um breytingar í bókabransanum, án þess þó að nokkuð konkret hafi komið í ljós), að ég ætla að geyma mér Guðmund Brynjólfsson sem umræðuefni að sinni. Ég hef aftur á móti tekið ákvörðun um myndbirtinguna – hún verður með frekar klassísku móti.

13. ágúst 2016

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá lesendum þessarar heimasíðu að höfundur hefur aftur og aftur gert að umtalsefni bókina Fjarveran. Það er engu líkara en að hann sé að reyna að koma því inn hjá lesendum að þeir eigi að kynna sér þá bók, hafi þeir ekki þegar gert það. Engu líkara? Hann er að því. Hann, sem er ég. Ég fékk nefnilega bréf um daginn frá útgefanda mínum, Forlaginu. Nefnilega? Ég fékk einfaldlega bréf. Í því stóð að fyrir dyrum lægi að farga eitt þúsund eintökum af áðurnefndri bók, Fjarverunni; það þurfi að rýma til á lagernum; það sé tekið að þrengja að. Í bréfinu er mér sagt að förgunin verði framkvæmd á „réttan hátt“, að endurskoðandi fyrirtækisins muni votta að svo verði. Og ég treysti því alveg, jafnvel þótt ég viti ekki hver endurskoðandinn er. Bókin var prentuð í 2000 eintökum – var mér sagt. Áður en hún var prentuð stakk ég upp á við útgefandann (eða starfsmann útgefanda) að bókin yrði prentuð í sem fæstum eintökum, og nefndi töluna eitt þúsund sem dæmi, en mér var þá sagt að hlutfallslega borgaði sig að hafa eintökin tvö þúsund. Nú hefur komið í ljós að það borgaði sig ekki. (Rétt í þessu datt mér í hug að ef til vill ætti ég að starfa hjá Forlaginu við eitthvað annað en að skrifa bækur.) En það er ekki verið að farga öllum óseldum eintökum af Fjarverunni. Nei, alls ekki. Eins og segir í bréfinu, þá verður haldið eftir að lágmarki sjö ára sölu. En hvað gerist eftir það? Hverju svarar útgefandinn að sjö (eða átta, kannski níu) árum liðnum, þegar starfsmaður bókabúðarinnar hringir í hann og spyr hvort hann geti sent sér fleiri eintök af Fjarverunni eftir Braga Ólafsson; viðskiptavinir séu að spyrja um þá bók, ekki bara einn, heldur fleiri – mun fleiri. „Því miður, það er bara ekki meira til af bókinni.“ „Er hún uppseld?“ spyr bókabúðarstarfsmaðurinn. „Já. Eða … Jú, hún er uppseld. Það er bara ekki meira til af henni.“ „Og verður ekki prentuð aftur?“ „Prentuð aftur? Fjarveran? Þú ert að tala um Fjarveruna eftir Braga Ólafsson?“ „Já. Það var hérna eldri kona sem kom í búðina hjá okkur áðan og vildi kaupa tvö eintök.“ „Tvö?“ spyr starfsmaður útgefanda. „Hún vildi fá tvö, já,“ svarar starfsmaðurinn í bókabúðinni. „Það var reyndar spurt um sjö eintök af henni í síðustu viku; það var einhver lesklúbbur á Akureyri sem hafði hugsað sér að taka bókina fyrir. Hún gerist nefnilega að hluta til á Akureyri.“ (Nú þarf ég reyndar að hlaupa; ég þarf að fara í skírnarveislu. Ég velti þessu með förgunina kannski meira fyrir mér á næstunni – hér á síðunni – en fyrst ég nefndi Akureyri, þá ætla ég að skreyta þessa færslu með mynd þaðan; ég notaði hana á sínum tíma til að kynna bókina – Fjarveruna, það er að segja. Ég held að ég hafi tekið hana sjálfur.)

