„Einfaldlega fallegasta bókakápan í ár“

DV leitaði til málsmetandi álitsgjafa til að finna bestu bókakápuna fyrir árið 2010 og birti niðurstöður í blaðinu 5. janúar 2011. Bækur Braga Ólafssonar og Einars Kárasonar deila efsta sætinu yfir bestu kápurnar.

Bókakápan er hönnuð af Sigrúnu Pálsdóttur og Agli Baldurssyni ehf. Skrif á kápu voru í höndum Einars Arnar Benediktssonar.

Í umsögn álitsgjafa segir m.a.:

„Hrátt og einfalt. Less is more.”

„Einfaldlega fallegasta bókakápan í ár”.

„Langflottust! Jafnvel þó bókin væri ekki eftir þekktan höfund myndi hún skera sig úr fjöldanum. Svona einföld og með þessari brjáluðu skrift sem er ekki einu sinni neitt sérstaklega falleg en kallar samt á mann langar leiðir”.

Fimm stjörnur í DV

DV birti dóm þann 22. desember um bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Gagnrýnandi blaðsins gaf bókinni fimm stjörnur af fimm mögulegum og í niðurlagi dómsins segir:

Eins og í flestum af sínum fyrri skáldsögum tekst höfundinum að koma lesandanum á óvart allt fram á síðustu blaðsíðu. Húmorinn vellur sem fyrr af textanum, persónur eru vel skapaðar og aðstæðurnar sem þær eru settar inn í og samtöl þeirra oft átakanlega vandræðaleg og fyndin. Handritið að kvikmynd … staðfestir enn á ný hversu frábær rithöfundur Bragi Ólafsson er.

Kristján Hrafn Guðmundsson

Tveir nýir dómar

Dómum um bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson fjölgar ört. Nú þegar hafa birst dómar og umfjallanir í Víðsjá á Rás 1, Kiljunni í Sjónvarpinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og nú síðast á Pressunni (Menningarpressunni) og á Bókmenntavefnum.

Menningarpressan
Kristján Kormákur Guðjónsson skrifar um bókina á Pressan.is og er afar hrifinn. Segir bókina vera bestu bók Braga til þessa og spáir henni Íslensku bókmenntaverðlaununum. Gefur  henni fullt hús eins og Einar Falur á Morgunblaðinu eða fimm stjörnur.

Í niðurlagi dómsins segir:

Í bókinni er hvergi veikan punkt að finna. Þetta er margslungið verk og mögnuð saga. Undirritaður spáir því að Bragi vinni tvöfalt í ár. Honum hefur þegar hlotnast heiður fyrir bestu kápuna. Líklegt verður að teljast að hann verði einnig heiðraður fyrir besta innihald þegar Bókmenntaverðlaun Íslands verða veitt, snemma á næsta ári.”

Bókmenntavefurinn
Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, skrifar um bókina á Bókmenntavefnum. Henni er tíðrætt um vaxandi óreiðu sem hún skynjar í bókum Braga. Þar segir m.a. um mögnun óreiðunnar

Allt nær þetta einhverskonar hámarki í skáldsögunni með langa nafnið, sem hér eftir verður nefnd Handritið. Sú saga er svo óreiðukennd og átakafælin að það er ekki einu sinni alveg ljóst hver er höfundur hennar, eða réttara sagt, hver segir hana, hverjum og hversvegna.

Úlfhildur endar dóminn á þessum orðum:

Það má því svo sannarlega segja að skáldsagan Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson láti engan ósnortinn – né óglaðan.

Morgunblaðið gefur fullt hús

Ritdómur um bók Braga Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. desember. Gagnrýnandi blaðsins , Einar Falur Ingólfsson, fer afar lofsamlegum orðum um bókina og gefur henni fullt hús eða fimm stjörnur.

Í niðurlagi dómsins segir m.a.:

„Þessi bók með langa nafnið er án efa hápunkturinn á ferli sagnaskáldsins Braga Ólafssonar; meistaralega skrifuð og stórskemmtileg skáldsaga.“

Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir m.a. um bókina:

„Þessi bók Braga er undursamlegt meistaraverk“

Upplestrar framundan

Bragi verður með marga upplestra fram til jóla úr nýrri bók sinni Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Hér fyrir neðan má sjá næstu viðburði.

