15. júní 2016 (aukafærsla)

Ekki átti ég nú von á því að aukafærslan kæmi svona fljótt á þessum sólríka degi. En líklega er hún svo gott sem óumflýjanleg. Því mér hefur verið bent á (ekki það að einhver sé að fylgjast svona vel með Kafla á dag; það var ég sjálfur sem benti mér á þetta) að ég fór með rangt mál í gær þegar ég nefndi að íslenska landsliðið í fótbolta hefði átt að fara út á völlinn gegn Portúgölunum í jakkafötunum frá Herrahúsinu við Laugaveg. Fötin eru víst ekki úr Herrahúsinu. Þau koma frá Herragarðinum. Eflaust hugsar einhver sem svo að varla geti verið mikill munur á Herrahúsinu og Herragarðinum (eða Herrafataverslun Birgis, ef út í það er farið), en munurinn er heilmikill. Hann er eins og heitt og kalt. Í hverju hann liggur þori ég ekki að hafa mjög sterka skoðun á, en munurinn er til staðar; hann liggur væntanlega í „húsinu“ og „garðinum“ (og „fataversluninni“, ef við höldum „Birgi“ enn inni í jöfnunni).

 

15. júní 2016

Unknown-1

Nú vandast málið hvað varðar persónulegan stuðning við landslið í Evrópukeppninni 2016. Nú getur maður ekki bara haldið með Spáni (og/eða hugsanlega Þýskalandi, jafnvel Wales), heldur verður maður líka að halda með Íslandi. Og taka undir í Lofsongur þegar hann er sunginn næst á einhverjum vellinum í Frakklandi. Það var gaman að fylgjast með íslenska og portúgalska liðinu ganga inn á völlinn í gær. Fremstur í því portúgalska gekk hinn choco-brúni Ronaldo, og í því íslenska einhver fölur, síðskeggjaður víkingr (sem ég veit núna að heitir Aron – samt ekki Aron Cesar). Og svo byrjaði leikr, og víkingr náði að jafna choco. Nú hefur EM endanlega skyggt á íslensku forsetakosningarnar. Og þá er bara spurning hvað mun skyggja á EM? Frétt dagsins í dag er sú að það er búið að handtaka tvo einstaklinga í tengslum við Guðmundarmálið frá 1974. Spurning hvort það nái að skyggja á úrslit gærdagsins, og varpa lengri skugga yfir næstu úrslit í leikjum íslenska landsliðsins. Annars er svo mikil sól í glugganum hjá mér í augnablikinu að öll hugsun manns um skugga er við það að gufa upp. En á meðan ég velti fyrir mér þeim galopna möguleika að setja inn aukafærslu seinna í dag (hugsanlega eitthvað um hegðun rússneska „stuðningsliðsins“ þegar Rússarnir keppa upp úr hádegi), þá læt ég hér fylgja erlend skrif um hinn íslenska Lofsongur: The match had opened with the first rendition of the Icelandic national anthem at a European Championship. The Lofsongur is not a particularly happy hymn, ending as it does with a line likening its country to a small flower “with a quivering fear that prays to its god and dies.”

14. júní 2016

Enginn ætti að tjá sig á hverjum degi. Allra síst á svona bloggi sem allir sjá (þeir sem vilja sjá). Og allra síst þegar Ungverjaland er 1- 0 yfir í leik þeirra við Austurrríki, og Ísland er að fara að leika við Portúgal. Þjóðirnar að leika hver við aðra. En mér finnst samt að Íslendingar hefðu átt að spila í bláu jakkafötunum sínum, sem þeir fengu í Herrahúsinu við Laugaveg. Meira um það síðar. Meira um Íslendinga síðar. Og meira um Herrahúsið. (Eða var það Herragarðurinn?) Og núna er Ungverjaland búið að bæta við marki. Og Portúgal búið að skora mark gegn Íslendingum. Og Íslendingar búnir að skora mark gegn Portúgölum. Það eru allir búnir að öllu. Þangað til næst. (Fylgir ekki örugglega mynd með þessari færslu?)

 

