Hvíldardagur er samkvæmt orðabók júnímánaðar sá dagur sem notaður er til að hvíla sig á fótboltaáhorfi. Sá dagur var sem sagt í gær. Ég reyndi auk þess að fjarlægja mig því hugarástandi sem fylgir EM með því að horfa (aftur) á hina stórkostlegu bíómynd Burn after reading (sem ég held að hljóti að vera einhvers konar meistaraverk), og lesa (aftur) nýjustu bók Michels Houellebecq, núna í íslenskri þýðingu. Svo horfði ég líka á fyrsta þátt (reyndar ekki aftur) í nýrri franskri sjónvarpsseríu sem kallast Marseille, með Gérard Depardieu í aðalhlutverki. Þátturinn hófst á atriði sem gerist á hinum risastóra fótboltavelli Marseille-borgar, þar sem Íslendingar voru næstum því búnir að vinna Ungverja! En þetta var alger skelfing, þessi þáttur – agalegt sjónvarpsefni. Hann var svo vondur að ég hljóp í burtu frá sjónvarpstækinu. Eða var að minnsta kosti að hugsa um það. „Leikurinn“ í Marseille var reyndar ekki mikið betra sjónvarpsefni. En auðvitað má ekki gera of miklar kröfur til þess sem er framleitt fyrir sjónvarp, sérstaklega ekki þegar það er framleitt í beinni útsendingu. En Undirgefni. Það staðfestist við endurlestur þeirrar bókar að nokkrir kaflar hennar eru skelfilega flatir, nánast eins og í verksmiðjuframleiddri glæpasögu (eða Frank og Jóa, svo maður grípi til mikið tekinnar líkingar); en þessir kaflar skemma þó ekki söguna í heild. Mér finnst þetta ennþá jafn fín saga og mér fannst fyrst. Og umfram allt er hún skemmtileg. Hvernig höfundurinn fléttar inn í hana verkum og karakter Joris-Karls Huysmans er rosalega vel gert (og hlýtur að verða til þess að einhverjir kynni sér þann höfund); og sú mynd sem Houellebecq dregur upp af þjónkun – eða undirgefni – fólks við peningaöfl og trúarbrögð er svo fínleg og húmorísk að maður fær aldrei á tilfinninguna að hann sé að ota einhverjum pólitískum eða andtrúarlegum skoðunum að manni. Ég verð var við að sumir lesa þessa bók eingöngu sem einhvern spádóm, en það liggur við að hægt sé að ræða hana algerlega án þeirrar hliðar; hún virkar einfaldlega mjög vel sem mynd af miðaldra bókmenntafræðingi sem upplifir líf sitt – og lífsþreytu – í gegnum viðfangsefni sitt sem fræðimaður: rithöfundinn Huysmans. Það sem mér finnst í raun standa upp úr sögunni er einmitt sá höfundur – sá merkilegi og makalaust skemmtilegi höfundur – og hvernig sögumaður speglar sig í honum. Í því ljósi verður myndin af íslömsku Frakklandi nánast aukaatriði. En svo tengist auðvitað Huysmans, og hans „flótti“ yfir í kaþólsku, íslömsku spurningunni í bókinni. Burtséð frá öllu þessu má líka lesa söguna sem „tíðabók“ um áfengisneyslu, örbylgjumat og skyndikynlíf, rétt eins og Aftur á bak Huysmans var lýst sem „tíðabók“ dekadentismans. Hér er ein setning úr Undirgefni (þýð. Friðrik Rafnsson): Það er ansi erfitt að skilja annað fólk, komast að því hvað því býr í brjósti og án blessaðs áfengisins tækist okkur það ef til vill aldrei. Á sama hátt má kannski segja (svo maður laumi sér snyrtilega aftur yfir í fótboltann) að án marksins sem Íslendingar fengu á sig undir lok leiksins við Ungverja hefði maður ekki gert sér fulla grein fyrir hversu óspennandi fótbolta Íslendingar spila í Evrópukeppninni. En samt – áfram Ísland (svo langt sem það nær). Svo mæli ég með myndinni eftir Coen-bræður – um starfsmanninn (konuna) á líkamsræktarstöðinni, sem langar í lýtaaðgerð, nokkuð fjölþætta, en á ekki alveg fyrir henni …