9. des. kl. 16: ASÍ, Sætúni 1
9. des. kl. 20: Sunnlenska bókakaffið, Selfossi
Fyrri upplestrar
– 16. nóv. Bókasafn Seltjarnarness kl. 20
– 17. nóv. Bókasafn Mosfellsbæjar kl. 20
– 20. nóv. Edinborgarhúsið, Ísafirði
– 26. nóv. Vopnafjörður, Mikligarður kl. 20.30
– 27. nóv. Skriðuklaustur kl. 15
– 28. nóv. Seyðisfjörður, Skaftfell kl. 15
– 2. desember: Þjóðarbókhlaða kl.20
– 5. desember: Gljúfrasteinn kl. 16

Kiljan og Víðsjá fjalla um Handritið

Fjallað var um bók Braga Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson í menningarþættinum Víðsjá á Rás 1 þann 1. desember. Þar fjallaði Hjalti Snær Ægisson um bókina en hlusta má á umfjöllun hans á vef Ríkisútvarpsins.

„Hér líkt og fyrr tekst honum víða mjög vel upp við að draga fram allar þversagnirnar sem blunda undir sléttu og felldu yfirborði hlutanna. þergar allt kemur til alls er það einmitt raunin að hið fáraánlegasta af öllu fáránlegu er oftar en ekki það sem við köllum hversdagsleika.“
Hjalti Snær Ægisson / Víðsjá, RÚV

Í sjónvarpsþættinum Kiljan í Sjónvarpinu var bókin tekin til umfjöllunar hjá þeim Agli Helgasyni og bókmenntarýnendunum Þorgerði E. Sigurðardóttur og Hrafni Jökulssyni. Hægt er að horfa á upptöku á vef Sjónvarpsins.

„Þetta er ofboðslega stórt, margslungið, djarft og undirfurðulegt verk. … mjög fyndið á köflum. … Bráðsnjöll saga.“
Egill Helgason / Kiljan

„Þetta er ansi hreint mögnuð skáldsaga. … Margir þræðir og alveg meistaralega vel fléttuð.“
Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan

„Þessi mikla bók er samin af miklu hugviti, í mörgum lögum, og hann spinnur þetta af ótrúlegri leikni. …  mjög skemmtileg bók … Bragi er fantagóður og sérstæður stílisti …“
Hrafn Jökulsson / Kiljan

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í dag fullveldisdaginn 1. desember. Bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson er eitt af fimm verkum sem eru tilnefnd að þessu sinni.

Þetta er í fjórða sinn sem skáldsaga Braga er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en Gæludýrin, Hvíldardagar og Sendiherrann hafa einnig verið tilnefndar.

Í flokki fagurbókmennta voru eftirfarandi verk tilnefnd:

Bergsveinn Birgisson – Svar við bréfi Helgu, Bjartur
Gerður Kristný – Blóðhófnir, Mál og menning
Sigurður Guðmundsson – Dýrin í Saigon, Mál og menning
Þórunn Valdimarsdóttir – Mörg eru ljónsins eyru , JPV útgáfa
Bragi Ólafsson – Handritið að kvikmynd…, Mál og menning

Fjórar * hjá Fréttablaðinu

Í Fréttablaðinu í dag birtist dómur eftir Jón Yngva Jóhannsson um bókina Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson.

Jón Yngvi gefur bókinni fjórar stjörnur.

Jenný segir frá

Titill nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar er engin smásmíði. Og ekki nóg með það, hann er ekki alveg eins á kápu bókarinnar og titilsíðu. Sú sem segir söguna heitir ýmist Jenný Alexon eða Jenný Alexson, sem er kannski fyrirboði um það sem koma skal – Jenný er ekki sérstaklega áreiðanlegur sögumaður.

Sagan heitir Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alex(s)on. Þeir Jón og Örn eru lesendum Braga að góðu kunnir. Sonur Jóns, ljóðskáldið Sturla Jón Jónsson, var söguhetja Sendiherrans, síðustu skáldsögu hans. Sturla kemur raunar við sögu hér þar sem hann dvelur að því er virðist í góðu yfirlæti í Hvíta-Rússlandi ásamt skáldkonu sem hann kynntist á ljóðahátíð í Litháen og aldraðri móður hennar.

Eins og titillinn gefur fyrirheit um er hér saga innan í sögu innan í sögu. Jenný sú sem nefnd er í titlinum er sögumaður bókarinnar, hún segir okkur söguna af ferðalagi þeirra Jóns og Arnar til Hull á vit föðurarfs Arnar, tæplega 200 para af mokkasínum sem gamli maðurinn safnaði um ævina.