13. júní 2016

Spánverjar. Andrés Iniesta. Fyrir mig, sem hef ekki mjög yfirgripsmikla tækniþekkingu á fótbolta, er nóg að nefna þetta tvennt, eftir að hafa séð leikinn milli Tékklands og Spánar. Spánverjar/Iniesta. Ég var í öngum mínum. En svo kom markið á 86. mínútu. (Og ég hef ábyggilega misst út úr mér einhverja upphrópun á borð við „Nauh!“, eitthvað svoleiðis. „Nauh!“ í merkingunni „Flott!“) Það má reyndar alveg nefna markvörð Tékka líka, Pétur Tékk. Hann er bæði flottur til höfuðsins og í markinu. En jæja, nú er ég búinn að tjá mig of mikið. Ég ætla ekki að láta Þorstein J. nappa mig á að segja einhverja vitleysu. En þá er líklega best að skipta um umræðuefni, og snúa sér – til dæmis – að íslensku forsetakosningunum. Því líflausa fyrirbæri, sem mér sýnist vera við það að lognast út af og deyja. Ég sé nefnilega ekki annað í stöðunni en að nauðsyn sé komin til þess að blása aftur lífi í þá gömlu hugmynd mína að best væri fyrir þjóðina að hún kæmi sér saman um að velja einhverja látna manneskju í embætti forseta Íslands, nú þegar ekki lítur út fyrir að Andri Snær muni skora nægilega hátt hjá sömu þjóð. Þetta er nú meiri þjóðin. Og nú þegar ég hef nefnt þetta, þá er aftur kominn tími til að skipta um umræðuefni. Ég heyrði nefnilega ansi skemmtileg orð í einum fótboltalýsandanum í gær. Hann var að tala um þjóðsöngva Evrópuþjóðanna. Ef ég man rétt, þá sagði hann eitthvað á þessa leið: „Þegar rússneski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Englendingar; og þegar enski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Rússar. Sem sagt allir í stuði.“ Og stuttu síðar sagði sami maður, og var að tala um áhorfendur í stúkunni: „Þeir eru bara þarna hlið við hlið. Girðing á milli. Þannig á þetta að vera.“ Mér er skapi næst að stela þessu og nota í einhvern texta sem ég mun síðan gefa út undir eigin nafni.

 

12. júní 2016

Á 34. mínútu í leik Svisslendinga og Albana í EM í gær gerðist svolítið einkennilegt; nokkuð sem ég hef sjálfur ekki séð gerast áður í fótboltaleik, en sem á fótboltamáli kallast – eða hlýtur að kallast – að skoruð séu draugamörk. Staðan á 34. mínútu var eitt núll fyrir Svisslendinga. Og ekkert sérstakt var að gerast í leiknum; ekkert sem benti til þess að staðan væri að breytast. En þá breyttist staðan. Í litla rammanum efst á skjánum, þar sem markatalan er sýnd, bættist skyndilega við eitt mark, Svisslendingum í vil. (Auðvitað er óþarfi að taka fram að það hafi gerst skyndilega, því allar breytingar á markatölu í fótboltaleik gerast „skyndilega“, eða „allt í einu“.) Mér þótti þessi breyting á markatölu heldur skrítin, og átti vitaskuld von á því að mennirnir sem lýstu leiknum myndu gera sínar athugasemdir við þetta, eða að minnsta kosti nefna að Svisslendingar væru svona óvænt komnir með tveggja marka forskot (þegar ekkert gaf til kynna að seinna markið hefði verið skorað). En í því sem ég hugsaði þetta, þá bættist við þriðja markið, aftur Svisslendingum í vil. Staðan var orðin 3 – 0. Var ég eini áhorfandinn sem tók eftir þessu? Hvers vegna minntust sjónvarpsmennirnir ekkert á þetta? Og það sem einkennilegast var: Svisslendingar voru hvorki að fagna mörkunum (tveimur mörkum á sömu mínútunni), né Albanir að syrgja orðinn hlut. Leikurinn hélt bara áfram. Enginn fagnaði; enginn varð súr. En þá urðu aftur breytingar á markatölunni í litla rammanum. Mörkin gengu til baka. Staðan breyttist úr 3 – 0 í 1 – 0, eins og hún hafði verið fyrir um það bil einni mínútu. Og boltinn hélt áfram að ganga á milli manna – en hvorki inn í markið né aftur út úr því, eins og hin síbreytilega markatala gaf til kynna að hefði gerst. Mínútu síðar var aftur á móti fyrirliði albanska liðsins rekinn út af vellinum (með rauðu spjaldi; fyrst gulu og síðan rauðu) fyrir að hafa stöðvað boltann með höndunum. Svo hélt leikurinn áfram, eins og lífið heldur áfram (án manneskjunnar sem var rekin út af). Ég geri mér auðvitað enga grein fyrir því hversu margir aðrir sjónvarpsáhorfendur tóku eftir þessu með markatöluna; en hvort sem ég var sá eini (sem mér finnst reyndar afar ólíklegt), þá hef ég að minnsta kosti séð hvernig draugamörk verða til – og hverfa síðan aftur (eins og draugar). En núna að ástandinu í Marseille, hinni gömlu hafnarborg í Suður-Frakklandi. Öll þessi slagsmál. Alvarleg meiðsl. Hvað á maður að segja um það? Ég veit ekkert hvað ég á að segja um það. Myndi þetta ekki teljast fremur eðlilegt ástand, þar sem mætast enskir og rússneskir fótboltaáhugamenn? Ég vona samt að enginn deyi. En það var eitthvað sætt við að sjá Rússana jafna leikinn í gær. Ég held hvorki með Rússum né Englendingum; en það hlakkaði eitthvað í mér yfir að Englendingum tækist ekki það sem þeim hefur ekki tekist í sirka hálfa öld: að vinna leik númer eitt í riðlakeppni í EM. Og núna bíður maður spenntur eftir að Wales leggi England að velli. Sá leikur er næsti leikur þeirra liða. Liðið frá Wales var mjög skemmtilegt í gær. Mér fannst þeir bæði vera flinkir og duglegir. Þeir tveir eiginleikar haldast nú ekki oft í hendur. Ef ég héldi ekki með Spánverjum eða Þjóðverjum (eða jafnvel Íslendingum – maður tekur þá ákvörðun ekki fyrr en á þriðjudag), þá héldi ég með Wales. Það verður einhver að gera það.