Sögusvið Fjarverunnar: Akureyri

11. ágúst 2016

Auðvitað á maður ekki að tala þannig um fólk, eins og ég er um það bil að fara að gera, EN (ég ætla að taka einn Illuga Jökulsson á þetta: „Nú má vel vera að X sé góður maður, en …“ osfrv.): mig grunar að með útgáfu nýrrar bókar sinnar, Hyldýpið, sé innrímið í Ómari Ragnarssyni (þeim mikla rímmanni) eitthvað að gefa sig. Hvað gengur honum til? Af hverju núna? Ég veit að hinir og þessir hafa verið að spyrja sig þessarar sömu spurningar í fjölmiðlum síðustu daga, en (þetta er að verða mikil EN-færsla) ég get samt ekki stillt mig um að bætast í hópinn (jafnlítið og ég er fyrir að vera í hópi). Í skáldsögunni sem ég gaf út árið 2012, Fjarverunni, er ofurlítið vikið að Geirfinnsmálinu. Ég „luma þar á“ svolitlum upplýsingum sem skálduð persóna í bókinni hefur yfir höndum, og hefur komið fyrir (til geymslu) í söngtexta við tónlist vinar síns. Ég nefni þetta vegna þess að allt í einu núna – þegar Ómar Ragnarsson hefur gefið út í bók gamlar upplýsingar um hið fræga morðmál – eða mannshvarf/hvörf – sem hann óvart gleymdi í einhverri hirslu í híbýlum sínum í fleiri, fleiri ár, finnst mér eins og þær upplýsingar sem ég miðlaði um sama mál (eða réttara sagt sú ábending um að upplýsingar væri að finna í ákveðnum söngtexta) hafi öðlast mun meiri vigt en ég taldi þær (upplýsingarnar) hafa þegar ég skrifaði bókina. Ég veit það hefur ekkert upp á sig að vera að tala um þetta, en ég á afmæli í dag, og það liggur svo vel á mér. Auk þess hef ég verið að hlusta á Edgar Varèse í dag, og vegna þess að tónskáldið í Fjarverunni, Markús Geirharður, sá sem samdi músíkina við texta Ármanns Vals Ármannssonar sem vísaði í hið hleraða samtal í Klúbbnum árið 1972, það sem sagt er frá í bókinni – og það sem fól í sér upplýsingarnar um Geirfinnsmálið – hann, Markús, var að hlusta á Edgar Varèse morguninn þegar þau Esther Símonar elskuðust í kjallaraíbúðinni við Rauðarárstíginn, og Monika, konan á hæðinni fyrir ofan Ármann Val heyrði öll lætin út um glugga Markúsar (ég veit að þetta er ruglingslegt, en það ætti samt að skiljast) – það er út af öllu þessu sem mér datt í hug að minnast á hina einkennilegu útgáfu Ómars Ragnarssonar á bókinni Hyldýpið nú á dögunum. FjarveranHyldýpið … þetta eru svakalegir titlar. Ef ég væri ekki að hugsa svona mikið um Ómar Ragnarsson í augnablikinu, og hans miklu hæfileika í að ríma og búa til vísur, þá myndi ég halda að þessi tvö orð, fjarveran og hyldýpið, rímuðu hvort við annað. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók fyrir rúmum fjórum árum í nágrenni sögusviðs Fjarverunnar.)

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

6. ágúst 2016

Í tilefni dagsins: nokkurra mínútna brot úr hinni dásamlegu bíómynd Býkúpunni (La colmena) eftir spænska leikstjórann Mario Camus, þar sem meðal annarra persóna (og þær eru margar) er hommaparið Suárez og Pepe. Myndin er byggð á skáldsögu Camilo José Cela. Ég varð mér úti um eintak um daginn, og horfði á hana í (giska ég á) sjöunda skiptið. Hún eldist jafn vel og hið roskna fólk sem venur komur sínar á kaffihúsið í Madrid, miðpunkt myndarinnar:

 