Inn í sögu þeirra félaga fléttast svo Handritið að kvikmynd sem þeir vinna að og inni í þeirri kvikmynd er önnur kvikmynd og þá eru ekki upp taldar allar þær sögur sem fléttast inn í ferðalag þeirra kumpána og frásögn Jennýjar.

Framan af bókinni getur lesanda liðið eins og hann sé staddur í flóknu völundarhúsi, persónurnar eru margar og sögurnar sem þær tilheyra líka. Sögukonan Jenný reynist ásamt öðru vera höfundur glæpasagna sem hún skrifar undir dulnefni, en sagan af handritinu er gagnólík þeim. Lesandinn má hafa sig allan við enda segir sögukona í upphafi síðasta kafla bókarinnar: “Eins og lesandinn sem hefur engan áhuga á skáldsögu sem hleypur út undan sjálfri sér til að fela sig fyrir söguþræðinum, hefur skáldsagan engan áhuga á þeim lesanda.” (430) Samanburðurinn við glæpasögur er engin tilviljun. Handritið… er margbrotin saga, í eina röndina er hún hæggengur farsi sem minnir á fyrri verk Braga þar sem persónurnar lenda í pínlegum aðstæðum sem engin lausn fæst á. Á hinn bóginn er hún líka rannsókn á skáldsagnaforminu, allt frá Laurence Sterne til nútímans. Jenný er sérkennilegur sögumaður, meðvituð og ágeng og minnir lesandann sífellt á að hann sé að lesa skáldsögu. Auk þessara einkenna, sem sumir myndu kalla póstmódernísk en Jenný minnir sjálf á að eru jafngömul skáldsögunni, er Jenný í hæsta máta óáreiðanleg heimild um líf persónanna og ferðalag tvímenninganna. Hún er ekki með þeim í för og á sjálf við nóg að etja á heimavígstöðvunum þar sem hún situr við skrifborð og spinnur upp sögu þeirra. Það er með öðrum orðum ekki hægt að treysta neinum í þessari sögu, allra síst sögukonunni sem þykist hafa flesta þræði í hendi sér.

Handritið… er að sögn önnur bókin í fjögurra bóka flokki sem hófst með Sendiherranum. Ef mæla ætti bókina og bókaflokkinn á mælikvarða hefðbundinna epískra frásagna mætti kannski ímynda sér að hún væri dæmigerð miðbók, það er ekki leyst úr vanda nokkurs manns og engir endahnútar hnýttir. En lesandann grunar líka að þannig verði það líka í framhaldinu. Sá heimur sem Bragi skapar í þessum sögum þenst bara út, hann er fullur af dularfullum gloppum, eyðum og ormagöngum og lítil von til þess að sá lesandi sem óskar eftir hefðbundinni skáldsögu með einum snurðulausum þræði fái það sem hann óskar sér. Sá sem er á hinn bóginn tilbúinn í ferðalag um þennan einkennilega söguheim fær það ríkulega launað.

Niðurstaða: Nýjasta skáldsaga Braga Ólafssonar er flókið skáldverk og metnaðarfullt. Þar birtast öll bestu höfundareinkenni Braga, hún er launfyndin og spakleg rannsókn á skáldsögunni og lífinu sjálfu.

Jón Yngvi Jóhannsson

Besta bókakápan

Fréttatíminn birti úttekt sérfræðinga á bestu og verstu bókakápum þessa árs í síðasta tölublaði.  Besta kápan að þeirra mati er sú sem einnig ber einn af lengstu titlum ársins: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson.  Um hana segir Stefán Snær Grétarsson, teiknistofustjóri á Fíton: „Þessi kápa lýsir glimrandi sjálfstrausti og kallar á að bókin verði lesin. Til þess eru bókarkápur.“ Kápuna gerir Sigrún Pálsdóttir, eiginkona Braga, en naut aðstoðar Egils Baldurssonar hönnuðar við frágang. Rithöndina framan á bókinni á enginn annar en Einar Örn Benediktsson, félagi Braga úr Sykurmolunum.

Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon) sagði þetta um kápuna: „Ég er hrifinn af ákveðinni tegund af kæruleysi. Það gengur ekki alltaf og ekki sama hvernig það er gert. Á bók Braga gengur þetta mjög vel. Ég held að ég hafi tekið fyrst eftir þessari tegund hönnunar hjá Frank Zappa – á hvítu Fillmore East tónleikaplötunni.“

Sigrún gerir jafnframt kápuna á sína eigin bók, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, en hún er ein af þeim kápum sem átitsgjafarnir nefna sérstaklega fyrir góða hönnun. Kápurnar á bókum Braga eftir Sigrúnu hafa áður hlotið eftirtekt og aðdáun. Meðal annars var kápan á síðustu skáldsögu hans,Sendiherranum, valin kápa ársins árið 2006.

(byggt á frétt á vef Forlagsins)

Hin hrjúfa ljóðræna rekur mig áfram

Bragi Ólafsson svaraði ýmsum spurningum á vefmiðlinum Miðjunni í tilefni af útkomu bókarinnar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Í þessu spjalli var Bragi var m.a. spurður um hvað það væri sem ræki hann áfram í skrifunum, hvaða bók, kvikmynd og tónlist væri í uppáhaldi svo eitthvað sé nefnt.

Viðtalið á Miðjunni.

Viðtal í Víðsjá um Handritið

Þann 15. nóvember var Bragi Ólafsson í viðtali í þættinum Víðsjá á Rás 1. Þar ræddi hann m.a. um  sögusvið nýju bókarinnar, persónurnar sem einkenna sögur hans og  upplýsti m.a. að Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson er hluti af fjórleik. Fyrsta bókin af fjórum, Sendiherrann, kom út árið 2006 og laumaði sér fram fyrir í röðinni því Handritið átti að verða fyrsta bókin í fjórleiknum.

Hægt er að hlusta á viðtalið á vef Rásar 1.

Gullfoss: önnur tilraunGullfoss: önnur tilraun

Í fyrstu ljóðabók Braga, Dragsúgi, birtist ljóð um Dettifoss, það er að segja vatnsfallið, ekki skipið, sem höfundurinn tileinkaði vini sínum Einari Erni Benediktssyni. Dragsúgur kom út árið 1986, og birtist því ljóðið áttatíu árum eftir að nafni Einars Arnar, skáldið Einar Benediktsson, birti sitt ljóð um Dettifoss í bókinni Hafblik. Tuttugu og tveimur árum eftir útgáfu Dragsúgs orti Bragi ljóð um annan foss, Gullfoss, sem hann birti í tímaritinu Stínu. Hann hefur hins vegar nýlega gert breytingar á því ljóði, vegna óánægju með hvernig til tókst í upphafi, og hér, á heimasíðu Braga, birtist ljóðið í sinni nýju mynd.

GULLFOSS

hugsað til tékkneska skáldsins Vitezslavs Nezval

Ég stend fyrir framan þessa tignarlegu mynd. Ég er fimm ára. Það er afmæli. Það er afmæli frænda míns. Við stöndum sitthvorum megin við ömmu okkar, ég og bróðir minn. Frændinn er ekki mættur – það hefur eitthvað gerst innan fjölskyldunnar sem hefur orðið til þess að frændinn kemur ekki. Foreldrar okkar bræðranna eru á Kanaríeyjum. Við erum nýkomnir inn í stofu, eftir að hafa setið í eldhúsinu með hundinum hennar ömmu, og horft á bjúgun á disknum á eldhúsborðinu, sem amma hafði raðað á diskinn eins og þau væru saltstangir. Við erum á heimili ömmu. Við stöndum fyrir framan þessa tignarlegu mynd af fossinum, og þegar sambýlismaður ömmu stingur innstungunni á enda rafmagnssnúrunnar í vegginn, kviknar ljós bakvið fossinn, og eitthvað fær vatnið til að falla ofan af fossbrúninni. Svo rís sambýlismaður ömmu upp af hnjánum. Og hann stynur eða andvarpar, líkt og það hafi kostað hann töluvert erfiði að fá vatnið til að falla ofan af brúninni.

Ég er fimm ára. Mér verður hugsað til handanna í ljóðinu eftir Vitezslav Nezval; handanna á klukkunni í gamla gyðingahverfinu, þeirra sem færa tímann aftur en ekki fram. Ekkert kemur mér lengur á óvart, ekki einu sinni dauðinn í ljóði Nezvals.

HandritiðHandritið

Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson er ný skáldsaga eftir Braga Ólafsson. Svolítið snúið er að útskýra efni hennar í stuttu máli, en þó má ef til vill nefna þrjá þræði sem ganga í gegnum söguna: handritið sem nefnt er í titli bókarinnar, óvæntan föðurarf Arnar Featherby og ferð þeirra Jóns með skipi til Englands og aftur til baka, auk þess sem vitna má í niðurlag setningar undir lok bókarinnar til að bregða frekara ljósi á hana: „… hin íslenska þjóð hefur ekki við að endurheimta hetjur sínar og handrit.“

Handritið (svo notuð sé styttri útgáfan af titlinum) tengist lítillega síðustu skáldsögu Braga, Sendiherranum, því Sturla Jón Jónsson, hinn eiginlegi sendiherra í þeirri bók, er sonur Jóns Magnússonar, annars tveggja höfunda kvikmyndahandritsins sem minnst er á í titli nýju bókarinnar. Jenný Alexson, sú sem fylgist með og skráir niður sögu Jóns Magnússonar og Arnar Featherby, er auk þess systir Fannýjar Alexson, móður Sturlu Jóns Jónssonar.

BRAGI Ólafsson les upp úr bók sinni Sendiherranum í hádeginu í dag í Þjóðmenningarhúsinu. Uppákoman er hluti af upplestraröðinni Jólahrollur í hádeginu sem hófst sl. þriðjudag en í hennar nafni er boðið upp á upplestur úr nýútkomnum, íslenskum spennusögum á hverjum degi fram að jólum. Lesturinn hefst klukkan 12.15 alla dagana en að honum loknum býðst áhlýðendum súputilboð í veitingastofu Þjóðmenningarhússins.Á morgun, sunnudag, mun Einar Hjartarson lesa upp úr bók sinni Nehéz

Frásögn af spítalavist í ParísarborgFrásögn af spítalavist í Parísarborg

Birtist fyrst í Læknablaðinu í febrúar 2007.

SPENNITREYJAN

Í leikriti Harolds Pinter, Ashes to ashes, veldur það persónu sem kallast Rebecca miklum vonbrigðum að lögreglusírena sem hún hefur rétt í þessu heyrt nálgast og fjarlægjast húsið sem hún dvelur í skuli ekki lengur hljóma í eyrum hennar heldur í eyrum einhverrar annarrar manneskju. Hún á mjög erfitt með að sætta sig við að hljóðið í sírenunni – sem henni finnst afar fallegt – skuli ekki lengur vera „hennar“, eins og hún orðar það; að einhver annar en hún fái að njóta þess. Hin persónan í leikritinu, sem er elskhugi og/eða kvalari Rebeccu, maður að nafni Devlin, reynir að hughreysta hana með þeim orðum að fljótlega muni hún heyra í öðrum bíl með sírenu, og honum tekst á endanum að sannfæra hana um að á hverri mínútu sé lögreglubíll ræstur hér eða þar, og bruni af stað með logandi sírenu; hún muni aldrei framar þurfa að kvíða því að heyra ekki í lögreglunni nokkuð reglulega. Svo fara þau að tala um eitthvað annað, þau Devlin og Rebecca – þótt „eitthvað annað“ hljómi ef til vill sakleysislega í ljósi fremur óhefðbundinna samskipta þeirra.

Ófáar persónur í skáldbókmenntunum hafa öðlast framhaldslíf í huga mínum. Sumar þeirra eru nánast jafn lifandi og fólk sem maður umgengst daglega, en þótt hin órólega Rebecca Pinters sé í huga mínum ekki ein þeirra dúkkar hún upp í hvert sinn sem ég heyri sírenu hljóma á götum borgarinnar – og það hljóð virðist sífellt verða tíðara, hvernig sem á því stendur. Og þá bregst ekki að það sem ég hef verið að hugsa þá stundina víkur fyrir öðrum og stærri hugsunum: vangaveltum um öryggið og skortinn á örygginu í lífinu, þá hughreystandi staðreynd að sem þjóðfélagsþegn hefur maður aðgang að heilbrigðisþjónustu, en heilabrotin snúast þó ekki síður um fagurfræðina í þrá Rebeccu eftir að heyra hinn ákafa og ómstríða söng sírenunnar; um fallega mótsögnina í ljóðrænni yfirlýsingu hennar. Niðurstaða þessara hugsana minna verður hins vegar alltaf sú sama; að í raun þrái ég sjálfur að heyra sírenuna nálgast mig, að líkt og Rebecca kunni ég illa við að heyra hana fjarlægjast, þótt ég sé ólíkur Rebeccu að því leyti að ég tek sjúkrabílinn fram yfir lögreglubílinn.

