Síðasti kaflinn (upphaf)

KÍNAMÚRINN

Eins og lesandinn sem hefur engan áhuga á skáldsögu sem hleypur út undan sjálfri sér til að fela sig fyrir söguþræðinum, hefur skáldsagan engan áhuga á þeim lesanda.

Núna þegar ég hef játað á mig þann glæp að vera höfundur hinna vinsælu bóka um kvenspæjarann með hýjunginn – þótt ekki sé það enn opinbert; ekki komin yfirlýsing frá útgefanda, eitthvað þess háttar – þá krefst ég þess á móti að verða ekki vænd um að vera höfundur þeirra persóna sem ég hef hér á blaðsíðunum á undan fylgt yfir hafið og aftur til baka. Þó má vera að sumt af því sem hefur fengið að fljóta með, og hefur fest sig utan á þá atburðarás sem þeir Örn og Jón hafa flækt sig í – eða hún þá – sé undan mínum rifjum runnið og skrifist á minn persónulega reikning (sem ég geri reyndar ráð fyrir að sé orðinn svolítið hár). Enda lít ég svo á að það sem gerist í felum fyrir söguþræðinum sé meira virði en sjálfur þráðurinn, því það er alltaf hægt að slíta hann – ekki hitt.

Það má líka vera að ég sé gamaldags að þessu leyti, að ég leyfi mér að nota aðferðir rithöfunda fyrri alda, eins og til dæmis Sternes og Diderots (ég veit ekki hvað Tobba finnst um að ég sé að nefna hans eftirlætishöfund, Laurence Sterne, í þessu samhengi) – en þá mótsögn leyfi ég mér að réttlæta með því að til að vera nútímalegur sé algerlega nauðsynlegt að þekkja það úr fortíðinni sem á þeim tíma var nýtt, eins og mér finnst ekki leiðinlegt að heyra Alfreð Leó láta út úr sér áður en langt um líður, þegar þau fjögur, hann og Aldís, Örn og Jón, ganga inn á kínverska veitingastaðinn, á sama tíma og hann lýsir því yfir að hann sé „old school maður“.

En hvernig sem ber að túlka tifið sem við heyrum úr klukkunni alla okkar ævi, eða frá því við byrjum að veita ttímanum athygli, grunar mig að þeim Erni og Jóni hafi í sinni áköfu viðleitni að vera nútímalegir listamenn ekki lánast að tengja sig við tíma sem beinlínis hentaði þeim, sextíu og sjö ára gömlum mönnum sem sáu fram á að geta loks stigið sín fyrstu skref á þeirri hálu braut sem kvikmyndalistin er. Enda – burtséð frá því hvort Alfreð hyggst setja í verkefnið peninga eða ekki – held ég að áhuginn á því að koma saman handriti að kvikmynd, leikinni eða ekki, sé ekki lengur til staðar hjá vinum vorum; þeir séu hvor í sínu horninu búnir að gera sér grein fyrir að þeir muni fljótlega leita aftur í sín gömlu og þægilegu för; Jón að raða bókum og Örn að þýða plögg fyrir fólk úti í bæ; einfaldlega orðnir of gamlir fyrir slíkt verkefni sem framleiðsla bíó- eða heimildarmyndar er; verkefni sem krefðist allrar þeirra orku næstu mánuðina, næstu árin.

Eisenstein varð ekki nema fimmtugur. Tarkovsky ekki nema nokkrum árum eldri en C3