11. júní 2016

Óbeina lýsingin heldur áfram. Að vísu eru leikir dagsins ekki byrjaðir; þeir voru það að minnsta kosti ekki þegar ég kveikti á sjónvarpstækinu klukkan hálfníu í morgun. Ég hef ekki hugmynd hverjir spila í dag, fyrir utan leikinn í kvöld, sem er milli Englendinga og Rússa. En ég hef tekið eftir einu – svo ég stökkvi úr einu í annað – og það er þetta: Þegar fótboltamennirnir eru í viðtölum, þá virðast þeir hafa tilhneigingu til að horfa ekki í augu viðmælandans, eða spyrjandans, heldur út um víðan völl, ef svo má að orði komast. Og líklega er það nokkuð heppilega orðað hjá mér, því það má alveg ímynda sér að á meðan los fútbolistas tala við fjölmiðlafólkið, þá séu þeir að fylgjast með stöðunni í kringum sig; alltaf á varðbergi; stöðugt með hugann við að á hverju augnabliki geti verið von á bolta úr einhverri áttinni. Mér finnst þetta frekar áberandi. Þeir (fótboltamennirnir) horfa kannski í augu spyrjandans þegar spurningin kemur; en svo fara þeir að skima eitthvað annað; og í lok svarsins hafa þeir jafnvel snúið sér alveg við, og þurfa því að fara aftur í upprunalega stöðu þegar næsta spurning kemur. Ég verð ekki svo mikið var við þetta þegar stjórnmálamenn eða rithöfundar koma í viðtöl. En þá er ég kannski með hugann við eitthvað annað. Þegar ég hlusta – eða horfi öllu heldur – á viðtölin við fótboltamennina, þá er ég bara að hugsa um það, ekkert annað. Ég tók líka eftir öðru, þegar ég fylgdist með útsendingunni frá EM-stofunni í Gamla bíói í gærkvöldi: það rigndi ofan í sófann á svölunum. Eflaust er þetta sófi sem þolir vel bleytu; en ég fór bara að velta því fyrir mér hvort hann nái að þorna fyrir næstu útsendingu, sem væntanlega er einhvern tíma í dag. Því sófinn hlýtur að vera þarna til þess að einhver setjist í hann. Og varla getur það verið freistandi að setjast í blautan sófa. (Ég áskil mér rétt til að vera með aukafærslu í dag. Ekki það að ég þurfi að biðja um leyfi, en samt.)

10. júní 2016

Franska skáldsagan heldur áfram: mamma hringdi aftur frá Tenerife í dag. („Móðir hringdi frá Tenerife í dag.“) Nýjustu upplýsingar eru þær að það hefðu ekki beinlínis verið tjallar sem opnuðu gáttir Helvítis á hótelinu í gær; það voru Skotar. En eru ekki Skotar tjallar? Nei. Það eru Englendingar sem eru tjallar. En það voru samt læti í Skotunum; ég heyrði í þeim í gegnum símann í gær. Evrópukeppnin fór heldur betur vel af stað í dag. Auðvitað vonar maður alltaf að „ólíklegri“ þjóðin vinni leikinn – og keppnina – en markið á 89. mínútu var svo fallegt að allar væntingar aðrar en þær að fá falleg mörk gufuðu upp. Maður gufar upp sjálfur við að horfa á svona mark. Ég hélt ég hefði nýtt mína peninga illa með því að borga 6 þúsund og níu hundruð krónur í áskrift að „áhorfinu“, en ég er strax kominn út í gróða. Ég get ekki beðið eftir að fá að sjá Iniesta, hvenær sem það verður. (Ég sá hann á auglýsingaplakati í Barcelona um daginn.) Og íslenska landsliðið. Ég get bara almennt ekki beðið. Ég er að hugsa um að vera með óbeina lýsingu frá keppninni í Frakklandi. Enda er ég ekki staddur í Frakklandi; það eru bara systkini mín sem eru stödd þar (bróðir og systir). En „Mamma hringdi aftur í dag.“ (Franska skáldsagan heldur áfram.)

 

9. júní 2016

Móðir mín hringdi í mig áðan. (Hljómar eins og upphaf franskrar skáldsögu.) Hún er á Tenerife, og verður þar, ásamt systur sinni og bróður, þangað til á laugardag. Það var kominn hópur af tjöllum á hótelið. Mér fannst eins og hún væri að hringja í mig til að segja mér frá því. Allavega var friðurinn úti á hótelinu, sagði hún mér. Ég heyrði vel í tjöllunum gegnum símann. Mamma spurði hvort ég heyrði ekki í þeim – og hvort ég gerði! Hún lýsti þessum mönnum fyrir mér; þeir væru með mikla vöðva – og maga. Og borðið hjá þeim væri þakið bjórdósum og flöskum. Mamma sat á svölunum hjá sér á meðan hún talaði við mig í símann; þær systurnar voru á fjórðu hæð; og tjallarnir, sem sátu við sundlaugina, voru beint fyrir neðan þær. Og það rifjaðist upp fyrir mér að í síðustu ferð mömmu til Tenerife, eða þarsíðustu, gerðist það sama: tjallarnir mættu á svæðið, og gáttir Helvítis opnuðust. Svo byrjar Evrópukeppnin á morgun. Er England annars í Evrópu?

8. júní 2016

Hálfur dagurinn liðinn, og ég er rétt að muna eftir því núna, klukkan 14:45, að útgáfufélagið Smekkleysa sm.ehf. er þrjátíu ára í dag. Til hamingju, Smekkleysa. Ég mundi eftir þessu fyrir viku, en framan af sjálfum afmælisdeginum var það gleymt. (Ég var að hugsa annað.) En hvað á maður að segja? Hér er fyrsta útgáfa Smekkleysu, póstkortið með myndinni eftir Frikka, í tilefni Höfðafundarins sögulega:

Unknown

Útgáfa númer tvö var fyrsta ljóðabókin mín, Dragsúgur. (Hana er að finna á Náttborði lemúrsins, meðal annarra „fyrstu útgáfa“, þótt ekki sé mynd af framhlið bókarinnar):

 

http://lemurinn.is/2015/01/11/islenzkar-ljodabaekur-fyrsta-utgafa/

 

Mér er mjög minnisstætt hvernig þessi bók varð til, það er að segja hluturinn sjálfur. (Og ekki síður er mér minnisstætt hvernig textinn í henni varð til, þótt ég muni auðvitað fæst af því, nema auðvitað textann sjálfan, sem ég man reyndar heldur ekki, væri ég beðinn um að fara með hann blaðlaust.) Við Einar Melax sátum kvöld eftir kvöld, í íbúð sem ég bjó í á þeim tíma, við Laugaveg 139, og undir stjórn Einars föndruðum við einhver 200 til 250 eintök; límdum þau saman og pressuðum yfir nótt undir sjónvarpstækinu mínu. Það er hægt að verða mjög nostalgískur við að rifja upp eitthvað svona. Þriðja útgáfa Smekkleysu var síðan fyrsta plata Sykurmolanna, einn mol´á mann, með lögunum Ammæli og Köttur, fjármögnuð (að minnsta kosti að hluta til) með ágóðanum af póstkortinu …

7. júní 2016

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur
(Skammidalur)

Þegar ég horfði á leik Íslendinga og Liechtenstein í gærkvöldi varð ég var við að orðið færsla var talsvert notað til að lýsa hreyfingum og stöðu leikmanna á vellinum. Ef ég skildi – eða heyrði – það rétt. Ég hef reyndar heyrt þetta orð notað áður í fótboltamáli, en það vakti sérstaka athygli mína núna vegna þess að ég hef sjálfur notað orðið í tengslum við eigin skrif, og þá aðallega skáldsöguna Fjarveran. Sú bók beinlínis fjallar um „færsluna“ á persónum hennar – og auðvitað fjarveru þeirra á sviðinu. Auðvitað er það galið (eins og ég hef ábyggilega talað um hér áður) að höfundur sé að lýsa því um hvað bókin hans er – það er ekki í hans verkahring – en mér fannst á einhvern hátt fremur saklaust að orða það með sjálfum mér (og frá og með núna í texta aðgengilegum öðrum) að skáldsagan Fjarveran, sem kom út árið 2012, fjalli öðru fremur um „færsluna“ á persónunum; um það hvernig þær færast úr einum stað í annan, og hvaða áhrif það hefur á hinar persónurnar að sú persóna sem lýst er hverju sinni skuli færa sig á þennan hátt eða hinn. Einhver sagði einhvern tíma um einhvern að hann hefði „þægilega fjarveru“. Ég stóðst þá freistingu að nota þau orð í bókinni Fjarveran; og eftir á að hyggja hefðu þau ekki átt heima þar. En núna er Evrópukeppnin í fótbolta framundan. Og ég hef ekki enn tekið ákvörðun um hvort ég fylgist með henni í sjónvarpinu eða ekki; hvort ég fylgist með færslu leikmanna í þeirri keppni. Einu sinni var ég beðinn um að spjalla um fótbolta í sjónvarpi – það var Þorsteinn Joð sem bað mig (mig af öllum mönnum; ég veit ekki af hverju; jú, það var vegna þess að ég var að skrifa niður orð og orðatiltæki í lýsingum á keppninni, og einhverra hluta vegna frétti Þorsteinn af því) – og þá, þegar ég mætti í þáttinn til hans, bjó ég óvart til hugtakið ambient-fótbolti (að gefnu tilefni reyndar, því í einhverjum leiknum í yfirstandandi keppni var leikinn fótbolti sem leit einmitt þannig út: ambient-fólbolti). Núna dettur mér í hug að gaman væri að sjá fótboltaleik þar sem engin færsla leikmanna ætti sér stað; að þeir væru í raun allir – allir 22 mennirnir á vellinum – fjarverandi. Ég gæti vel hugsað mér að horfa á svoleiðis leik.

