3. ágúst 2016

Almennt reyni ég að forðast að hafa tilvitnanir í aðra höfunda í bókunum mínum. Oftast fer betur á því að fella orðin inn í eigin texta – hafi maður einhverja sérstaka þörf fyrir að miðla þeim – og þar með stela þeim. Enda þykir mun flottara (samkvæmt virðulegum höfundum, þar á meðal nóbelshöfundinum íslenska) að stela orðum eða hugmyndum, frekar en að fá þær að láni. Ég fór að hugsa um þetta út frá bók sem ég fékk í hendurnar í gær, Future Days, eftir Englendinginn David Stubbs. Hún fjallar um Krautrokkið þýska, eða Kosmische Musik (eins og „aðilar“ Krautrokksins vildu frekar kalla það), og í tengslum við tónlistina um uppbyggingu Þýskalands í nútímanum. En nú að öðru, þessu tengt. Í smásagnasafninu mínu Við hinir einkennisklæddu frá 2003 notaði ég tilvitnun í Klaus Hütter úr hljómsveitinni Kraftwerk. (Eitthvað skrítið samt að kalla Kraftwerk „hljómsveit“.) En þegar ég tók saman úrvalið sem kom út á þessu ári, Dulnefnin, þá sleppti ég þessum orðum Klaus; og er eitthvað að velta því fyrir mér núna hvort ég hefði ekki átt að leyfa þeim að vera með. En hvort sem er, þá langar mig til að rifja þau upp hér (þau koma úr bók sem ég las einu sinni um Kraftwerk): „Mínar fyrstu tónlistarlegu minningar … þögn … ekkert.“ Hvílík setning! Engin furða að mér fyndist ég þurfa að vitna í þetta þegar ég gaf út bókina um hina einkennisklæddu. En að ég sé að rifja þetta upp núna – kannski þurfti ekki bókina Future Days til. Ég held nefnilega að tónlistarlegar æskuminningar Klaus Hütters endurómi á einhvern hátt í bókinni sem ég er sjálfur að skrifa þessa stundina. Og það er einmitt hennar vegna sem ég keypti mér bókina eftir David Stubbs. Þannig að þetta er allt komið í hring – það er eitthvað kosmískt í þessu … En hvað er betur við hæfi en að rifja upp smá Kraftwerk núna? Hér er Computervelt í allri sinni dýrð (og gott betur en það, því þarna er viðauki fyrir aftan):

 

2. ágúst 2016

Að hlusta á Moments musicaux eftir Schubert er góð skemmtun (sbr. „Að horfa á myndband,“ osfrv). Sá sem leikur þau fyrir mig heitir Folke Nauta. Alltaf þegar ég hlusta á Schubert, eða horfi á kilina merkta honum í plötuskápnum, hugsa ég um fjörutíu ára afmæli Oddnýjar Eir; hún var með Schubert á fóninum, einhverja strengjamúsík; ég man ekki hvort það voru píanótríó eða kvartettar eða kvintettar (fáránlegt að muna það ekki). Annað var það ekki að sinni. Ég er enn að bræða með mér hvað skal segja um forsetaatriðið í gær. Á kosningavöku Andra Snæs í Iðnó fyrr í sumar var mér sagt – ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, af sitthvorri manneskjunni – að ég líktist Guðna Th. í andliti. Önnur manneskjan beinlínis hélt eitt augnablik að Guðni Th. væri mættur á kosningavöku Andra Snæs. Ég get ímyndað mér að það sé einkennileg tilfinning fyrir 48 ára gamlan mann að vera allt í einu (eins og ég upplifi það: „allt í einu“) orðinn forseti Íslands. Hefði Guðni Th. skyndilega veikst í gærmorgun, t.d. fengið einhverja heiftarlega pest, þá dettur mér í hug að hann hefði getað hringt í mig og spurt hvort ég gæti ekki tekið að mér að mæta í atriðið í alþingishúsinu seinnipartinn í gær. Ég þekki Guðna ekki mikið, en ég hefði svo sannarlega ekki brugðist honum á slíkri ögurstundu. Ég hefði mætt í hans stað, hefði hann farið fram á það. Og mun gera, biðji hann mig um það síðar. Þá ætla ég að láta Schubert hljóma í bakgrunninum. (Eins og hefð er fyrir hér á síðunni, þá ætti að fylgja færslunni eitthvert myndefni. Ég er að hugsa um að láta það vera myndina af Ólafi og Ratzinger, nú þegar Ólafur er ekki lengur forseti. Ratzinger er ekki heldur lengur páfi, þannig að áfram eiga þeir eitthvað sameiginlegt, Ólafur og Ratzinger.)

