Brot úr bókinni

5. Stór og þykk bók sem ég sá í Atheneum International Bookshop í síðustu heimsókn til Kaupmannahafnar. Ég býst svona frekar við að bókin sé til ennþá, hún heitir A Terrible Beauty og er um hugmyndir og uppgötvanir í vísindum og listum sem mótuðu tuttugustu öldina. Mig minnir að hún hafi kostað þrjú hundruð og tuttugu danskar krónur, það er ansi mikið fyrir bók sem er ekki innbundin en þetta er stórt og mikið rit og ég á örugglega aldrei eftir að lesa það!

6. Snjóhvítur flísbaðsloppur sem ég veit að er til í Magasin du nord, þar sem Margrét drottning er vön að versla, Margrét sem reykir Prince sígarettturnar. Þetta yrði þá í fyrsta sinn sem ég eignast eitthvað úr flís en ég læt mig hafa það einungis vegna þess að þetta er baðsloppur, ekki peysa með einhverju íþrótta- eða útivistarmerki utan á. Þessi sloppur er hreint ótrúlega mjúkur og ég á örugglega eftir að taka mig vel út í honum næsta vetur, til dæmis glansandi ferskur eftir heitt bað, og á meðan allir aðrir eru að vesenast utandyra í bláu og vínrauðu flíspeysunum sínum, þá er ég kannski á vappi inni í eldhúsi, í tandurhreinum baðsloppnum, annað hvort að laga mér nýmalað kaffi í Bodum könnunni minni eða að fá mér ískaldan sítrónuvodka úr frystinum.

7. Fimm diska safnið með Scott Walker. Ég geri ráð fyrir að það sé ódýrara í Danmörku en heima. Auk þess er alltaf skemmtilegra að koma með svona hluti sem mann hefur lengi langað í heim frá útlöndum heldur en að kaupa þá í búð heima, það síðarnefnda er einhvern veginn hversdagslegra, þótt auðvitað sé ekkert fjær hversdagsleikanum en sönglög á borð við Big Louise og Copenhagen.