Samkvæmisleikir

Prentneminn Friðbert hefur boðið vinum sínum og skyldmennum til veislu í tilefni af þrítugsafmæli sínu og undir morgun, þegar hann hefur kvatt síðustu gestina, kemur í ljós að enn er einn gestur í íbúðinni.

Samkvæmisleikir er óvenjuleg, ágeng og bráðskemmtileg saga sem glímir við merkileg og ómerkileg siðferðileg álitamál. Þetta er þriðja skáldsaga Braga Ólafssonar en hinar tvær, Hvíldardagar og Gæludýrin, voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Úr ritdómum

“En í Samkævmisleikjum er sögð heldur alvarlegri saga sem m.a. snýst um siðleysi, siðblindu og ofbeldi sem daglega öskar á okkur af síðum íslenskra dagblaða. Stígandinn í sögunni er hæg en þeim mun áhrifameiri og þegar yfir lýkur hefur lesandi tekið mörg andköf af óhugnaði og undrun og endalok sögu taka verulega á taugarnar. Við lestur þessarar spennandi og vægast sagt mögnuðu sögu hefur undirrituð endanlega sannfærst um að Bragi Ólafsson er án efa í hópi okkar bestu rithöfunda.” (Sigríður Albertsdóttir, DV)

“Bravó, Bragi! Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson er mögnuð skáldsaga. Þrælmögnuð. … eftir lestur bókarinnar situr maður gjörsamlega bergnuminn. Hvað gerðist eiginlega. … Samkvæmisleikir er spennandi og átakanleg samtímasaga með lunkinni fléttu.” (Hlynur Páll Pálsson, Fréttablaðið)

“Saga þessi er snilldarlega uppsett á flakki milli þessara útvöldu daga í júlí. … Frá upphafi býr eitthvað undir niðri, og er það ekki einungis grunur um myrkraverk heldur eru það ekki síst möguleikarnir sem leika lausum hala og kitla lesanda í vitundina.” (Soffía Bjarnadóttir, Víðsjá Rás 1)

“Alveg frábær bók, spennandi og fyndin.” (Jón Yngvi Jóhannsson, Kastljósið)

“Ég vildi að allir væru búnir að lesa Samkvæmisleiki, nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar. Ekki einungis vegna þess að það yrði öllum til gleði og ánægju – þótt að þau lýsingarorð nái ekki utan um þetta verk, kannski óhugnaður og ónot væru nærri lagi – heldur liggja líka eigingjarnar hvatir að baki. Samkvæmisleikir er nefnilega bók sem maður iðar í skinninu að fá að tala um … Samkvæmisleikir hefðu verið mjög ofarlega á mínum tilnefningarlista fyrir bókmenntaverðlaunin og veiti ég þeim hérmeð mín prívat verðlaun.” (Gunnþórunn Guðmundsdóttir, bokmenntir.is)