En hvernig útskýrir maður þá löngun að vera pikkaður upp úti á götu af opinberri neyðarþjónustu á borð við lögreglu eða sjúkraflutningsfólk? Allajafna vill maður helst ekki vera lagður inn á spítala (hvað þá stungið í fangaklefa), en samt er einhver óútskýranleg vellíðan sem fylgir því að vera fullkomlega ósjálfbjarga, algerlega upp á aðra kominn, og meðhöndlaður í því ástandi af sprenglærðu, allsgáðu fólki sem ekki aðeins fær borgað fyrir að bjarga manni, heldur hefur á líkama manns þann brennandi áhuga að hugsanlega geti hann sýnt því eitthvað sem það hefur ekki séð áður. Að óska sér þessarar meðferðar án þess að nokkuð ami að manni er auðvitað ósanngjarnt gagnvart öðru fólki sem virkilega þarf á sjúkrahjálp að halda, en í augnablikinu dettur mér í hug að þetta sé skylt annarri tilfinningu, nefnilega þeirri sammannlegu þrá eftir ánauð og ófrelsi sem felst meðal annars í því að vera bundinn niður og keflaður og geta sig hvergi hreyft, á meðan viðstaddir geta gert við mann það sem þeir þurfa eða langar til að gera við mann. Og þá rifjast upp fyrir mér lítil saga:

Fyrir rúmum þremur árum var ég staddur ásamt konunni minni í París. Við bjuggum miðsvæðis í borginni, í fjórða hverfi við Signu. Þetta var í sumarlok, við höfðum upplifað einhverja mestu hitabylgju sem geisað hefur í Evrópu á síðustu árum – og lifað hana af – og þá, einn morguninn, fékk ég allt í einu verki í líkamann; verki sem höfðu ekkert með nýafstaðna hitabylgju að gera en urðu fljótlega svo miklir að konan mín sá ekki annað ráð en að hringja í lækni. Sá var lygilega fljótur á staðinn og þegar hann hafði skoðað mig tók hann sjálfur upp símann og bað um að ég yrði sóttur. Mér var síðan ekið babú í sjúkrabíl á næsta spítala, og þurfti engar áhyggjur að hafa af því að sírenan sem vældi í eyrum mínum myndi fjarlægjast; hún fylgdi mér alla leið af hægri bakka Signu yfir á Borgareyjuna, Ile de la Cité, þar sem mér var rennt inn á elsta spítala Parísarborgar, hið sögufræga sjúkrahús Hôtel-Dieu, við sama torg og hin frúarlega kirkja Notre Dame.

Eftir komuna á Hôtel-Dieu varð fljótlega ljóst að það þurfti að skera mig upp. (Ég læt vera að nefna ástæðuna, enda grunar mig að hún hljómi ósköp hversdagslega, ekki síst í eyrum lækna.) Og úr því það átti að opna á mér líkamann þurfti líka að svæfa mig – nokkuð sem í ljósi þeirra verkja sem ég hafði í líkamanum hljómaði mjög vel. Mér var rúllað inn í sérstakt herbergi þar sem ég var lagður á bekk, og þá birtist hávaxinn maður sem laut vingjarnlegur yfir mig; hann bauð mér góðan daginn og sagði á frönsku: „Ég er svæfingalæknirinn þinn.“

Svo man ég ekki meira fyrr en ég vaknaði aftur, einhverjum klukkustundum síðar, í hvítu herbergi með miðaldra konu sem ég hóf að spjalla við á mun meiri frönsku en ég hef nokkurn tíma haft vald á. Þaðan var svo ekið með mig inn á gjörgæsludeildina, og til að gera langa sögu stutta dvaldi ég þar í tvo daga, talsvert kvalinn eftir uppskurðinn en í nokkuð stöðugu morfínmóki sem ég kunni ágætlega við. Ég veit ekki hvers vegna ég var látinn hvílast inni á gjörgæsludeild (sem varla var rólegasta deildin á spítalanum), en þar eð ég taldi mig nokkuð lukkulegan að fá yfirhöfuð að dvelja í þessu fræga húsi ákvað ég að gera engar athugasemdir.

