Núna er ég að brjóta allar þær reglur sem ég hef sett mér (og ekki nema ein og hálf vika liðin af árinu): það eru hvorki liðnir tveir dagar frá síðustu færslu né ein vika; það eru liðnir þrír dagar. Með þessu áframhaldi neyðist ég til að breyta yfirskrift síðunnar. Franska tónskáldið og stjórnandinn Pierre Boulez, sem lést fyrir nokkrum dögum, notaði ekki sprota þegar hann stjórnaði hljómsveitum. Bara hendurnar. Kannski notaði hann sprota við önnur tækifæri. Mér verður hugsað til priksins undan flugeldinum sem ég á eftir að sækja út í garð. Boulez á að hafa sagt að of mikil ytri orka æti upp innri orkuna. Sólgleraugun sem hann hefur fyrir augunum á myndbandinu hér fyrir neðan eru eins og myndskreyting við þau orð hans: