Ný ljóðabók

Rómantískt andrúmsloft er ný ljóðabók eftir Braga Ólafsson. Í henni eru 31 ljóð, flest ort á síðustu tveimur árum. Fríða Björk Ingvarsdóttir fjallaði um bókina í Víðsjá á Rás 1 og var mjög hrifin. Úlfhildur Dagsdóttir birti einnig dóm um bókina á bokmenntir.is.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Baldur A. Kristinsson, gaf bókinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Þar segir m.a.: „Sem fyrr segir eru feilsporin fá í Rómantísku andrúmslofti, og sum ljóðanna eru hrein snilld. Hér má finna sömu lágstemmdu kímni og sömu óvenjulegu sjónarhorn og lesendur þekkja úr fyrri ljóðabókum Braga. Þó er ekki laust við að heildartónninn sé ögn alvarlegri og djúphugulli en áður.”

Hér er fyrsta ljóð bókarinnar, Kínverska sendinefndin:

Kínverska sendinefndin

Við tjörnina í Reykjavík
vex fífill. Og við hlið þessa fífils
vex annar – þetta er rétt hjá styttunni
af ljóðskáldinu á bekknum.

Stutta stund
er eins og myndin af fíflunum
og styttunni og bekknum
sé mannlaus, ef frá er talið skáldið

sem einu sinni var styttan,
og stöku bíll á tjarnarbrúnni
með manneskju innanborðs.
En þá taka að heyrast úr fjarskanum

skóhljóð á stétt, og það er ekki
eins og einhver ein manneskja
sé þar á ferð heldur fleiri:
þær eru tvær; þær eru þrjár,

þær eru fjórar, ef ekki fimm:
mitt óþroskaða ímyndunarafl
ræður ekki við þann fjölda
sem þau fela í sér, skóhljóðin.

Bókina má kaupa á vef Forlagsins.

Ritdómar

Frétt uppfærð 17. júní 2012

Íslensk tilvist í franska Vogue

Í nýjasta hefti hins franska Vogue er fjallað um skáldsöguna Gæludýrin, Les animaux de compagnie. Sagan er sögð vera sérviskuleg, fyndin og óþægileg, tilvistarleg og óvenjuleg, og á sinn hátt mjög rokkuð! Enda er Vogue með hugann við rokktilvist höfundar, og gerir Braga, eins og ekkert sé, að föður Sindra, sonar Bjarkar, sem hann er ekki. En það þarf ekki að koma á óvart, því um daginn fjallaði franska dagblaðið Liberation um skáldsögu eftir Sjón, og í þeirri umfjöllun var Sjón allt í einu orðinn að fyrrum gítarleikara Sykurmolana …

Umfjöllun í Vogue (pdf)

Maður hlær og engist um til skiptis

Guðrún Elsa Bragadóttir fjallaði nýlega um fyrstu bók Braga Ólafssonar, Hvíldardaga, á bloggsíðunni Druslubækur og doðrantar sem er vistuð á vefsvæði Miðjunnar. Guðrún Elsa hafði ekki lesið aðrar bækur eftir Braga en séð leikritið Hænuungana. Eftir lesturinn er hún nokkuð viss um að eiga eftir að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.

Grípum niður í umfjöllunina þar sem hún fjallar um aðalsögupersónuna:

„Lesandi fær að sjá í honum alla þessa smávægilegu og hlægilegu galla sem ég held að allir hafi upp að vissu marki, en eru svo fáránlegir að við viljum ekki að aðrir komist að því að við höfum þá. Hann hugsar til dæmis óþarflega mikið um það hvað aðrir séu að hugsa, eyðir töluverðum tíma í langa og ítarlega dagdrauma um það hvernig það væri að þekkja fólk sem hann þekkir ekki og hann á erfitt með að taka einfaldar ákvarðanir. Hann segir meinlausar lygar til að komast hjá því að hitta fjölskyldu sína og eyðir mikilli orku í það að komast hjá því að gera hluti, en endar auðvitað á því að eyða meiri tíma og orku í undanbrögð og fresti heldur en það hefði tekið að gera hlutinn bara strax. En það eru þessi smávægilegu, hlægilegu atriði sem eru uppistaðan í aðalsögupersónu og í raun meginefni bókarinnar. Og maður hlær og engist um til skiptis.”

Sjá umfjöllun í heild sinni.

