25. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á meðan ég var erlendis um daginn – það var held ég á þriðjudaginn var, fyrir rétt rúmri viku – fékk ég þá hugmynd að leita uppi áðurnefnda, eða títtnefnda, Rósu Sæberg, blaðakonuna sem hefur verið að hringja í mig undanfarið. Mig langaði til að deila með henni hugmynd sem mér datt í hug að myndi vekja áhuga hennar, í ljósi viðleitni hennar til að fjalla um bókina mína – eða hvað það var sem annars vakti fyrir henni. Ef til vill var þessi hugmynd mín í hégómlegri kantinum, en með það í huga að svo kynni að vera sagði ég við sjálfan mig: Hvers vegna alltaf að vera að velta slíku fyrir sér? Má maður ekki vera hégómlegur stundum? Til að gera langa sögu stutta (sem ég tek þó fram að ég lít ekki á sem dyggð – langt í frá – að gera langa sögu stutta), þá langaði mig einfaldlega til að heyra sjálfan mig, eða sjá, svara nokkrum spurningum sem mig hefur gjarnan langað til að ég yrði spurður. Og þess vegna datt mér í hug að fara þess á leit við Rósu Sæberg – ef ég næði í hana (sem ég síðan gerði) – að hún sendi mér nokkrar spurningar varðandi smásagnasafnið mitt, og mig persónulega; og ég myndi annað hvort svara þeim spurningum í pósti, nú eða spjalla við Rósu í síma. Ég tók sérstaklega fram við hana að „auga fyrir auga“ væri ekki valkostur. Not an option, eins og ég orðaði það þegar Rósa sagðist ekki skilja hvað ég ætti við með orðinu valkostur. Það kom mér síðan ekki á óvart hversu vel hún tók í þessa sérkennilegu hugmynd mína (sé hún á annað borð sérkennileg). Ekki heldur að Rósa virtist hreint ekki muna eftir mér frá því um daginn. Það var ekki fyrr en ég spurði hana um vinkonu hennar Lindu; hvort hún, Linda, væri enn að furða sig á að ég myndi ekki eftir henni frá því í skólaafmælinu (the reunion, eins og ég þurfti að ítreka til að Rósa áttaði sig á hvað ég meinti), að myndin af mér (eða hugmyndin um mig) skýrðist í höfði Rósu. „En hvers konar spurningar hafðirðu í huga?“ spurði hún; og ég lagði til að hún byggði á þeim spurningum sem hún hafði ætlað sér að leggja fyrir mig í „fyrra“ viðtalinu, því sem hún hugðist taka fyrir nokkrum vikum, og sem á einhvern furðulegan hátt liðaðist í sundur eins og skýhnoðrar í hádegissólinni. Og ég stakk upp á því að best væri að „stjórna“ viðtalinu (conduct the interview) í gegnum tölvupóst; það myndi spara okkur báðum yfirlestur og leiðréttingar. Rósa virtist ekki almennilega átta sig á hvað ég meinti með því. Hún spurði mig hvar þetta viðtal myndi birtast. „Mér datt í hug að birta þetta á heimasíðunni minni,“ svaraði ég, en sú hugmynd virtist ekki vekja mikinn áhuga Rósu; hún afsakaði sig, og ég heyrði gegnum símann að hún fékk sér sopa af einhverju – það tók hana reyndar heillangan tíma, undarlega mikinn – og síðan sagðist hún myndu senda mér spurningarnar „fljótlega“, og kvaddi mig (á meðan hún fékk sér annan sopa af því sem hún var að drekka). En svo sannarlega stóð hún við það sem hún lofaði, því spurningarnar komu í tölvupóstinum tveimur klukkustundum síðar. (Þá var klukkan hjá Rósu – á Íslandi, það er að segja – það sama og hún var hjá mér þegar ég talaði við hana í símanum, vegna þess að í landinu sem ég var staddur í er klukkan tveimur tímum á undan klukkunni á Íslandi, að minnsta kosti á þessum árstíma.) En hér kemur viðtalið – það er óþarfi að orðlengja þetta frekar. Það má reyndar vera að sumar spurningar Rósu séu lítið eitt „endurhannaðar“ eða breyttar af minni hálfu; þær voru satt að segja nokkuð misvel orðaðar þegar ég fékk þær í hendurnar. Auk þess voru nokkrar þeirra á einhvern hátt svo skringilegar að mér finnst núna að ég þurfi að gefa mér meiri tíma til að íhuga hvort ég leyfi þeim yfirhöfuð að þvinga mig til svars.

 

NÚ GAFST ÞÚ ÚT BÓK UM DAGINN. GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI?

Jú, ég gaf út smásagnaúrval fyrir nokkrum vikum.

 

GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI? Nei, það gerir það nú yfirleitt ekki, nema að bókin seljist í nokkrum þúsundum eintaka, sem mér finnst ólíklegt að mín bók muni gera.

 

GETURÐU SAGT MÉR EITTHVAÐ UM ÞESSA NÝJU BÓK?

Hún kallast Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, og er úrval sagna úr þremur smásagnasöfnum mínum, auk tveggja sagna úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft.

 

ERTU RÓMANTÍSKUR? [Ég verð að játa að þessi spurning kom mér svolítið á óvart, í ljósi þess að ómögulegt var að Rósa vissi hvert svar mitt yrði við spurningunni á undan. En það má segja að hún hafi komið mér þægilega á óvart. – innsk. Br.]

Já. En mér er alveg fyrirmunað að sýna það.

 

AÐ ÞÚ SÉRT RÓMANTÍSKUR? [Aftur kom hún mér á óvart. – innsk. Br.]

Já.

 

EF ÞÚ MYNDIR KJÓSA Í FORSETAKOSNINGUNUM Í JÚNÍ, HVAÐA FRAMBJÓÐANDA MYNDIRÐU ÞÁ KJÓSA?

Ef ég myndi kjósa? Ég myndi kjósa Andra Snæ Magnason. Ég sé engan annan ferskan einstakling í boði – eða ferskari en Andra, það er að segja – sem gæti hugsanlega ýtt hinu íhaldssama Íslandi fram á við, og veitt viðspyrnu þeim afturhalds- og niðurrifsöflum sem núverandi stjórnarflokkar eru fulltrúar fyrir. Hvað varðar fylgjendur ritstjóra Morgunblaðsins í þessari keppni, þá á ég erfitt með að sjá það fólk sem annað en brjálæðinga. Annars fyndist mér forvitnilegt að vita hversu margir ætla sér að kjósa Guðna Th. fyrir þá ástæðu eina að þeir telja ekki að Andri Snær eigi möguleika. Þótt ritstjóri Morgunblaðsins myndi mælast með jafnmikið fylgi og Guðni Th. í síðustu skoðanakönnuninni fyrir kosningar, og Andri Snær með nánast ekkert, ætla ég samt að kjósa Andra. Maður á að kjósa þá manneskju sem maður heldur að sé besti kosturinn. Guðni Th. er fínn, en Andri yrði að mínu mati besti forsetinn. Það hefur ekkert með bækur hans að gera; ég þekki þær ekki svo vel. En þú, Rósa? Hvernig horfir þetta við þér? [Veit svo sem vel að spurningin er út í hött – það er ekki Rósa sem er í viðtali – en ég er þó einlæglega forvitinn að vita svarið. – innsk. Br.]

 

ÉG MAN AÐ VINKONA MÍN, LINDA GYLFADÓTTIR, SAGÐI MÉR AÐ ÞÚ HEFÐIR EINU SINNI VERIÐ Í HLJÓMSVEIT. NÚ MAN ÉG EKKI HVAÐ SÚ HLJÓMSVEIT HÉT, EN HLUSTARÐU MIKIÐ Á TÓNLIST, OG HVAÐ ER HELST Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR?

Jú, ég var einu sinni í hljómsveit, meira að segja oftar en einu sinni. (Það kemur mér svolítið á óvart að þú munir ekki hvað „sú hljómsveit“ heitir – eða hét.) Og ég hlusta mikið á tónlist. En er það virkilega þetta sem þú vilt ræða, Rósa? Ég myndi heldur kjósa að fá spurningar um bókina sem ég var að gefa út, og þess vegna líka spurningar um aðra nýja bók: Neyðarútgang, þýðingar á ljóðum pólska skáldsins Ewu Lipsku, sem var að koma út hjá bókaforlaginu Dimmu. Ég þýddi þar nokkur ljóð, með aðstoð Olgu Holowniu, sem sá um útgáfuna og þýddi flest ljóðanna. Hinir þýðendurnir eru Áslaug Agnarsdóttir, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Ég verð að mæla alveg sérstaklega með þessu ljóðasafni. Ewa hefur alveg hreint einstaka rödd sem skáld, og býr til alveg nýtt samhengi úr hlutum og orðum. Annars veit ég (og núna er ég að tala við þig, Rósa) að Óskar Árni veit hver þú ert. Og mér fyndist gaman að láta fylgja það sem hann sagði mér um þig – sem er býsna áhugavert – en eins og ég var búinn að nefna, þá snýst þetta viðtal ekki um þína persónu. Hvað varðar tónlistina í spurningu þinni, þá keypti ég mér um daginn nýjustu plötu hins kanadíska Rufusar Wainwright, Take all my loves, með lögum hans við nokkrar af sonnettum Shakespeares. Og ég hef verið að hlusta á hana frekar mikið. Dásamleg plata, eins og flest sem Rufus gefur út. Fljótt á litið er þetta fullkomlega ómöguleg blanda tónlistar – það ægir í raun öllu saman; „þægilegu“ poppi, þýskri sönglagamúsík, mahlerískum ljóðasöng, hörðu rokki og leikrænum ljóðalestri, bæði á ensku og þýsku, og eflaust má segja að þetta sé allt eitt óyfirstíganlegt fjall af kitsi – en það sem fær plötuna til að ganga upp sem heild, og það sem gerir manni kleift að hlusta á hana út í gegn er hinn óendanlega sjarmerandi karakter Rufusar sjálfs, bæði sem lagahöfundar og söngvara. Fyrir nokkrum árum hefði mér fundist óhugsandi að ég gæti hlustað á eitthvað sem hægt væri að flokka sem óperupopp, en þegar Rufus er annars vegar, þá er allt mögulegt, svo ég gerist dramatískur. Fyrir utan þetta hef ég verið að hlusta mikið á flamenco (El Camarón og Carmen Linares, til dæmis) og spænskar „coplas“ með Juanito Valderrama og Rocío Jurado. En hefur þú, Rósa, hlustað (eitthvað nýlega) á lagið December, 1963 (Oh, what a night) með Four Seasons? [Vitaskuld fæ ég ekki svar við þeirri spurningu, en ég stenst samt ekki freistinguna að spyrja. Rósa getur í það minnsta rætt þetta við Lindu, vinkonu sína; ég þykist vita að Linda þekki lagið með Four Seasons – sé á annað borð rétt að hún þekki gamla skólasystur mína. Allir í skólanum okkar þekktu þetta lag, og flestir hafa væntanlega dansað við það, meira að segja ég. – innsk. Br.]

 

ERTU MEÐ EITTHVAÐ Á PRJÓNUNUM Í AUGNABLIKINU?

Ég er að skrifa skáldsögu sem nefnist Staða pundsins. Hún fjallar um mæðgin (ekkju og son hennar); og sögutíminn er miður áttundi áratugur síðustu aldar. Það er kannski vitleysa að vera að láta uppi titla á bókum sem eru í vinnslu – á sama hátt og það er galið að vera að tjá sig um efni þeirra eða söguþráð – en mér fannst eins og þú, Rósa, ættir það inni hjá mér að ég nefndi þetta, hvað svo sem gerist með titilinn, hvort hann verður á vegi þínum í búðinni eða á safninu þegar þar að kemur – og hvort hann lifir bókina af. Ég er heldur ekki viss um að …

 

(Eins og ég nefndi hér á undan „spjalli“ okkar Rósu, voru nokkrar af spurningum hennar þess eðlis að ég hef ekki enn gert upp við mig hvort viðeigandi sé að svara þeim. Það verður að koma í ljós. Þar fyrir utan líður mér eitthvað einkennilega núna – það er einhver svimi eða eitthvað – og mér finnst ekki rétt, hvorki gagnvart lesendum né mér sjálfum, að vera að tjá sig í slíku ástandi.)

23. maí 2016

Neyðarútgangur. Ewa Lipska. Bókaforlagið Dimma hefur gefið út ljóðaúrval pólska skáldsins Ewu Lipsku á íslensku. Olga Holownia sá um útgáfuna, þýddi flest ljóðin og skrifaði eftirmála. Aðrir þýðendur eru Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Það hefur verið sérlega gaman að taka þátt í þessu verkefni undir stjórn Olgu, og ég finn mjög sterkt, nú þegar þessi fallega bók er komin út, hversu dýrmætt er að hafa hin einstöku ljóð Ewu svona samankomin. Ekkert okkar þýðendanna, fyrir utan Olgu, er læst á pólsku, en við höfum þýtt ljóðin úr ensku og spænsku, og eitthvað aðeins úr skandinavískum málum; og Olga hefur síðan borið þær þýðingar saman við frumtextann, og leiðrétt og lagað; og við síðan lesið yfir þýðingar Olgu á íslensku. Fleira fólk hefur komið að verkinu; Hildur Finnsdóttir hefur horft yfir öxl Olgu frá upphafi, og útgefandinn sjálfur, Aðalsteinn Ásberg, lesið yfir og unnið með okkur þýðendunum; og fleira fólk sem getið er um í fínum eftirmála Olgu. En ég ætla ekki að segja meira um þetta – ég hvet bara fólk til að kynna sér bókina. Ég stenst þó ekki þá freistingu að láta einar af mínum eftirlætislínum úr bókinni fylgja með; þær koma úr ljóðinu Enginn, og eru þýddar af Olgu:

 

Tómu herbergi

var komið fyrir í myrkri

íbúðarhússins.

16. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

VIÐSKIPTALÍFIÐ

 

„Ég nota alltaf fleiri og fleiri orð.“

 

Nú hafið þér gersamlega gengið fram af mér. Og ekki aðeins mér heldur öllum við borðið. Nú, og hvað á ég við með því, að þér hafið „gersamlega gengið fram af mér“? Ég gríp til þess orðalags í gríni fremur en alvöru. Klukkan er ekki orðin níu að morgni, það er þétt setið á kaffihúsinu; jafnvel með góðum vilja tækist ekki að koma fyrir fleiri en fimm eða sex gestum til viðbótar þeim sem þegar hafa fundið sér sæti við borðin hér inni. Þér gerðuð yður eflaust ekki grein fyrir því sjálfir – slíkur var asinn þegar þér genguð í átt til félaga yðar við borðið í norðausturhorni staðarins (þeirra sem höfðu svo fyrirhyggjusamlega tekið frá einn stól fyrir yður) – en þegar þér genguð framhjá borðinu mínu, og félaga minna, þar sem við höfðum setið á fundi í um það bil hálfa klukkustund, var eins og þér tækjuð eitt örstutt augnablik þátt í þeim fundi okkar. Og það var óþægileg tilfinning. Sem ég segi ekki í gríni, og heldur ekki alvöru; ég held þér skiljið alveg hvað ég á við. Það var þó ekki svo að umræðuefni okkar mætti ekki fréttast yfir á önnur borð – alls ekki. (Nú – geri ég ráð fyrir – er tímabært að taka aftur þá yfirlýsingu að þér hafið „gengið fram af mér“, eins og ég orðaði það, því nær væri að orða það svo að þér hafið gengið framhjá mér, eins og þér vissulega gerðuð.) Tilfinningin sem ég nefndi sem „óþægilega“ var óþægileg vegna þess að á þeirri stundu sem þér genguð framhjá okkur, félögum mínum og mér, langaði mig aðeins til eins, nefnilega til þess að vera á fundi með yður, og yður einum; mig langaði til þess að við værum tveir saman á fundi, en ekki með félögum mínum, og þaðan af síður með félögum yðar. Bara við tveir: þér og ég. Það yrði okkar fundur: yðar og minn. Viðskiptin sem við myndum ræða yrðu í engu samhengi við þau viðskipti sem hafa verið rædd á borði mínu og minna félaga frá því klukkan átta, né þau sem ég geri ráð fyrir að séu í augnablikinu rædd á borði yðar og yðar félaga – þau yrðu ekki í neinni harmony við það viðskiptalíf sem svo snemma vaknar á kaffihúsum borgarinnar. Nei, þau viðskipti sem við myndum ræða myndu eingöngu lúta að því sem að okkur tveimur sneri, yður og mér – mér og yður. Okkur tveimur. En „viðskiptalífið“? Ég segi viðskiptalífið, eins og til að afmarka þá hlið lífsins frá lífinu sjálfu, en auðvitað er viðskiptalífið samofið lífinu í heild; í raun er ekki rétt að nefna þetta tvennt sem aðskilda hluti: viðskiptalífið/lífið. Að skilja þessi „tvö líf“ að leyfi ég mér að fullyrða að líkist helst því að spyrja þann sem maður hefur lánað alla peningana sína: Og hvað skulda ég yður svo?

14. maí 2016

  1. maí síðastliðinn birti ég ljóð um framandi lönd. Það var ort í Noregi fyrir fimm árum, í pappírsbænum Moss. Sem sagt: á framandi slóðum. Ég veit að þetta hljómar sem formáli að því að ég ætli að birta enn eitt ljóðið, en það er ekki það sem ég hef í hyggju. Í dag hafði ég nefnilega hugsað mér að segja frá „nýju“ símtali við „blaðakonuna“ Rósu Sæberg (sem ég kalla blaðakonu innan gæsalappa, því ég hef engar áþreifanlegar sannanir fyrir því að hún sé blaðakona). Hún hringdi í mig í gær – aftur – þangað sem ég er staddur erlendis. Og ég veit satt að segja ekki hvað ég á að segja um það símtal. Ég held ég þurfi beinlínis meiri tíma til að „vinna úr“ því. Því mig grunar að hún, Rósa, hafi verið drukkin þegar hún hringdi – og ekki bara grunar: ég tel mig vita það með vissu. Hún sagðist vera í félagsskap vinkonu sinnar Lindu; þær væru á heimili þeirrar síðarnefndu; en það var þó ekki að heyra á Rósu að fótur væri fyrir því. Hún sagðist vilja láta mig tala við Lindu; að best væri að hún, Linda, spyrði mig út í „okkar gömlu kynni“ á skólaafmælinu; en þegar ég sagðist vera tilbúinn til þess, að tala við Lindu, þá var eins og kæmi eitthvert hik á Rósu; þá var eins og hún vildi ekki kannast við að hafa nefnt þetta (að við Linda ættum að tala saman). En allavega, þá verður „úrvinnsla“ þessa símtals að bíða eitthvað. (Þegar maður er erlendis, þá vill oft taka lengri tíma að vinna úr hlutunum: að grisja hið nothæfa úr öllu óþarfa áreitinu.) Mig langaði auk þess að láta færslu dagsins í dag „byggjast á“ tveimur gömlum textum sem ég gróf upp í tölvunni; og þar kemur tengingin við fyrstu orð færslunnar, því þessir gömlu textar koma nefnilega frá pappírsbænum Moss í Noregi, eða öllu heldur: þeir eru skrifaðir þar. 14. maí 2011, fyrir nákvæmlega fimm árum. Mér leiddist svo óskaplega í þeirri heimsókn minni til Noregs (ég var á einhvers konar bókmenntahátíð, mjög illa skipulagðri) að ég hlaut að setjast niður til að „pára“ eitthvað út í loftið, eins og ónefndur ísl. rithöfundur myndi orða það. Og mér sýnist á þessum Moss-textum mínum að helsta upplifunin í Moss (fyrir utan hinn svakalega fnyk sem barst frá pappírsverksmiðjunni og lagðist yfir miðbæinn) hafi verið í gegnum fjölmiðla. En nú má ég ekki vera að þessu lengur – ég þarf að hafa hraðan á, sbr. G. Benn; útlenska stórborgin bíður fyrir utan dyrnar; það má ekki láta áreitið fara til spillis. En hér eru „norsku“ textarnir (orðnir fimm ára gamlir):

PAVILJONGEN

 

Föstudagur, þrettándi maí. Sjálfsmorðsárás í Pakistan, minnst áttatíu látnir – ég sé það á sjónvarpsskjá á hóteli í Noregi. Þegar ég spyr í móttökunni hvar morgunverður sé framreiddur – hvort hann sé ekki örugglega innifalinn fyrir gesti bókmenntahátíðarinnar – fæ ég að vita að morgunverðurinn sé framreiddur í paviljongen. „Hvar er paviljongen?“ spyr ég. Í garðinum fyrir aftan hótelið, er mér sagt. En þegar ég kem út í garð og sé paviljongen – það fer ekkert á milli mála hvað starfsmaðurinn í móttökunni átti við með því orði – kveður við sprenging, og paviljongen er á sama augnabliki í ljósum logum. Minnst tuttugu látnir, jafnvel tuttugu og fimm. Aðallega ljóðskáld, flest mjög ung. Skipuleggjandi hátíðarinnar líka, og konan hans. Þegar ég sný aftur í móttökuna er kominn annar starfsmaður en var þar fyrir hálfri mínútu. „Lukkunnar pamfíll,“ segir hann við mig, og mér finnst sem snöggvast að hann brosi. En hvað á ég með að hafa skoðun á því – ég þekki þennan mann ekki. Ég kinka hins vegar til hans kolli og segist bara fá mér eitthvað úr minibarnum; minibarinn hljóti að vera öruggara umhverfi en paviljongen. „Alltaf léttur á því,“ segir þá starfsmaðurinn í móttökunni, eins og hann þekki mig.

