Úr öðrum hluta

BLETTUR Í TEPPINU

Ef frá er talið sjónvarpstæki sem virðist hanga í lausu lofti hátt uppi við gluggatjöldin er það dökkur blettur í ljósbrúnu teppi fordyrisins sem Sturla festir fyrst augun á þegar hann opnar dyrnar að hótelherbergi númer 304 á Ambassador Hotel í Vilníus. Bletturinn er á stærð við heslihnetuna sem Sturla hafði stungið í frakkavasann fyrir framan flugvallarbygginguna á meðan hann beið eftir fólkinu sem sótti hann; þennan form- og litfagra hlut úr náttúrunni sem ekki var verri hugmynd en hver önnur að gæti þjónað sem eins konar lukkugripur á meðan hann dveldi í landinu.

Í tölvupósti frá skipuleggjanda hátíðarinnar hafði Sturlu verið sagt að maður að nafni Jonas kæmi að ná í hann út á flugvöll. „One of our most renowned poets“ hafði staðið í sviga fyrir aftan seinna nafn mannsins; mjög einkennilega orðsmíð sem Sturla hafði ekki gert minnstu tilraun til að leggja á minnið. Fyrst í stað vissi Sturla ekki hvað honum átti að finnast um að móttökunefndin bæri hið fræga skáldanafn hins löngu látna frænda hans, en þegar hann hafði tekið í hönd þessa Jonasar, eftir að sá síðarnefndi hafði loks fundið hann á stéttinni fyrir framan flugvallarbygginguna, fannst honum vel viðeigandi að ljóðskáld með þessu nafni tæki á móti sér í sínum síðasta víking sem ljóðskáld, eins og hann orðaði það með sjálfum sér.

„Nice to meet you, Jonas“, hafði Sturla sagt, og Jonas svarað: „Nice to meet you soon, mister Jonsson.“

Líkt og með eftirnafn Jonasar átti Sturla í erfiðleikum með að klófesta nafn konunnar sem fylgdi honum; dökkhærðrar, myndarlegrar konu á fimmtugsaldri sem faldi augu sín bakvið óvenjulega stór sólgleraugu, kolsvört. Ljóðskáldið Jonas gaf á engan hátt til kynna með útliti sínu að hann fengist við skriftir; hann var í stuttum, ljósgráum leðurjakka, gallabuxum af einhverri óræðri sort, og úfið hár hans var líkt og fullt af steinsteypu eða ryki, sem Sturla taldi sig fá útskýringu á þegar þau stigu inn í bílinn; um það bil tuttugu ára gamlan rauðan Datsun sem leit út fyrir að hafa verið notaður lengi við einhvers konar iðnaðarstörf.

Jonas virtist ekki treysta sér lengra út á hið hála svell enskunnar en hann hafði þegar gert, og það var því konan sem sá um kynningarnar; hún byrjaði á því að afsaka Jonas, sem talaði þýsku en ekki ensku, svo sjálfa sig með því að Sturla neyddist til að spyrja hana ef hann langaði til að vita eitthvað, og botnaði síðan mál sitt með hinum sérkennilegu orðum um Vilníus: „But what is there to know? It´s only a city.“

Sturla gat ekki annað en yppt öxlum; hann langaði til að spyrja um eitthvað, til að líta ekki út fyrir að vera sammála orðum konunnar um borgina, en datt ekkert sérstakt í hug. Hún spurði hins vegar Sturlu nokkurra kurteislegra spurninga um hvort flugið hefði ekki gengið vel og hvernig veðrið væri á Íslandi, en sneri sér svo óskipt að félaga sínum Jonasi; þau virtust þurfa að ræða einhver mál, og gleymdu sér fullkomlega í þeim samræðum þann stundarfjórðung sem tók að aka að hótelinu. Á meðan Sturla hlustaði á litháenskuna úr munni þeirra – þetta tungumál sem ef til vill var ekki eins hljómstirt og hann hafði leyft sér að grínast með í grein sinni um hátíðina (á fremur óforskammaðan hátt, fannst honum núna) – velti hann því fyrir sér hvort ekki hefði verið svolítið einkennilegt að finna heslihnetu á gróðurlausri steypunni við flugstöðvarinnganginn; var ekki líklegt að slík tilviljun við komuna til landsins væri tákn um að eitthvað óvænt ætti eftir að gerast, eitthvað sem ekki var hægt að fara fram á að gerðist til dæmis á Skúlagötunni?