Fljótandi samkvæmi sigurs og vonar

Ljóðið Glæstar smíðar birtist í Klinki, ljóðabók Braga frá árinu 1995. Glöggur lesandi þessarar síðu benti á að ljóðið, sem er upphafsljóð bókarinnar – þessarar bókar sem eins og nafnið gefur til kynna, fjallar að miklu leyti um gjaldmiðla og viðskipti hvers konar – fjallaði í raun um það hrun sem varð á Íslandi 2008.

GLÆSTAR SMÍÐAR

Yfir sumarmánuðina
þegar skemmtiferðaskipin eru að sökkva
úti á ytri höfninni
hvert á fætur öðru undir krefjandi aðdáun borgarbúa

verður spurningin um meira eftirlit með skipaferðum
áleitnari
og ekki aðeins áleitnari heldur einnig varpað fram
eins og spurningunni um það

hvers vegna þessar glæstu smíðar
þessi fljótandi samkvæmi sigurs og vonar
sökkvi alltaf að næturlagi
alltaf á þeim tíma sem aðdáun okkar er mest.

Falleinkunn Sendiherrans hjá Iceland Review

Gagnrýnandi vefmiðilsins Iceland Review, Eygló Svala Arnarsdóttir, er lítt hrifin af Sendiherranum í dómi sínum sem birtist á vefnum 10. janúar en bókin kom út í enskri þýðingu síðla árs 2010. Hún gefur henni falleinkunn eða 2 stjörnur af 5 mögulegum. Heldur þykir henni söguþráðurinn óspennandi og ekki síður aðalsöguhetjan Sturla Jónsson. Í dómnum segir m.a.:

“The main character of The Ambassador, poet Sturla Jón Jónsson, is not only unsympathetic but also uninteresting. His actions, his thoughts, the conversation he leads and the characters surrounding him did nothing but make me sleepy and had it not been for this column I would have given up on the book somewhere in the first chapters.”

Lesa má dóminn í heild sinni á vef Iceland Review.

Annar tónn hjá gagnrýnanda Grapevine

Í desember 2010 birtist einnig dómur um The Ambassador í Grapevine. Þar kveður við annan tón í ítarlegum dómi, sem er ritaður af Öldu Kravec.  Gagnrýnandinn hrífst af Sturlu og öðrum karakterum í bókinni. Þar segir m.a.:

“In some way, ‘The Ambassador’ reads like a narrative re-working of Dostoevsky’s famous quote regarding his literary contemporaries and their predecessor Nikolai Gogol: “We all come out from Gogol’s ‘Overcoat’”. Sturla is himself an admirer of Gogol.

Despite these various allusions, ‘The Ambassador’ remains accessible and funny. It is not necessary to understand every reference in order to appreciate the humour of the novel. Indeed, a large part of the humour lies in poking fun of the idiosyncrasies of the artist figure, a paradox given the commonplaceness of such a figure in Icelandic society. Throughout the novel, Sturla continually encounters dubious characters who claim to be poets and artists—a salesperson in a men’s clothing store, a dim-witted neighbour, a fat Russian at a strip club, a taxi driver in Druskininkai. Thus the artist figure is humorously demystified: if everyone’s an artist, then nobody is.”

Lesa má dóminn í heild sinni á vef Grapevine.

„Einfaldlega fallegasta bókakápan í ár“

DV leitaði til málsmetandi álitsgjafa til að finna bestu bókakápuna fyrir árið 2010 og birti niðurstöður í blaðinu 5. janúar 2011. Bækur Braga Ólafssonar og Einars Kárasonar deila efsta sætinu yfir bestu kápurnar.

Bókakápan er hönnuð af Sigrúnu Pálsdóttur og Agli Baldurssyni ehf. Skrif á kápu voru í höndum Einars Arnar Benediktssonar.

Í umsögn álitsgjafa segir m.a.:

„Hrátt og einfalt. Less is more.”

„Einfaldlega fallegasta bókakápan í ár”.

„Langflottust! Jafnvel þó bókin væri ekki eftir þekktan höfund myndi hún skera sig úr fjöldanum. Svona einföld og með þessari brjáluðu skrift sem er ekki einu sinni neitt sérstaklega falleg en kallar samt á mann langar leiðir”.

Fimm stjörnur í DV

DV birti dóm þann 22. desember um bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Gagnrýnandi blaðsins gaf bókinni fimm stjörnur af fimm mögulegum og í niðurlagi dómsins segir:

Eins og í flestum af sínum fyrri skáldsögum tekst höfundinum að koma lesandanum á óvart allt fram á síðustu blaðsíðu. Húmorinn vellur sem fyrr af textanum, persónur eru vel skapaðar og aðstæðurnar sem þær eru settar inn í og samtöl þeirra oft átakanlega vandræðaleg og fyndin. Handritið að kvikmynd … staðfestir enn á ný hversu frábær rithöfundur Bragi Ólafsson er.

Kristján Hrafn Guðmundsson

Tveir nýir dómar

Dómum um bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson fjölgar ört. Nú þegar hafa birst dómar og umfjallanir í Víðsjá á Rás 1, Kiljunni í Sjónvarpinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og nú síðast á Pressunni (Menningarpressunni) og á Bókmenntavefnum.

Menningarpressan
Kristján Kormákur Guðjónsson skrifar um bókina á Pressan.is og er afar hrifinn. Segir bókina vera bestu bók Braga til þessa og spáir henni Íslensku bókmenntaverðlaununum. Gefur  henni fullt hús eins og Einar Falur á Morgunblaðinu eða fimm stjörnur.

Í niðurlagi dómsins segir:

Í bókinni er hvergi veikan punkt að finna. Þetta er margslungið verk og mögnuð saga. Undirritaður spáir því að Bragi vinni tvöfalt í ár. Honum hefur þegar hlotnast heiður fyrir bestu kápuna. Líklegt verður að teljast að hann verði einnig heiðraður fyrir besta innihald þegar Bókmenntaverðlaun Íslands verða veitt, snemma á næsta ári.”

Bókmenntavefurinn
Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, skrifar um bókina á Bókmenntavefnum. Henni er tíðrætt um vaxandi óreiðu sem hún skynjar í bókum Braga. Þar segir m.a. um mögnun óreiðunnar

Allt nær þetta einhverskonar hámarki í skáldsögunni með langa nafnið, sem hér eftir verður nefnd Handritið. Sú saga er svo óreiðukennd og átakafælin að það er ekki einu sinni alveg ljóst hver er höfundur hennar, eða réttara sagt, hver segir hana, hverjum og hversvegna.

Úlfhildur endar dóminn á þessum orðum:

Það má því svo sannarlega segja að skáldsagan Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson láti engan ósnortinn – né óglaðan.

Morgunblaðið gefur fullt hús

Ritdómur um bók Braga Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. desember. Gagnrýnandi blaðsins , Einar Falur Ingólfsson, fer afar lofsamlegum orðum um bókina og gefur henni fullt hús eða fimm stjörnur.

Í niðurlagi dómsins segir m.a.:

„Þessi bók með langa nafnið er án efa hápunkturinn á ferli sagnaskáldsins Braga Ólafssonar; meistaralega skrifuð og stórskemmtileg skáldsaga.“

Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir m.a. um bókina:

„Þessi bók Braga er undursamlegt meistaraverk“

Upplestrar framundan

Bragi verður með marga upplestra fram til jóla úr nýrri bók sinni Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Hér fyrir neðan má sjá næstu viðburði.

9. des. kl. 16: ASÍ, Sætúni 1
9. des. kl. 20: Sunnlenska bókakaffið, Selfossi
Fyrri upplestrar
– 16. nóv. Bókasafn Seltjarnarness kl. 20
– 17. nóv. Bókasafn Mosfellsbæjar kl. 20
– 20. nóv. Edinborgarhúsið, Ísafirði
– 26. nóv. Vopnafjörður, Mikligarður kl. 20.30
– 27. nóv. Skriðuklaustur kl. 15
– 28. nóv. Seyðisfjörður, Skaftfell kl. 15
– 2. desember: Þjóðarbókhlaða kl.20
– 5. desember: Gljúfrasteinn kl. 16

Kiljan og Víðsjá fjalla um Handritið

Fjallað var um bók Braga Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson í menningarþættinum Víðsjá á Rás 1 þann 1. desember. Þar fjallaði Hjalti Snær Ægisson um bókina en hlusta má á umfjöllun hans á vef Ríkisútvarpsins.

„Hér líkt og fyrr tekst honum víða mjög vel upp við að draga fram allar þversagnirnar sem blunda undir sléttu og felldu yfirborði hlutanna. þergar allt kemur til alls er það einmitt raunin að hið fáraánlegasta af öllu fáránlegu er oftar en ekki það sem við köllum hversdagsleika.“
Hjalti Snær Ægisson / Víðsjá, RÚV

Í sjónvarpsþættinum Kiljan í Sjónvarpinu var bókin tekin til umfjöllunar hjá þeim Agli Helgasyni og bókmenntarýnendunum Þorgerði E. Sigurðardóttur og Hrafni Jökulssyni. Hægt er að horfa á upptöku á vef Sjónvarpsins.

„Þetta er ofboðslega stórt, margslungið, djarft og undirfurðulegt verk. … mjög fyndið á köflum. … Bráðsnjöll saga.“
Egill Helgason / Kiljan

„Þetta er ansi hreint mögnuð skáldsaga. … Margir þræðir og alveg meistaralega vel fléttuð.“
Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan

„Þessi mikla bók er samin af miklu hugviti, í mörgum lögum, og hann spinnur þetta af ótrúlegri leikni. …  mjög skemmtileg bók … Bragi er fantagóður og sérstæður stílisti …“
Hrafn Jökulsson / Kiljan

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í dag fullveldisdaginn 1. desember. Bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson er eitt af fimm verkum sem eru tilnefnd að þessu sinni.

Þetta er í fjórða sinn sem skáldsaga Braga er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en Gæludýrin, Hvíldardagar og Sendiherrann hafa einnig verið tilnefndar.

Í flokki fagurbókmennta voru eftirfarandi verk tilnefnd:

Bergsveinn Birgisson – Svar við bréfi Helgu, Bjartur
Gerður Kristný – Blóðhófnir, Mál og menning
Sigurður Guðmundsson – Dýrin í Saigon, Mál og menning
Þórunn Valdimarsdóttir – Mörg eru ljónsins eyru , JPV útgáfa
Bragi Ólafsson – Handritið að kvikmynd…, Mál og menning

Fjórar * hjá Fréttablaðinu

Í Fréttablaðinu í dag birtist dómur eftir Jón Yngva Jóhannsson um bókina Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson.

Jón Yngvi gefur bókinni fjórar stjörnur.

Jenný segir frá

Titill nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar er engin smásmíði. Og ekki nóg með það, hann er ekki alveg eins á kápu bókarinnar og titilsíðu. Sú sem segir söguna heitir ýmist Jenný Alexon eða Jenný Alexson, sem er kannski fyrirboði um það sem koma skal – Jenný er ekki sérstaklega áreiðanlegur sögumaður.

Sagan heitir Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alex(s)on. Þeir Jón og Örn eru lesendum Braga að góðu kunnir. Sonur Jóns, ljóðskáldið Sturla Jón Jónsson, var söguhetja Sendiherrans, síðustu skáldsögu hans. Sturla kemur raunar við sögu hér þar sem hann dvelur að því er virðist í góðu yfirlæti í Hvíta-Rússlandi ásamt skáldkonu sem hann kynntist á ljóðahátíð í Litháen og aldraðri móður hennar.

Eins og titillinn gefur fyrirheit um er hér saga innan í sögu innan í sögu. Jenný sú sem nefnd er í titlinum er sögumaður bókarinnar, hún segir okkur söguna af ferðalagi þeirra Jóns og Arnar til Hull á vit föðurarfs Arnar, tæplega 200 para af mokkasínum sem gamli maðurinn safnaði um ævina.

Inn í sögu þeirra félaga fléttast svo Handritið að kvikmynd sem þeir vinna að og inni í þeirri kvikmynd er önnur kvikmynd og þá eru ekki upp taldar allar þær sögur sem fléttast inn í ferðalag þeirra kumpána og frásögn Jennýjar.

Framan af bókinni getur lesanda liðið eins og hann sé staddur í flóknu völundarhúsi, persónurnar eru margar og sögurnar sem þær tilheyra líka. Sögukonan Jenný reynist ásamt öðru vera höfundur glæpasagna sem hún skrifar undir dulnefni, en sagan af handritinu er gagnólík þeim. Lesandinn má hafa sig allan við enda segir sögukona í upphafi síðasta kafla bókarinnar: “Eins og lesandinn sem hefur engan áhuga á skáldsögu sem hleypur út undan sjálfri sér til að fela sig fyrir söguþræðinum, hefur skáldsagan engan áhuga á þeim lesanda.” (430) Samanburðurinn við glæpasögur er engin tilviljun. Handritið… er margbrotin saga, í eina röndina er hún hæggengur farsi sem minnir á fyrri verk Braga þar sem persónurnar lenda í pínlegum aðstæðum sem engin lausn fæst á. Á hinn bóginn er hún líka rannsókn á skáldsagnaforminu, allt frá Laurence Sterne til nútímans. Jenný er sérkennilegur sögumaður, meðvituð og ágeng og minnir lesandann sífellt á að hann sé að lesa skáldsögu. Auk þessara einkenna, sem sumir myndu kalla póstmódernísk en Jenný minnir sjálf á að eru jafngömul skáldsögunni, er Jenný í hæsta máta óáreiðanleg heimild um líf persónanna og ferðalag tvímenninganna. Hún er ekki með þeim í för og á sjálf við nóg að etja á heimavígstöðvunum þar sem hún situr við skrifborð og spinnur upp sögu þeirra. Það er með öðrum orðum ekki hægt að treysta neinum í þessari sögu, allra síst sögukonunni sem þykist hafa flesta þræði í hendi sér.

Handritið… er að sögn önnur bókin í fjögurra bóka flokki sem hófst með Sendiherranum. Ef mæla ætti bókina og bókaflokkinn á mælikvarða hefðbundinna epískra frásagna mætti kannski ímynda sér að hún væri dæmigerð miðbók, það er ekki leyst úr vanda nokkurs manns og engir endahnútar hnýttir. En lesandann grunar líka að þannig verði það líka í framhaldinu. Sá heimur sem Bragi skapar í þessum sögum þenst bara út, hann er fullur af dularfullum gloppum, eyðum og ormagöngum og lítil von til þess að sá lesandi sem óskar eftir hefðbundinni skáldsögu með einum snurðulausum þræði fái það sem hann óskar sér. Sá sem er á hinn bóginn tilbúinn í ferðalag um þennan einkennilega söguheim fær það ríkulega launað.

Niðurstaða: Nýjasta skáldsaga Braga Ólafssonar er flókið skáldverk og metnaðarfullt. Þar birtast öll bestu höfundareinkenni Braga, hún er launfyndin og spakleg rannsókn á skáldsögunni og lífinu sjálfu.

Jón Yngvi Jóhannsson

Besta bókakápan

Fréttatíminn birti úttekt sérfræðinga á bestu og verstu bókakápum þessa árs í síðasta tölublaði.  Besta kápan að þeirra mati er sú sem einnig ber einn af lengstu titlum ársins: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson.  Um hana segir Stefán Snær Grétarsson, teiknistofustjóri á Fíton: „Þessi kápa lýsir glimrandi sjálfstrausti og kallar á að bókin verði lesin. Til þess eru bókarkápur.“ Kápuna gerir Sigrún Pálsdóttir, eiginkona Braga, en naut aðstoðar Egils Baldurssonar hönnuðar við frágang. Rithöndina framan á bókinni á enginn annar en Einar Örn Benediktsson, félagi Braga úr Sykurmolunum.

Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon) sagði þetta um kápuna: „Ég er hrifinn af ákveðinni tegund af kæruleysi. Það gengur ekki alltaf og ekki sama hvernig það er gert. Á bók Braga gengur þetta mjög vel. Ég held að ég hafi tekið fyrst eftir þessari tegund hönnunar hjá Frank Zappa – á hvítu Fillmore East tónleikaplötunni.“

Sigrún gerir jafnframt kápuna á sína eigin bók, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, en hún er ein af þeim kápum sem átitsgjafarnir nefna sérstaklega fyrir góða hönnun. Kápurnar á bókum Braga eftir Sigrúnu hafa áður hlotið eftirtekt og aðdáun. Meðal annars var kápan á síðustu skáldsögu hans,Sendiherranum, valin kápa ársins árið 2006.

(byggt á frétt á vef Forlagsins)

Hin hrjúfa ljóðræna rekur mig áfram

Bragi Ólafsson svaraði ýmsum spurningum á vefmiðlinum Miðjunni í tilefni af útkomu bókarinnar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Í þessu spjalli var Bragi var m.a. spurður um hvað það væri sem ræki hann áfram í skrifunum, hvaða bók, kvikmynd og tónlist væri í uppáhaldi svo eitthvað sé nefnt.

Viðtalið á Miðjunni.