Ný ljóðabók

Rómantískt andrúmsloft er ný ljóðabók eftir Braga Ólafsson. Í henni eru 31 ljóð, flest ort á síðustu tveimur árum. Fríða Björk Ingvarsdóttir fjallaði um bókina í Víðsjá á Rás 1 og var mjög hrifin. Úlfhildur Dagsdóttir birti einnig dóm um bókina á bokmenntir.is.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Baldur A. Kristinsson, gaf bókinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Þar segir m.a.: „Sem fyrr segir eru feilsporin fá í Rómantísku andrúmslofti, og sum ljóðanna eru hrein snilld. Hér má finna sömu lágstemmdu kímni og sömu óvenjulegu sjónarhorn og lesendur þekkja úr fyrri ljóðabókum Braga. Þó er ekki laust við að heildartónninn sé ögn alvarlegri og djúphugulli en áður.”

Hér er fyrsta ljóð bókarinnar, Kínverska sendinefndin:

Kínverska sendinefndin

Við tjörnina í Reykjavík
vex fífill. Og við hlið þessa fífils
vex annar – þetta er rétt hjá styttunni
af ljóðskáldinu á bekknum.

Stutta stund
er eins og myndin af fíflunum
og styttunni og bekknum
sé mannlaus, ef frá er talið skáldið

sem einu sinni var styttan,
og stöku bíll á tjarnarbrúnni
með manneskju innanborðs.
En þá taka að heyrast úr fjarskanum

skóhljóð á stétt, og það er ekki
eins og einhver ein manneskja
sé þar á ferð heldur fleiri:
þær eru tvær; þær eru þrjár,

þær eru fjórar, ef ekki fimm:
mitt óþroskaða ímyndunarafl
ræður ekki við þann fjölda
sem þau fela í sér, skóhljóðin.

Bókina má kaupa á vef Forlagsins.

Ritdómar

Frétt uppfærð 17. júní 2012