Um leið og Jonas og konan myndu hætta að tala saman hafði Sturla ætlað sér að spyrja hvort þau vissu hverju þetta sætti; hvað lítil heslihneta væri að gera í hinu steypta landslagi flugvallarsvæðisins. Hann hugsaði sér spurninguna sem litla húmoríska athugasemd í því skyni að mynda ef til vill ofurlítil tengsl við þetta fólk sem honum fannst satt að segja svolítið óþægilegt að sýndi honum ekki meiri áhuga, svona nýkomnum til landsins. En Jonas og konan (sem Sturla taldi ekki óhugsandi að væri ljóðskáld líka) þögnuðu ekki eitt andartak fyrr en þau voru öll þrjú komin inn í móttöku hótelsins og við tók langt og að því er virtist flókið samtal konunnar með sólgleraugun við hótelstarfsmanninn; unga rauðhærða konu í dökkbláum einkennisbúningi sem að loknu samtalinu sneri sér að Sturlu og sagði „I will take care of you now“. Sú yfirlýsing virtist létta þungu fargi af Jonasi og vinkonu hans; þau brostu – nokkuð sem Sturla gerði sér grein fyrir að hafa ekki séð þau gera áður – og Jonas mundi allt í einu eftir því að láta Sturlu hafa umslag með upplýsingum um hátíðina. Svo kvöddu þau, og það var ekki laust við að Sturla fyndi sömuleiðis til léttis yfir að vera ekki lengur í umsjá þeirra.

„Þú ert í herbergi númer 304,“ sagði rauðhærða konan, og eftir að hafa upplýst Sturlu um hitt og þetta varðandi hótelið, benti hún honum með vísifingri á tröppurnar og sagði afsakandi að því miður væri engin lyfta; hann þyrfti að ganga upp tvær hæðir og síðan að beygja til vinstri.

Sturla er því ennþá móður þegar hann fetar sig framhjá blettinum í teppi hótelherbergisins, með ferðatöskuna í eftirdragi og skjalatöskuna í hinni hendinni. Þegar hann er kominn framhjá blettinum og inn í sjálft svefnrýmið er það næsta sem vekur sérstaka athygli hans – fyrir utan það hversu herbergið er óvistlegt – lampi á náttborðinu milli mjórra rúmanna; appelsínugulur plastskermur sem rifjar strax upp fyrir honum innréttingu á pizzastað sem hann borðaði á í Búdapest fyrir nákvæmlega tuttugu árum þegar þau Hulda dvöldu þar eina helgi, eftir að hafa heimsótt gamla, fjarskylda frænku hennar í Vínarborg. En þegar Sturla kveikir á lampanum, og slekkur loftljósið, myndast dempuð og þægileg birta í herberginu, og hann minnir sig á þá föstu venju sem hann hefur komið sér upp á ferðum sínum erlendis, að láta sitt fyrsta verk eftir að hann kemur inn á hótelherbergi – að minnsta kosti áður en hann kveikir á sjónvarpstækinu – vera að fá sér staup af áfenginu sem hann hefur keypt í fríhöfninni.

Eins og til að bjóða sjálfan sig velkominn á nýjar slóðir.

