Upphaf fyrsta kafla annars hluta

Ég er tiltölulega nýbyrjaður á bréfinu til Vigdísar þegar bankað er á dyrnar frammi. Þegar ég stend upp frá tölvunni er bankað aftur, núna helmingi oftar, og ég ákveð að kíkja út um stofugluggann og sjá hver þetta er áður en ég opna. Á meðan ég geri smárifu á gardínuna er bankað enn aftur, í þetta sinn á svo ágengan hátt að ég gæti mín sérstaklega á því að láta ekki sjást til mín þegar ég gægist út um mjóa rifuna. Þegar ég sé mann í blárri nælonúlpu með hettu standa fyrir utan dyrnar þykist ég vita að þetta sé sá sem Tómas talaði um að hefði komið í hádeginu. Því til staðfestingar er hann með hvítan plastpoka í annarri hendinni.

Hann heldur áfram að banka, ekki eins ákaft og síðast en þeim mun fastar, og ég hætti mér með höfuðið örlítið nær glugganum til að freista þess að sjá framan í hann. Á næsta augnabliki tekur hann nokkur skref aftur á bak og horfir upp eftir húsinu, eins og hann búist við að ég sé að fylgjast með sér af efri hæðinni. Ég sé ennþá ekki almennilega framan í hann fyrir hettunni en þegar ég virði fyrir mér hreyfingar hans – hvernig hann lyftir líkamanum og lætur hann einhvern veginn hlunkast niður í hverju skrefi – kviknar allt í einu á perunni.

Ég veit hver þetta er.

Ósjálfrátt loka ég rifunni og forða mér nokkur skref frá glugganum.

Getur það verið? hvísla ég að sjálfum mér. Getur það í alvörunni verið?

Samkvæmt því sem ég hafði heyrt, og fengið staðfest af föður hans fyrir nokkrum mánuðum, var Hávarður Knútsson inni á lokaðri stofnun í Svíþjóð og átti að vera þar í gæslu að minnsta kosti næstu þrjú árin. Hann hafði nú ekki verið nema í eitt ár á þessu „svokallaða heimili“, eins og Knútur faðir hans orðaði það.

Getur það í alvörunni verið? spyr ég mig aftur og neita með sjálfum mér að trúa því. Mér finnst nánast eins og ég hafi séð draug og lær mér detta í hug að Hávarður hafi dáið inni á þessari stofnun sinni og sé farinn að banka upp á hjá fólki sem hann veit að myndi ekki hleypa honum inn í lifanda lífi. En þung höggin á dyrnar eru of raunveruleg til að ég geti leyft mér að gæla við þá þægilegu hugmynd að þetta sé aðeins vofa sem myndi gufa upp þegar ég opnaði dyrnar. Ég reyni að telja mér trú um að það sem ég þóttist sjá í hreyfingum þessa manns hafi verið misskilningur, ég hafi einungis ímyndað mér það versta; þessi maður fyrir utan sé einhver allt annar en sá sem hann lítur út fyrir að vera. En mér tekst ekki að sannfæra sjálfan mig. Það er ekki nema einn maður í heiminum sem hreyfir sig á þann hátt sem þessi maður gerir; þetta er Hávarður.