Brot úr leikritinu

RÓSAR Við vorum að tala um hvort það væri ekki kominn tími til að gleyma því sem gerðist og vera ekki að hugsa um það sem … Ég held að það geri ekkert annað en að íþyngja okkur að …

RÓSALIND (grípur fram í) Hann smíðar skip, er það ekki? Hann Hafsteinn?

Stutt þögn. Rósar gefst upp gagnvart ömmu sinni og þegir.

RÓSALIND Er það ekki það sem hann gerir? Smíðar hann ekki skip?

RÓSAR (vonsvikinn í röddinni) Jú, hann vinnur hjá stálsmiðju, held ég að það sé kallað.

RÓSALIND Það hefur mér alltaf fundist göfugt starf, að smíða skip. Að smíða heilt skip, heilan skrokk sem er svo margfalt stærri en við, litlu manneskjurnar.

RÓSAR Ja, það er meira en að segja það.

RÓSALIND Hvað segirðu?

RÓSALIND Það er meira en að segja það, að smíða heilt skip.

RÓSAR Meira en að segja það? Já, það er alveg rétt hjá þér. Það er ekki galið að orða það þannig. Meira en að segja það, já.

Rósar er ekki laus við að vera ánægður með hrósið.

RÓSALIND Skip er nefnilega eitthvað sem ekkert vinnur á, nema auðvitað sjórinn sem umlykur það. Sem fóstrar það, má segja.

RÓSAR Jú, jú.

RÓSALIND En samt, þó það sökkvi, þá heldur það áfram að vera til. Það er nú það stórkostlega við skipin, það er það sem gerir þau svo stór. Og eilíf.

Hilmar missir allt í einu út úr sér hálfkjánalegan hlátur.

RÓSALIND Þú hlærð!

HILMAR (hættir samstundis að hlæja) Ég var bara að hugsa um svolítið.

RÓSALIND (kímin) Þér finnst ég fyndin.

HILMAR Ha, nei, ég var nú bara að hugsa svolítið sjálfur.

RÓSALIND Þér má alveg finnast ég fyndin. Ekkert athugavert við það. En það breytir því ekki að ef eitthvað er eilíft, þá eru það hlutir eins og skip og … því ekki eru það við sem komum til með að lifa eftir dauðann.

Stutt þögn. Rósalind er eins og í eigin heimi. Rósar finnur ekkert til að segja, Hilmar er skömmustulegur eftir flissið.

RÓSALIND Það er hið dauða sem lifir okkur öll. Hafsteinn heldur áfram að smíða skip en svo deyr hann auðvitað en skipunum er ýtt út á haf og þar halda þau áfram að fljóta eins og fjöður á … (verður undrandi á sjálfri sér) Eins og fjöður? Sagði ég það? (stutt þögn) Eins og fjöður. Heill skrokkur úr stáli sem hefur kannski tekið marga mánuði að búa til, og kemur svo alskapaður út úr verksmiðjunni hans Hafsteins, eins og fjöður svífandi út úr hænsnahúsi.