27. júlí 2016

Snæbjörn Arngrímsson, sem var útgefandi minn í mörg ár, þangað til 2006, segir á bloggsíðunni sinni (hann er líka með svona bloggsíðu eins og ég; mér var bent á hana) að honum finnist ég eigi að skrifa meira frá hjartanu. Tilefni þeirra orða er lestur hans á síðustu skáldsögu minni, Sögumanni. Í þeirri bók – og nú er ég um það bil að fara að gerast mjög einlægur, gott ef ekki hjartnæmur, allt að því væminn – bókstaflega ríf ég úr mér hjartað og leyfi lesendum að skoða. (En veit auðvitað um leið að hver lesandi skoðar það með sínu nefi; ég get ekki stjórnað því.) Hvað á Snæbjörn annars við með því að þessi eða hinn höfundur skrifi ekki nógu mikið frá hjartanu? Ég held ég verði að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé að kalla á þá tegund bókmenntatexta sem gerir um það bil 70 til 80% útgefinna skáldverka að svokölluðum kellingabókum (bókmenntagrein sem Snæbirni virðist þó ekki vera neitt sérstaklega vel við, ef marka má önnur skrif á bloggsíðunni hans). En það er erfitt að dæma mjög nákvæmlega um eitthvað svona. Snæbjörn hefur sína sýn; ég mína. Samanlagt núllast sýn okkar út. Og ég þykist vita að þeim sem vafra um í bloggheimum sé orðið frekar ljóst að hjörtu okkar Snæbjarnar slá ekki alveg í takt (en þykist líka vita að það séu ekkert mjög margir sem eru að velta því sérstaklega fyrir sér hvort þau geri það). Hjörtu okkar (mannanna!) voru reyndar hætt að slá í sama takti á miðjum fyrsta áratug þessarar aldar; ég veit ekki af hverju Snæbjörn er að rifja það upp núna. (Vá hvað þetta er orðin beisk færsla. Ég held hún hljóti að koma frá einhverju öðru líffæri en hjartanu. Og ég held reyndar að ég láti henni lokið. Líklega er þó óhjákvæmilegt annað en að láta eitthvert myndefni fylgja henni, þó ekki væri nema til að létta aðeins „eftirbragðið“. Fyrir valinu verður mynd af tveimur mönnum sem – eftir myndinni að dæma – eru með hjörtu sem slá í takt. Engin svona mynd náðist af okkur Snæbirni. Ég er reyndar ekki viss um að það sé til mynd af okkur saman; samstarf okkar var ekki nógu langt til að það myndi gerast; það varði ekki nema í sirka 13 ár.)

24. júlí 2016 (aukafærsla)

Eins gott að ég var ekki byrjaður að hlusta á Scott Walker – ég komst nefnilega að því, þegar ég kíkti í Infernó-sögu Gyrðis (í Milli trjánna), að það sem ég sagði um drykkina í sögunni – að það væri ekki minnst á drykki – er alls ekki rétt. Það er í rauninni eins vitlaust og það getur orðið. Þegar sögumaðurinn tekur eftir álúta manninum í matsalnum (áður en rennur upp fyrir honum hver þetta er), sér hann að maðurinn er með bjór í glasi. Hann var með bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar sem mætti sjá heilan heim. Það hefði verið leiðinlegt að flaska á þessu. Auðvitað flaskaði ég á því, en nú hef ég leiðrétt það. Ég veit að það er óskapleg klisja – eiginlega alveg vonlaus klisja – en stundum finnst mér eins og allt gangi út á að leiðrétta það sem maður hefur gert. (Ég á þó ekki von á því að ég geri aukafærslu við aukafærsluna. Enda hvað ætti ég að kalla hana?)