5. ágúst 2016

Í bókinni sem ég talaði um í fyrradag, Future Days, er feykilega áhugaverð umræða (kannski réttara að nefna það einræðu) um tónlist og hugmyndir á bakvið tilraunamennsku í tónlist. (Nei, líklega er réttara að tala um bókina sem umræðu, því höfundurinn leyfir mörgum öðrum röddum en sinni eigin að hafa orðið; hann vitnar mikið til annarra tónlistarsérfræðinga.) Ef mér fyndist ekki asnalegt að líkja einhverju við veislu, þá myndi ég hiklaust líkja þessari bók við veislu fyrir þann sem hefur áhuga á Stockhausen, Kraftwerk, Can, Eno, Bowie, osfrv. Og á Þýskalandi eftirstríðsáranna. Hér er til dæmis eitt sem mér þótti skemmtilegt að lesa: Jaki Liebezeit, trommuleikari hljómsveitarinnar Can, var ekki hrifinn af fríjazzi, því honum fannst frelsi þeirrar tónlistar, sem í augum iðkenda hennar mátti (og má) auðvitað ekki hvika frá – aldrei „slaka á“ frelsinu – í raun hefta hið tónlistarlega frelsi; hann upplifði mun raunverulegra frelsi í endurtekningasömum „lúputöktum“, hinum vélræna áslætti sem einkennir t.d. Can, Neu! eða Kraftwerk. Ég hafði aldrei hugsað um þetta á þennan hátt, en er alveg sammála Jaki Liebezeit. Annar trommuleikari, Sigtryggur Baldursson, hringdi í mig í gærmorgun. Erindið var ekki að ræða þessa bók sem ég var að tala um – Sigtryggur vissi ekki um hana, ekki fyrr en ég sagði honum frá henni í símtalinu – en hann sagðist nýlega hafa verið að endurnýja kynni sín af Krautrokki (Kosmische Musik), og hafa keypt sér einhverjar plötur með Can og Neu!. Neu! fannst Sigtryggi ekki alveg eins áhugaverð og hann minnti að hún væri; honum fannst sú hljómsveit hafa verið að míga eitthvað aðeins of mikið utan í Punk Musik, eins og hann orðaði það. Aftur á móti sagði hann mér að fjögurra ára dóttursonur hans væri alveg að meðtaka Neu! – að drengurinn hefði sagt við afa sinn: „Afi, þetta er flott músík!“ (Nú er ég ábyggilega að fara rangt með orðalagið hjá honum.) Unga manneskjan á mínu heimili hafði svipuð orð um aðra tónlist, sem ég var að spila í stofunni þegar hún var þriggja ára. Eric Dolphy var á fóninum, og í miðju bassaklarinettusólói sagði sú litla: „Þetta er fín músík.“ Ég varð mjög upp með mér, ekki bara yfir barninu, heldur líka sjálfum mér yfir að hafa látið mér detta í hug – og leyft mér – að spila Eric Dolphy fyrir svona ung eyru. Við Sigtryggur lukum símtalinu í gær á því að tala svolítið um þýska Schlager Musik, sem heldur betur er minnst á í bókinni fínu, Future Days, og í tilefni af því verður tóndæmi dagsins hinn óviðjafnanlegi Heino:

3. ágúst 2016

Almennt reyni ég að forðast að hafa tilvitnanir í aðra höfunda í bókunum mínum. Oftast fer betur á því að fella orðin inn í eigin texta – hafi maður einhverja sérstaka þörf fyrir að miðla þeim – og þar með stela þeim. Enda þykir mun flottara (samkvæmt virðulegum höfundum, þar á meðal nóbelshöfundinum íslenska) að stela orðum eða hugmyndum, frekar en að fá þær að láni. Ég fór að hugsa um þetta út frá bók sem ég fékk í hendurnar í gær, Future Days, eftir Englendinginn David Stubbs. Hún fjallar um Krautrokkið þýska, eða Kosmische Musik (eins og „aðilar“ Krautrokksins vildu frekar kalla það), og í tengslum við tónlistina um uppbyggingu Þýskalands í nútímanum. En nú að öðru, þessu tengt. Í smásagnasafninu mínu Við hinir einkennisklæddu frá 2003 notaði ég tilvitnun í Klaus Hütter úr hljómsveitinni Kraftwerk. (Eitthvað skrítið samt að kalla Kraftwerk „hljómsveit“.) En þegar ég tók saman úrvalið sem kom út á þessu ári, Dulnefnin, þá sleppti ég þessum orðum Klaus; og er eitthvað að velta því fyrir mér núna hvort ég hefði ekki átt að leyfa þeim að vera með. En hvort sem er, þá langar mig til að rifja þau upp hér (þau koma úr bók sem ég las einu sinni um Kraftwerk): „Mínar fyrstu tónlistarlegu minningar … þögn … ekkert.“ Hvílík setning! Engin furða að mér fyndist ég þurfa að vitna í þetta þegar ég gaf út bókina um hina einkennisklæddu. En að ég sé að rifja þetta upp núna – kannski þurfti ekki bókina Future Days til. Ég held nefnilega að tónlistarlegar æskuminningar Klaus Hütters endurómi á einhvern hátt í bókinni sem ég er sjálfur að skrifa þessa stundina. Og það er einmitt hennar vegna sem ég keypti mér bókina eftir David Stubbs. Þannig að þetta er allt komið í hring – það er eitthvað kosmískt í þessu … En hvað er betur við hæfi en að rifja upp smá Kraftwerk núna? Hér er Computervelt í allri sinni dýrð (og gott betur en það, því þarna er viðauki fyrir aftan):

 

2. ágúst 2016

Að hlusta á Moments musicaux eftir Schubert er góð skemmtun (sbr. „Að horfa á myndband,“ osfrv). Sá sem leikur þau fyrir mig heitir Folke Nauta. Alltaf þegar ég hlusta á Schubert, eða horfi á kilina merkta honum í plötuskápnum, hugsa ég um fjörutíu ára afmæli Oddnýjar Eir; hún var með Schubert á fóninum, einhverja strengjamúsík; ég man ekki hvort það voru píanótríó eða kvartettar eða kvintettar (fáránlegt að muna það ekki). Annað var það ekki að sinni. Ég er enn að bræða með mér hvað skal segja um forsetaatriðið í gær. Á kosningavöku Andra Snæs í Iðnó fyrr í sumar var mér sagt – ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, af sitthvorri manneskjunni – að ég líktist Guðna Th. í andliti. Önnur manneskjan beinlínis hélt eitt augnablik að Guðni Th. væri mættur á kosningavöku Andra Snæs. Ég get ímyndað mér að það sé einkennileg tilfinning fyrir 48 ára gamlan mann að vera allt í einu (eins og ég upplifi það: „allt í einu“) orðinn forseti Íslands. Hefði Guðni Th. skyndilega veikst í gærmorgun, t.d. fengið einhverja heiftarlega pest, þá dettur mér í hug að hann hefði getað hringt í mig og spurt hvort ég gæti ekki tekið að mér að mæta í atriðið í alþingishúsinu seinnipartinn í gær. Ég þekki Guðna ekki mikið, en ég hefði svo sannarlega ekki brugðist honum á slíkri ögurstundu. Ég hefði mætt í hans stað, hefði hann farið fram á það. Og mun gera, biðji hann mig um það síðar. Þá ætla ég að láta Schubert hljóma í bakgrunninum. (Eins og hefð er fyrir hér á síðunni, þá ætti að fylgja færslunni eitthvert myndefni. Ég er að hugsa um að láta það vera myndina af Ólafi og Ratzinger, nú þegar Ólafur er ekki lengur forseti. Ratzinger er ekki heldur lengur páfi, þannig að áfram eiga þeir eitthvað sameiginlegt, Ólafur og Ratzinger.)

