Rithönd JirsísRithönd Jirsís

Ég held áfram að fá bréf frá Tékklandi. Þau eru öll frá Jirsí gamla. Fyrstu tvö eða þrjú bréfin komu frá Tékkóslóvakíu, eftir það bárust þau frá Tékklandi. Jirsí hefur ekki elst um eina mínútu, hann er ennþá þrjátíu og eitthvað, það er engu líkara en tíminn hafi gleymt að taka hann með sér. Rithönd hans er það eina sem hefur breyst, hún er óskiljanleg.

Hvað ætli Jirsí hugsi í hvert skipti sem ekkert bréf berst frá mér? Ég sé hann fyrir mér á sama hátt og þegar við hittumst síðast; í stuttermabol úti í garði í úthverfi Prag, með skegg frá tímum Masaryks, undir tré sem tekur af mestu sólina. Og mig. Ég sé mig líka fyrir mér, aðeins yngri en Jirsí, aðeins eldri en Jirsí, nýrakaðan, rjóðan í kinnum, með pylsu í hendinni sem ég kann ekki við að nefna sínu rétta nafni, hvað þá stinga upp í mig.

Svo eru börnin hans á hlaupum, nakin eins og þau hafi rétt í þessu verið að fæðast. Hvert hafa þau hlaupið? Hvað er langt síðan þau fæddust? Þegar ég spyr Jirsí í skuganum undir trénu hversu mörg börnin séu, brosir hann út að eyrum og tekur þéttingsfast um öxl mína, það er mjög stutt í að ég finni til sársauka. Svo kemur konan hans með meiri veitingar út í garðinn. Það glittir í brjóst hennar sem skoppa upp og niður, svolítið eins og boltar sem er driplað, hún hefur hneppt frá skyrtunni. Ég finn sjálfur að hitinn í loftinu er að minnsta kosti tíu gráðum of hár – fyrir mig persónulega.

Mér verður hugsað heim. En auðvitað er ég heima, ég er einungis að rifja upp eitthvað sem gerðist fjarri heimili mínu, eða á að hafa gerst. Niðurlag þess er eitthvað á þessa leið:

Heimilisgeitin stendur bundin við tréð. Við Jirsí klöppum henni á milli þess sem við leggjum áherslu á orð okkar með handahreyfingum. Undir húsveggnum er broddgöltur að störfum og lágur ómur af útvarpsröddum berst út um opinn glugga á húsi Jirsífjölskyldunnar.

Hvar verð ég staddur þegar Jirsí hættir að skrifa mér? Í augnablikinu finnst mér að það verði á þeirri stundu sem ég sit við Miðjarðarhafið og horfi á eftir bláum, ómerktum vegum þess. Ég sit í hörðum og óþægilegum baststól og drekk til að deyfa sársaukann. Ég helli í mig sterku áfengi til að vekja upp minningar um vini, ekki síst gamla vini eins og hinn unga Jirsí gamla sem nokkuð reglulega sendir mér bréf með óskiljanlegri skrift, óskiljanlegu inntaki: bókstöfum sem raðast saman í eitt stórt, þrúgandi net tenginga við ekki neitt: eitt óendanlega fallegt merkingarleysi úr orðum. Getur verið að ég sé orðinn hluti af rithönd Jirsís? Er mér ekki lengur mögulegt að fara með hönd mína undir slétt yfirborð vatns án þess að vatnið gárist?