24. júlí 2016

Það er ekki bara Guðbergur Bergsson rithöfundur sem fer á veitingastaðinn í IKEA. Það getur verið að hann fari oftar þangað en ég, en ég fór samt þangað í dag, ásamt tveimur níu ára stúlkum. Þær fengu sér eitthvað, og safa með því; ég fékk mér eitthvað annað, og vatn með því. Hefði ég ekki verið á bíl, þá hefði ég fengið mér bjór; það fæst nefnilega bjór í IKEA (þótt ekki komi það fram í sögu Gyrðis Elíassonar, Infernó; þar er ekki sérstaklega talað um drykki, bara kjötbollur, kartöflur og týtuberjasultu). Tilgangur ferðarinnar í dag var að kaupa servíettur. (Munnþurrkur er ómögulegt orð; það er beinlínis misvísandi orð.) En hvers vegna er ég að minnast á IKEA? Ég veit það ekki, það bara gerðist. Enda er það jafnan aðferðin í þessu prógrammi: ég tala bara um það sem dettur ofan í mig að tala um í það og það skiptið, þegar ég á annað borð man eftir að sinna þessu. Sumt leyfi ég mér alls ekki að tala um; annað er þess eðlis að mér finnst ég eigi að leyfa öðru fólki að hafa það svið út af fyrir sig. „Ég segi bara frá ferðum mínum (og Guðbergs Bergssonar) í IKEA.“ Og fyrst ég minnist á IKEA og Guðberg Bergsson, þá er ég nokkuð viss um að Guðbergur væri fyrir löngu búinn að skrifa sögu sem gerðist í IKEA, væri Gyrðir ekki búinn að eigna sér það svið, ef svo má að orði komast. Saga Gyrðis er nefnilega þess eðlis (eða svo ágeng, sem er kannski nákvæmara orðalag) að hæpið er fyrir aðra rithöfunda að reyna að ætla sér eitthvað svipað, án þess að bíða af því skaða sem höfundur. En það er þó ekkert sem hamlar öðrum höfundum að fara í IKEA, eða á veitingastaðinn. Bara ekki skrifa um það sögu – það er búið að gera það. Núna er ég alveg viss um að Guðbergur (um leið og hann les þetta) er sestur niður til að skrifa sögu um reynslu sína af matsölunni í IKEA. Þannig virkar Guðbergur – þykist ég vita. Ég myndi ekki einu sinni leyfa mér að skrifa um bílastæðið fyrir framan IKEA-húsið. Enda er Gyrðir búinn að því, í sögunni sinni: Skugginn á planinu hafði dýpkað og það var orðið svalara. Við stigum inn í bílinn og ég ók hægt af stað. Ég ætlaði að skrúfa aftur frá útvarpinu en hætti við það. / „Þarna kem ég aldrei aftur,“ sagði hún og spennti á sig beltið með rykk. Heimsókn mín og stúlknanna í sænska vöruhúsið átti sér stað einhvers staðar á bilinu milli kl. 12 og 14 í dag – ég ætla að láta það verða lokapunktinn í þessari frásögn minni af IKEA-ferðinni. En hvað á ég þá að tala um annað? Fráfarandi forseta? Hreinsanirnar í Tyrklandi? Tilhugalíf Zenos Cosini í Trieste (sem ég er að lesa um, eða endurlesa, þessa stundina)? Það er sunnudagur, og vegna þess að það skín ekki sól, þá er eina ráðið í stöðunni að hlusta á Scott Walker. Og láta hann leiða sig burt frá stemmningunni í IKEA (jafn ágæt og hún er, fyrir sinn hatt) – og inn í síðdegið. (Ég ætla ekki að hafa myndskreytingu með textanum að þessu sinni; það er komið alveg nóg af upplýsingum til að vinna úr sjónrænt. Bara eitt örstutt post scriptum.) ps. Um daginn sagði ég frá því að þrír af meðlimum hljómsveitarinnar The Fall hefðu gefið út ævisögu sína. Það er ekki rétt; þeir eru að minnsta kosti fjórir. Simon Wolstencroft, trommuleikarinn sem tók við af Karl Burns (ég held ég fari örugglega rétt með að Simon hafi tekið við af Karl), hefur líka skrifað bók.

21. júlí 2016

Rétt í augnablikinu líður mér eins og „Valhalla“-samtökin við Háaleitisbraut 1 séu lamin utan undir á hverjum einasta degi, af fólki sem ekki vill láta tengja sig við samtökin og ofbýður hvernig þau hegða sér, hvort sem er í Vestmannaeyjum eða annars staðar á landinu (eða á öðrum eyjum en Vestmannaeyjum, ef út í það er farið). Og það er góð tilfinning, að sjá hagsmunasamtökin löðrunguð. Hér er einn löðrungur í viðbót. Mig langar helst af því tilefni að vitna í eitthvert sérvalið ljóð eftir Dag eða einhvern, en læt nægja að láta fylgja mynd frá Lenínsafninu í Tampere, Finnlandi.

(Einhverra hluta vegna heppnaðist myndbirtingin ekki. Í stað Tampere-myndarinnar, sem ég tók sjálfur, set ég því myndina af fráfarandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, og Ratzinger páfa, en hana tók ég ekki sjálfur, þótt ég feginn vildi hafa gert.)

