30. desember 2015

Það er ekki bara vegna þess að ég þarf að hafa hraðan á sem mér dettur í hug að birta hérna eftirfarandi ljóð; mér dettur það í hug vegna þess að það kom upp í hugann í gær þegar ég leiddi hann, hugann, að liðnu ári. Auk þess finnst mér viðeigandi að rifja upp þetta fallega ljóð því bróðir minn á afmæli í dag, og það eru ellefu ár síðan faðir okkar lést. Ljóðið er eftir þýska skáldið Gottfried Benn, frá miðri síðustu öld, og það er Sigfús Daðason sem þýddi:

 

FÓLK SEM ÉG HEF HITT

 

Ég hef hitt fólk sem svaraði,

þegar það var spurt að nafni,

feimnislega – líkt og því fyndist

það ætti ekki kröfu til nafns –

„Fröken Kristján“ og bætti síðan við:

„eins og eiginnafnið,“ það vildi gera manni hægara að skilja,

ekki óvenjulegt nafn einsog „Pópíól“ eða „Babendererde“ –

„einsog eiginnafnið“ – fyrirgefið þér, íþyngið ekki minni yðar

með þesskonar nafni!

 

Ég hef hitt fólk sem óx upp

með fjórum systkinum og foreldrum í einu herbergi

lærði lexíurnar á næturnar við eldhúsborðið

með fingurna í eyrunum,

þroskaðist, fagurt álitum og ladylike sem greifynjur

með mjúkt geð og eljusamt einsog Násíka,

með sviphreint enni engla.

 

Ég hef oft spurt og ekkert svar fengið,

hvaðan mýktin og gæskan koma,

veit það ekki heldur nú og þarf að hafa hraðan á.