Moss, Noregi, 14. maí 2011

 

 

VITNI

 

Búlgarskur maður sker höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun í Tenerife á Kanaríeyjum. Konan er bresk, og maðurinn hleypur með höfuðið út úr versluninni. Þetta gerðist í gær, þrettánda maí, þegar minnst áttatíu manns létust í sjálfsmorðsárás í Pakistan, en í mesta lagi tuttugu og fimm við morgunverðarborðið í Noregi. Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum voru vitni að atburðinum í Tenerife; vitni í merkingunni manneskja sem með berum augum (hugsanlega þó með sólgleraugu) horfði á mann skera höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun og hlaupa með það út á götu. Sannleikans vitni.

Moss, Noregi, 14. maí 2011

12. maí 2016 (aukafærsla)

Rósa Sæberg var að hringja í mig aftur. Ég er enn staddur erlendis, eins og kom fram í fyrri færslu dagsins, aðalfærslunni; og ég sagði við Rósu (nú finnst mér sem snöggvast að nafn hennar sé orðið mér tamt, sem það er alls ekki) að ég væri í útlöndum, og það gæti orðið öðru okkar dýrt að tala svona í farsíma milli landa, annaðhvort henni eða mér – ég man aldrei hvor aðilinn borgar fyrir símtal milli landa, sá sem staddur er erlendis eða sá sem staddur er heima, í því landi sem síminn er skráður. Auk þess spurði ég Rósu, áður en lengra yrði haldið, hvert væri erindi hennar með símtalinu, hvort hún hygðist halda áfram með viðtalið í tilefni af útgáfu Dulnefnanna (bókarinnar sem ég gaf út um daginn); þetta viðtal sem í raun komst aldrei á skrið; sem ég skildi ekki alveg hvers vegna hún hefði léð máls á að taka. (Ég hef enn á tilfinningunni að hún, Rósa, viti í raun ekki neitt um þessa bók mína. Og allt í lagi með það.) En nei; þetta (að halda áfram með viðtalið osfrv.) var ekki það sem vakti fyrir Rósu Sæberg með símtalinu núna; hún væri með aðra spurningu frá vinkonu sinni, Lindu Gylfadóttur; hún, Rósa, hefði sagt henni (Lindu) að ég myndi ekki eftir henni frá því á skólaafmælinu; og Lindu hefði fundist það skrítið, vegna þess hversu lengi við töluðum saman (ég og þessi Linda) þegar við hittumst. „Ég er ekki mjög mannglöggur,“ sagði ég við Rósu, og mundi um leið að ég hafði nefnt það við hana áður, í símtalinu um daginn. Svo bætti ég við: „En hver var spurningin frá Lindu?“ (Þetta var ofurlítið farið að fara í taugarnar á mér; ég var nefnilega á leiðinni út af hótelinu.) En þá mundi Rósa ekki spurningu Lindu. Hún sagðist myndu hringja í hana, og hringja síðan aftur í mig. Ég ítrekaði við Rósu að ég væri erlendis, og bað hana að hringja daginn eftir, eða jafnvel senda mér póst. En þá var engu líkara en að ég hefði móðgað hana á einhvern hátt. Ef til vill er ég þó að misskilja þau viðbrögð hennar; og í raun hef ég ekki tíma til að velta þessu fyrir mér frekar núna í augnablikinu; ég þarf í raun og veru að fara út af hótelinu. Það verður bara að koma í ljós hvort Rósa hringir aftur. Og meira um það síðar – ef af verður.

12. maí 2016

Núna í morgun fékk ég póst frá Hermanni Stefánssyni, sem sagði mér frá því að Bæring Ólafsson væri orðinn opinber stuðningsmaður Andra Snæs Magnasonar í forsetakeppninni. Ég er staddur erlendis, og þess vegna fannst Hermanni rétt að senda mér fréttirnar frá Íslandi. Auðvitað hefði ég getað fundið þær sjálfur, með því að fletta upp á þeirri netsíðu sem flutti þær; en Hermann stytti mér leið: hann sendi mér fréttina þangað sem ég er staddur; hann sparaði mér tíma, sem í útlöndum er stundum dýrmætari en heimavið. Með fréttinni um Bæring vildi Hermann meina að Bæring væri orðinn hirðskáld Andra Snæs. Auðvitað hefði farið best á því að ég yrði hirðskáld Bærings, en Bæring er hættur þátttöku, þannig að hann þarf ekki á hirðskáldi að halda. Þegar ég opnaði póstinn frá Hermanni var ekki laust við að ég dæsti, að minnsta kosti innra með mér; mig langaði ekki til að hugsa meira – og þar með ekki lesa – um forsetaframboðsmál. Ég myndi hvort sem er kjósa Andra Snæ. Og held ég þurfi ekki að leiða hugann neitt frekar að því. Þegar kemur að kosningadegi mun ég leggja leið mína niður í Das Rathaus (ef það verður þar sem mér ber að kjósa) og setja krossinn við Andra Snæ. Ég held að hann sé best fallinn til að verða forseti Íslands. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni núna. Þetta er frá. Málið er dautt. Í augnablikinu lítur ekki út fyrir að Andri Snær verði næsti forseti Íslands, en ég ætla samt að kjósa hann. Hvað var það annars sem ég ætlaði að gera að umtalsefni? Ég er búinn að gleyma því. Að fara úr einu landi í annað gerir það að verkum að maður gleymir því sem maður ætlaði að segja. Ég er með minnisbókina fyrir framan mig (til hliðar við tölvuna), og dagbókina líka (hinum megin við tölvuna); en ekkert þar, hvorki í minnisbókinni né dagbókinni, gefur mér til kynna hvað ég ætlaði að tala um. Þar (í minnisbókinni og dagbókinni) eru aðrir hlutir; hlutir sem mig langar til að rifja upp síðar (í dagbókinni), og annað sem ég hef í hyggju að nota í önnur skrif (í minnisbókinni) – önnur en þessi skrif hér. Ég gæti hugsanlega snúið mig út úr þessu með því að birta ljósmynd eða benda á einhverja tónlist á youtube. Ég gæti birt myndina af núverandi forseta og Ratzinger páfa í þriðja skiptið; en væri það ekki svolítið að ofgera hlutina? Tæknimaðurinn á hótelinu er að fixa eitthvað á svölunum fyrir framan mig – ég gæti gert hann að umtalsefni (og er í vissum skilningi búinn að því) – en ég held ennþá í vonina um að hið upprunalega efni komi aftur til mín. Ég ætla að gefa því smástund. Nokkrar mínútur í viðbót. Þær mínútur gera auðvitað ekkert annað en að líða; þær feta sig í burtu ein af annarri, auðvitað mishratt, en það er nú bara einfaldlega það sem þær gera (það sem þeim er þannig séð ætlað að gera): þær líða burt eins og skýin á himninum. Nú leið ein! Og núna önnur! Ég hafði ekki gert upp við mig hversu margar mínúturnar ættu að vera; en núna eru þær liðnar – ég hef ákveðið það. Og nú er bara að ákveða eitthvað annað; allur dagurinn er framundan. Vona ég. (Ég ætla annars að láta eftir mér að birta myndina af forseta Íslands og Ratzinger í þriðja skiptið; hún er svo fyllilega þess virði.)