Þó gat ég ekki að því gert – þrátt fyrir ljúfa morfínvímuna – að finnast þjónustan við mig ekki sérlega góð. Enda hafði starfsfólkið í nógu að snúast, ekki síst við að sinna herbergisfélaga mínum, Alsírbúa um fimmtugt, sem líkt og ég virtist vera þeirrar tegundar að þykja gott að liggja á spítala. Hann var augljóslega kominn á Hôtel-Dieu með það fyrir augum að nýta sér til fullnustu þá þjónustu sem boðið var upp á, og þegar kom að því að læknirinn tilkynnti honum að hann mætti fara heim þyngdist allt í einu brúnin á sjúklingnum, og af því litla sem ég skildi af orðum hans var hann hreint ekki sammála lækninum. En þegar læknirinn ítrekaði að ekki aðeins mætti hann fara heim, heldur þyrfti hann að fara heim, brást hinn alsírski við með svo miklum látum að ekki færri en tíu eða tólf manneskjur af báðum kynjum þurfti til þess að halda honum föstum á meðan hann var settur í spennitreyjuna.

Þótt ég hafi sofnað fljótlega eftir að þetta gerðist, og ekki vaknað aftur fyrr en búið var að tæma og búa um rúmið við hliðina, man ég að áður en ég lognaðist út af sneri herbergisfélagi minn höfðinu sem snöggvast til mín, pikkfastur í spennitreyjunni, og brosti veiklulega, úrvinda af þreytu en alsæll.

Bragi Ólafsson

Hænuungarnir fá fimm stjörnur

Leikritið Hænuungarnir var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í febrúar og naut strax mikilla vinsælda. Þetta bráðskemmtilega leikrit um nútíma Íslendinga hefur verið sýnt fyrir fullu húsi síðan þá. Sýningin hlaut fimm tilnefningar til Grímunnar 2010 og Kristbjörg Kjeld hlaut Grímuna sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Þegar einhverju er stolið úr geymslunni manns í sameigninni er ekki nema eðlilegt að maður vilji vita hver þjófurinn er. Það er að minnsta kosti skoðun jazzáhugamannsins Sigurhans. Og þótt það hafi ekki verið nema nokkrir kjúklingar á tilboðsverði sem hurfu úr frystikistunni finnst Sigurhans ástæða til að halda aukahúsfund. Enda telur hann sig vita hverjir voru að verki.

Hænuungarnir eru annað leikrit Braga Ólafssonar fyrir leiksvið. Hið fyrra, Belgíska Kongó, með Eggerti Þorleifssyni í aðalhlutverki og í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var sýnt hundrað sinnum í Borgarleikhúsinu.

Leikdómar um Hænuungana

Kliðurinn í fullsetnum sal Kassans í Þjóðleikhúsinu þegar Hænuungarnir, nýtt leikverk eftir Braga Ólafsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var við það að hefjast bar vott um almenna eftirvæntingu. Bragi og Stefán leiða hér saman hesta sína í annað sinn og ljóst að áhorfendur eru komnir á bragðið eftir hina vinsælu sýningu Belgíska Kongó. Í þetta sinn bjóða þeir félagar áhorfendum á húsfund sem Sigurhans, ögn hallærislegur jassunnandi á miðjum aldri, boðar til í kjölfar þess að nokkrir kjúklingar hverfa úr frystikistu hans í sameign hússins. Skemmst ber að segja að framvindan verður önnur en til var ætlast.

Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af leiksýningunni var ljóst að kvöldið yrði hin besta skemmtun. Eggert Þorleifsson gaf tóninn í yndislegu upphafsatriði þar sem hann stendur einn við stofugluggann, smellir fingrum í takt við jassplötu í góðu grúvi en passar þó upp á að blása sígarettureyknum út um gluggann með tilheyrandi handasveiflum til að styggja ekki frúna. Það er fagnaðarefni að Bragi Ólafson sé loks farinn að skrifa sviðsverk, það er svo sannarlega vettvangur fyrir persónur hans sem eru svo trúverðugar að það hálfa væri nóg líkt og unnendur skáldsagna hans vita.

