22. apríl 2016

Svona heldur hinn kanadíski Rufus Wainwright upp á 400 ára ártíð Williams Shakespeare; hann gefur út plötu sem hann kallar Take all my loves: 9 Shakespeare sonnets. Hún kom út í dag, þótt ártíðarafmælið sé á morgun. Þrjú af þeim lögum sem Rufus hefur samið við sonnettur Shakespeares komu út á plötu hans All days are nights: Songs for Lulu fyrir nokkrum árum, þar sem eina hljóðfærið utan raddarinnar var píanó; en hér eru þessi sömu lög í öðrum og stærri útsetningum, plús fleiri sonnettur, sungnar og lesnar af Rufusi sjálfum og nokkrum öðrum. Af sonnettu nr. 20, A woman´s face, eru tvær útgáfur: ein með Rufusi og önnur með sópransöngkonunni Önnu Prohaska. Samkvæmt þessu myndbandi hér eru Anna og Rufus góðir vinir; hann kynntist henni í gegnum eiginmann sinn, Austurríkismanninn Jörn.

 

 

En hvernig held ég upp á 400 ára ártíð Shakespeares? Það stóð til að smásagnasafnið mitt, Dulnefnin, ætti að koma út á Degi bókarinnar (sem er ekki aðeins dagur Shakespeares, heldur líka afmælisdagur Cervantesar og Halldórs Laxness, og auðvitað Halla Jóns og Hilmars Arnar Hilmarssonar), en það plan breyttist; bókin kemur í búðir 26. apríl, sem breytir annars ekki miklu – held ég. Eitthvað merkilegt hlýtur að hafa gerst þann dag – kannski fæddist einhver – en ef ekki, þá gerist það allavega að bókin mín kemur út. Sem er væntanlega ekki neinn stórviðburður, nema auðvitað í mínum augum, og í lífi bókarinnar. Bókin – nú er ég enn að tala um Dulnefnin – hefur reyndar ferðast svolítið, þótt ekki sé hún formlega komin út. Hún fór til Selfoss í gær, þar sem ég las upp úr henni (eina eintakinu sem komið er í umferð) á Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna og Elínu, ásamt fleiri höfundum úr tímaritröðinni 1005. Eins og alltaf á Sunnlenska, þá var mikið fjör. Það var meira að segja músík. Og ansi fín músík: sönghópur sem kallaði sig Svölurnar. Þær sungu Spáðu í mig, nokkur „lög við vinnuna“, og Atla Heimi. Eftir samkomuna á Sunnlenska fór 1005-liðið í hús á Stokkseyri (nú verð ég að fara að passa mig á að þetta breytist ekki í eitthvert partí- og matarblogg), og nokkur okkar löbbuðu niður á strönd og sáu afar einkennilegt hús, hannað af þekktum arkitekt, íslenskum. Þetta hús er tilefni í sérfærslu; ég hef ekki pláss fyrir það hér. En þegar við virtum það fyrir okkur í kvöldsólinni rifjaðist upp fyrir mér lítil saga af rithöfundinum Auberon Waugh, syni Evelyns Waugh. Hann á að hafa sagt eitthvað á þessa leið: „Hvað ber manni að gera þegar maður kemur inn í samkvæmi og sér arkitekt standandi á miðju gólfinu? Maður gengur að honum og slær hann utan undir.“

20. apríl 2016 (aukafærsla)

Til að forðast misskilning (og ekki síður til að koma í veg fyrir ranghugmyndir í mínu eigin höfði), þá vil ég taka fram, vegna færslunnar hér fyrir neðan, að ég er ekki áskrifandi að DV-blaðinu. Þetta sem datt inn um bréfalúguna í gær var kynningareintak – geri ég ráð fyrir.

20. apríl 2016

Seint í gær, gott ef ekki í gærkvöldi, datt inn um bréfalúguna nýtt tölublað af DV. Ég sá reyndar ekki strax að þetta væri DV, því forsíðan var heilsíðuauglýsing – það var einungis mjó lína á vinstri kanti blaðsins sem gaf til kynna um hvaða blað væri að ræða. Línan var með rauðum og hvítum röndum, eins og á rakarastofustöng. DV er sannarlega einkennilegt blað. Mér finnst ekki ólíklegt að það sé gefið út í þeim tilgangi einum að vera lesið á rakarastofum. En auðvitað þarf dagblað ekki að hafa einhvern yfirlýstan tilgang – það þarf ekki einu sinni að hafa tilgang – ekki frekar en skáldverk eða líf manneskjunnar í heiminum. Leiðari blaðsins fjallar um Frans páfa. En talandi um líf manneskjunnar, þá er áðurnefnd heilsíðuauglýsing, sú sem blasti við mér þegar ég teygði mig eftir blaðinu sem datt inn um lúguna í gær – og sem virkar eins og hlífðarkápa utan um sjálft DV-tölublaðið – frá fyrirtæki sem kallar sig Graníthöllin, og gerir út frá Hafnarfirði. Það er orðið frekar algengt að dagblöð „pakki sér svona inn“ í auglýsingar. En hvað hefur þessi auglýsing frá Graníthöllinni með „líf manneskjunnar“ að gera? Svarið við þeirri spurningu er ábyggilega mjög margþætt, jafnvel flókið (svo maður notist við orðalag úr íslenskri stjórnmálaumræðu), en einfalt svar við henni gæti verið á þá leið að líf kviknar á vorin, og blómstrar síðan með sumrinu. Auglýsingin fjallar nefnilega um vorið og sumarið (sem formlega kemur á morgun, 21. apríl). Hún er svona:

 

VORIÐ ER KOMIÐ OG NÚ ER RÉTTI TÍMINN TIL AÐ HUGA AÐ SUMRINU

 

Graníthöllin

Legsteinar

 

PANTAÐU SNEMMA OG FÁÐU STEININN TÍMANLEGA UPP

 

ALLT INNIFALIÐ

með öllum okkar legsteinum

 

(Fyrir neðan textann er mynd af legsteini hjóna sem hétu Rósa Margrét Jónsdóttir og Jón Magnús Jónsson. Hún var fædd 10. 2. 1924, og dáin 21. 3. 2012; hann, Magnús, var fæddur 17. 4. 1922 – það ár sem allt var að gerast í módernískum skáldskap – og dáinn 29. 9. 2013. Fyrir neðan nöfn Margrétar og Jóns Magnúsar, hægra megin á steininum, stendur letrað, með skáletri: Blessuð sé minning ykkar)

18. apríl 2016 (aukafærsla)

Ég ætlaði að segja eitthvað, af augljósu tilefni – vissi alveg að það yrði svona „undirkafli“, eftir að forseti boðaði blaðamannafund – en svo varð mér óglatt – það getur gerst – og ég ákvað að hafa bara hérna stuttan texta úr 1005-heftinu Styttri ferðir, sem kom út fyrir tveimur árum. Þetta er seinni textinn af tveimur sem voru samhangandi í tímaritinu; og ég geri mér vel grein fyrir því núna að Mercedes Benzinn, sá sem sagt er frá í textanum, átti í raun að vera Lexus; ég komst að því fljótlega eftir að tímaritið var prentað að forseti Íslands ekur ekki lengur um á Benz, heldur Lexus.

 

NIÐUR Í IÐNÓ – OG TIL BAKA

 

Góður vinur minn var tilnefndur til verðlauna í sínu fagi. Það átti að veita þau niðri í Iðnó við Tjörnina. Og mér var boðið. Það var þó ekki laust við að mér fyndist svolítið óþægilegt að fara á slíka samkomu, því verðlaunahafar yrðu ekki tilkynntir fyrr en á hátíðinni. Og það gat brugðið til beggja vona, eins og sagt er. Ég var þó nokkuð bjartsýnn um að verðlaunin myndu falla í réttar hendur, svo ég ákvað að fara. Það er ekki nema nokkurra mínútna gangur frá Laufásveginum niður í Iðnó. Ég fór í fínu skóna mína og lagði af stað. Ég var í góðu skapi. Sem var synd, í ljósi þess að það átti ekki fyrir mér að liggja að njóta þess að vera í góðu skapi, að minnsta kosti ekki í því umhverfi þar sem einmitt hefði verið svo gaman að vera í góðu skapi. Hið góða skap mitt myndi heldur ekki nýtast vini mínum, ef svo má að orði komast; honum sem var í þann veginn að fara að fagna svolitlum áfanga í lífi sínu, færi svo að ég hefði rétt fyrir mér að hann hlyti verðlaunin. Þegar ég kom fyrir hornið á Iðnó, þeim megin sem styttan af óþekkta embættismanninum stendur, sá ég svartan Mercedes Benz sem var lagt á horni Vonarstrætis og Templarasunds; glansandi svartan og stóran Benz, sem líkt og stóð skrifað utan á að hefði leyfi til að leggja þarna á horninu, ólíkt öðrum bílum. Og ég sagði við sjálfan mig að þetta væri sá svarti bíll sem ég var að vona að yrði ekki fyrir utan Iðnó. Því ég vissi hver ók um í þessum bíl. Eða réttara sagt: hverjum var ekið um í honum. Ætli hafi ekki tekið mig um það bil hálfa mínútu að ákveða að snúa til baka. Mig langaði ekki lengur til að fara á hátíðina. Og ég sneri til baka. Ég myndi síðan hringja í vin minn eftir klukkutíma eða svo, til að forvitnast um hvort hann hefði fengið verðlaunin.

18. apríl 2016

Í gær, sunnudag, var ég spurður að því hvort ég hefði í raun og veru farið til Akureyrar um páskana, eins og ég gaf í skyn hér á síðunni (og ekki bara gaf í skyn, heldur nánast fullyrti, ef ekki sagði berum orðum) að ég hefði gert. Þegar ég svaraði (þetta var í gegnum síma) lagði ég mig fram um að gefa eins loðið svar og mér var unnt, enda vildi ég ekki að hægt væri að vitna í orð mín því til sönnunar að ég hefði í raun og veru farið – eða ekki – til Akureyrar. Mér er nefnilega vandi á höndum þegar ég stend frammi fyrir spurningum á borð við þessa (hvort ég hafi farið til Akureyrar, osfrv) – eða öllu heldur: þegar ég er krafinn svars um það hvort lýsingar mínar og frásagnir á þessum rafrænu blaðsíðum hér á netinu byggi á því raunverulega, eða því sem okkur er sagt að sé raunveruleiki og/eða teljum okkur sjálfum trú um að svo sé. Ég gef mér líka þann möguleika að lýsingarnar og frásagnirnar séu einhvers konar póetískt rými þess sem þær skrifar, með eða án veggja, eða einhver mér óþekkt tegund af hliðarveruleika, þar sem bæði eru veggir og dyr, og meira að segja gluggar líka. Í dag, mánudag, hefur verið boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum. Ég heyrði það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Hvað merkir það? Hvað gengur forsetanum til? Hvað á það að þýða að vera með blaðamannafund svona nokkurn veginn fyrirvaralaust á mánudegi? Spurning hvort ástæða verði til að hafa aukafærslu (einhvers konar undirkafla) að þeim fundi loknum. En – það er alltaf hið stóra EN – ég hafði lofað að tala um Sögu tónlistarinnar, bókina sem var að koma út hjá Forlaginu um daginn. Og aftur stend ég frammi fyrir ákveðnum vanda. Því ég vil helst ekki gefa uppi hvort ég hef þá bók undir höndum eður ei. En hvað sem því líður, þá eru hérna tvær setningar úr henni (sem ég gæti hafa lesið á bókasafninu og lagt á minnið; en gæti líka verið að rati svona hárrétt á síðuna einmitt vegna þess að Saga tónlistarinnar liggur opin fyrir framan mig): „Þegar síminn hringir og þú svarar er það ekki tónlist. Ef hann hringir og þú svarar ekki, þá er það tónlist.“ Þetta kemur frá John Cage. En meira um bókina hans Árna Heimis síðar. Annaðhvort þarf ég að verða mér úti um hana, eða ég þarf það ekki. Og fyrst ég er búinn að nefna bæði tónlist og myndir (Sögu tónlistarinnar og John Cage og allt það; og Ólaf Ragnar að undirbúa sig fyrir blaðamannafundinn), þá finnst mér við hæfi að birta texta úr bók sem ég gaf einu sinni út, texta sem einmitt fjallar um hljóð og mynd:

 

HLJÓÐ OG MYND

 

Eftir að hafa reynt í rúmar þrjár vikur tókst mér að ná mynd af símanum á sama augnabliki og hann hringdi. Þá hafði hann hringt allt að hundrað sinnum og ég ýtt um það bil helmingi oftar á takkann á myndavélinni. En það tókst að lokum. Allt tekst að lokum. Líka þetta.

16. apríl 2016

Það var hringt í mig í gær. Ég fékk símtal. Efnislega var símtalið svona: „Útskriftarsýning Listaháskólans verður haldin eftir viku, 23. apríl, og okkur datt í hug að hafa yfirskrift hennar Ytri höfnin. Okkur varð hugsað til ljóðabókarinnar sem þú gafst út [það var árið 1993], og fannst að við ættum að biðja þig um leyfi, eða láta þig vita.“ Ég hef hingað til ekki litið svo á að ég væri eigandi einhverra ákveðinna orða í íslensku orðabókinni, og allra síst þeirra orða sem um ræddi; en þau hjá skólanum langaði til að tengja Ytri höfnina bókinni minni, og ég varð auðvitað upp með mér af því. Og er. Enda gaf ég fúslega leyfi mitt til notkunar á þessum fallegu orðum. Það segir sig líka sjálft að mér fannst þetta mjög vel til fundið, að nota orðin Ytri höfnin yfir sýningu ungra listnema í Hafnarhúsinu. Núna, þegar sólarhringur er liðinn frá hinu óvænta símtali við Listaháskólann, var ég að hugsa um að láta tækifærið ekki liggja ónotað, og birta ljóð úr bókinni gömlu, Ytri höfninni, en ég fékk aðra betri hugmynd, nefnilega þá að birta einungis síðustu línuna í þeirri bók:

 

… að framtíðin feli í sér óvænta símhringingu

 

og síðan láta fylgja með fyrsta ljóðið úr næstu bók á eftir (sem heitir Klink), þar sem orðin ytri höfnin koma fyrir (þau gera það nefnilega ekki í bókinni Ytri höfninni, þótt ytri höfn Reykjavíkur komi fyrir á blaðsíðum hennar):

 

GLÆSTAR SMÍÐAR

 

Yfir sumarmánuðina

þegar skemmtiferðaskipin eru að sökkva

úti á ytri höfninni

hvert á fætur öðru undir krefjandi aðdáun borgarbúa

 

verður spurningin um meira eftirlit með skipaferðum

áleitnari

og ekki aðeins áleitnari heldur einnig varpað fram

eins og spurningunni um það

 

hvers vegna þessar glæstu smíðar

þessi fljótandi samkvæmi sigurs og vonar

sökkvi alltaf að næturlagi

alltaf á þeim tíma sem aðdáun okkar er mest

 

Í dag, 16. apríl, hafði ég reyndar ætlað mér að gera að umtalsefni nýju bókina eftir Árna Heimi Ingólfsson, Sögu tónlistarinnar, en það verður að bíða betri tíma. Ég veit að sú stóra og fína bók á eftir að staldra frekar lengi við á borðinu hjá mér (áður en hún fer upp í hillu), svo ég mun varla gleyma þessu. Ég las bók Árna Heimis um Jón Leifs fyrir nokkrum árum, og fannst hún bæði fróðleg og skemmtileg. Þegar ég rifja upp þá bók, eða þegar eitthvað minnir mig á Jón Leifs, þá rifjast alltaf upp fyrir mér saga sem mér var sögð af honum – saga sem ekki er að finna í bók Árna Heimis. Jón Leifs var í rútu, og í útvarpinu í rútunni var verið að spila popptónlist, frekar hátt. Jón hafði ekki mikið yndi af popptónlist – honum var mjög illa við hana, held ég megi örugglega fullyrða – og hann stóð upp úr rútusætinu og fór til bílstjórans til að biðja hann um að slökkva á útvarpinu. En bílstjórinn vildi það ekki. Og þeir fóru að rífast, geri ég ráð fyrir. Þessi litla saga af Jóni Leifs endar síðan á því að Jón reif útvarpstækið úr mælaborðinu. Það hefði ég líka gert. Eða viljað gera – en ekki látið eftir mér.