Unknown-1

10. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ljóðskáldið Mallarmé sagði við myndlistarmanninn Degas: „Minn kæri Degas, ljóðlistin verður ekki til úr hugmyndum; hún verður til úr orðum.“ En úr hverju verður þá myndlistin til? Mig grunar að svarið við þeirri spurningu sé eitthvað aðeins flóknara en það sem snýr að ljóðlistinni. Ég ætla ekki að reyna að svara henni, en með því að fullyrða að eftirfarandi texti sé ekki ljóðlist, þá ætla ég að giska á að hann flokkist frekar sem myndlist (að vísu ekki eftir Degas):

 

HIÐ ÓÞARFA C

 

Ég sit með þremur fullorðnum karlmönnum á kaffihúsi í Hafnarfirði. Það er kvöld. Með orðinu „fullorðnum“ á ég ekki við eldri menn, heldur menn á svipuðum aldri og ég sjálfur – að vísu er einn þeirra rúmum tíu árum eldri en við hinir, en mann á slíkum aldri er varla rétt að kalla eldri mann. Ég segi við mennina: „Ég er að hugsa um að gefa út bók.“ En ég fæ engin sérstök viðbrögð. „Ég er að hugsa um að gefa út bók með einhvers konar ljóðum,“ segi ég til frekari útskýringar. En viðbrögðin verða ekki meiri við það. „Það er sem sagt planið,“ bæti ég við. En þegar sú viðbót fær heldur engar undirtectir, ákveð ég að líta svo á að málið sé útrætt, þótt varla sé hægt að tala um að það hafi verið rætt mikið.

8. maí 2016

Yes! Ritstjóri Morgunblaðsins vill verða forseti Íslands. Ef honum verður að ósk sinni, þá er næsta víst hver verður hirðskáld hans. Ég var eitthvað aðeins búinn að velta fyrir mér „hirðskáldum“ Guðna Th. og Bærings Ólafssonar, ef þeir yrðu forsetar Íslands (Bæring hefur reyndar dregið sitt framboð til baka); en það þarf ekki miklar vangaveltur eða öflugt innsæi til að sjá hver verður dubbaður upp sem hirðskáld DO-mannsins, verði hann forseti Íslands. Það verður Sverrir Stormsker.

6. maí 2016

Unknown-1

Nú er kominn fram nýr forsetaframbjóðandi, úr röðum sagnfræðinga, og hann hefur tekið þann pólinn í hæðina að hafa með sér hirðskáld. Það skáld hefur meira að segja gefið út bók, eða bækur, þar sem nafn forsetabústaðarins er að finna í titlinum. Ég hef rætt þetta aðeins (ef maður leyfir sér að kalla tölvupósta samræður) við kunningja mína úr rithöfundastétt. Og hvað kom út úr þeim samræðum? Nú var ég næstum búinn að lýsa því yfir að „sitt sýndist hverjum“, en hætti við á síðustu stundu; samræður okkar kunningjanna voru ekki svo litríkar að óhætt sé að lýsa þeim með því orðalagi, að „sitt sýndist hverjum“. En ekki meira um það. Í staðinn ætla ég að velta fyrir mér öðrum möguleika, og hann er sá að ég myndi koma að máli við (sem er ekki óheppilegt orðalag þegar um forsetaframboð er að ræða) Bæring Ólafsson, sem er einn af „íslensku“ forsetaframbjóðendunum. (Eða er hann ekki örugglega enn í framboði? Ég hef ekki tíma til að ganga úr skugga um það; ég þarf að hafa hraðan á, eins og Gottfried Benn orðaði það.) En hvers vegna Bæring Ólafsson? Hvers vegna að koma að máli við hann? Ég fékk nefnilega bækling frá Bæring Ólafssyni um daginn, inn um bréfalúguna. Fínn bæklingur, litprentaður, með myndum af Bæring og fjölskyldu hans. Líklega hefur bæklingurinn týnst innan um eitthvert annað dót á heimilinu – ég finn hann ekki núna – en það var ýmislegt í honum sem mér fannst ekkert algalið að kæmi frá forsetaframbjóðanda. Það sem mér aftur á móti dettur í hug varðandi Bæring er að hugsanlega gæti farið vel á því að ég gerðist hans „hirðskáld“. Þó ekki væri nema fyrir þá ástæðu að svo litlu munar að nafn hans sé anagram af mínu nafni – það þarf bara að taka út n-ið hjá honum. Svo höfum við sama föðurnafn, Ólafsson. Ég heyri strax fyrir mér ljóðið sem ég myndi yrkja fyrir lokaframboðsfundinn. Hvað varðar önnur framboð, önnur en Bærings og Guðna Th. og sitjandi forseta, þá er spurningin um hirðskáldið ef til vill ögn flóknari þegar kemur að Andra Snæ Magnasyni. Mér dettur ýmislegt í hug í því sambandi, en kýs að láta allt ósagt. Í bili.

4. maí 2016

notre-dame-picture-4

HÖFUÐBORGIR

 

Í ljóði eftir Max Jacob er sagt frá manni sem kom til borgar einnar frá París, vegna þess að í París voru ekki nógu margir læknar fyrir alla þá sjúkdóma sem hrjáðu hann. En það eru ekki bara manneskjurnar sem þjást af því sem við í örvæntingu okkar köllum dóma – það eru ekki bara þær sem þurfa aðstoð. Borgirnar þjást ekki síður: höfuð þeirra hafa enga stjórn á því sem búkurinn aðhefst. Það sem hrjáir hina ungu borg Reykjavík er til dæmis svo margt – og svo flókið – að til að sjúkdómsgreina hana þurfa skáld hennar og rithöfundar utanaðkomandi aðstoð.

2. maí 2016

FRAMANDI LÖND

 

Í hótelherbergi í framandi löndum

er spegill fyrir ofan skrifborðið,

til að sá sem sest við borðið

geti horft á sjálfan sig

 

á meðan hann skrifar. En þessi spegill

er ekki spegill í hefðbundnum skilningi,

eins og mér sýndist hann vera

þegar ég kom inn í herbergið,

 

heldur einhvers konar myndverk:

kringlóttur flötur á stærð við höfuð

sem heldur að það sé

mun stærra en það er; hann er hvítur

 

með ljósgulum strokum

eftir pensil

sem ekki eru vel greinanlegar

fyrr en maður kemur nær

 

og rýnir í flötinn. Sem myndverk

er þetta ekki mjög spennandi.

Það verður að segjast eins og er.

En alveg nothæft sem spegill.

