Sögumaður

Um Braga Ólafsson

Bragi Ólafsson er leikritaskáld, ljóðskáld og prósahöfundur, búsettur í Reykjavík. Hann er fæddur árið 1962. Hann lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1981, og stúdentsprófi frá nýmáladeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1983. Stundaði spænskunám við Háskólann í Granada á Spáni 1985-1986 og við Háskóla Íslands 1986-1987.

Næstu fimm ár starfaði hann sem tónlistarmaður og útgefandi, en frá 1997 til 2001 sem textagerðarmaður og prófarkalesari fyrir auglýsingastofu í Reykjavík, ásamt því að skrifa. Frá árinu 2001 hefur hann eingöngu starfað sem rithöfundur.

Bragi hefur gefið út ljóða- og smásagnasöfn, og skrifað leikrit fyrir útvarp og svið. Fjórar af skáldsögum Braga hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og starfsfólk bókaverslana útnefndi tvær þeirra skáldsögu ársins, Samkvæmisleiki og Sendiherrann. Sú fyrrnefnda hlaut einnig Menningarverðlaun DV og Sendiherrann tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þekktasta bók Braga erlendis er án efa skáldsagan Gæludýrin sem hefur komið út á fjölda tungumála.

Sögumaður er nýjasta bók Braga. Sögumaður er saga um eltingarleik.