14. apríl 2016

Það er með hreinum ólíkindum hversu oft ég minnist á Halldór Laxness í þessu prógrammi mínu. Það var aldrei ætlunin. En auðvitað var ekkert plan – upphaflega – um það hversu oft ég ætlaði að minnast á hinn eða þennan, eða hversu einbeittur ég ætlaði að vera í því að forðast að nefna einhvern annan. Að tala svona oft um Halldór Laxness gefur held ég ekki rétta mynd af því hversu mikið ég held upp á hann sem höfund, eða hversu oft ég les hann – hlutfallslega – miðað við aðra höfunda; ég les nefnilega ekki mjög oft í bókum hans. Ekki miðað við aðra höfunda. En hver vill vita það? Af hverju er ég að tala um aðra höfunda? Ég ætti náttúrlega bara að tala um sjálfan mig. Sem ég er alltaf að gera – ég fer bara stundum krókaleiðir að því. Það getur jafnvel hugsast að stundum komi ég aftan að sjálfum mér. Í fyrradag lofaði ég því hins vegar hálfpartinn að tala um Bósa Ljósár. Um síðustu helgi var nefnilega á heimili mínu horft á teiknimyndina Toy Story 2. Líklega er það í fimmta eða sjötta skipti sem það er gert. (Við vitum að verið er að framleiða fjórðu myndina, sem verður þá væntanlega kölluð Toy Story 4 – við lásum það í blaðinu – og nokkuð reglulega minnum við okkur á þá vitneskju, og eftirvæntingin eykst í hvert skipti.) Eitt vakti sérstaka athygli mína núna, þegar við horfðum á Toy Story 2: að Bósi Ljósár (Buzz Lightyear) minnir allverulega á Íslending sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum hérlendis síðustu daga – og erlendis líka. Bósi er stórkostleg fígúra. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hann fór að tala spænsku í Toy Story 3. En það er þetta með að líkjast eða líkjast ekki. Manneskja sem ég þekki hefur gaman af því að senda í tölvupósti myndir af þekktum, eða frægum, einstaklingum sem líkjast hver öðrum, og ég hef ekki síður gaman af því að senda henni svoleiðis myndir til baka. Um daginn sendi ég henni myndir af Halldóri Halldórssyni (X-D) og Boris Karloff (í hlutverki Frankenstein); ég sendi henni líka myndir af leikaranum Reggie Nalder (sjá Fellini og Hitchcock) og Gunnari Sigurðssyni (í Hraðfréttum); og nýlega fann ég út að Fassbinder (leikstjórinn, það er að segja) og Atli Þór Fanndal blaðamaður eru býsna líkir á ákveðnum myndum. Þannig að ég sendi henni myndir af þeim tveimur. Það sem einna helst sló í gegn í þessari óeiginlegu keppni um útlitslíkindi voru aftur á móti myndir sem ég setti saman af Jóni Gunnarssyni (X-D) og Gérard Depardieu (þeim fransk/rússneska), þótt svolítið snúið sé að finna réttu myndirnar af þeim sem renna stoðum undir samlíkinguna. En aftur að Bósa Ljósári. (Ég verð þó fyrst að nefna eitt, svo ég verði ekki sakaður um sérhlífni í þessu samhengi. Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég nefnilega sendar frá kunningja mínum myndir af mér sjálfum og Guðmundi Ragnarssyni, formanni Félags vélstjóra og málmtæknimanna, með þeim skilaboðum að við Guðmundur værum líkir. Þá er það frá.) En nú að Bósa (svo ég geti loks farið að slá botninn í þetta fimmtudagsspjall mitt). Ég veit að það er ekki sanngjarnt gagnvart hinu geðþekka leikfangi að vera að nefna þau útlitslíkindi sem ég hef í huga (hin meintu líkindi), en ég ætla samt að láta eftir mér að birta mynd af hinum góða vini Vidda; hún, myndin, ein og sér, hefur ótvírætt skemmtigildi.

 

 

12. apríl 2016

21. apríl nk., sem er Sumardagurinn fyrsti, stendur til að verði upplestur á Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. Þar munu lesa upp nokkrir höfundar sem birtu texta í tímaritröðinni 1005, en sú röð var gefin út á árunum 2013 – 2015, og kemur ekki meir – það var ákveðið í upphafi að útgáfurnar yrðu ekki fleiri en þrjár. Mitt framlag í tímaritið var smásagnahefti, Rússneski þátturinn, sem hafði (það er svo gaman að nota þessa sögn svona; Halldór Laxness gerði það – og hann var íslenskur) 9 smásögur. Öll eintök tímaritsraðarinnar eru uppseld. Þau voru 300 eða 350 af hverri útgáfu. Einn höfunda 1005 hefur síðan nýlega gefið út sitt hefti í hefðbundinni bókarútgáfu: Halldóra Thoroddsen gaf út söguna Tvöfalt gler hjá forlaginu Sæmundi; og ég tel mig hafa rökstuddan grun um að fleiri hefti 1005-raðarinnar muni koma út í bókum fyrr en síðar, enda full ástæða til. Í smásagnasafninu Dulnefnin (sjá hér að ofan – það hefur reyndar eitthvað klippst ofan og neðan af kápunni), sem á að koma í kringum Dag bókarinnar 23. apríl, verða 7 sögur af 9 úr Rússneska þættinum. Í raun eru þær átta, því ég splæsti tveimur saman í eina, eða þannig lagað: setti þær undir sömu yfirskrift, þótt í raun séu þær aðskildar. Auk þess lagaði ég eitthvað smávegis í textunum, og kippti út einni og einni setningu. Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta; ég ætlaði að tala um Bósa Ljósár. Ég geri það kannski næst. En það er allavega upplestur á Selfossi Sumardaginn fyrsta, klukkan fjögur, í einu skemmtilegasta kaffihúsi landsins, Sunnlenska bókakaffinu.