20. júlí 2016

Nú veit ég hvernig það er að hverfa (how to disappear og allt það). Ég hef ekki sett inn færslu í svo og svo marga daga (treysti mér ekki til að telja þá, en það eru dagarnir á milli 7. og 20. júlí) í því prógrammi sem ég dirfðist að kalla því krefjandi nafni Kafli á dag. Mér er skapi næst að leggja einhverja þunga merkingu í þetta. En svo hef ég auðvitað afsökun fyrir fjarveru minni, því undirtitill Kafla á dag er nefnilega eða sjaldnar. (Vægi, eða gildi, undirtitla er stórlega vanmetið.) Ég geri þetta að umtalsefni hér, því þættinum (Kafla á dag) hefur borist bréf. Í bréfinu var einmitt gert að umtalsefni að lesefni Kafla á dag væri orðið gamalt; ég var spurður hvort ég hefði farið í sumarfrí – hafði ég kannski verið að „njóta lífsins“? Um sumarfríið ætla ég ekki að fjölyrða (eða dæma hvort er rétt; hvenær er maður í sumarfríi og hvenær ekki?), en að ég hafi verið að „njóta lífsins“ er hugarburður þess sem lét sér detta það í hug. Og enn og aftur er ástæða til að vitna í manninn sem liggur hérna rétt hjá í Hólavallagarði, í svo til beinni línu frá skrifstofu minni, í um það bil fimmtíu metra fjarlægð: „Að njóta lífsins? Viðbjóður.“ (J. S. Kjarval) En hvar á ég að byrja? Svo miklar upplýsingar liggja á borði mínu að ég hef ekki hugmynd um hvar skal byrja. Sé það svo að einhver lesandi Kafla á dag notist ekki við aðrar upplýsingaveitur en Kafla á dag, þá get ég frætt þann hinn sama á því að Portúgalir unnu Evrópukeppnina í fótbolta. Og að eiginkona Donalds Trump, Melania Trump, er blökkumaður. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um ódæðið í Nice, og heldur ekki um viðskiptafrelsi á Íslandi (undir stjórn núverandi stjórnarflokka), en ég ætla að hafa smá áhyggjur af „hreinsunum“ í Tyrklandi. En aftur að fótboltaúrslitum. Fyrir tíu árum tók ég það loforð af sjálfum mér að horfa ekki aftur á HM eða EM í fótbolta, eftir að Zidane skallaði niður Ítalann. Ég þóttist vilja grípa það tækifæri til að segja mig frá frekara áhorfi á stóru fótboltamótin í heiminum. En ég er ekki viljasterkari maður en svo að ég hélt þetta loforð ekki út nema í eina eða tvær keppnir. Í síðastliðinni keppni, þeirri sem var að ljúka, lét ég mér detta í hug að lofa mér sjálfum einhverju svipuðu þegar Ronaldo kastaði míkrófóninum í ána; en einhverra hluta vegna gerðist það ekki. Kannski hefði Ronaldo þurft að kasta fjölmiðlamanninum líka í ána til að ég tæki af skarið. En nú má ég ekki vera að þessu. Vegna bakmeiðsla (eða bakmeiðslna?) hef ég takmarkað vinnuþrek; og ég vil ekki sóa því í upplýsingamiðlun – þeir sem hafa ekki fengið neinar upplýsingar frá 10. júlí síðastliðnum verða bara að bíta í það súra epli að leita eitthvað annað. Í bili, að minnsta kosti. (En ég fann að það var kominn tími á myndina af forsetanum og páfanum aftur; nú eru ekki nema 11 dagar þangað til forsetinn hættir að vera forseti.)

7. júlí 2016

Griezmann vs Schweinsteiger … Eða var Schweinsteiger kominn í bann? Hvernig er hægt að banna einstaklingi sem heitir Schweinsteiger að taka þátt í leik? Ég er ekkert viss um að hann sé í banni. Ég hef bara ekki tíma til að athuga það. Ef ég ætti grill, þá yrði það fyrsta sem mér dytti í hug að grilla yfir leiknum. Láta leikinn hljóma í bakgrunninum á meðan kartaflan mýktist innan í álpappírnum. Griezmann og Schweinsteiger. (Það yrði reyndar ekki mikið flesk á grillinu; flesks er ekki neytt á heimilinu.) Mörgum þykir annars við hæfi að halda með Frökkum af því þeir fóru svo illa með Íslendinga. Það kæmi vissulega betur út fyrir Íslendinga ef Frakkar ynnu Þjóðverja líka. En ég ætla að halda með Þjóðverjum. Þeir sem eru heimsmeistarar eiga að fá að halda því áfram – engin ástæða til að breyta því. Gesundheit.

4. júlí 2016

Það er ekki beinlínis hægt að segja að það hafi verið ævintýri á gönguför, sbr. leikritið, en eftirminnilegt var það: Þegar við yfirgáfum Arnarhól nokkrum mínútum áður en fyrri hálfleik lauk í gærkvöldi – það voru börn með í för, tvö þeirra amerísk; þau nenntu ekki að vera lengur meðal tuttugu þúsundanna; og við hin eiginlega ekki heldur – þá var búið að skora tvo mörk í leiknum; og þegar við gengum yfir Austurvöll var hrópað út úr The English Pub „Þrjú – núll!“, og síðan þegar við komum heim, þá var búið að bæta við einu marki enn: 4 – 0. Gönguferðin frá Arnarhóli upp á Suðurgötu var því tveggja marka ferð. Sem táknaði allhressilega að „ævintýrið“ væri búið. En svo unnu Íslendingar seinni hálfleikinn. Mín hugmynd er því sú að næst muni liðið einungis leika seinni hálfleikinn; að það láti eitthvert annað lið um þann fyrri. Frétt dagsins er aftur á móti sú að framsóknarkonan, sú sem hafði engin rök fyrir litlu áliti sínu á verðandi forseta, hún hefur ákveðið að hætta á þingi. Þetta eru bestu fréttir sem íslenskir fjölmiðlar hafa sagt okkur í langan tíma. Og ég ætla mér ekki að rökstyðja það. Það er eiginlega ekki hægt að rökstyðja neitt sem tengist ákvörðunum og yfirlýsingum framsóknarkonunnar. Það er ekki hægt að rökstyðja neitt sem frá framsóknarmönnum kemur. Og þar af leiðandi átti framsóknarkonan sjálf í basli með að rökstyðja yfirlýsingu sína um verðandi forseta. En núna er sólin komin aftur. Og ég er ánægður með íslenska fótboltalandsliðið. (Og það er þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna.)

