Úr höfn

Og þegar egghvössu upphrópunarmerkinu

lýstur niður af himnum

í mannfjöldann á fimmtudagstorginu, og skáldið Lozano

úr úthverfi Madridborgar

tekur ákvörðun um æ! í stað ó!

þá fer um mig sá ungi hrollur

sem ég finn þegar ættingjar

hrósa mér að óvörum.

Og þegar frænka skilur skó sinn

eftir í fjöruborðinu,

án þess að gefa upp hvert hún ætlaði,

er eins og eitthvað í mér deyi

endanlegum dauða. Hvort það var

greifynja útlendrar ættar

eða ekki sem hékk uppi á vegg hennar

er mér hulið núna, og hún er horfin

þessi mynd

sem fylgdist með hverju

fótspori æsku minnar.

Áhöfn skipsins

sem ég ferðast með á nóttunni

er öll komin saman í klefa eins skipverjans

og enginn er eftir í brúnni.

Þegar mér verður gengið

inn í bæinn um það leyti

sem verslun er gengin til náða,

finn ég að mér verður eitthvað úr verki;

þegar verðbréfasalinn með tangarslifsið

hefur fært inn í tölvuna

sinn afdrifaríkasta feil,

finnst mér ég af öllum stöðum

vera staddur í Phoenix við morgunverðarborðið.

Og þegar ég rétt lít af gestgjafanum

horfi ég í átt sem ég hef aldrei litið áður.

Dauði!

Maður er verðlaunaður

með dauða. Þegar fiðrið úr himinsænginni

dregur upp mynd af sporum mínum

á stéttinni, og auða svæðið

í miðborginni

er horfið undir innflutt sirkustjald,

þá líður mér svo að þetta kvöld muni nýtast mér til aðfanga;

að framtíðin feli í sér óvænta símhringingu

Leave a Reply