27. júlí 2016

Snæbjörn Arngrímsson, sem var útgefandi minn í mörg ár, þangað til 2006, segir á bloggsíðunni sinni (hann er líka með svona bloggsíðu eins og ég; mér var bent á hana) að honum finnist ég eigi að skrifa meira frá hjartanu. Tilefni þeirra orða er lestur hans á síðustu skáldsögu minni, Sögumanni. Í þeirri bók – og nú er ég um það bil að fara að gerast mjög einlægur, gott ef ekki hjartnæmur, allt að því væminn – bókstaflega ríf ég úr mér hjartað og leyfi lesendum að skoða. (En veit auðvitað um leið að hver lesandi skoðar það með sínu nefi; ég get ekki stjórnað því.) Hvað á Snæbjörn annars við með því að þessi eða hinn höfundur skrifi ekki nógu mikið frá hjartanu? Ég held ég verði að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé að kalla á þá tegund bókmenntatexta sem gerir um það bil 70 til 80% útgefinna skáldverka að svokölluðum kellingabókum (bókmenntagrein sem Snæbirni virðist þó ekki vera neitt sérstaklega vel við, ef marka má önnur skrif á bloggsíðunni hans). En það er erfitt að dæma mjög nákvæmlega um eitthvað svona. Snæbjörn hefur sína sýn; ég mína. Samanlagt núllast sýn okkar út. Og ég þykist vita að þeim sem vafra um í bloggheimum sé orðið frekar ljóst að hjörtu okkar Snæbjarnar slá ekki alveg í takt (en þykist líka vita að það séu ekkert mjög margir sem eru að velta því sérstaklega fyrir sér hvort þau geri það). Hjörtu okkar (mannanna!) voru reyndar hætt að slá í sama takti á miðjum fyrsta áratug þessarar aldar; ég veit ekki af hverju Snæbjörn er að rifja það upp núna. (Vá hvað þetta er orðin beisk færsla. Ég held hún hljóti að koma frá einhverju öðru líffæri en hjartanu. Og ég held reyndar að ég láti henni lokið. Líklega er þó óhjákvæmilegt annað en að láta eitthvert myndefni fylgja henni, þó ekki væri nema til að létta aðeins „eftirbragðið“. Fyrir valinu verður mynd af tveimur mönnum sem – eftir myndinni að dæma – eru með hjörtu sem slá í takt. Engin svona mynd náðist af okkur Snæbirni. Ég er reyndar ekki viss um að það sé til mynd af okkur saman; samstarf okkar var ekki nógu langt til að það myndi gerast; það varði ekki nema í sirka 13 ár.)

24. júlí 2016 (aukafærsla)

Eins gott að ég var ekki byrjaður að hlusta á Scott Walker – ég komst nefnilega að því, þegar ég kíkti í Infernó-sögu Gyrðis (í Milli trjánna), að það sem ég sagði um drykkina í sögunni – að það væri ekki minnst á drykki – er alls ekki rétt. Það er í rauninni eins vitlaust og það getur orðið. Þegar sögumaðurinn tekur eftir álúta manninum í matsalnum (áður en rennur upp fyrir honum hver þetta er), sér hann að maðurinn er með bjór í glasi. Hann var með bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar sem mætti sjá heilan heim. Það hefði verið leiðinlegt að flaska á þessu. Auðvitað flaskaði ég á því, en nú hef ég leiðrétt það. Ég veit að það er óskapleg klisja – eiginlega alveg vonlaus klisja – en stundum finnst mér eins og allt gangi út á að leiðrétta það sem maður hefur gert. (Ég á þó ekki von á því að ég geri aukafærslu við aukafærsluna. Enda hvað ætti ég að kalla hana?)

