18. desember 2015

Einhvers staðar í djúpum kassa á ég vetrarprógramm Fjalakattarins, kvikmyndaklúbbsins sem var starfræktur í Tjarnarbíói. Prógrammið var í A4-broti; ég man ekki hvaða mynd var framan á, bara að grár var fyrirferðarmesti liturinn í henni. Samt er Fjalakötturinn, og heimsóknirnar þangað, einhver litríkasta minning sem ég á frá árunum fyrir tvítugt: að ganga að heiman og í bíóið í Tjarnargötunni, búinn að lesa sér til um myndina sem maður átti í vændum; og síðan að ganga heim til sín í myrkrinu eftir sýningu, allur grár að innan, og svartur og hvítur, en fullur af skáldskap og óhugnaði. Og spurningum sem mig grunar að ég hafi ekki enn fengið svör við. Það var mun meira um liti í mánudagsmyndum Háskólabíós en laugardags- og sunnudagssýningum Fjalakattarins. Af mánudagsmyndunum man ég sérstaklega eftir mynd Romans Polanski, Hvað? Myndir sem Marcello Mastroianni leikur í gleymast ekki svo auðveldlega. Ég man líka eftir Slöngueggi Ingmars Bergman. Blásýruatriðið í lok þeirrar myndar er enn ljóslifandi í huga mér, þótt ég hefði gleymt því að Liv Ullman og David Carradine léku í henni; ég þurfti að fletta því upp á netinu. Ég þurfti líka að fletta því upp að aðalleikkonan í What?, þeirri hálfgleymdu, ef ekki algleymdu mynd Polanskis, hét Sydne Rome. Einhverra hluta vegna sá ég ekki hina alræmdu mynd Marcos Ferreri, Átveisluna miklu (La Grande bouffe), þegar hún var sýnd sem mánudagsmynd í Háskólabíói; ég man samt eftir umtalinu sem hún vakti. Kannski var ég ekki orðinn nógu gamall til að komast framhjá Gunnari í dyrunum – ég man nefnilega eftir að maðurinn sem reif af miðunum í bíóinu hét Gunnar. En þrátt fyrir að hafa ekki séð La Grande bouffe á þessum tíma situr hún í minninu sem eins konar tákn fyrir þann sérstaka heim sem mánudagsmyndirnar voru, rétt eins og popplyktin upp úr ristinni við vesturvegg bíósins var – og er ennþá – eins konar rammi utan um bíóupplifun manns í Háskólabíói hina daga vikunnar. Ég held annars að lokaatriði La Grande bouffe (sem ég sá löngu síðar, þegar ég keypti hana á disk) hljóti að vera með fallegustu lokaatriðum í bíómyndum. Í fyrstu gerð skáldsögunnar Sögumaður (þar sem minnst er svolítið á La Grande bouffe) hafði ég þetta atriði með – eða réttara sagt: lýsingu á því – en tók það út ásamt fleiri senum, þegar bygging sögunnar breyttist frá því sem ég hafði upphaflega séð fyrir mér. Dómarinn Philippe (leikinn af Philippe Noiret – og nú verð ég að gefa mér að þeir sem lesa þetta þekki þráð og efni La Grande bouffe) er einn eftir á lífi af þeim fjórum herrum sem myndin segir frá. Hann og Andrea, kennslukonan sem heimsækir þá:

Philippe sest á bekkinn. Hann heldur á innrömmuðu myndinni af móður sinni. Hann er í hvítri skyrtu, svörtu vesti, og með ljóst ullarsjal yfir herðum. Hann er veiklulegur að sjá. En þó ekki svo að mann gruni að þarna muni hann deyja. Það hvarflar jafnvel að manni að hann muni lifa þetta af; að þau Andrea muni lifa hamingjusöm saman það sem eftir er ævinnar; að ævintýrið taki á sig mynd hinnar fáguðu formfestu.

Og vissulega bendir allt til þess, þegar Andrea kemur labbandi í átt til Philippe, með mjög svo ákveðin form á flötum kökubakka: tvö stór, fagurbleik brjóst úr einhvers konar búðingi, með brúnum geirvörtum ofan á.

Hún leggur bakkann varlega frá sér á borðið við bekkinn, og brosir fallega til Philippes. „Þetta er fyrir þig. Þetta er mjög sætt og gott.“ Svo strýkur hún kolli hundsins sem hafði haldið Philippe félagsskap á bekknum, og Philippe byrjar að fá sér af búðingnum; hann stingur skeiðinni í hægra brjóstið.

Andrea sest hjá honum. Hún strýkur á honum bakið, og horfir ástúðlega til hans. Á milli þess sem hann stingur upp í sig skeiðinni telur Philippe upp nöfn hinna látnu félaga sinna.

„Marcello. Michel. Og Ugo.“

Hann verður klökkur í framan. Og segir: „Guð veit hvaða álit þeir hafa á mér. Þeim hlýtur að finnast ég hafa svikið þá. Svo sitjum við hér, tvö saman, hamingjusöm. Og þeir …“

Þau heyra bíl renna í hlað, og Andrea biður hann að bíða, hún ætli að athuga hver sé að koma. Og hún stendur upp og gengur út úr myndrammanum.

Philippe heldur áfram að borða. Svo sjáum við hvítan sendiferðabíl bakka inn í garðinn, það er sams konar bíll og kom með kjötið frá slátraranum í upphafi sögunnar. Það er komin ný sending. Slátrarinn (síðskeggjaður maður, feitur, í skítugum slopp) spyr Andreu hvar þeir eigi að setja kjötið; og hún bendir á garðinn.

„Garðinn?“

„Já, í garðinn.“

„En þetta er fínasta kjöt.“

„Ég veit það. Setjið það í garðinn.“ Og hún bendir þeim hvar.

Þeir hlýða henni. Þeir byrja að tína út úr bílnum heilu skrokkana, og henda þeim á jörðina.

Philippe er langt kominn með annað brjóstið þegar Andrea kemur aftur til hans.

„Það var að koma ný sending af kjöti,“ lætur hún hann vita.

„Lítur það vel út?“ spyr hann.

„Mjög vel.“

Svo hrópar Philippe til slátraranna að þeir megi skila til yfirmanns þeirra að kálfakjötið í síðustu sendingu hafi verið annars flokks. Það reynir á hann að hrópa. Hann er orðinn þreyttur. Hann er að niðurlotinn kominn. Hann er að fyllast af búðingi. En heldur samt áfram að borða.

Allt í einu virðist sem hann nái ekki andanum; hann segist ekki geta meira; hann missir út úr sér síðasta bitann, og hallar höfðinu fram, en reisir sig við aftur.

Andrea tekur um öxl hans.

Hann biður hana að afsaka; honum segist vera kalt. Og hann hvílir höfuðið á brjósti Andreu; hann tekur um upphandlegg hennar, og endurtekur að honum sé kalt. Svo stynur hann, kippist snöggt til, og lognast síðan út af með lokuð augun, með ennið á ljósblárri peysu Andreu.

Það tók fljótt af.

Andrea hrópar nafn hans; hún kyssir hann á ennið og leggur hann varfærnislega frá sér við arminn á bekknum. Svo breiðir hún teppið betur yfir magann á honum, hagræðir sjalinu um axlirnar og stendur upp til að fara. Þegar hún gengur upp á veröndina og inn í húsið, eru slátrararnir enn að losa farminn á mölina, innan um hundana; og annar þeirra hengir einn skrokkinn milli greina á nöktu, haustlegu tré – og hlær og gerir grín.