3. júlí 2016

Það stendur til að fara á Arnarhól seinnipartinn, og horfa á leikinn þar. Það eru Ameríkanar í heimsókn, og þeir eru spenntir fyrir Arnarhóli. (Svo verður reyndar að koma í ljós hvort maður verði þar allan leikinn; það verður að spilast eftir því hvernig leikurinn spilast.) En ef Ameríkanarnir væru ekki, þá færi ég líklega til bróður míns í Hafnarfirði til að horfa á leikinn. Og hann mun eftir sem áður horfa á leikinn þar. Við höfum rætt það svolítið okkar í milli hvort úrslitin verði þau sömu í Hafnarfirði og í Reykjavík. Og við komumst að þeirri niðurstöðu að líklega væri öruggast að vera annað hvort á Akureyri eða í Vestmannaeyjum, því á þeim stöðum er líklegra að niðurstaða leiksins verði Íslendingum í vil. En ekki meira um það í bili. Nú hefur framsóknarkonan, nafni þarsíðasta forseta Íslands, tjáð sig opinberlega um næsta forseta okkar, Guðna Th. Henni líst ekkert á hann. En hún neitar að rökstyðja lítið álit sitt á honum. Þessa daga hefði ég haldið að fjölmiðlar hefðu úr nægu að moða (EM, Brexit, Boris og Donald, kirkjugrið osfrv.), og þess vegna finnst mér afar einkennilegt að þeir séu að segja frá því sem framsóknarkonan segir. Eða öllu heldur því sem hún segir ekki. Hún sagði það (held ég) á facebook, en fjölmiðlum finnst það ekki nóg; þeir vilja að það birtist víðar – þeir bjuggu til úr því fyrirsögn. Mér dettur í hug í þessu sambandi að ef Íslendingar vinna ekki Frakka í kvöld, þá ættu fjölmiðlar á Íslandi að láta vera að birta úrslitin. Segja frekar meiri fréttir af Vigdísi Hauksdóttur.

2. júlí 2016

Fyrsta uppáhaldsliðið í EM á mínu heimili var Wales, eftir að þeir unnu Slóvakíu á öðrum degi keppninnar. Reyndar vissi enginn annar á heimilinu af því að Wales var að spila, en samt: Wales var orðið uppáhaldsliðið. Síðan þá er Spánn dottinn úr keppninni, en Wales ennþá inni. Ég missti að vísu af leik Wales og Belgíu í gær; ég sá bara lokamínúturnar. En Ísland er líka uppáhaldslið. Og núna held ég með því. En líka Þjóðverjum og Wales. Mín óraunsæja spá er sú – því það hentar mér ekki að vera með raunsæja spá – að Wales og Ísland spili úrslitaleikinn 11. júlí í París. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér að vera raunsær í spá minni fyrir þann leik: Wales vinnur Ísland 14 – 2. Ísland skorar átta sjálfsmörk í leiknum. Og Ísland verður að athlægi um allan heim, ekki síst í Wales. Í gær – svo ég snúi mér að öðru – var ég spurður að því hvað í raun og veru hefði gerst fyrir bjórdósina sem ég gleymdi í frystihólfinu. Ég hafði lýst því í einni færslunni (ég viðurkenni það) að dósin hefði sprungið þegar ég opnaði hana gegnfreðna. En auðvitað trúði ekki viðkomandi manneskja, sú sem spurði mig, þeirri lýsingu minni. Ég trúi henni ekki heldur, því ég hef enn ekki tekið dósina úr skápnum. Fólk er að rengja það sem ég segi hérna – líka ég.