Virkilega vel tekst til við framsetningu leikritsins á öllum vígstöðvum og undirstrika tæknilegir þættir vel raunsæið í sögunni. Búningar leikaranna eru réttilega valdir til þess að leggja áherslu á persónuleika hvers og eins. Sviðsmyndin, skeljasandshús í gamla stílnum þar sem áhorfendur fylgjast með atburðarás í tveimur íbúðum hússins, er mjög skemmtilega útfærð og nostrað við hvert smáatriði. Þessi uppsetning er rammi sögunnar og undirstrikaður með góðri lýsingu. Þegar líður á sýninguna og andrúmsloftið verður rafmagnaðra (húsfundur á þriðjudagskvöldi þar sem ásakanir um þjófnað vofa yfir er ekki ávísun á huggulega kvöldstund) þá er eins og sviðsmyndin fari að þrengja að íbúum hússins. Þeir hafa ekkert lebensraum enda innilokaðir í gráum kassa þar sem enginn virðist vera sérstaklega hamingjusamur þrátt fyrir að hafa nýlega fjárfest í flatskjá eða langþráðu plötusafni. Eru hér hænuungarnir í titli verksins komnir?

Þessi ádeila afhjúpast æ betur þegar líður á sýninguna. Litla fjölbýlið verður að íslenskum míkrókosmos þar sem greina má allmargar manngerðir Íslands í dag. Einstaklingarnir eru upphaf og endir eigin tilveru sem hvergi skarast við heimsmynd hinna. Af því leiðir gagnkvæmt skilnings- og áhugaleysi, auk þess sem grunnt er á hvers kyns fordómum gagnvart gildum sem ekki samræmast þeirra eigin. Skortur á víðsýni afhjúpast í því sem á að vera kurteisislegt hjal á milli nágranna, ekki síst þegar sá sem mælir telur sjálfan sig vera holdgerfing heimsborgarans og umburðarlyndis yfirleitt. Braga tekst einstaklega vel að forðast steríótýpur, við þekkjum öll þetta fólk bæði í öðrum og – úps! – okkur sjálfum. Eins og gjarnan hjá höfundinum er atburðarásin allt að því aukaatriði, það eru aðstæðurnar og fólkið sem gera verkið bæði áhugavert og bráðfyndið. Það er ekki öllum gefið að fá áhorfendur til þess að veltast um af hlátri yfir annars óáhugaverðum og niðurdrepandi húsfundi. Allir aðstandendur sýningarinnar eiga því mikið hrós skilið.

Ekki er hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að hrósa frammistöðu leikaranna. Stefán Jónsson er traustur leikstjóri sem tekist hefur að kalla fram það besta í hverjum og einum; það er raunar langt síðan undirrituð hefur séð jafngóðan leik á sviði. Allir skila persónu sinni óaðfinnanlega og erfitt er að gera upp á milli. Fremsta meðal jafningja verður þó að telja Kristbjörgu Kjeld í hlutverki ekkjunnar á efri hæðinni. Kristbjörg vinnur hér leiksigur með fullkominni tímasetningu, blæbrigðum og líkamstjáningu og stelur senunni áreynslulaust í hvert sinn sem hún birtist. Eggert er traustur sem endranær og áttu hann og Ragnheiður mjög gott samspil sem hjón sem þróast hafa í ólíkar áttir með tímanum. Feðgarnir í meðförum Pálma og Friðriks voru bráðskemmtilegir og steig hvorugur feilnótu í túlkun sinni. Þegar upp var staðið voru þeir kannski víðsýnustu íbúar hússins þrátt fyrir að bera það ekki með sér í fyrstu. Þeir voru reyndar þeir einu sem horfðu reglulega á sjónvarp, gæti verið að þar væri skýringin fundin?! Síst heilsteypta persóna verksins er Lillý, dóttir nýlátins íbúa á efri hæðinni, sem er að hreinsa út úr íbúðinni á meðan á húsfundinum stendur. Að mínu mati voru of mörg spurningarmerki sem tengdust aðkomu hennar og hlutverki í atburðarásinni sem kann að hafa leitt til þess að Vigdís Hrefna, sú ágæta leikkona, hafi ekki haft úr eins miklu að moða og hinir.

Þegar upp er staðið eru Hænuungarnir einstaklega vel gerð og skemmtileg leiksýning sem hiklaust er mælt með fyrir alla sem hafa áhuga á mannlegu eðli og samskiptum. Það er auðvelt að vera kóngur í ríki sínu (eða haninn í hænsabúinu) innan fjögurra veggja heimilisins, en stundum verður ekki hjá því komist að eiga samskipti við umheiminn og þar gilda aðrar leikreglur. Hér væri freistandi að fara út í pælingar tengdum Icesave, en ég held ég láti hér við sitja og hvetji þess í stað til þess að fólk fari í leikhúsið og dragi eigin ályktanir. Góða skemmtun!

9. mars 2010

Kristín Una Friðjónsdóttir