Í þetta sinn hefur Sturla keypt sér hálfs lítra pela af tólf ára skosku viskíi. Hann lyftir skjalatöskunni upp á borðið undir speglinum, opnar á henni talnalásinn með því að raða upp tölunum 666, og horfir á sjálfan sig í speglinum þegar hann lyftir töskulokinu. Hann ákveður að fara í sturtu þegar hann er búinn að fá sér staupið, skipta um föt og láta svo reyna á hvort hann fái ekki kaffi upp á herbergi til að hressa sig á – með öðru viskístaupi – áður en hann kíkir í bæinn. Hann gat ekki betur séð en að miðja vegu milli hóteldyranna og móttökunnar væri inngangur í kaffiteríu eða einhvers konar bar, og hann hafði látið sér detta í hug að ungur maður sem hafði setið þar fyrir innan, við borð næst glugganum út að götunni, væri einn af gestum hátíðarinnar. „Ég er auðvitað kominn hingað á hálfpartinn skandinavíska fólksamkomu,“ segir Sturla upphátt við spegilinn, um leið og hann ákveður með sjálfum sér að þessi maður sem hann hafði rekið augun í hafi haft yfirbragð þeirrar tegundar norrænna ljóðskálda sem gjarnan flytja texta sína með leikrænum tilburðum eða tónlist; þetta var Norðmaður eða Svíi, hugsar hann, og ruglar talnaröðinni í lásnum aftur. Svo tekur hann upp úr skjalatöskunni vískípelann (vafinn inn í svarta V-hálsmálspeysu sem hann hafði keypt í millilendingunni á Kastrup flugvelli), pappírskilju (sem hann keypti líka á flugvellinum), sígarettukarton og tímaritið úr Fokker-vél Eystrasaltsflugfélagsins Baltic Air.

Á meðan hann nær sér í vatnsglas inn á baðherbergi rifjar Sturla upp grein sem hann las í blaðinu á leiðinni, um Tsjerrnobyl-kjarnorkuslysið í apríl 1986, og hann hugsar um hversu nálægt hann sé þeim slóðum í augnablikinu; Tsjernobyl, sem er í Úkraínu, er rétt við landamæri Hvíta-Rússlands, sem á hinn bóginn er ekki nema steinsnar frá Vilníus, og það var í Hvíta-Rússlandi sem geislavirknin olli mestum skaða, bæði á manneskjum og ræktarlandi.

Sturla hellir hinum gullna skoska vökva í tært vatnsglasið og ber það upp að speglinum áður en hann fær sér fyrsta sopann.

„Hvíta-Rússland,“ segir hann upphátt við sjálfan sig. „Lukashenko. Alexander Lukashenko.“ Og hann reynir að ímynda sér hvernig tilfinning það sé að búa í landi sem stjórnað er af manni sem lýsir því yfir að tunga þjóðar sinnar, hvítrússneska, sé ómöguleg til að fjalla um háleita hluti; að hin einu stóru tungumál heimsins séu rússneska og enska. Það rifjast upp fyrir honum miðaldra maður frá Hvíta Rússlandi sem hann kynntist lítillega á ljóðahátíðinni í Belgíu; ljóðskáld og bókmenntagagnrýnandi sem Sturla sér eftir að hafa ekki minnst á í hinni nýskrifuðu grein sinni, sem honum fannst í augnablikinu vera of neikvæð í garð gestgjafa sinna, bæði í nútíð og þátíð. Ef til vill hefði eins og ein jákvæð mannlýsing gefið henni bjartara yfirbragð, án þess þó að hún missti við það broddinn. Og ef einhver manneskja kallaði á jákvæða umfjöllun, hugsar Sturla, var það hinn hvítrússneski bókmenntamaður í Liege. Hann hafði vakið aðdáun Sturlu fyrir þann sjaldgæfa hæfileika að geta látið harða gagnrýni hljóma sem hið mesta hrós. Í samtali við Sturlu og tvö önnur ljóðskáld á hátíðinni í Liege hafði hann á einstaklega húmorískan hátt tætt í sundur hina misheppnuðu skipulagningu hátíðarinnar en í sömu orðum lyft henni upp á hæsta stall; þetta var stórkostlegt dæmi um uppbyggjandi niðurrif, eða hlýja kaldhæðni; þann eiginleika sem Sturlu langaði mest af öllu að gæti einkennt sína eigin hugsun og handbragð sem höfundur. Að vísu hafði Sturla aldrei fundið jafn mikla og stæka svitalykt af nokkurri manneskju og þessum kjarnyrta Hvítrússa, og hafði í kjölfarið forðast að lenda við sama borð og hann í matmálstímunum. Hann rifjar upp að á meðan hann þýddi ljóð Liliyu, hvítrússnesku skáldkonunnar sem hann myndi væntanlega hitta von bráðar, hafði jafnvel endurminningin um líkamslykt hins eftirminnilega bókmenntarýnis í sannleika sagt truflað hann. Því ef eitthvað gat komið Sturlu úr jafnvægi í nánum samskiptum sínum við fólk var það svitalykt og andremma, og ef einhver tegund lífsreynslu lifði áfram í huga hans var það sú að þurfa að anda að sér þeirri loftmengun sem frá líkamanum stafaði.