1. júlí 2016

Seint í gærkvöldi fékk ég einhvern undarlegasta póst sem ég hef nokkurn tíma fengið. Ég hef reynt að svara honum – eða réttara sagt: ég hef svarað honum – en ekkert svar fengið við svarinu; og ég fékk strax á tilfinninguna að sendandinn væri sömuleiðis látinn, líkt og hann upplýsir mig um aðra manneskju. Pósturinn var svona: „(dagsetning osfrv) Kæri Bragi. Rósa er dáin. Hún lést á heimili sínu í gær. Með hlýrri kveðju og lófataki, Linda G. (Gylfadóttir)“ Svona var pósturinn orðréttur. „ …og lófataki“? … Og Gylfadóttir innan sviga? (Ég geri ráð fyrir að „lófatak hafi átt að vera „handtak“ – það þarf samt ekki að vera.) Ég veit ekki hvað ég á að halda um þetta – auðvitað veit ég það ekki. Ég hafði ætlað mér að skrifa um svolítið annað í dag, og var búinn að forma þá áætlun lauslega í huganum í gær þegar pósturinn frá Lindu (ef hann er þá frá þessari Lindu) barst mér. Ég hafði meðal annars ætlað mér að segja eitthvað – eða öllu heldur spyrja spurninga – um hin svokölluðu kirkjugrið; en þessi póstur um Rósu (ef hann er þá virkilega um Rósu; ég veit ekki hvað ég á að halda) sló mig einhvern veginn alveg út af laginu. En hafi einhver raunverulega dáið, þá þykir mér það leitt. Og set af því tilefni (eftir)myndina af Fernando og Luis hér í hausinn.

30. júní 2016

 

„Hver er staðan?“ rifjaði ég upp um daginn að Ásmundur Jónsson, Ási (Ási í Gramminu, eins og sumir þekkja hann; Ási í Smekkleysu, eins og aðrir þekkja hann), hefði hrópað upp yfir sig þegar kassarnir utan um Googooplex-plötuumslögin urðu viðskila við rúgbrauðsbílinn sem hljómsveitin Purrkur Pillnikk ók á töluverðum hraða í gegnum grænar sveitir Englands á neðanverðum níunda áratug síðustu aldar. (Ég hefði mögulega getað troðið inn fleiri nafnorðum inn í þessa setningu, en ákvað að gera það ekki.) Ég rifja upp þessa upprifjun mína núna vegna þess að mér líður hálfkjánalega með titilinn á skáldsögunni sem ég er að skrifa. Stöðu pundsins. Staða pundsins er samt titill sem ég hef lengi gengið með í höfðinu; hann hefur fylgt mér – eða minnisbókum mínum – í mörg, mörg ár. Ég er með öðrum orðum ekki að láta mér detta hann í hug núna (í júní 2016), þegar pundið tekur hina kröppu dýfu í kjölfar Exit-vitleysu Breta. Brexit kemur heldur ekki fyrir í bókinni. Ekki einu sinni Bregret, eins og nú er farið að nefna í kjölfar atkvæðagreiðslunnar alræmdu. Söngkonan og rithöfundurinn Brix Smith kemur ekki heldur fyrir í bókinni. (Sú manneskja er reyndar fædd í Ameríku. Og til glöggvunar þeim sem ekki þekkja nafnið, þá var hún einu sinni eiginkona Mark E. Smith, og meðlimur hljómsveitarinnar The Fall.) Brix var ekki einu sinni orðinn meðlimur The Fall þegar Purrkur Pillnikk var upphitunarhljómsveit þeirra á túr um England, og það vill svo til að skáldsagan sem ég nefndi, Staða pundsins, gerist um það bil fimm árum áður en túrinn með The Fall var farinn. Og þá voru reyndar nokkur ár þangað til Brix gekk til liðs við The Fall. (Hvert er ég eiginlega kominn? Hvað er ég að tala um?) Brix Smith (sem nú heitir Brix Smith Start) gaf út ævisögu sína um daginn. Hún er þriðji meðlimur The Fall sem gefur út ævisögu sína. Fyrst var það Mark E. Smith sjálfur fyrir nokkrum árum; svo Steve Hanley, bassaleikarinn fíni; hann gaf út sína ævisögu fyrir um það bil tveimur árum; og núna um daginn var að koma bókin eftir Brix. En talandi um ævisögur (poppara og fyrrv. poppara), þá er mín bók sem er í smíðum, Staða pundsins, ekki ævisaga. Að minnsta kosti ekki ævisaga mín. En samt er nánast ekkert í henni sem ekki byggir óbeint á ævi höfundar. Ef eitthvað gerðist fyrir mig, eða mína fjölskyldu, á árunum 1976 til 1977, þá gerast þeir hlutir fyrir persónurnar í bókinni, sem allar, vel að merkja, heita öðrum nöfnum en ég og mín skyldmenni og vinir – og eru aðrar persónur (flestar, að minnsta kosti). Ég er ekki frá því að hægt sé að kalla svona skrif „skáævisögu“. Persónulega er ég að taka stóra áhættu með því að tala um bók sem er í smíðum; það gæti orðið til þess að mér finnist ég ekki þurfa að skrifa hana. En persónuleg áhætta fylgir hverri bók hvort sem er, ekki bara fyrir höfundinn, heldur lesandann líka. Hann, sá síðarnefndi, gæti þekkt sig í henni, undir einhverju allt öðru nafni en hann gengur undir í „raunverulegu lífi“. Meira að segja ég gæti farið að þekkja mig of vel í eigin bók. En hvers vegna „staða pundsins“? Fyrst tengdi ég þann titil hugmynd sem mig langaði til að vinna úr, eins konar „verslunarbréfasögu“, út frá kynnum mínum af því fyrirbæri í Verzlunarskóla Íslands; en síðar tók hugmyndin á sig aðrar myndir; og þótt verslunarbréf komi fyrir í bókinni núna, þá er „núverandi gerð“ sögunnar afar ólík þeirri upprunalegu. Fyrir fjörutíu árum var pundið rúmlega þrjúhundruðkall íslenskar; í dag er það ekki nema 165 krónur. Ég hef ákveðið að leggja þónokkra merkingu í það, ég sem legg aldrei neina merkingu í neitt. Og svo er ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir leik Pólverja og Portúgala. Ég held með Pólverjum, jafnvel þótt Ronaldo hafi átt eitthvert póetískasta atriði keppninnar í ár – reyndar utan vallar – þegar hann henti hljóðnema fjölmiðlamannsins í ána.

