Borð

Aldrei fyrr hafði ég leitt hugann að raunverulegu notagildi borða. Ég var inni á einum þessara nýju skemmtistaða í miðborginni og fylgdist með hljómsveitinni sem spilaði, það var jazzhljómsveit með söngvara. En svo var það að loknu fjögugu lagi um svefnlausa borg handan Atlantshafsins að söngvarinn kallar í hljóðnemann að sér skuli færður drykkur, hann þurfi nauðsynlega á drykk að halda og helst sem allra fyrst. Lengi vel leit út fyrir að þjónustufólk staðarins hefði ekki meðtekið beiðni hans og mér virtist sem svo að hann hefði gefið upp alla von um að verða bænheyrður því skyndilega taldi hann inn í nýtt lag, án þess að hafa verið færð hressingin. En ekki voru nema nokkrir taktar liðnir af nýhöfnu lagi þegar feimnisleg stúlka kom aðvífandi með klakakældan drykk í longdrinks-glasi. Á þeirri stundu hafði söngvarinn farið með fyrstu hendingar textans en á undraverðan hátt, án þess að fipast í flóknum ástarjátningunum, tók hann við glasinu, kyssti blíðlega handarbak stúlkunnar, setti drykkinn á flygilinn fyrir aftan sig og sneri sér að hljóðnemanum á ný. Í miðju laginu, á meðan píanóleikarinn dró athygli hlustenda að hljóðfæri sínu, hefði söngvarinn auðveldlega getað teygt sig í glasið en það var ekki fyrr en síðustu tónar tenórsaxófónsins, og þar með lokatónar lagsins, dóu út, að hann virtist muna eftir drykknum. Hann hafði gleymt sér í þeirri öryggiskennd sem stöðug borð vekja einatt hjá fólki, þeirri vissu að leggi maður glas frá sér á borð, þá gleymist það ekki; það bíður manns þar, í þeirri hæð sem það rís ofar jörðu.