Handritið 3. kafli

Úr Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson

3. kafli

HÁLFRAR ALDAR SAGA

Þegar ég var ellefu eða tólf ára gömul buðu foreldrar vinkonu minnar mér og hinum stelpunum í vinahópnum í hádegisverð á Naustinu. Ég man ekki nákvæmlega tilefnið, og enn minna frá sjálfri máltíðinni; það sem situr eftir í minninu er hneykslun móður minnar Mörthu yfir því að ég skyldi ekki panta mér eitthvað meira spennandi að borða en soðna ýsu og skyr með mjólk út á. Mér byðist ekki á hverjum degi að fara inn á svona fínan veitingastað; ég hefði í það minnsta getað beðið um rjóma út á skyrið, því rjómi væri aldrei sparaður á Naustinu. Ég man eins og það hefði gerst í gær hvernig mamma taldi upp fyrir mig hina og þessa rétti sem ég hefði getað pantað mér, til dæmis smjörsteikta humarhala, franska lauksúpu, eða einfaldlega körfukjúkling. Það væri einmitt þarna á Vesturgötunni sem nýjungarnar í íslenskri matarmenningu litu dagsins ljós.

Humarhalar eða lauksúpa?

Það er það sem sendiherrafrúin, móðir mín, hefði beðið um af matseðlinum. Og gerði líklega oft, þótt henni og pabba dytti aldrei í hug að bjóða okkur systrunum með á Naustið – ekki eins og foreldrum vinkonu minnar.

Eftir á hljómar kjúklingur í körfu reyndar mjög freistandi réttur til að fá sér á veitingahúsi. Hann hljómar til dæmis mun betur en bara kjúklingur. Og gerði það líka á þessum árum, því þá þótti kjúklingur ekki fínn matur á Íslandi. En það var ekki aðeins hinn ameríski Chicken in the basket sem eigendur Naustsins bættu á matseðil Íslendinga. Þeir eru ábyrgir fyrir því að hinn óameríski þorramatur er ennþá vinsæl matarhefð meðal landsmanna, hálfri öld eftir að þeim datt í hug að bjóða upp á hann undir kýraugunum í Vesturgötunni, auk þess sem þeir hófu snemma að kynna fyrir borgarbúum útlenska matreiðslu, með þeirri aðferð að efna til sérstakra daga sem tileinkaðir voru þjóðlegum mat annarra þjóða. Til að mynda héldu þeir ítalska viku og austurríska, og hvort sem „kjúklingurinn í körfunni“ fékk að fljóta með á matseðli amerísku vikunnar eða ekki, buðu þeir einnig upp á eina slíka. En til að halla ekki á hinn aðilann í því kalda stríði sem á þessum tíma „geisaði“ á milli stórveldanna í austri og vestri – því stríði sem í dag er vinsælt að halda fram að hafi verið háð á taflborðinu – þótti Naustmönnum, sem flestir voru skólabræður úr Verzlunarskóla Íslands og þar af leiðandi með hugann við að hagnast á hlutunum, við hæfi að hafa rússneska viku.