30. apríl 2016

Fyrir nokkrum dögum datt inn um bréfalúguna kynningareintak af fréttablaðinu DV. Þar var í leiðaranum fjallað um páfann Frans. Nú í morgun kom hið norður-kóreska fréttablað Morgunblaðið (kynningareintak) inn um lúguna, og ekki bara eitt blað, heldur tvö: laugardags- og sunnudagsblað. Sem þýðir að á morgun, sunnudag, sem allajafna er prentblaðalaus dagur, getur maður lesið „yfir morgunkaffinu“ sunnudagsblað Morgunblaðsins. Í „laugardagsblaðinu“ er tveggja opnu umfjöllun um ritstjóra Morgunblaðsins. Hún er skrifuð af prófessor ritstjórans í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Ég hef fyrir ósið að lesa svona greinar „afturábak“, það er að segja að byrja á endanum, og þræða mig síðan í átt að byrjuninni. Vegna tímaleysis (laugardagar eru oftar en ekki „uppteknari“ dagar en þeir „virku“), þá ætla ég bara að láta hér fylgja nokkrar setningar úr síðustu málsgrein greinarinnar. Ég læt vera að nefna nafn ritstjórans og þjóðarinnar sem um ræðir í brotunum, af tillitssemi við ritstjórann og þjóðina (ég set þau innan hornklofa), en ég mæli með að þetta lesist með norður-kóreskri framsögn og áherslum:

„Þegar Ísland var að falli komið hugsuðu vinstrimenn um það eitt að flæma [ritstjóra blaðsins] úr Seðlabankanum. Skyldi nú hefnt ófara þeirra í ótal viðureignum við hann.“

„Nú virtist [ritstjórinn] hafa beðið miklu stærri ósigur en árið 2004, þegar honum mistókst að koma í veg fyrir skefjalaust auðræði. En hann kiknaði ekki undan högginu, heldur spratt upp og gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Þar skrifar hann beinskeytta og áhrifamikla pistla og beitir sér af alefli.“

„En þrátt fyrir alla sína sigra er [ritstjóri blaðsins] enn sami upplitsdjarfi alþýðupilturinn og þegar hann lagði fyrst út á stjórnmálabrautina með sitt góða vegarnesti úr rösklega ellefu hundruð ára sögu [þjóðarinnar sem hann reyndi hvað hann gat – af fremsta megni – að forða frá skefjalausu auðræði].“

28. apríl 2016 (aukafærsla)

Um leið og ég hafði sent síðustu færslu í loftið fann ég að eitthvað var rangt í henni – eitthvað var að trufla mig. Enda var ég ekki lengi að finna hvað það var. Ég sagðist hafa spurt Rósu hvort nafn mágkonu hennar, sem hún kallaði Lindu, væri hugsanlega „dulnefni einhverrar annarrar manneskju“, en auðvitað var það ekki rétt orðað. Ég hefði átt að spyrja hana hvort nafn mágkonunnar væri „dulnefni hennar“, en ekki „dulnefni annarrar manneskju“. Það segir sig sjálft. Enda tók ég fram að spurningin hefði verið út í hött – ég hafði að minnsta kosti rétt fyrir mér þar.

28. apríl 2016

Ég veit það hljómar einkennilega – og beinlínis eins og ég sé að ljúga því – en Rósa Sæberg, sú sem hringdi í mig fyrir þremur dögum, hringdi aftur í mig í gær, tveimur dögum eftir að hún hringdi í mig fyrst. Ég veit ekki hvað hún ætlar sér með viðtalið sem hún hugðist taka við mig – eða tók (maður getur allt eins orðað það svo) – en hún sagðist vera með „viðbótarspurningu“. „Og hver er hún?“ spurði ég, ekki alveg laus við að hljóma pirraður, enda var ég það; mér finnst engin ástæða til að leyna því. Og í raun hefði ég átt að verða enn pirraðri þegar ég fékk að heyra spurninguna; en ég varð það ekki. Mér fannst spurningin áhugaverð – eða ef til vill er réttara að segja að mér hafi fundist hún spennandi. Hún (Rósa) spurði mig hvort ég þekkti „Lindu Gylfadóttur“. Mér heyrðist hún fyrst segja Linda Gísladóttir, og mér varð strax hugsað til söngkonunnar í Lummunum; en það var Linda Gylfadóttir. Ég veit ekki hvers vegna mér fannst eitthvað „spennandi“ við þessa furðulegu spurningu (og enn síður hvort raunverulega eitthvað „furðulegt“ við hana); en ef til vill lá „spenningurinn“ í nafninu sjálfu; nöfn hafa auðvitað mismunandi áhrif á mann, ekki síst þegar maður heyrir þau í fyrsta skipti, og látið er að því liggja að þau tengist manni á einhvern hátt. Ég sagðist ekki þekkja þetta nafn; og fékk þá skýringu á spurningunni að Linda Gylfadóttir væri mágkona Rósu Sæberg; Linda hefði sagt Rósu (þegar Rósa sagði henni að hún hefði verið að taka viðtal við mig) að hún, Linda, hefði hitt mig í árgangsafmæli Hagaskólans fyrir nokkrum árum; hún hefði sjálf ekki verið í Hagaskóla, en farið með vinkonu sinni í afmælið (hvers vegna vissi Rósa ekki). Ég sagðist ekki muna eftir þessu, og afsakaði mig með því að ég væri ekki mjög mannglöggur; ég þyrfti yfirleitt að hitta fólk nokkrum sinnum áður en hægt væri að ætlast til þess af mér að ég heilsaði því á götu – að ég myndi eftir andlitinu. En um leið og ég sagði þetta við Rósu gerði ég mér auðvitað grein fyrir því að hún var ekki að sýna mér andlit þessarar Lindu; hún var einungis að nefna nafn hennar. „Þetta er ekki dulnefni einhverrar annarrar manneskju?“ spurði ég, en vissi um leið að sú spurning var einhvern veginn fullkomlega út í hött. Enda svaraði Rósa henni ekki beint; og símtalið varð ekki mikið lengra; hún sagðist bara hafa viljað spyrja mig að þessu. Um leið og ég lagði niður símtólið sá ég eftir að hafa ekki spurt hana út í viðtalið sem hún ætlaði að taka við mig fyrir þremur dögum; hvort hún hefði eitthvað í hyggju með það. En svo hugsaði ég: hvaða viðtal?