„Skál, Liliya Boguinskaia. Ég fer með þér aftur til Hvíta-Rússlands.“

Og Sturla skálar við spegilinn, fyrir hinni hvítrússnesku skáldkonu sem hann hefur hvorki hugmynd um hversu gömul er né hvernig lítur út, en hefur þó þýtt eftir ljóð úr enskri þýðingu, sem verkefni fyrirskipað af skipuleggjanda ljóðahátíðarinnar, í því skyni að stuðla að kynnum skáldanna sem hittast í fyrsta sinn á hátíðinni. Og ekki frekar en að Liliya þessi Boguinskaia hefur hugmynd um hver Sturla Jón Jónsson er, sá sem hefur þýtt ljóð hennar, Piliesstræti, yfir á íslensku, veit Sturla nokkuð meira um þá manneskju, umfram nafn hennar, sem hefur snúið ljóði hans, kennslustund, úr ensku yfir á sitt eigið tungumál.

„Skál fyrir hinum ókunna þýðanda,“ segir Sturla brosandi; hann klárar úr glasinu og grettir sig framan í andlitið í speglinum. Svo gengur hann út að glugganum, dregur tjöldin frá og á meðan hann veltir því fyrir sér hvort Liliya sé mætt til Vilníus, og hvernig hún líti út – hvort hún láti ekki nægja að koma til landsins rétt áður en hátíðin hefst, fyrst hún býr hérna í næsta nágrenni – horfir hann á hvítmálaðan vegg hússins á móti og út í upplýst portið milli bygginganna þar sem tvær öskutunnur liggja á hlið og nokkrum bílum hefur verið lagt. Hann veitir því athygli að allir bílarnir, fimm að tölu, eru þýskrar tegundar. Sú hugsun slær hann allt í einu hversu lítið manneskjan er vakandi fyrir nýju og framandi umhverfi, og ekki bara manneskjan almennt, eins og hann orðar það með sjálfum sér, heldur hann sjálfur; hann, sjálft ljóðskáldið sem í rauninni er skylt að vera með augun opin fyrir öllu sem fyrir þau ber – ef hugmynd hans um skáldið er á annað borð rétt; að það sé samviska tungumálsins, að því beri að búa til orðmyndir af því sem aðrir taka ekki eftir eða hirða ekki um að setja í orð.

Þessi hugsun leitar á hann vegna þess að á leiðinni inn í borgina frá flugvellinum finnst honum rangt að hafa ekki gefið því betur gaum hvernig borgin líti út, hvernig hún virkaði á hann; það eina sem virkilega situr eftir í minninu eru tvö eða þrjú einstaklega ljót háhýsi, eins konar dvergskýjakljúfar, sem hann taldi víst að hefðu verið reistir eftir að þjóðin fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Augu hans höfðu stimplað þessi skelfilegu mannvirki inn í hugann sem tákn fyrir langþráð frelsi innfæddra undan alræði kommúnismans; þessa fólks sem hann rifjar reyndar upp að hafa sérstaklega tekið eftir í bílnum á leiðinni á hótelið hvað hafi verið myndarlegt og vel til haft (eins og móðir hans mundi orða það); alger andstæða við þá hryggðarmynd sem miskunnarlaus arkitektúr samtímans virðist draga upp í borgunum í þeim tilgangi einum að ögra auga ljóðskáldins.

En hafði hann búist við einhverju öðru en að fólkið hér væri fallegt?

Regnið séð gegnum fingur mannsins

eftir Sturlu Jón Jónsson