6. júní 2016

Það er alltaf verið að hringja í mig frá ADHD-samtökunum. Núna síðast fyrir nokkrum dögum. Það var verið að biðja mig um fjárstyrk. Reyndar hefur ekkert verið hringt frá því þeir hringdu um daginn, þannig að ef til vill er ósanngjarnt af mér að „það sé alltaf verið að hringja“. En þá eru það bara einhverjir aðrir sem hringja. Síðast var það eitthvert fyrirtæki sem mér heyrðist að væri kallað Vís. Það var ekki Vísa, ég hefði áttað mig á því. En maðurinn sem hringdi (reyndar hljómaði hann svo ungur að réttara væri að tala um „dreng“), hann spurði hvort þeir mættu ekki kíkja í heimsókn til mín og kynna fyrir mér eitthvað sem væri mun betra en það sem ég hefði nú þegar … Um leið og ég rifja þetta upp, þá sé ég hálfpartinn eftir að hafa afþakkað „tilboðið“ jafnfljótt og ég gerði; ég hefði átt að leyfa „drengnum“ að tala aðeins lengur – þá hefði ég kannski komist að því hvað það var sem hann vildi bjóða mér. En það er of seint núna. Ég er ekki með þannig númerabirti eða -minni í símanum að ég geti flett upp númerum aftur í tímann. „Aftur í símann“. En talandi um heimsóknir, þá fékk ég heimsókn í morgun. Góður vinur minn rak inn nefið. (Og í kjölfar nefsins kom allur líkami hans inn, ef svo má að orði komast.) Hann staldraði ekki lengi við (hann gerir það aldrei á virkum dögum; hann veit að ég þarf að vinna – hann þarf sömuleiðis að vinna); en við náðum samt að fara yfir hin og þessi mál, og minnast á einhverjar bækur, jafnvel bíómyndir. (Við þögðum alveg um forsetakosningarnar. Og líka um Evrópukeppnina í fótbolta.) Það sem mér er þó minnisstæðast úr samtali okkar er orðið menja. Við vorum að virða fyrir okkur hús við Tjarnargötuna, þar sem verið er að undirbúa opnun safns í nafni Júlíönu Sveinsdóttur – húsið blasir við út um gluggann hjá mér – og við töluðum um litinn sem verið er að mála húsið með; það er fallegur grænn litur sem fellur vel inn í umhverfið, þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað liturinn er kallaður (annað en grænn). Almennt er ég ekki hrifinn af grænum lit, en þessi græni finnst mér fallegur – enda kann ég ekki nafnið á honum. „En liturinn sem þeir settu á fyrst, áður en þeir byrjuðu að mála með þessum græna – það er menja,“ sagði vinur minn. Og um leið og hann sagði orðið menja fór ég í huganum aftur um sirka 35 ár, í gamla Daníelsslipp við Mýrargötu, þar sem ég var sumarstarfsmaður eitt eða tvö sumur. Þar var ég alltaf að bera menju á skipabotnana. Menja er ryðvörn. En sú menja, sem notuð var í Daníelsslipp fyrir 35 árum, var öðruvísi á litinn en menjan sem þeir notuðu á húsið við Tjarnargötuna núna um daginn. Kannski er ástæðan fyrir því sú að húsinu er ekki ætlað að vera undir yfirborði sjávar. En núna (þegar ég skrifa þetta) koma fleiri minningar upp í hugann frá Daníelsslipp. Ég finn lyktina af tólgnum sem við þurftum að bera á teinana. Það var svakaleg lykt. Mér verður bumbult þegar ég hugsa um hana. Og ég man líka eftir að um svipað leyti og ég vann í Daníelsslipp – gott ef það var ekki bara sama sumarið (sem kannski voru tvö) – keypti ég plötuna Homecoming – Live at The Village Vanguard með saxófónleikaranum Dexter Gordon. Og á þeirri plötu var tónsmíð eftir sjálfan Dexter Gordon sem kallaðist Fenja. Hvernig Dexter kynnti lagið á upptökunni er mér mjög minnisstætt; hann hafði svo djúpa rödd. Fenja er held ég örugglega nafnið á eiginkonu Dexters. Auðvitað ætti ég að nota tækifærið núna og leiða talið að jazzútgáfufyrirtækinu Enja, en ég ætla að standast þá freistingu. Ég læt þetta gott heita í bili. Fyrir utan að fletta upp á youtube og athuga hvort þar sé ekki Fenja með Dexter Gordon. Það er ekki. En þarna er upptaka frá því í fyrra, með kvintett einhvers Daniels Matthews; og þeir eru að spila Fenja eftir Dexter Gordon, til heiðurs höfundinum. Þetta er ekki eins flott og á Homecoming-plötunni, en samt:

 

2. júní 2016

Ég hef verið að lesa í bók sem nefnist Vor unga stétt – Verzlunarskóli Íslands í 100 ár. Auðvitað ber mér að útskýra slíkt val á lestrarefni, en ég ætla ekki að gera það. Ég var reyndar sjálfur í þessum skóla (þess vegna á ég bókina), og lauk þaðan svokölluðu „verslunarprófi“, með frekar lágri einkunn, aðallega í bókfærslu og hagfræði. Ég lærði annars að vélrita í Verzlunarskólanum – það er að segja almennilega; það nám hófst í Hagaskóla – og að lesa ljóð eftir Þorstein frá Hamri. Svo lærði ég að skrifa verslunarbréf á íslensku og ensku. Ég mun alltaf búa að þeirri dýrmætu reynslu, að hafa lært að skrifa verslunarbréf; og núna í augnablikinu (þessa dagana) er ég óbeint að nýta mér þann lærdóm, verslunarbréfið, í bók sem ég er að skrifa. Annars er 100 ára saga V.Í. mjög svo áhugaverð bók, og vel unnin, með ansi ríkulegu myndefni. Mig langar til að vitna svolítið í hana – í gamni (það er alls ekki illa meint). Í bókinni er sérstakur dálkur sem nefnist „Ég valdi Verzló …“ (vegna þess osfrv.). Björgólfur Guðmundsson athafnamaður (sem var góður vinur, og skólabróðir, föður míns heitins), er einn af þeim sem var beðinn um að fylla út í þennan dálk. Hann útskýrir val sitt á Verzló meðal annars með eftirfarandi orðum: „… vegna þess að hugur minn stóð til viðskipta og atvinnureksturs, og hef ég verið aðili að stofnun og stjórnun ýmissa fyrirtækja.“ Um það bil þrjátíu árum síðar er sonur Björgólfs, Björgólfur Thor, fjárfestir, beðinn um að svara sömu spurningu; og það verður að segjast eins og er að svar hans er helvíti fínt. Hér er innan úr því: „… ég þekkti fullt af fólki sem hafði verið í Verzló, bæði ættingja og eldri systkini vina minna, og þau lofuðu skólann mjög mikið. Svo var hann einnig annálaður fyrir að vera með skemmtilegasta félagslífið, mesta djammið og sætustu stelpurnar og auðvitað hafði það mikið að segja. Í gegnum Verzló lærði ég eiginlega bara fyrir skyndiprófin.“ Þótt mín, „kaflahöfundar“, sé getið í þessari fínu bók, Vor unga stétt (það er vitnað í texta – agalegan texta – sem ég skrifaði í skólablaðið), þá var ég (því miður, verð ég að segja) ekki beðinn um að tjá mig um ástæður þess að ég valdi Verzló á sínum tíma. En ef ég man rétt, þá gerði ég það vegna þess að mér var illa við MR. Ég fann reyndar fljótlega eftir að ég hóf mitt „verzlunarnám“ að ég ætti ekki langa framtíð fyrir höndum í „faginu“. Ég entist þó í heil tvö ár, og náði verslunarprófinu, þvert á eigin væntingar – og þrátt fyrir að ég sofnaði í hagfræðiprófinu. Svo flutti ég mig yfir í MH. Og ég komst upp úr þeim skóla líka, þrátt fyrir að falla tvisvar á sama stærðfræðiprófinu – fékk einkunina E. Það hafðist þó í þriðju tilraun – þá fékk ég A – en bara vegna þess að Megas gaf mér svolítið kver til að styðjast við, Stærðfræðileg formúluljóð. (Heitir hún það ekki annars, litla bókin? Ég finn hana aldrei þegar á þarf að halda.)