24. júlí 2016

Það er ekki bara Guðbergur Bergsson rithöfundur sem fer á veitingastaðinn í IKEA. Það getur verið að hann fari oftar þangað en ég, en ég fór samt þangað í dag, ásamt tveimur níu ára stúlkum. Þær fengu sér eitthvað, og safa með því; ég fékk mér eitthvað annað, og vatn með því. Hefði ég ekki verið á bíl, þá hefði ég fengið mér bjór; það fæst nefnilega bjór í IKEA (þótt ekki komi það fram í sögu Gyrðis Elíassonar, Infernó; þar er ekki sérstaklega talað um drykki, bara kjötbollur, kartöflur og týtuberjasultu). Tilgangur ferðarinnar í dag var að kaupa servíettur. (Munnþurrkur er ómögulegt orð; það er beinlínis misvísandi orð.) En hvers vegna er ég að minnast á IKEA? Ég veit það ekki, það bara gerðist. Enda er það jafnan aðferðin í þessu prógrammi: ég tala bara um það sem dettur ofan í mig að tala um í það og það skiptið, þegar ég á annað borð man eftir að sinna þessu. Sumt leyfi ég mér alls ekki að tala um; annað er þess eðlis að mér finnst ég eigi að leyfa öðru fólki að hafa það svið út af fyrir sig. „Ég segi bara frá ferðum mínum (og Guðbergs Bergssonar) í IKEA.“ Og fyrst ég minnist á IKEA og Guðberg Bergsson, þá er ég nokkuð viss um að Guðbergur væri fyrir löngu búinn að skrifa sögu sem gerðist í IKEA, væri Gyrðir ekki búinn að eigna sér það svið, ef svo má að orði komast. Saga Gyrðis er nefnilega þess eðlis (eða svo ágeng, sem er kannski nákvæmara orðalag) að hæpið er fyrir aðra rithöfunda að reyna að ætla sér eitthvað svipað, án þess að bíða af því skaða sem höfundur. En það er þó ekkert sem hamlar öðrum höfundum að fara í IKEA, eða á veitingastaðinn. Bara ekki skrifa um það sögu – það er búið að gera það. Núna er ég alveg viss um að Guðbergur (um leið og hann les þetta) er sestur niður til að skrifa sögu um reynslu sína af matsölunni í IKEA. Þannig virkar Guðbergur – þykist ég vita. Ég myndi ekki einu sinni leyfa mér að skrifa um bílastæðið fyrir framan IKEA-húsið. Enda er Gyrðir búinn að því, í sögunni sinni: Skugginn á planinu hafði dýpkað og það var orðið svalara. Við stigum inn í bílinn og ég ók hægt af stað. Ég ætlaði að skrúfa aftur frá útvarpinu en hætti við það. / „Þarna kem ég aldrei aftur,“ sagði hún og spennti á sig beltið með rykk. Heimsókn mín og stúlknanna í sænska vöruhúsið átti sér stað einhvers staðar á bilinu milli kl. 12 og 14 í dag – ég ætla að láta það verða lokapunktinn í þessari frásögn minni af IKEA-ferðinni. En hvað á ég þá að tala um annað? Fráfarandi forseta? Hreinsanirnar í Tyrklandi? Tilhugalíf Zenos Cosini í Trieste (sem ég er að lesa um, eða endurlesa, þessa stundina)? Það er sunnudagur, og vegna þess að það skín ekki sól, þá er eina ráðið í stöðunni að hlusta á Scott Walker. Og láta hann leiða sig burt frá stemmningunni í IKEA (jafn ágæt og hún er, fyrir sinn hatt) – og inn í síðdegið. (Ég ætla ekki að hafa myndskreytingu með textanum að þessu sinni; það er komið alveg nóg af upplýsingum til að vinna úr sjónrænt. Bara eitt örstutt post scriptum.) ps. Um daginn sagði ég frá því að þrír af meðlimum hljómsveitarinnar The Fall hefðu gefið út ævisögu sína. Það er ekki rétt; þeir eru að minnsta kosti fjórir. Simon Wolstencroft, trommuleikarinn sem tók við af Karl Burns (ég held ég fari örugglega rétt með að Simon hafi tekið við af Karl), hefur líka skrifað bók.

21. júlí 2016

Rétt í augnablikinu líður mér eins og „Valhalla“-samtökin við Háaleitisbraut 1 séu lamin utan undir á hverjum einasta degi, af fólki sem ekki vill láta tengja sig við samtökin og ofbýður hvernig þau hegða sér, hvort sem er í Vestmannaeyjum eða annars staðar á landinu (eða á öðrum eyjum en Vestmannaeyjum, ef út í það er farið). Og það er góð tilfinning, að sjá hagsmunasamtökin löðrunguð. Hér er einn löðrungur í viðbót. Mig langar helst af því tilefni að vitna í eitthvert sérvalið ljóð eftir Dag eða einhvern, en læt nægja að láta fylgja mynd frá Lenínsafninu í Tampere, Finnlandi.