Þótt ég hafi sjálf ekki verið gömul, rámar mig í að raunverulega hafi Naustið haft á sér svolítið alþjóðlegan blæ á þessum árum. Og ef einhver manntegund hefði átt að bíta á það agn sem veitingahúsið við Vesturgötuna lagði fyrir bæjarbúa, þá var það manntegundin „Örn Featherby/Jón Magnússon“, hinn síungi, listræni sveimhugi sem hungrar og þyrstir í allt sem hefur yfir sér fjarlægan og framandi blæ. En sú varð ekki raunin, og þeir félagar höfðu síst af öllu ætlað sér að borða úti kvöldið sem þeir lentu á rússnesku vikunni í Naustinu, enda hefði það verið á færi hvorugs að leyfa sér slíkan lúxus á þessum árum. Jón var tiltölulega nýkominn heim úr kvikmyndanáminu í Prag, svo að segja atvinnulaus fyrir utan einhver lítil verkefni hér og þar. Þetta var áður en hann byrjaði að vinna hjá Sjónvarpinu, reyndar löngu áður; hann hóf ekki störf þar fyrr en árið 1967, stuttu eftir að Sjónvarpið var stofnað. Á þessum tíma bjuggu þau Fanný á Mánagötunni, í íbúðinni sem pabbi keypti handa þeim. Sturla Jón var sex eða sjö ára, og það var ekki sérlega hátt á fjölskyldunni risið í fjárhagslegum skilningi, þótt ekki þyrftu þau að svelta – pabbi sá til þess. Örn, sem bjó með stúlku sem hann hafði kynnst í Menntaskólanum (og varð reyndar ólétt af tvíburum eftir annan mann á meðan þau bjuggu saman), var enn að reyna fyrir sér sem leikritaskáld og smásagnahöfundur, og hafði því væntanlega ekki miklu meira umleikis en félagi hans. Ég sé þá fyrir mér gangandi upp Vesturgötuna: tvo unga og blanka menn með þá óhagganlegu vissu að þjóðin ætti eftir að taka þeim opnum örmum sem listamönnum; vissu sem síðar átti eftir að breytast í eins konar óorðaða kröfu á hendur þjóðinni, síðan óvissu og að lokum vonleysi, og vekja upp í þeim tortryggni, beiskju og aðrar skyldar tilfinningar sem ásamt áhyggjum af því hvaðan næsta peningaupphæð komi, og hvort hún muni hrökkva fyrir nauðsynjum, gera lítið til að örva hugmyndaheim manna á borð við Örn og Jón, þótt eflaust geti slíkt ástand orðið öðru skapandi fólki til framdráttar.

*

„Hann var sem sagt að safna efniviði í næstu sýningu?“ spyr Jón, þegar Örn hringir í hann stuttu eftir að Níels Pietur þakkar fyrir afnotin af klósettinu í Bergstaðastrætinu og hverfur út í daginn, léttur á sér með nýfengna hugmynd að bíótónlist í höfðinu. (Hann gerir sér auðvitað enga grein fyrir því – ekki frekar en Örn og Jón – að næst þegar þeir hittast, félagarnir, verður það í sama húsnæði og hýsti Naustið, fáeinum dögum eftir að hálfrar aldar saga þess veitingastaðar er hreinsuð út úr því húsnæði.)

„Hann hélt bara áfram að tala um þennan Hermann Buhl,“ svarar Örn. „Og sagði mér reyndar frá svolitlu sem þér þætti örugglega áhugavert að heyra, ef þú ert ekki þegar búinn að heyra um það frá Sturlu.“

„Ég hef ekkert heyrt frá honum Sturlu.“ Jón bætir því svo við – sem Örn vissi nú þegar – að Sturla eigi að vera kominn heim úr Eystrasaltinu, úr ferð sinni á ljóðahátíð í Vilníus og einhverju litlu þorpi í Litháen, en hann hafi ekkert heyrt í honum; hann sé farinn að búa sig undir að verða áhyggjufullur út af syninum.

En þetta „áhugaverða“ sem Örn minntist á er ekki síður spennandi í ljósi þess sem Jón hafði rétt í þessu spurt um; hvort Níels væri að safna efnivið í næstu sýningu. Því ólíkt hliðstæðu verkefni sem þeir Jón og Níels unnu saman sem ungir menn (þótt varla hafi beinlínis verið um samvinnu að ræða), er það sonur Jóns, Sturla Jón, sem nú hefur tekið að sér að setja Níels Pietur í orð, ef svo má að orði komast.

Fyrir tæpum fjörutíu árum hélt Níels Pietur myndlistarsýningu í virðulegum sal í Reykjavík. Þetta var önnur einkasýning hans; hann hafði vakið talsverða athygli fyrir þá fyrstu, og Jón, sem var í Prag þegar sú sýning var haldin, upptekinn í sínu filmnámi, var í hópi þeirra sem hrifust af hugmyndaflugi og dirfsku þessa unga félaga, Níelsar Pieturs (sem á þeim árum hét reyndar bara Níels Pétur). Þegar Jón kom svo stuttu síðar heim með útskriftarverkefni sitt úr tékkneska kvikmyndaskólanum, stuttmyndina Dyrnar ellefu, sem hann sýndi í litlum sal fyrir þröngan hóp áhugamanna, hafði Níels ekki síður orðið hrifinn af hinu dularfulla og margræða verki um Manneskjuna andspænis þeirri áþján að þurfa að velja sér útgönguleiðir í Lífinu.  Svo kröftuglega gekk hann fram í því að kynna og láta vita af mynd Jóns, að á endanum var hann orðinn eins konar umboðsmaður hans, og sú gagnkvæma virðing sem þessir ungu listamenn sýndu hvor öðrum á árunum undir 1970 varð í framhaldinu til þess, meðal annars, að Níels fékk Jón til að skrifa fyrir sig texta í prógramm áðurnefndrar einkasýningar sinnar; verkefni sem varð hins vegar til þess að upp úr vináttunni slitnaði, og virðing þeirra hvors fyrir öðrum sprakk í loft upp; varð á einu augnabliki að þeirri tilfinningu sem svo algeng er í samskiptum listamanna – ekki beinlínis hatri, og varla heldur öfund, kannski einhvers konar óánægju með að vera ekki betri en sá sem tilfinningin beinist að; sá sem í augum þess óánægða er heldur ekki sérlega góður listamaður.

Textinn sem Jón skrifaði fyrir sýningu Níelsar var skrifaður án þess að Jón hefði í raun hugmynd um hvað Níels hafði í hyggju að sýna. Og það var einmitt í því sem meinið lá, því þegar sýningin var komin upp á veggi safnsins, og textinn sömuleiðis, vildi Jón ekki tengja sitt framlag því sem Níels hafði búið til. Því málverkin – sem í sjálfu sér voru saklaus á að líta: svartir fletir í gylltum römmum – höfðu nefnilega yfirskrift: fáein orð á ensku, en nógu mörg til að Jóni fyndist Níels hafa „skitið á sig“, eins og hann orðaði það á sínum tíma; ekki aðeins á sig, Jón, heldur líka á sjálfan sig, það er að segja Níels. Yfirskrift sýningarinnar var Bowel Movement in Black. Og texti Jóns ekki í neinni harmóníu við þá merkingu sem myndirnar svörtu öðluðust við þann titil.

Það er því ekki að undra þótt Jón fyllist efasemdum þegar Örn fær símtal frá gömlum skólafélaga þeirra, Helga H. Haraldssyni (í kafla átta), og Helgi, sem er líffræðingur eða eðlisfræðingur, biður Örn að skrifa fyrir sig stutta texta undir ljósmyndir sem eiga að fara á sýningu. En munurinn á þeirri beiðni, eða því verkefni, og vandræðalegum misskilningi Jóns og Níelsar (ef hægt er að kalla það misskilning) er sá að Örn fær að sjá myndir Helga áður en hann orðskreytir þær.

Ég hefði sjálf ekkert á móti því að sjá þessar myndir. Sérstaklega eftir að ég frétti að ein þeirra væri af Fanný systur á brjóstunum. Jón – minn fyrrum mágur – skilst mér að hafi ekki haft hugmynd um þessa myndatöku Helga H. Haraldssonar, sem var þó gerð á meðan þau Fanný voru gift. Og eftir því sem ég best veit hefur hann enn ekki neina vitneskju um tilvist myndarinnar – þess vegna verður fróðlegt að heyra hvernig Örn gerir þessu skil (ef hann treystir sér til þess, það er að segja, að horfast í augu við Jón með það allt saman).

Leave a Reply