1. júní 2016

Það gerðist næstum því í morgun að ég næði að taka ákvörðun varðandi óbirtar spurningar blaðakonunnar um daginn (sem ég ætla ekki að gera til geðs að þessu sinni að nefna á nafn; hún vakti mig nefnilega eldsnemma í morgun – fyrir mistök – hún hafði ætlað sér að hringja í aðra manneskju); en svo mundi ég eftir að hafa ákveðið að minnast á þá staðreynd (sem mér finnst einmitt í augnablikinu vera óskaplega „mikil staðreynd“, einkum ef hafður er í huga árafjöldinn sem liðinn er frá því að uppspretta staðreyndarinnar varð til) að útgáfufyrirtækið Smekkleysa mun fagna 30 ára afmæli eftir viku. Þann 8. júní nk. „Staðreyndin“ vekur upp í huganum alls kyns hrif og kenndir, ef mér leyfist að orða það svo. En ég verð að bíða aðeins með að gera mér þetta að „fréttaefni“; ég hef nefnilega öðrum hnöppum að hneppa í augnablikinu (enn og aftur) – ég hef bara ekki tíma. Enda er líka vika þangað til að Smekkleysa verður 30. Það er nægur tími. (Við hittumst fyrir viku, við eigendur fyrirtækisins, og það var tekin endanleg ákvörðun um að „prenta“ stuttermaskyrtur til að selja ferðamönnum í Smekkleysubúðinni í sumar. Ferðamenn kaupa nefnilega ekkert annað en boli – og hugsanlega lundalíkneski og lundabangsa. Þeir koma inn í Smekkleysubúðina við Laugaveg, og dást að því hversu frábært sé að svona lítil og sæt plötubúð skuli þrífast við aðalverslunargötuna í bænum; en þeir kaupa engar plötur eða geisladiska. Bara boli. Þeir fá tónlistina á netinu. Og þess vegna er þetta fín hugmynd að „prenta“ handa þeim boli. Hingað til hafa þeir bara getað keypt einhverja aðra boli en Smekkleysuboli; en frá og með næstu dögum munu þeir geta keypt sér Smekkleysuboli. Bolirnir verða í mismunandi litum, með nafni Smekkleysu á íslensku og ensku, held ég, og með nafni borgarinnar á bakhliðinni, til að ferðamennirnir geti „sannað“ fyrir vinum sínum og vandamönnum þegar þeir snúa aftur heim að þeir hafi verið í Reykjavík, og komið við í lítilli plötubúð.)

31. maí 2016

Ég veit um mann sem er prógrammeraður til að skilja ekki peningamál. Eflaust má segja sem svo (eins og oft er sagt þegar rök skortir til að skýra út hlutina) að of flókið sé að útskýra nákvæmlega hvað átt er við með orðinu prógrammeraður; og það verður að duga í bili: hér er ekki pláss til að fara út í svo langa (og flókna) sálma. En hver var það sem prógrammeraði hinn prógrammeraða? Var það einhver nákominn hinum síðarnefnda, eða jafnvel kennari í skóla eða einhver annar utanaðkomandi uppeldisaðili? Er prógrammeringin jafnvel að hluta til á ábyrgð þess sem var prógrammeraður? Getur hugsast að hún sé hluti af einhverju stærra skema? Og – sem er kannski mikilvægari spurning – fékk fórnarlamb hennar eitthvað í staðinn fyrir að skilja ekki peningamál? Ég geri mér grein fyrir að spurningarnar sem þetta vekur eru óteljandi, en geri mér líka grein fyrir að til einskis er að velta þeim fyrir sér. Þegar hringt var í þennan prógrammeraða einstakling ekki alls fyrir löngu, frá bankanum (þeim banka sem hann vissi mætavel sjálfur að var hans eigin viðskiptabanki); og honum boðin ákveðin þjónusta, eða veittar upplýsingar um kjör sem hann myndi njóta að uppfylltum vissum skilyrðum (skiljanlega), þá rétti hann eiginkonu sinni símtólið, en lét þó manneskjuna í símanum (sem var líka kona) fyrst vita að það yrði eiginkona hans sem „tæki símtalið“, eins og hann orðaði það. Eftir á hugsaði hann með sjálfum sér: Er það þetta sem ég fæ í staðinn fyrir að hafa verið prógrammeraður til að skilja ekki peningamálin: að losna við svona símtöl? Er það góður díll? (Og nú verður mér ósjálfrátt hugsað til spurningar Halldórs Laxness varðandi forsetastarfið.) Þegar eiginkona hins prógrammeraða hafði tekið við símanum úr hendi hans liðu hátt í tíu mínútur þar til símtalinu lauk. Sem þýddi að hann gat notað þær tíu mínútur í annað; hann notaði þær til að panta sér bók á netinu: bók sem hann hafði verið að hugsa um í nokkurn tíma. Samkvæmt meldingu sem hann fékk til baka frá söluaðila bókarinnar myndi hún berast til landsins innan sjö til tíu daga. En auðvitað tekur engar tíu mínútur að panta sér bók á netinu, sérstaklega ekki fyrir mann sem er öllu hnútum kunnugur í því ferli; og á meðan hann beið eftir að eiginkona sín kláraði símtalið við konuna í bankanum gluggaði hann í aðra bók sem hann hafði áður pantað sér á netinu, en ekki ennþá lesið. Sú bók fjallaði einmitt um peningamál. Að vísu ekki á praktískan hátt; þetta var ekki leiðarvísir eða sjálfshjálparbók. Þetta var skáldsaga. Og hann ákvað að lesa hana – og helst klára hana – áður en hann fengi nýju bókina sem hann var rétt í þessu að panta. Og í framhaldi af þeirri ákvörðun hugsaði hann eitthvað á þá leið að ef til vill hefði hann sinn persónulega skilning á peningamálum. Hefði honum annars dottið í hug að hann þyrfti að nýta sér „innihald“ síðustu pöntunar sinnar áður en hann fengi þá nýju í hendurnar?