10. apríl 2016

„Kaflastjórnandi“ hefur heyrt því fleygt að sú ákvörðun að breyta yfirskrift þessa prógramms hér á netinu úr „Kafli á dag“ í „Kafla á viku“ hafi verið mistök. Það er reyndar svolítið langt síðan það gerðist. En ég get alveg ímyndað mér að þetta sé rétt hjá þeim sem hafði orð á því. „Kafli á dag“ er þó í augnablikinu ekki mjög aðlaðandi hugmynd fyrir „stjórnanda“ síðunnar. „Stjórnandi“ síðunnar veit í raun ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann verður að skoða þetta betur. Taka stöðuna, eins og sagt er. Svo má vel vera að „það liggi ljóst fyrir“ að eitt sé betra en annað; að „Kafli á dag“ henti betur en „Kafli á viku“, eða öfugt. En nóg um það. Til að færsla dagsins fái einhverja „vigt“ eða „tilgang“, þá hefur mér dottið í hug að setja smá músík. Gil Evans verður fyrir valinu: fyrsta lagið á hljómplötu hans, The Individualism of Gil Evans, frá árinu 1964. (Það var annars gaman að fara á Austurvöll í gær. Ég held að á endanum muni íslensku þjóðinni – fyrr en síðar – takast að koma fjármálaráðherra frá völdum – og hans virktarvinum.) Ef fólk á bíl með geisladiskaspilara, þá mæli ég með því að hlusta á Time of the Barracudas undir akstri. (Elvin Jones er beinlínis yfirnáttúrulegur í þessari upptöku.) En til að hlusta á þetta í bíl, þá er best að eiga diskinn. Nema að fólk hafi yfir þeirri tækni að ráða sem gerir því kleift að tengja tölvuna sína (internetið) við græjurnar í bílnum. En allavega, hér er Gil Evans:

8. apríl 2016

Kannski er það aukakaffibollinn sem ég drakk í morgun sem hraðar svona á hjartslættinum, en ég held samt að það sé fjármálaráðherra Íslands. Og nýi forsætisráðherrann. Og maðurinn sem nú er búið að skipa sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem strangt til tekið er nafni minn, þótt ég heiti ekki Gunnar eins og hann. (Það eru þrjú sem í síðustu setningu; það skrifast á hraða hjartsláttinn. Og það uppnám sem ég tel mig vera í þessa stundina.) Mér er skapi næst að vitna í eitthvert skáld. Ég veit ég gerði það í síðustu færslu; en mér finnst eins og ég ætti að gera það aftur. Jafnvel að biðja Guð að blessa mig og alla hina líka. Ég ætla samt ekki að gera það; ég ætla frekar að vitna í fjármálaráðherrann: „Tímarnir hafa aldrei verið eins bjartir og einmitt nú.“ (á Alþingi Íslendinga, 8. apríl 2016)

6. apríl 2016

Einn íslandskokkteil? segir hann.

Nei þakka svo heimskt mikið, herr grossist, sögðu þeir, og sá litli feiti fór að taka skjölin uppúr töskunni hjá sér og raða þeim á borðið.

(úr Guðsgjafaþulu e. Halldór Laxness, bls. 17)

 

 

ÍSLANDSKOKKTEILL

– bjór

– skvetta af koníaki

– skvetta af vískíi

– rauðvín

 

 

Ég kom frammúr sekretéraherberginu aftur meðan Íslandsbersi var niðrá marmaranum að kveðja gesti sína. Aungvar sænskar miljónir á borðinu, aðeins þrjú mjólkurglös fleytifull af íslenskum kokkteil; það fjórða hafði húsbóndinn drukkið sjálfur í botn sem fyr segir.

(úr Guðsgjafaþulu e. Halldór Laxness, bls. 20-21)

 

 

Vorið færði mér óhugnanlegan hlátur fábjánans.

(úr ljóðinu Fyrrum, ef ég man rétt eftir Arthur Rimbaud – þýð. Jón Óskar)

4. apríl 2016

Ég ákvað að freista gæfunnar og leita að hinu vinsæla og mikið tekna orði (í heimi ísl. stjórnmála) óheppilegt í orðabókinni minni (tveggja binda útgáfunni). En ég fann það ekki. Það næsta sem ég komst því var orðið óheppinn, en það er ekki það sama og óheppilegt eða -legur. Þá datt mér í hug að fara í samheitaorðabókina (gömlu útgáfuna; ég á ekki þá nýju), og þar fann ég orðið óheppilegur. Samheiti þess (samkvæmt Þórbergi; enn og aftur dúkkar hann upp hérna) er óþægilegur, og andheitið: heppilegur. Þetta er sem sagt allt fremur „óþægilegt“. Ekki „heppilegt“. En svo datt mér í hug að athuga hvort orðið óheppilegt væri að finna í útlensku orðabókunum mínum, úr því forsætis- og fjármálaráðherra landsins eru orðnir umfjöllunarefni í erlendum fjölmiðlum. Þar fann ég þessar myndir af orðinu: unfortunate og inoportuno. Ég er ekki með fleiri hefðbundnar orðabækur við höndina í augnablikinu, en á nú frekar von á því að búið sé að þýða þetta yfir á þýsku og Norðurlandamálin. En áður en ég raðaði þessum bókum mínum aftur upp í hillu datt mér í hug að fletta upp í Útlendum orðum á ensku, sem Haraldur Jóhannsson tók saman, og þegar ég blaðaði í gegnum þá bók (sem ef til vill er réttara að kalla hefti), algerlega handahófskennt, þá fann ég þetta: in extremis, sem er latína og merkir: að dauða kominn, aðfram kominn, í andarslitrunum.

2. apríl 2016 (aukafærsla)

Það var boðið mér í afmælisveislu á föstudaginn. Sem var í gær. Var mér boðið það á föstudaginn í afmælisveislu? Mér boðið það var í afmælisveislu á föstudaginn. Á föstudaginn var mér það boðið í afmælisveislu. Í afmælisveislu á föstudaginn mér boðið það var. Var þar boðið upp á veganbrauðtertu. Á veganbrauðtertu boðið upp þar var. Og svo framvegis. Í veislunni hitti ég manneskju sem ég hef ekki hitt lengi. Ég sparkaði í sköflunginn á henni. Sköflunginn á henni sparkaði ég í. Og ég gleymdi að koma með afmælisgjöf. Með afmælisgjöf gleymdi ég að koma og. Og hvað? Þessi manneskja sem ég hafði ekki hitt lengi fór að tala við mig. Að ég hafi sparkað í sköflunginn á henni er reyndar svolítið ýkt. Ég gerði það alls ekki. En við töluðum saman. Og um hvað? Nú, auðvitað bækur, en líka um sjónvarpsþætti. Ég sagði henni að ég væri nýbúinn að horfa á alla Breaking Bad-seríuna; að ég væri eiginlega ekki samur eftir þá reynslu. En núna er ég aftur að ýkja; ég orðaði þetta alls ekki svona. Ég er nákvæmlega sá sami og ég var, nema hugsanlega að því leyti að ég er nokkrum dögum eldri en ég var þegar ég lauk við að horfa á þættina. Það gerðist á Akureyri; það var þar sem ég kláraði áhorfið. Akureyri – Albuquerque. „Mér finnst ég hafa verið að lesa [í merkingunni að horfa á] mjög langa skáldsögu,“ sagði ég við manneskjuna í afmælisveislunni; og ég átti við Breaking Bad. Í framhaldi fórum við að tala um aðrar skáldsögur, aðallega út frá því hvernig löngum skáldsögum er stundum skipt upp í hluta eða aðskild hefti eða bækur. Manneskjunni fannst t.d. fyrsti hluti Íslandsklukkunnar eftir Halldór Laxness mun betri en þeir sem komu á eftir; en þá sagði ég eitthvað á þá leið að það þýddi ekki fyrir hana (manneskjuna) að ræða við mig um Íslandsklukkuna; ég hefði engan áhuga á henni – besta bók Halldórs Laxness fyndist mér vera Kristnihald undir Jökli. Ég sagði þetta í og með til að athuga hver viðbrögð manneskjunnar yrðu, því ég hafði einhvern tíma lesið frekar neikvæð orð frá henni um þessa tilteknu skáldsögu Halldórs Laxness. Og það stóð ekki á viðbrögðunum: manneskjan sagði ekki neitt; það var eins og hún vildi að við breyttum um umræðuefni sem fyrst. Og við gerðum það. Var þetta ef til vill augnablikið sem mér datt í hug að ég ætti að sparka í sköflunginn á henni? Mig hefði langað til að tala meira um Kristnihald undir Jökli. Mér finnst það ein af skemmtilegustu (og um leið bestu) bókum sem ég hef lesið. Susan Sontag er líka á þeirri skoðun að Kristnihaldið (Under the Glacier, eins og hún kallast í enskri þýðingu Magnúsar Magnússonar) sé ein af fyndnustu bókum síðustu aldar, eða hvaða aldar sem er. En töluðum við, ég og umrædd manneskja í afmælisboðinu, um forsætisráðherra Íslands og fjármálaráðherra? Nei, það vannst ekki tími til þess. Hefði okkur gefist lengri tími – bæði var það að ég þurfti að fara annað, og í raun stóð afmælisveislan ekki lengi; þetta var svona síðdegisboð, og afar vel heppnað sem slíkt – þá hefðum við án nokkurs vafa tekið smá snúning á forsætis- og fjármálaráðherrunum. „En ég ráðlegg þér að horfa á restina af Breaking Bad,“ sagði ég við manneskjuna undir lok spjallsins. (Hún hafði horft á eina eða tvær af seríunum sex.) „Ég hef aldrei séð fjallað jafn ítarlega um lygina áður,“ bætti ég við. (Reyndar sagði ég það aldrei; ég er að búa það til núna. Með öðrum orðum: að ljúga. Auk þess sem ítarlega er ekki vel til fundið orð í þessu samhengi. Sem er auk þess ekki vel til fundið orð í þessu ítarlega samhengi.) Svo kvöddumst við.

2. apríl 2016

Það hefur verið að trufla mig í heila tvo daga að ég skyldi nota orðalagið „það verður að segjast eins og er“ í síðustu færslu – það var eitthvað í tengslum við „norðlenzku“ setninguna úr Bréfi til Láru. Það er eitthvað ógeðfellt við að slá fram fullyrðingu á borð við þessa. Nánast hrokafullt. Ég tek þetta aftur. Og velti því um leið fyrir mér hvort svona orðalag tíðkist í öðrum tungumálum. En ég má bara ekki vera að því að velta því fyrir mér mjög lengi; ég verð að hafa hraðan á, eins og segir í ljóðinu eftir Gottfried Benn. Ég hef öðrum hnöppum að hneppa. Laugardagurinn bíður eftir mér, eins og heitur kaffibolli sem gargar á mann að vera drukkinn áður en hann kólnar. Aftur á móti koma upp í hugann upphafslínurnar úr leikritinu No man´s land eftir Harold Pinter, því stórkostlega verki sem vonandi fer einhvern tíma á íslenskt svið (óbreytt og óstytt, með Eggerti Þorleifssyni og Hjalta Rögnvaldssyni í hlutverkum Hirst og Spooner):

 

HIRST

As it is?

 

SPOONER

As it is, yes please, absolutely as it is.

31. mars 2016

Í þriðju heimsókn minni (á jafnmörgum árum) í Jólagarðinn í Eyjafirði núna um daginn las ég á skilti fyrir utan búðina þeirra (þá sem selur jólaskrautið og smákökurnar, ekki nýju búðina þar sem hægt er að kaupa sultu og ferskjur í brandípækli) að 272 dagar væru til jóla. Sem merkir þá að í dag eru færri en 270 dagar í jólin – það hreinlega styttist í þau. Og það er aldrei að vita nema maður kíki aftur í þessa skemmtilegu (og stórundarlegu) búð á árinu; það er nefnilega alls ekki út úr myndinni að maður fari aftur norður þegar nær dregur jólum. En óhjákvæmilega hvarflar að manni þessa dagana (þessa skemmtilegu daga) – svo ég snúi mér að öðru – að gaman væri að telja niður ýmislegt annað en þá daga sem eiga eftir að líða til jóla. Og tala niður, ef út í það er farið. En ekki meira um það. Ekki í bili. Ég ætla mér ekki að fara að tala um það sem svo sannarlega lítur út fyrir að ég hafi haft í hyggju að tala um. Ég þarf nefnilega að játa á mig svolitla vitleysu. Í fyrradag nefndi ég hér á þessari síðu að fyrstu setningarnar í Bréfi til Láru væru hinar frægu setningar um Akureyri og norðlenska fólkið. Það er ekki rétt. Fyrstu setningar bókarinnar eru auðvitað (eins og allir vissu, nema ég): Mín góða og skemmtilega vinkona! Það er ekki fyrr en í næsta kafla (sem er reyndar á sömu blaðsíðu) að Þórbergur snýr sér að Akureyri. Og auðvitað ekki hægt að láta hjá liggja að pikka þær setningar inn: Mér fannst Akureyri leiðinlegur bær. Og fólkið var drumbslegt við mig. Það er svo ánægt með sjálft sig. Það er norðlenzkt. Þetta eru auðvitað hans orð, ekki mín. Ég ætla ekki að taka undir þau hér (ekki formlega að minnsta kosti), svona nýkominn að norðan. En það verður að segjast eins og er að síðasta setningin hlýtur að vera einhver eftirminnilegasta setning í íslenskri bók. Það er norðlenzkt. Þórbergur á náttúrlega fullt af setningum sem hljóta að teljast vera flottastar þetta og hitt; það þarf ekki annað en að rifja upp kvæðið um Seltjarnarnesið (annan bæ sem hann lét svo sannarlega finna fyrir því) til að framkalla þann dómínóeffekt sem upprifjun á bókum Þórbergs setur af stað. Ég var einhvern tíma beðinn um að nefna eftirlætislínu úr íslensku ljóði (það var á samkomu hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi), og ég valdi þessa línu hér: Komið þér sælar, jómfrú góð! Ég ætla reyndar að halda aftur af mér með að birta allt kvæðið, en það ætti ekki að vera mikið mál að fletta því upp – maður gerir svona frekar ráð fyrir því að Edda Þórbergs sé tiltæk á flestum heimilum. Ég stenst þó ekki að bæta við næstsíðustu línunni: Á kvöldin heyrast þar kynjahljóð. / Komið þér sælar, jómfrú góð! Er hægt að yrkja betur en þetta? Lifa þar fáir og hugsa smátt. En nóg um það; ég ætlaði alls ekki að tala um þetta; ég ætlaði að tala um Jólagarðinn í Eyjafirði. Í þriðju heimsókn minni í Jólagarðinn, osfrv.

29. mars 2016

Boðað hafði verið til fundar hjá Smekkleysu í dag. Eitthvað um fjármálin og 30 ára afmæli félagsins (sem verður í júní). Ég hafði móttekið boðið á laugardaginn var, og var þá kominn til Akureyrar, með það plan að koma aftur til Reykjavíkur á annan í páskum (í gær); en nú er svo komið að ég er enn á Akureyri. Reyndar ekki fluttur hingað – brottförin frestaðist bara um einn dag (sem héðan í frá verður nefndur „aukadagurinn“). Ég fór í heilsubótargöngu fyrr í morgun, svokallaðan constitutional. Ég gekk frá gistihúsinu niður að Helgamagrastræti. Þar, í efsta hluta götunnar, eru falleg fúnkishús beggja megin; en svo, þegar maður heldur áfram, kemur maður að háum snjóbing, og bakvið hann er leikvöllur, meira og minna þakinn snjó; og næst leikvellinum er hvíta húsið með mörgu gluggunum, það sem kemur fyrir í bókinni um Ármann Val Ármannsson, Fjarverunni. Þar sem hvítu ljónin standa vörð við innganginn. Fyrir framan aðaldyr hússins er páskaskreyting, svolítið hlægileg, ef maður horfir á hana þannig. Ég greikka sporið; ég vil ekki að fólk sjái mig vera að skoða húsið. Næst er Hamarstígur, síðan Bjarkarstígur, þar sem Davíðshús stendur. Þar sem Ármann Valur dvaldi þá daga sem hann var á Akureyri (þegar hann hitti Þorbjörn Gest). Ég er ekki viss um að Ármann Valur hafi gert sér grein fyrir hversu nálægt Davíðshúsi ljónahúsið er. Það er í raun bara nokkur skref í burtu. Ég hef á tilfinningunni að hann hafi ekki gengið stystu leið frá Davíðshúsi að ljónahúsinu. En var það nákvæmlega þetta hús (með ljónunum) sem Esther (eða Ester, nú man ég ekki hvort var; hef ekki bókina við höndina) bjó í með útgerðarmanninum? Það er ómögulegt fyrir höfund að vita það með vissu. Það gæti hafa verið annað hús; að þetta tiltekna hús við Helgamagrastræti hafi einungis verið fyrirmyndin. Þetta hverfi hér á Akureyri af afskaplega sjarmerandi. Gilsbakkavegur, Oddeyrargata, Bjarmastígur, Krabbastígur og Bjarkarstígur (Davíð Stefánsson fékk það í gegn að sá hluti Krabbastígs sem hann lét reisa húsið sitt við yrði kallaður Bjarkarstígur – var eitthvað illa við Krabbann, greinilega). Ef það gerðist einhvern tíma að maður flytti til Akureyrar (sem ég held að muni ekki gerast), þá yrðu þessar götur fyrir valinu. Eða kannski Eyrarlandsvegur ofan við kirkjuna, það er aldrei að vita. Það eru partar í bænum sem eru svo fallegir að maður hreinlega gleymir fyrstu setningunum í Bréfi til Láru; þær einfaldlega detta úr minninu, og það hvarflar ekki að manni að láta það trufla sig að fólkið hér sé norðlenskt og allt það. En þetta var ekki það sem ég ætlaði að setja inn í þessa færslu. Ég var að tala um Smekkleysufundinn. Hann verður haldinn. Án mín. Ég verð ennþá fyrir norðan, hugsanlega þó sestur í bílinn og farinn af stað suður. Svo verður haldinn annar fundur – það er alltaf haldinn annar fundur.