26. apríl 2016

Það er svolítið fyndið að ég skyldi byrja eina færsluna um daginn á orðunum „Það var hringt í mig“, því nú í gær var einmitt hringt í mig aftur; en í þetta sinn var það í tilefni af bókinni sem kemur út í dag. Ég var beðinn um að „koma í viðtal“, eins og það er kallað. Manneskjan sem hringdi heitir Rósa Sæberg. Ég er alltaf hálfskeptískur gagnvart þeim sem vilja hafa viðtöl, nema auðvitað að ég þekki fólkið; en mér fannst ég strax skynja á þessari Rósu að ekkert „skrítið“ lægi að baki ósk hennar um viðtalið; mér fannst ég jafnvel þekkja manneskjuna, eftir að við höfðum spjallað saman smástund (þá eingöngu um það hvort af viðtalinu yrði eða ekki). Enda vissi hún að ég væri að gefa út bók. Mér fannst ekki síður góð hugmynd hjá henni að vilja byrja viðtalið á tilvitnun í annan höfund; þetta var eitthvað sem hún sagðist alltaf gera, og hún sagðist ennfremur vona að ég „hefði ekkert á móti því“. Þvert á móti; mér fannst það vel við hæfi. Tilvitnunin reyndist vera í franska höfundinn Louis-Ferdinand Céline: Skemmtigarðar eru óheflaðir staðir. Það er ekki hægt að vera fágaður þegar maður leikur sér. Fangelsi er aftur á móti göfugur staður. Þar þjáist maður. Og í því felst fágun. Lengri var tilvitnunin ekki. Og þá kom fyrsta spurningin: „Nú birtir þú ljóð í fyrra, í Tímariti Máls og menningar, sem nefnist …“ (Ég læt titilinn ekki fylgja, því hér hafði Rósa rangt fyrir sér; ég birti nefnilega ekki ljóð í Tímariti Máls og menningar í fyrra.) „Ég gerði það reyndar ekki,“ svaraði ég; og mér fannst skrítið hversu lítið það kom Rósu á óvart að hún hefði farið rangt með staðreyndir, og það í fyrstu spurningunni. Ég hef sjálfur rangt fyrir mér í þessu samhengi, því auðvitað var ekki um neinar staðreyndir að ræða; ég birti aldrei smásögu í Tímariti Máls og menningar á síðasta ári, hvað þá grein eða ritdóm. Ég birti hreint ekki neitt í því tímariti; ég hafði öðrum hnöppum að hneppa á síðasta ári, meðal annars þeim „hnappi“ að gefa út skáldsögu. (Gat verið að þessi Rósa vissi ekki af henni?) „Og nú er sem sagt að koma út ný bók eftir þig,“ hélt hún áfram; og í framhaldi nefndi hún titil nýju bókarinnar (sem hún fór rétt með), og þá „staðreynd“ að bókin innihéldi smásögur úr áður útgefnum bókum. Hún nefndi meira að segja titla þeirra bóka (sem eru fjórar), og fór rétt með þá alla, nema titilinn Við hinir einkennisklæddu; hún kallaði þá bók Hinir einkennisklæddu. Ég jánkaði þessu þó öllu; mér fannst óþarfi að trufla frekar flæði viðtalsins, ef þannig má að orði komast. „Að trufla flæðið“ svona strax í upphafi spjalls vill oft verða til þess að allt framhaldið höktir, eins og ósmurð vél, og nær sér ekki á strik aftur. Næst spurði Rósa (eða þannig hóf hún næstu spurningu): „Í formála bókarinnar …“ Og nú varð ég að leiðrétta hana aftur, því það er enginn formáli í bókinni, einungis eftirmáli. (Og rétt að nefna að sá eftirmáli er ekki skrifaður af mér; hann er skrifaður af Guðrúnu Láru Pétursdóttur, sem fyrir einu og hálfu ári kláraði MA-ritgerð um mínar bækur, með áherslu á tvær þeirra, Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Sú ritgerð segir mér ýmislegt sem ég ekki vissi, eða hafði ekki gert mér grein fyrir, að væri að finna í bókunum mínum. Ég er ekki síður ánægður með eftirmálann sem fylgir hinu nýja smásagnaúrvali sem kemur út í dag.) En þegar hér var komið sögu í símtalinu við Rósu Sæberg var ég farinn að fá á tilfinninguna að ef til vill vissi hún ekki mikið um þessa nýju útgáfu mína (hafði hún ekki fengið eintak frá útgefanda til að kynna sér fyrir spjallið? nei, líklega ekki; ég fæ sjálfur ekki höfundareintökin mín fyrr en í dag, útgáfudag); og mér varð hugsað til öftustu sögunnar í bókinni (sem – kannski rétt að nefna það – heitir Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, það er að segja bókin); sögu sem nefnist Forstofan (og skiptist í tvo hluta: Dyrabjöllunni hringt og Gegnum símann), þar sem ókunnugur maður bankar upp á hjá sögumanni (eða hringir bjöllunni, eins og segir í titlinum) og spyr hvort hann megi hirða tómar flöskur sem kunni að hafa safnast saman hjá sögumanni. Ég ætla ekki að segja meira frá sögunni hér; og líklega er ástæðan fyrir því nokkuð augljós, því ég er að reyna að kynna bókina mína, og vil síður rekja efni hennar áður en hugsanlegir lesendur (og/eða kaupendur) kynna sér það af eigin raun. Viðtalið við Rósu Sæberg virðist sömuleiðis hafa fengið fremur snöggan endi, en það var ekki mín sök. Fljótlega eftir að þessi kona, Rósa, hafði flaskað á þessu með formálann og eftirmálann, fékk ég á tilfinninguna að líklega væri hún ekki rétta manneskjan til að taka við mig viðtal. Og ég held hún hafi skynjað það sjálf; að réttast væri að setja punktinn þarna; þessu væru í raun sjálfhætt. Til að bæta þeim það upp sem áttu von á lengra spjalli datt mér í hug að láta fylgja eitthvert lag af youtube, til dæmis með hljómsveitinni Emerson, Lake & Palmer (það er minnst á Keith heitinn Emerson í einni sögu bókarinnar), eða jafnvel eitthvað eftir Jósef Haydn (það er leikinn eftir Haydn strengjakvartett í sögunni Stofutónlistin); en ég hætti þó við að hafa músík; mér fannst fullmikið að vera aftur með músík; það var músík í fyrradag. Í staðinn dettur mér í hug að hafa ljóð úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft, sem kom út árið 2012, vegna þess að með því ljóði fylgir í raun myndefni; það er byggt á ákveðinni mynd, ljóðið. Og það birtist upphaflega í Tímariti Máls og menningar, en ekki í fyrra (eflaust hefur Rósa Sæberg eitthvað ruglast á ártölum; líklega haldið að 2015 væri 2012). Ritstjóri Tímarits Máls og menningar, Guðmundur Andri, vildi láta ljósmyndina fylgja með ljóðinu þegar það birtist í tímaritinu, en ég vildi það ekki; og nú sé ég eftir að hafa ekki samþykkt hugmynd Guðmundar Andra, því auðvitað á myndin að fylgja ljóðinu: myndin er ljóðið – og öfugt.

Unknown-1

LJÓSMYND AF STEFNUMÓTI BENEDIKTS PÁFA OG FORSETA ÍSLANDS Í VATIKANINU

 

Hægri helmingur myndar, með gulu veggfóðri og opnum dyrum

 

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur verið lokað tímabundið vegna breytinga á innréttingum. Hinir áfengu drykkir munu vísa þér veginn inn í hinn ölvaða alheim. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft. Það er á þriðju hæðinni. Á þriðju hæðinni geturðu gleymt stað og stund – þar er hinn ölvaði alheimur. Á meðan Kína eykur hermátt sinn dag frá degi ríkir rómantískt andrúmsloft á þriðju hæðinni á Youngsun-bar. En þar er lokað tímabundið. Þar er lokað vegna breytinga á innréttingum. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft; hinir áfengu drykkir munu opna þér dyrnar að ölvuðum alheiminum. En hvar er vor heimur staddur á sínu hringsóli? Var manneskjunum ætlað að veita hver annarri liðsinni í þrautum sínum? Eru opnar dyr tákn fyrir eitthvað annað en það sem þær eru?