30. maí 2016

Unknown-1

Ég breytti nafninu á síðunni fyrr í dag, með hjálp Sigurjóns bróður. Það var ekki fyrr en núna rétt áðan (um áttaleytið) sem ég mundi eftir að hafa gert það. Núna kallast síðan Kafli á dag (eða sjaldnar), eins og hún gerði upphaflega – nema að þá var undirtitillinn nema á hvíldardögum (sem var ekki við hæfi; mér fannst það aldrei gera sig). Í millitíðinni kallaðist vefurinn Kafli á viku (eða annan hvern dag). En ég fékk leið á þeirri yfirskrift. Það er ekki nema til þess að leggja einhvers konar grunn undir nýju yfirskriftina sem ég birti þessa færslu núna (þótt undirskrift hennar gefi auðvitað til kynna að mér leyfist að gera undantekningar). Svo er ekki meira með það.

29. maí 2016 (aukafærsla)

Ef ég hefði ekki á tilfinningunni að opinber stuðningur minn við framboð Andra Snæs myndi koma honum illa, væri ég fyrir löngu búinn að styðja hann opinberlega. Í mínum augum er hann eini maðurinn (og eina konan, ef því er að skipta) – ekki síst eftir „spjall“ í Eyjuþættinum á Stöð tvö í dag – sem myndi fúnkera sem fulltrúi þjóðarinnar á hinum fáránlega stað, Bessastöðum. (En talandi um þennan sjónvarpsþátt í dag. Mér er frekar illa við að þakka mér sjálfum fyrir eitthvað opinberlega – og nú skynja ég að eitt stórt og merkingarþrungið EN sé í uppsiglingu … – en ég get samt ekki nógsamlega þakkað mér fyrir að hafa tekið þá ákvörðun fyrir sirka sjö árum að hafa ekki samskipti við Morgunblaðið, á meðan núverandi ritstjóri stjórnaði blaðinu. Og að hafa haldið mig við þá ákvörðun. Hvernig datt annars fólki í hug að það væri nóg að segja upp áskriftinni?) En aftur að Andra Snæ: af hverju í ósköpunum má maðurinn ekki nota hendurnar til að leggja áherslu á það sem kemur út úr munninum? Eiga ekki einmitt hendurnar og orðin að vinna saman?

29. maí 2016

Ég var að lesa grein eftir enska rithöfundinn Adam Thirlwell um fjórar nýlegar bækur; tvær sem með ólíkum hætti fjalla um svokallaðar heimsbókmenntir, og aðrar tvær, skáldsögur, eftir perúanska höfundinn Mario Bellatín. Í þessari grein er að finna eftirfarandi orð frá Clarice Lispector, sem vitnað er til í tengslum við veruleikasýn og skáldskaparaðferð Marios Bellatín: Það sem kallað er óhlutbundið er svo oft í mínum augum tákn fyrir viðkvæmari og erfiðari veruleika. Eða kannski er réttara að snara þessu svona: Það sem kallað er abstraksjón virkar svo oft á mig sem tákn fyrir fínofnari og flóknari veruleika …? Hvort sem er, þá er erfitt að hverfa ekki inn í heim þessara orða, eða festast ekki í vef þeirra.

27. maí 2016

Enn ligg ég undir feldi vegna þeirrar ákvörðunartöku sem ég stend frammi fyrir, um hvort ég eigi að svara restinni af spurningunum sem ég minntist á hér fyrir ofan – eða neðan (eins og það kemur út á síðunni). Sem stendur hef ég ekki tíma til að sinna þessu; ég hef öðrum hnöppum að hneppa, eins og sagt er. Er þá ekki það besta í stöðunni að setja smá músík „á fóninn“? Ég fór á tónleika í fyrradag, og heyrði þar (og sá í fyrsta sinn) fluttan píanókonsert Ravels (fyrir báður hendur, ekki bara þá vinstri); og auðvitað ætti ég að velja þá músík til að hafa hér. En um leið og ég nefni það, þá er ekkert auðveldara en að fara bara beint á youtube og finna þennan dásamlega konsert. Hér er aftur á móti gömul upptaka með Camarón de la Isla og móður hans: