Hænuungarnir

Hænuungarnir

„Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpamönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni.“

Leikritið Hænuungarnir var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu, Kassanum, í febrúar 2010 og sló samstundis í gegn. Þetta bráðskemmtilega leikrit um nútíma Íslendinga hefur verið sýnt fyrir fullu húsi síðan þá. Sýningin hlaut fimm tilnefningar til Grímunnar 2010 og Kristbjörg Kjeld hlaut Grímuna sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Þegar einhverju er stolið úr geymslunni manns í sameigninni er ekki nema eðlilegt að maður vilji vita hver þjófurinn er. Það er að minnsta kosti skoðun jazzáhugamannsins Sigurhans. Og þótt það hafi ekki verið nema nokkrir kjúklingar á tilboðsverði sem hurfu úr frystikistunni finnst Sigurhans ástæða til að halda aukahúsfund. Enda telur hann sig vita hverjir voru að verki.

Hænuungarnir eru annað leikrit Braga Ólafssonar fyrir leiksvið. Hið fyrra, Belgíska Kongó, með Eggerti Þorleifssyni í aðalhlutverki og í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var sýnt hundrað sinnum í Borgarleikhúsinu.