 

Vinstri helmingur myndar, með hvítum gluggatjöldum og forseta og páfa

 

Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur tímabundið verið lokað vegna breytinga á innréttingum. Ég er forseti Íslands. En ekki beint karakter í það starf. Svo ég er ekki forseti Íslands. Það er annar. Ég vex eins og blóm upp úr iittala-vasanum. Ég elti froskinn niður af borðbrúninni, ef við hefðum froska á Íslandi. Ég er sjálfur páfinn. Ef við hefðum páfa. Þannig að það er ekki. Ég fæ mér drykk á Youngsun-bar. Við höfum svoleiðis. Eitthvað mjög svipað. Eitthvað alveg eins. Á Youngsun-bar er lokað tímabundið. Það er verið að skipta um andrúmsloft, það er verið að sveigja það meira inn á línu hinnar sívölu mýktar, það er verið að gera það meira suave.

22. apríl 2016

Svona heldur hinn kanadíski Rufus Wainwright upp á 400 ára ártíð Williams Shakespeare; hann gefur út plötu sem hann kallar Take all my loves: 9 Shakespeare sonnets. Hún kom út í dag, þótt ártíðarafmælið sé á morgun. Þrjú af þeim lögum sem Rufus hefur samið við sonnettur Shakespeares komu út á plötu hans All days are nights: Songs for Lulu fyrir nokkrum árum, þar sem eina hljóðfærið utan raddarinnar var píanó; en hér eru þessi sömu lög í öðrum og stærri útsetningum, plús fleiri sonnettur, sungnar og lesnar af Rufusi sjálfum og nokkrum öðrum. Af sonnettu nr. 20, A woman´s face, eru tvær útgáfur: ein með Rufusi og önnur með sópransöngkonunni Önnu Prohaska. Samkvæmt þessu myndbandi hér eru Anna og Rufus góðir vinir; hann kynntist henni í gegnum eiginmann sinn, Austurríkismanninn Jörn.

 

 

En hvernig held ég upp á 400 ára ártíð Shakespeares? Það stóð til að smásagnasafnið mitt, Dulnefnin, ætti að koma út á Degi bókarinnar (sem er ekki aðeins dagur Shakespeares, heldur líka afmælisdagur Cervantesar og Halldórs Laxness, og auðvitað Halla Jóns og Hilmars Arnar Hilmarssonar), en það plan breyttist; bókin kemur í búðir 26. apríl, sem breytir annars ekki miklu – held ég. Eitthvað merkilegt hlýtur að hafa gerst þann dag – kannski fæddist einhver – en ef ekki, þá gerist það allavega að bókin mín kemur út. Sem er væntanlega ekki neinn stórviðburður, nema auðvitað í mínum augum, og í lífi bókarinnar. Bókin – nú er ég enn að tala um Dulnefnin – hefur reyndar ferðast svolítið, þótt ekki sé hún formlega komin út. Hún fór til Selfoss í gær, þar sem ég las upp úr henni (eina eintakinu sem komið er í umferð) á Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna og Elínu, ásamt fleiri höfundum úr tímaritröðinni 1005. Eins og alltaf á Sunnlenska, þá var mikið fjör. Það var meira að segja músík. Og ansi fín músík: sönghópur sem kallaði sig Svölurnar. Þær sungu Spáðu í mig, nokkur „lög við vinnuna“, og Atla Heimi. Eftir samkomuna á Sunnlenska fór 1005-liðið í hús á Stokkseyri (nú verð ég að fara að passa mig á að þetta breytist ekki í eitthvert partí- og matarblogg), og nokkur okkar löbbuðu niður á strönd og sáu afar einkennilegt hús, hannað af þekktum arkitekt, íslenskum. Þetta hús er tilefni í sérfærslu; ég hef ekki pláss fyrir það hér. En þegar við virtum það fyrir okkur í kvöldsólinni rifjaðist upp fyrir mér lítil saga af rithöfundinum Auberon Waugh, syni Evelyns Waugh. Hann á að hafa sagt eitthvað á þessa leið: „Hvað ber manni að gera þegar maður kemur inn í samkvæmi og sér arkitekt standandi á miðju gólfinu? Maður gengur að honum og slær hann utan undir.“

20. apríl 2016 (aukafærsla)

Til að forðast misskilning (og ekki síður til að koma í veg fyrir ranghugmyndir í mínu eigin höfði), þá vil ég taka fram, vegna færslunnar hér fyrir neðan, að ég er ekki áskrifandi að DV-blaðinu. Þetta sem datt inn um bréfalúguna í gær var kynningareintak – geri ég ráð fyrir.

20. apríl 2016

Seint í gær, gott ef ekki í gærkvöldi, datt inn um bréfalúguna nýtt tölublað af DV. Ég sá reyndar ekki strax að þetta væri DV, því forsíðan var heilsíðuauglýsing – það var einungis mjó lína á vinstri kanti blaðsins sem gaf til kynna um hvaða blað væri að ræða. Línan var með rauðum og hvítum röndum, eins og á rakarastofustöng. DV er sannarlega einkennilegt blað. Mér finnst ekki ólíklegt að það sé gefið út í þeim tilgangi einum að vera lesið á rakarastofum. En auðvitað þarf dagblað ekki að hafa einhvern yfirlýstan tilgang – það þarf ekki einu sinni að hafa tilgang – ekki frekar en skáldverk eða líf manneskjunnar í heiminum. Leiðari blaðsins fjallar um Frans páfa. En talandi um líf manneskjunnar, þá er áðurnefnd heilsíðuauglýsing, sú sem blasti við mér þegar ég teygði mig eftir blaðinu sem datt inn um lúguna í gær – og sem virkar eins og hlífðarkápa utan um sjálft DV-tölublaðið – frá fyrirtæki sem kallar sig Graníthöllin, og gerir út frá Hafnarfirði. Það er orðið frekar algengt að dagblöð „pakki sér svona inn“ í auglýsingar. En hvað hefur þessi auglýsing frá Graníthöllinni með „líf manneskjunnar“ að gera? Svarið við þeirri spurningu er ábyggilega mjög margþætt, jafnvel flókið (svo maður notist við orðalag úr íslenskri stjórnmálaumræðu), en einfalt svar við henni gæti verið á þá leið að líf kviknar á vorin, og blómstrar síðan með sumrinu. Auglýsingin fjallar nefnilega um vorið og sumarið (sem formlega kemur á morgun, 21. apríl). Hún er svona:

 

VORIÐ ER KOMIÐ OG NÚ ER RÉTTI TÍMINN TIL AÐ HUGA AÐ SUMRINU

 

Graníthöllin

Legsteinar

 

PANTAÐU SNEMMA OG FÁÐU STEININN TÍMANLEGA UPP

 

ALLT INNIFALIÐ

með öllum okkar legsteinum

 

(Fyrir neðan textann er mynd af legsteini hjóna sem hétu Rósa Margrét Jónsdóttir og Jón Magnús Jónsson. Hún var fædd 10. 2. 1924, og dáin 21. 3. 2012; hann, Magnús, var fæddur 17. 4. 1922 – það ár sem allt var að gerast í módernískum skáldskap – og dáinn 29. 9. 2013. Fyrir neðan nöfn Margrétar og Jóns Magnúsar, hægra megin á steininum, stendur letrað, með skáletri: Blessuð sé minning ykkar)