Úr Hænuungunum

úr HÆNUUNGUNUM (seinni þætti):

SIGURHANS (ræskir sig) Ástæðan fyrir því að við boðuðum til þessa aukahúsfundar … Það er kannski rétt að minnast á það fyrst að við Olga erum að fara erlendis, ekki á morgun heldur hinn, og okkur fannst réttara að hóa okkur saman hérna íbúunum. Ekki vegna þess að við séum að fara út, það er ekki vegna þess, heldur …

OLGA (bendir á SIGURHANS, augljóslega pirruð) Hann ætlaði bara að spyrja ykkur einnar spurningar.

SIGURHANS (bregður svolítið við orð hennar) Það sem hefur hins vegar gerst hérna í sameigninni er að … það hefur verið stolið hérna úr geymslunum. Eða geymslunni okkar að minnsta kosti. Það hefur verið stolið úr frystikistunni okkar Olgu, það gerðist núna á laugardaginn, virðist vera.

SIGURHANS fær sér sopa úr rauðvínsglasinu og reynir að horfa jafnt á alla viðstadda.

CARL og ANASTASÍAS horfa undrandi á SIGURHANS.

ELÍN byrjar að virða fyrir sér ANASTASÍAS, nokkuð hugsi á svip – hún hefur lítinn áhuga á umræðuefni SIGURHANS.

SIGURHANS Þið hafið ekki orðið varir við að … það hefur ekki verið stolið neinu frá ykkur?

CARL Stolið hverju?

SIGURHANS Matvælum.

CARL Úr geymslunni?

SIGURHANS Já.

CARL Við erum ekki með neina frystikistu.

SIGURHANS En það er hægt að stela hlutum þó að þeir séu ekki frosnir.

CARL Það hefur ekki verið stolið neinu frá okkur.

ANASTASÍAS Það var stolið frá okkur þar sem við bjuggum áður.

CARL (ákveðinn) Það hefur engu verið stolið frá okkur.

ELÍN (við ANASTASÍAS) Þú ert það sem er kallað „gömul sál“.

SIGURHANS Nei, nei, ég er ekki að halda því fram heldur.

ANASTASÍAS lítur undrandi á ELÍNU, og ummæli hennar hafa augljóslega vakið athygli CARLS líka.

SIGURHANS Ég vildi bara láta vita af því að það hefur verið brotist inn í geymsluna okkar niðri.

ELÍN (við ANASTASÍAS) Þú ert kannski undrandi að heyra svoleiðis?

ANASTASÍAS Hvað?

SIGURHANS Kannski ekki brotist inn – það var ekki brotinn lásinn eða þessháttar – en það var stolið frá okkur matvælum.

ELÍN Mér finnst ég skynja svo sterkt að þú ert gömul sál.

SIGURHANS Elín.

OLGA á erfitt með að leyna brosi.

ANASTASÍAS Hvað meinarðu, gömul sál?

OLGA Elín mín …

CARL (við SIGURHANS) Var opin geymslan?

ELÍN Ja, hvað meina ég?

SIGURHANS Það var ekki brotist inn, beinlínis.

ELÍN heldur áfram að horfa með velþóknun á ANASTASÍAS.

CARL Hún hefur þá verið opin geymslan?

ELÍN Það eru bara sumir þannig.

SIGURHANS Opin …? Þið eruð kannski ekki kjötætur, þið feðgar?

CARL Hvers vegna ættum við ekki að vera það?

ELÍN Vera hvað?

CARL Hvers vegna ættum við ekki að borða kjöt?

SIGURHANS Nei, mér datt það bara í hug vegna þess að þú segist ekki vera með frystikistu.

CARL Og hvað hefur það með kjöt að gera?

ELÍN Ekki er ég með frystikistu.

CARL (hneykslaður) Auðvitað borðum við kjöt.

SIGURHANS Já, auðvitað … ég …

ANASTASÍAS Allt nema kjúkling. Og svín.

SIGURHANS (snýr sér að ANASTASÍASI og virðir hann fyrir sér) Allt nema kjúkling?

ANASTASÍAS Og svín.

ANASTASÍAS horfir á föður sinn, eins og til að biðja hann um að útskýra.

SIGURHANS Þið borðið ekki kjúkling?

ANASTASÍAS Og ekki svín.