27. mars 2016

Tengsl mín við Akureyri eru mestmegnis í gegnum prófarkalesarann Ármann Val Ármannsson og enskukennarann Þorbjörn Gest. Ég veit ekki hversu vel ég þekki þessa menn – mér finnst ég aldrei geta fullyrt að ég þekki nokkra manneskju – en ég er á vissan hátt staddur í miðri sögu þess síðarnefnda í augnablikinu, því ég er staddur á Akureyri (í páskafríi); og seinni hluti sögu Þorbjörns á eftir að vera festur á blað. Hann er búinn að vera í kennarabústaðnum (svolítið síðan það var); hann er búinn að skrifa í gestabókina, bæði fyrir sig og næstu gesti, og búinn að hitta Ármann Val (sem dvaldi þá daga í Davíðshúsi, þar sem mér er sagt að bókasafnshjónin, þau sem ég hitti fyrir nokkrum vikum í bókasafninu í Grófinni í Reykjavík, séu stödd núna) – en Þorbjörn á eftir að fara í sumarbústaðinn aftur. Og þar gerist seinni hluti sögu hans. Í dag er páskadagur. Akureyri er hvít af snjó; og núna ætla ég að grípa til þeirrar alhallærislegustu líkingar sem mér gæti hugsanlega dottið í hug: bærinn er hvítur eins og örkin sem bíður sögu Þorbjörns, þess hluta hennar þegar hann fer aftur frá Akureyri og í bústaðinn til að ná í minniskubbinn sinn. (En meira um þetta síðar.) Er það Akureyri sem veldur því að ég læt mér detta eitthvað svona í hug? Í gærkvöldi, þegar ég gekk í fallegri og mjúkri snjókomu framhjá kirkjunni stóru, um það bil að fara að telja tröppurnar niður að hótelinu, enn eina ferðina, sá ég tvo fjármagnseigendur hverfa inn um kirkjudyrnar. Þeir stigu út úr stórum jepplingi (sem einhver annar keyrði), klæddir millisíðum frökkum: þeim lá á að komast inn í kirkjuna – það var alveg greinilegt.

25. mars 2016

Líklega er aðeins eitt sem vekur í manni meiri depurð en þá að sjá íslenska fánanum flaggað í prívat húsagarði, og það er að sjá KR-fánann dreginn upp á sömu stöng. Ég vann eitt sinn við það að draga fána að hún. Það var fyrir mörgum árum; ég var sumarstarfsmaður í varahlutaverslun Globus-fyrirtækisins, og fyrir framan húsið í Lágmúlanum voru nokkrar flaggstangir. Ég man eftir að Árni Johnsen kom stundum í búðina og keypti af okkur varahluti; ég man það reyndar mjög vel því hann laumaði sér gjarnan fram fyrir biðröðina; hann mátti ekki vera að því að bíða eins og hinir; og okkur starfsmönnunum fannst þetta fyndið (og svolítið frekt). Ég man samt ekki hvernig það kom til að ég var valinn til að draga upp fánana. Kannski var það vegna þess að ég var ekkert sérlega vel að mér í varahlutunum; ég hafði ekki einu sinni bílpróf, þótt ég væri löngu orðinn sautján. En þetta var verkefni sem fól í sér ábyrgð; ég fann það. Og vissi. Þetta krafðist ákveðinnar kunnáttu, og auðvitað líka þess að manni væri treystandi til að sýna fánunum virðingu, meðal annars með því að láta þá aldrei snerta jörðu. Sú er að minnsta kosti reglan með þjóðfánann. Ég man samt ekki hvort íslenski fáninn var meðal þeirra sem ég dró upp þessa sumarmorgna í Lágmúlanum (skrítið að muna það ekki); þetta voru mestmegnis fánar með merkjum framleiðenda sem Globus var fulltrúi fyrir á Íslandi, meðal annarra Zetor, New Holland og Citroen. Hvað þann íslenska snerti, þá hafði ég dregið hann að hún oftar en einu sinni áður, til dæmis þegar ég var í skátunum og sumarbúðum K.F.U.M. í Vatnaskógi. KR-fánann hef ég þó aldrei dregið að hún: ég fullyrði það. Jafnvel þótt ég hafi verið félagsmaður í nokkur ár sem barn og unglingur. KR … Skátarnir … K.F.U.M. … Globus … Maður verður beinlínis hugsi yfir öllu þessu saman. En nú þegar ég hef enn á ný rifjað upp hið svokallaða „Globus-sumar mitt“ (sem þarf þó ekki að merkja að ég geri það reglulega), þá horfi ég til baka með undrun og stolti, og eiginlega furðu, því mér finnst nánast óskiljanlegt hvernig mér auðnaðist að afgreiða alla Zetor- og Citroen-eigendurna um varahlutina sína; hvernig þeim Árna Johnsen og öllum hinum tókst að gera sig skiljanlega við mig – mig sem skildi ekki orð af því sem þeir sögðu. Við höfðum náttúrlega bækur til að styðjast við; þeir bentu mér á teikningar af innviðum traktoranna og bílanna, og ytra byrði, nánast óendanlega flóknar teikningar með endalausum númerum og vísunum í enn aðrar teikningar, og þeir sögðu við mig: „Mig vantar þessa legu hér“, eða „karborator“ eða „spindilkúlu“, guð veit hvað; og ég, sem var fullkomlega rænulaus á þessu sviði, bað þá að bíða á meðan ég fyndi til hlutinn, og kom síðan aftur og sagði (á svipinn nákvæmlega eins og ég ímynda mér að ég hafi verið): „Gjörðu svo vel: spindilkúla, lega, karborator, DX, heybindivél – ekki málið.“ Ég myndi ekki ráða við þetta í dag. Ég myndi ekki heldur ráða við að draga fána að hún, ekki alla leið að minnsta kosti. Er ekki annars föstudagurinn langi í dag?