Brot úr kafla um miðbik bókarinnar

Þegar ég er lagður af stað í átt að ljósunum fer ég að rifja upp samtal tveggja kvenna sem sátu fyrir framan mig í vagninum og ég komst ekki hjá að heyra. Önnur konan var um það bil fimmtug, hin á aldur við mig, og þær virtust annaðhvort þekkjast af vinnustað eða voru lauslega skyldar. Fljótlega eftir að þær hittust byrjaði sú eldri að segja hinni frá fyrirhugaðri ferð með dóttur sinni og tveimur börnum hennar til Kanaríeyja um næstu jól. Mér fannst svolítið undarlegt að hún væri að tala um ferð sem ekki yrði farin fyrr en eftir fimm eða sex mánuði. Reyndar fannst ungu konunni það líka og hafði orð á því. Sú eldri sagði að þetta hefði staðið til í meira en ár og að endanleg ákvörðun hefði verið tekin fyrir nokkrum dögum. Svo fór hún að tala um að barnabörnin sín hefðu einhvers staðar heyrt eða lesið um ákveðna tegund páfagauka á Kanaríeyjum, einhverja sérstaka tegund sem væri mjög þekkt þarna á eyjunum, og að strákurinn og stelpan töluðu varla um nokkuð annað, jafnvel þótt hálft ár ætti eftir að líða þangað til þau fengju að berja fuglana augum.

„Þetta eru ekki kanarífuglar?“ spurði sú yngri og mér heyrðist hún spyrja meira í gríni en alvöru.

„Nei,“ svaraði hin og sagðist vera viss um að þetta væru páfagaukar, jafnvel þótt nærtækara væri að tala um kanarífugla á Kanaríeyjum. „Þeir eru víst með eitthvert rosalegt show með þessum fuglum þarna úti,“ hélt hún svo áfram. „Þetta eru víst engir venjulegir páfagaukar, þeir renna sér niður einhvers konar braut, einhvers konar rennibraut, og ekki bara það heldur hlaupa þeir um á einum fæti og þar að auki á skautum.“

„Ertu nú viss um það?“ sagði sú yngri brosandi og fékk þannig augnaráð frá hinni að mér sýndist hún taka þá ákvörðun að trúa öllu sem fram færi á Kanaríeyjum. Þegar hún ætlaði að segja frá því að hún hefði eitt sinn verið á sömu slóðum – þar sem múlasnar í bandi áttu greinilega að koma við sögu – tók sú eldri fram í fyrir henni og bætti því við að einhvers konar apakettir tækju þátt í sýningunni með páfagaukunum. Þeir stæðu við endann á brautinni og tækju á móti páfagaukunum þegar þeir kæmu hlaupandi eða rúllandi niður. Síðan fengju fuglarnir að standa á öxlum apakattanna, eins og þeir væru að gá til veðurs. Það virtist sem frásögnin félli yngri konunni ekki sérlega vel í geð, jafnvel þótt hún tæki hana ekki trúanlega. Þegar sú eldri ætlaði að fara að endurtaka lýsinguna á hlutverki apakattanna tók hin skyndilega af henni orðið og sagði að meðferð á dýrum á þessum stöðum, og þá sérstaklega öpum af því þeir væru svo líkir mönnunum, bara helmingi heimskari, væri í engu samræmi við þær kröfur sem við hérna norðar í Evrópu gerðum í sambandi við dýrahald. Það væri illa farið með dýr, þeim væri bókstaflega hrint út í alls kyns erfiðar sýningarþrautir sem jafnvel við manneskjurnar réðum aldrei við.

„En þetta er nú bara það sem þau gera,“ sagði eldri konan og leit út fyrir að vera svolítið hvumsa yfir mótmælum þeirrar yngri. „Þetta er bara þeirra líf,“ hélt hún áfram. „Þetta er náttúrlega svolítið öðruvísi en við eigum að venjast hérna heima en þetta er bara það sem þau fæðast inn í. Svo fá þau líka að éta. Frítt.“

Mér fannst eins og hún kærði sig ekki um að ræða þetta tilhlökkunarefni barnabarna sinna neitt frekar, en yngri konan hafði greinilega fyllst áhuga þótt ef til vill væri hann ekki sama eðlis. Hún svaraði því til að sumu væri ekki hægt að venjast, hvort sem um dýr eða menn væri að ræða. Sumt væri ekki hægt að bjóða fólki eða dýrum upp á undir því yfirskini að allt vendist. Ef illa væri farið með hvers kyns líf, og þá skipti ekki máli hvort það ætti sér stað hérna á Íslandi eða sunnar í álfunni, ætti að taka í taumana og „leyfa þeim sem eru ábyrgir að finna lyktina af sjálfum sér.“