28. júní 2016

Það var ekki leiðinlegt að fylgjast með Færeyingunum gleðjast yfir leiknum í gær. Eiginlega jafn gaman og að horfa á górilluna Joe Hart þegar loftið var úr henni í leikslok. Og svo er eitt: færeyska ætti að vera hið alþjóðlega fótboltamál, eins og franska er hin opinbera tunga póstsamgangna í heiminum. Sjá hér: „Fyri løtu síðan brendu ensku leyvurnar seg av íslendskari grótbræðing. Ensku stjørnurnar fingu bara ikki pláss at spæla, og hvørja ferð Rooney, Vardy ella Sterling vóru um skræða seg leysar, kom ein gróthørð takkling og steðgaði teimum.“

27. júní 2016 (aukafærsla)

Ég er í rusli. Maðurinn með nítjándualdarandlitið, Chiellini, búinn að skora fyrir Ítali. Og Ítalir búnir að vera sterkari „aðilinn“. Þetta er eitthvað rangt. Þetta er búningum Spánverjanna að kenna, þessum fáránlega ljótu aukabúningum sem þeir nota. Þeir voru líka í þessum skelfilegu búningum þegar þeir töpuðu gegn Króötum. Af hverju eru þeir ekki í sínum dökku búningum; það fer Spánverjum ekki að vera í svona auglýsingastofulegum hönnunargalla. Eða -gaddla. Ég er kominn með hjartsláttartruflanir. Og nú kemur hléð. Ég fer í frystihólfið í ísskápnum mínum og næ í bjórinn sem hefur beðið eftir mér þar í nokkra daga, ef ekki viku. (Eða var ég búinn að drekka hann? Ég man það ekki. Geðshræringin er slík.) Og þegar ég toga í álhringinn til að opna dósina, springur dósin, og allir 500 millilítrarnir sprautast yfir eldhúsið og mig! Og utan á ísskápshurðina; það fer mest á hana. Ég þarf að skipta um föt; ég ætla ekki að fara angandi af humlum í seinni leik dagsins á heimili bróður míns. Og ég ætla að þrífa eldhúsið; ég ætla að nota næsta klukkutímann til þess – ég þori ekki heilsunnar vegna að horfa á restina af Spánarleiknum. Og ég ætla að endurbirta ítölsku myndina af fráfarandi forseta okkar.

27. júní 2016

Nú man ég ekki hvort ég hafði lofað því „opinberlega“ á þessari síðu minni að segja aldrei frá draumum mínum (þeim sem verða til á nóttunni); en ég hafði svo sannarlega lofað mér sjálfum því. Á sama hátt og draumar eiga sjaldnast erindi í skáldskap, finnst mér engin ástæða til að vera að flagga þeim hér. En núna er kominn tími til að svíkja þetta loforð mitt. Til að réttlæta þau svik verð ég láta þær upplýsingar fylgja að það voru niðurstöður Brexit-atkvæðagreiðslunnar sem voru kveikjan að draumnum sem ég er um það bil að fara að segja frá. Of langt mál væri að útskýra það orsakasamhengi. En draumurinn var svona (í mjög stuttu máli): Íslendingar unnu EM í fótbolta 2016, án þess að skora mark í allri keppninni. Þeir fengu á sig eitt mark, sem Englendingar skoruðu í hálfleik með því að senda einn liðsmann sinn út á völlinn með boltann á meðan liðin voru (eða áttu að vera) í hvíld; og það var því enginn markmaður í marki Íslendinga (því marki sem Íslendingar áttu að verja í seinni hálfleiknum), og engin vörn fyrir framan markið. Þetta mark var að vonum dæmt af. Nokkrum leikjum síðar – sem ég man ekki úr draumnum hvernig röðuðust upp; hverjir voru andstæðingar Íslendinga – var staða okkar manna (Gylfa og Arons og þeirra) sú að við höfðum ekki skorað eitt einasta mark, en heldur ekki fengið neitt á okkur (fyrir utan mark Englendinga í hálfleiknum, það sem var dæmt af). Og við unnum mótið. Það fylgdi þó ekki með í draumnum hvort sigur með slíkri markatölu hefði unnist áður í sögu keppninnar. Mér þótti samt leiðinlegt að dreyma ekki framhaldið, sem hefði þá væntanlega falið í sér móttöku íslensku þjóðarinnar þegar liðið sneri aftur með bikarinn. En svo tekur raunveruleikinn við í dag (eins og hann gerði fyrir Guðna Th. í gær). Fyrst mætir raunveruleikinn í formi Spánverja og Ítala; síðan með Englandi og Íslandi. Munu Englendingar láta draum minn rætast með því að senda Wayne Rooney út á völlinn í hálfleik – með boltann á undan sér – til að þruma honum í varnarlaust mark Íslendinga? Allt í einu rifjast upp fyrir mér smásögutitill Delmores Schwartz, In dreams begin responsibilities.

25. júní 2016

Hm. Hvað á maður að segja? Ég hef ekki Morgunblaðið undir höndum, og heldur ekki DV (ef það kemur ennþá út), en inn um lúguna í morgun (um það leyti sem ég var að opna frystihólfið í ísskápnum til að athuga hvort bjórdósin frá því um daginn væri í lagi – sem hún virtist vera) duttu tvö dagblöð á mottuna í forstofunni, gott ef ekki á sama augnablikinu (eða mómentinu, eins og nú er oftar sagt): Fréttatíminn og Fréttablaðið. Þannig að ef ég kærði mig um gæti ég lagst yfir þessi blöð, gert svolítinn samanburð á þeim, vitnað í greinar og viðtöl (og bókadóma, sem reyndar eru ekki margir, að minnsta kosti ekki miðað við hversu margar bækur koma út á Íslandi), og svo framvegis – jafnvel … ja, jafnvel hvað? – en ég ætla að láta mér nægja að benda á tvær heilsíður sem í þessum blöðum er að finna. Þær eru báðar frá forsetaframbjóðendum. Í Fréttablaðinu, á bls. 5, er auglýsing frá framboði Andra Snæs. Og í Fréttatímanum, á bls. 3, er Guðni Th. með auglýsingu. Ég ætla ekki að hafa einhverjar sterkar skoðanir á þessum tveimur síðum (ekki sem ég viðra, að minnsta kosti), en ég vil bara benda á þær. Þær eru á bls. 5 í Fréttatímanum, og bls. 3 í Fréttablaðinu. Framundan í dag eru síðan fótboltaleikir á EM, lestur góðra bóka, og svolítil endurskrif texta sem var skrifaður í gær; en svo fer maður niður í Das Rathaus við Tjörnina og kýs nýjan forseta. Inni í klefanum mun maður fara í huganum yfir heilsíðurnar tvær, og jafnvel velta fyrir sér ólíkum bakgrunninum á ljósmyndunum: á annarri þeirra er Jökulsárlón (ég sé allavega ekki betur), og á hinni er dökkgrár bakgrunnur (að minnsta kosti prentast hann þannig í því eintaki blaðsins sem ég fékk inn um lúguna). Nú, svo er aldrei að vita nema maður fari á kosningavöku í Iðnó (ekki Iðnú – Iðnú er í Brautarholti).

24. júní 2016

N. Farage og B. Johnson virka ekki á mann sem sérlega aðlaðandi stjórnmálamenn; það er einhver keimur af Dónaldi í þeim. Og allt í einu er D. Cameron orðinn góði gæinn, hann sem hefur hið óhugnanlega yfirbragð ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Ég spái því að ákvörðun 52 prósentanna á Bretlandseyjum sé upphafið að náinni samvinnu og vináttu Vladimirs (Pútín) og Borisar (Johnson), þegar Boris verður orðinn forsætisráðherra. Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það. Og ég hef líka áhyggjur af því að þetta kunni að hafa ófyrirséð áhrif á bókina sem ég er að skrifa. Hún heitir nefnilega Staða pundsins. En núna verða Íslendingar að sýna Englendingum á mánudaginn hvar Davíð keypti ölið. Og þá er aldrei að vita nema að ég taki bjórinn minn út úr frystinum, og leyfi dósinni að springa yfir veggi eldhússins, ef hún endilega vill það.