(Einhverra hluta vegna heppnaðist myndbirtingin ekki. Í stað Tampere-myndarinnar, sem ég tók sjálfur, set ég því myndina af fráfarandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, og Ratzinger páfa, en hana tók ég ekki sjálfur, þótt ég feginn vildi hafa gert.)

20. júlí 2016

Nú veit ég hvernig það er að hverfa (how to disappear og allt það). Ég hef ekki sett inn færslu í svo og svo marga daga (treysti mér ekki til að telja þá, en það eru dagarnir á milli 7. og 20. júlí) í því prógrammi sem ég dirfðist að kalla því krefjandi nafni Kafli á dag. Mér er skapi næst að leggja einhverja þunga merkingu í þetta. En svo hef ég auðvitað afsökun fyrir fjarveru minni, því undirtitill Kafla á dag er nefnilega eða sjaldnar. (Vægi, eða gildi, undirtitla er stórlega vanmetið.) Ég geri þetta að umtalsefni hér, því þættinum (Kafla á dag) hefur borist bréf. Í bréfinu var einmitt gert að umtalsefni að lesefni Kafla á dag væri orðið gamalt; ég var spurður hvort ég hefði farið í sumarfrí – hafði ég kannski verið að „njóta lífsins“? Um sumarfríið ætla ég ekki að fjölyrða (eða dæma hvort er rétt; hvenær er maður í sumarfríi og hvenær ekki?), en að ég hafi verið að „njóta lífsins“ er hugarburður þess sem lét sér detta það í hug. Og enn og aftur er ástæða til að vitna í manninn sem liggur hérna rétt hjá í Hólavallagarði, í svo til beinni línu frá skrifstofu minni, í um það bil fimmtíu metra fjarlægð: „Að njóta lífsins? Viðbjóður.“ (J. S. Kjarval) En hvar á ég að byrja? Svo miklar upplýsingar liggja á borði mínu að ég hef ekki hugmynd um hvar skal byrja. Sé það svo að einhver lesandi Kafla á dag notist ekki við aðrar upplýsingaveitur en Kafla á dag, þá get ég frætt þann hinn sama á því að Portúgalir unnu Evrópukeppnina í fótbolta. Og að eiginkona Donalds Trump, Melania Trump, er blökkumaður. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um ódæðið í Nice, og heldur ekki um viðskiptafrelsi á Íslandi (undir stjórn núverandi stjórnarflokka), en ég ætla að hafa smá áhyggjur af „hreinsunum“ í Tyrklandi. En aftur að fótboltaúrslitum. Fyrir tíu árum tók ég það loforð af sjálfum mér að horfa ekki aftur á HM eða EM í fótbolta, eftir að Zidane skallaði niður Ítalann. Ég þóttist vilja grípa það tækifæri til að segja mig frá frekara áhorfi á stóru fótboltamótin í heiminum. En ég er ekki viljasterkari maður en svo að ég hélt þetta loforð ekki út nema í eina eða tvær keppnir. Í síðastliðinni keppni, þeirri sem var að ljúka, lét ég mér detta í hug að lofa mér sjálfum einhverju svipuðu þegar Ronaldo kastaði míkrófóninum í ána; en einhverra hluta vegna gerðist það ekki. Kannski hefði Ronaldo þurft að kasta fjölmiðlamanninum líka í ána til að ég tæki af skarið. En nú má ég ekki vera að þessu. Vegna bakmeiðsla (eða bakmeiðslna?) hef ég takmarkað vinnuþrek; og ég vil ekki sóa því í upplýsingamiðlun – þeir sem hafa ekki fengið neinar upplýsingar frá 10. júlí síðastliðnum verða bara að bíta í það súra epli að leita eitthvað annað. Í bili, að minnsta kosti. (En ég fann að það var kominn tími á myndina af forsetanum og páfanum aftur; nú eru ekki nema 11 dagar þangað til forsetinn hættir að vera forseti.)