Einskonar formáli

Eins og allir aðrir hlutir – og allt fólk – kemur brúðan innan úr myrkrinu. Hún finnst í gömlum pappakassa í geymslunni og vegna þess að hún var geymd í kassanum hefur ekki fallið á hana rykarða; hún er jafn gömul og hún var fyrir tuttugu eða tuttugu og fimm árum, og ætli hæð hennar mælist ekki í svipuðum tölum; ætli hún sé ekki sirka tuttugu til tuttugu og fimm sentimetra há. Ef hægt er að tala um að hlutir hafi ákveðið kyn er nokkuð ljóst að brúðan er karlkyns. Á höfði hennar er strítt og gisið, gulleitt hár sem minnir helst á tómt hreiður, og á breiðu nefinu hvílir svört, efnismikil gleraugnaumgjörð án glerja. Brúðan er í dökkbláum jakka með merki íþróttafélags eða menntastofnunar saumað í barminn; niður eftir utanverðum skálmum ljósgrárra buxnanna er vínrauð flauelsrönd; svo er hún í svörtum, fremur támjóum skóm úr plasti. Í höndunum hefur hún myndarlegt dragspil, og þegar lyklinum í baki hennar er snúið gengur hún af stað, og göngulagið minnir á manneskju sem hefur ekki aðeins étið og drukkið of mikið; hún hefur ekki náð á salernið í tæka tíð. Og um leið og hún hefur gönguna byrjar hún einnig að draga belg hljóðfærisins sundur og saman; það heyrist djúpt andvarp sem hljómar líkt og einhver sé að deyja – einhver berjist fyrir lífi sínu og ætla megi að viðkomandi verði undir í þeirri baráttu – en þegar á því hefur gengið svolitla stund gerist skyndilega hið gagnstæða: einhver fæðist, án þess þó að tilheyrandi grátur fylgi fæðingunni, en það er heldur ekki hlegið eða flissað. Í lokin fjarar svo allt út, þótt ef til vill sé réttara að líkja því við að lofti sé hleypt úr blöðru og blaðran þjóti úr augsýn; korktappinn skýst úr kampavínsflöskunni: hann lendir einhvers staðar á bakvið sófann eða ofan í blómavasa sem á eftir að setja í blóm.